Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Ritdómur
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Í fámenni íslensks fræðasamfélags hefur stundum borið á þeirri hvöt fræðimanna að passa sitt rannsóknarefni og bægja öðrum frá. Því miður loðir tilhneigingin enn við sumar greinar og fræðasvið. Skýringin liggur að hluta í því lúxusvandamáli okkar Íslendinga að hafa hátt menntunarstig sem aftur leiðir til mikils framboðs fræðilegs atgervis. Störf og fastar stöður háskóla- og fræðasamfélagsins eru fjarri því að vera nógu margar til þess að öll þau sem hafa aflað sér viðeigandi menntunar á ýmsum sviðum komist þar að. Sama á við í styrkjakerfinu þegar kemur að úthlutun rannsóknarfjár og starfslauna til sjálfstætt starfandi fræðimanna. Er því hart barist um hvern bita og hver gætir sinna rannsóknarefna af festu og jafnvel grimmd. Enginn skyldi voga sér inn á „mitt“ svið, það gæti kostað „mig“ bæði verkefni og fjármuni í framtíðinni.
Á seinni tímum, eftir því sem fjölgað hefur á flestum fræðasviðum, hafa menn þó í auknum mæli tekið að deila fræðilegum viðfangsefnum. Vísindunum er að sjálfsögðu meiri hagur í því vinnulagi að fleiri en einn fáist við svipaðar rannsóknarspurningar. Það býður upp á dýnamískari samræðu um rannsóknir og fræði en ella væri. En lengi lifir í gömlum glæðum, segir máltækið – og ekki eru meðulin alltaf vönduð sem gripið er til þegar ryðja þarf völlinn. Það fáum við stundum að sjá þegar menn komast í svo feitt að vera trúað fyrir því að fjalla um verk hver annars. Þá getur borið vel í veiði.
14:2 enn á ný
Víkur nú sögunni að nýlegum ritdómi Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings. Dómurinn birtist í síðasta tölublaði Sögu (2:2020), um bók mína Lífgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi sem kom út hjá Forlaginu haustið 2019. Bókinni var vel tekið og var hún meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Umsagnir voru heldur lofsamlegar og jákvæðar — allt þar til kom að Viðari Hreinssyni að tjá sig um efnið seint og um síðir. Ritdómur Viðars átti upphaflega að birtast í vorhefti Sögu 2020 en var frestað til haustsins. Ætla mætti að lengri verktími kæmi fram í vandaðri vinnubrögðum og efnistökum en ella. Því er þó ekki að heilsa.
Er skemmst frá því að segja að Viðar hellir sér yfir verkið með stóryrðum og brigslum sem sjaldséð eru á þessum vettvangi. Aðferðin sem hann beitir er augljós þeim sem hafa kynnt sér kynjafræði og kvennabókmenntafræði því að í grein hans blasir við smættandi og niðrandi orðanotkun á borð við þá sem konur máttu lengi sæta í ritdómum og annarri umfjöllun um verk sín á síðustu öld.[1] Dæmigert fyrir þá orðræðu er að lýsa útliti ritverka eftir konur — lýsa þeim sem einhverju litlu, handhægu og „snotru“ — og setja sig yfir þær vitsmunalega til dæmis með því að efast um rökvísi þeirra og þekkingu. Ritdómur Viðars Hreinssonar sver sig að öllu leyti í þessa ætt. Þar er lýst útliti bókar minnar, sagt að hún sé „smekkleg bók, í snotrum harðspjöldum“ og látið fylgja að hún sé að vísu „fróðleg“ þar sem hún birti „hrafl úr sögu læknislista“ en lítið fari fyrir „greiningu á grunnhugmyndum“ þeirra sömu lista (hvað svo sem það orðalag þýðir því ekki skýrir Viðar fyrir lesendum hvað hann á við). Eins og þegar fyrri tíðar menn voru að snupra kvenrithöfunda sakar hann undirritaða um skort á rökvísi og talar um „samhengisleysi“ og jafnvel „fáfræði“. Þá finnur hann bókinni flest til foráttu með orðbragði af því tagi sem sálfræðingar tengja við andlegt ofbeldi.[2] Hann notar orð eins og „snautlegar“ ályktanir, „neyðarlegar“ röksemdir, „kaldhæðnisleg“ efnistök og „hroðvirkni“. Gengur hann jafnvel svo langt að saka höfund um að „hálfstela“ úr heimildum eins og líka má lesa á vefmiðlinum visir.is — því ekki var Saga komin inn um bréfalúguna hjá undirritaðri þegar búið var að vekja athygli fréttamanns á ritdómnum, nánar tiltekið sama dag og póstdreifing ritsins hófst.
Þessi „jólakveðja“ Viðars Hreinssonar var með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að bregðast við henni og velta jafnframt upp nokkrum spurningum sem óhjákvæmilega vöknuðu við lesturinn um ritstjórnarstefnu og hlutverk Sögu.
Hvernig bók og um hvað?
Fyrst vil ég segja þetta: Þó að bók mín Lífgrös og leyndir dómar sé alþýðlegt fræðirit fyrir almenna lesendur, að sumu leyti yfirlitsrit, er þar hvergi vikið frá viðurkenndum kröfum um fræðileg efnistök og framsetningu. Bókinni var enda ritstýrt og efni hennar yfirfarið af fræðimönnum eins og gerð er grein fyrir í formála. Henni er ætlað að gefa innsýn í þekkingarþróun íslenskra lækninga og undir því stendur hún fyllilega, ekki aðeins að mínu mati heldur allra þeirra sem komu að útgáfu hennar sem og dómnefndar íslensku bókmenntaverðlaunanna. Á kápu kemur fram að hún fjalli um gamlar lækningaformúlur, aðferðir og læknisráð auk þess sem í henni er gerð „ítarleg grein fyrir fjölda íslenskra lækningajurta og sagt frá því hvernig forfeður okkar notuðu þær til að bæta heilsu og græða mein manna“. Fastar er nú ekki að orði kveðið en bókin er að sjálfsögðu meira en þetta. Hún er fræðilegt framlag til menningarsögu, heilbrigðissögu og þjóðfræði lækninganna. Í henni eru frumheimildir leiddar fram í dagsljósið og um þær fjallað, tengsl þeirra, tilurð og uppruna. Litið er til nýrra rannsókna í sögu læknislistanna um leið og eldri fræðimönnum er fullur sómi sýndur og vitnað til verka þeirra.
Viðar Hreinsson lætur sér fátt um þetta finnast. Gagnrýni hans er tvíþætt: Hún lýtur annars vegar að fræðilegri undirbyggingu, hins vegar að meðferð heimilda. Setur Viðar fram fjölmargar aðfinnslur, alls um 16 talsins, en yfirferð mín bendir til þess að tvær fái nokkurn veginn staðist. Staðan virðist því enn og aftur vera „14:2“ líkt og í náskyldri viðureign hans sjálfs við annan fræðimann fyrir ekki svo löngu. Nánar um það síðar.
Fóðrið undir fatinu
Tvær prentvillur hefur Viðar fundið í bók minni, er önnur þeirra rangt ártal en hin blaðsíðutal í tilvísun. Fátt ergir fræðirithöfund meira en villa í ártali. Sem betur fer breytir þessi villa þó ekki því sem máli skiptir eins og nú skal greina frá.
Viðari er augljóslega í nöp við þá hugmynd sem ég set fram í bók minni að lækningabókina í AM 194 8vo frá Geirröðareyri (nú Narfeyri) í Álftafirði á Snæfellsnesi megi hugsanlega rekja til Hrafns Sveinbjarnarsonar, þekktasta læknis þjóðveldisaldar. Tilgátan er rökstudd í bók minni með því að Guðrún systir Hrafns bjó á Geirröðareyri á þrettándu öld. Á náðir hennar leitaði Einar sonur Hrafns eftir dauða föður síns. Handritið er skrifað upp 1387 eftir eldri lækningabók sem ég tel mögulegt að Einar hafi haft meðferðis þegar hann kom á Geirröðareyri og dvaldi þar með föðursystur sinni. Því skoðaði ég eignaskrá í Máldaga Eyrarkirkju árið 1224 og Vilchinsmáldaga 1397 til að kanna bókaeign kirkjunnar, annars vegar um það leyti sem Einar dvaldi með föðursystur sinni, hins vegar á svipuðum tíma og varðveitt gerð bókarinnar var skrifuð upp. Viðar bendir á að rangt sé farið með ártal síðarnefndu eignaskrárinnar og það er vissulega réttmæt athugasemd. Hún breytir þó ekki því meginatriði að hugsanlega hafi ein þeirra bóka sem þar er getið verið afrit af lækningabók Hrafns Sveinbjarnarsonar í ljósi þeirra tengsla sem athygli hefur verið vakin á. „Af minna tilefni hafa verið settar fram tilgátur um höfunda og skrásetjara ritheimilda, svo hér verður að minnsta kosti gælt við þá hugmynd að lækningabókin sé frá Hrafni komin“ eins og segir í bók minni á bls. 60 (leturbreyting hér). Viðari er auðvitað frjálst að hafa skoðun á þessari tilgátu en það væri æskilegt að henni fylgdu rök en ekki bara upphrópanir.
Í ritdómi Viðars eru ásakanir um orðalagslíkingar. „Dæmið“ sem hann hefur fundið máli sínu til stuðnings er í staðreyndaupptalningu á bls. 150, þar sem annars vegar er talið upp námsefni læknisfræða við Hafnarháskóla, hins vegar (í beinu framhaldi) rakinn ferill Ole Worms, eftirmanns Caspars Bartholins læknaprófessors við sama skóla. Vitneskjan er fengin með meiru úr bók Vilmundar Jónssonar landlæknis um Þorkel Arngrímsson Vídalín (1949) sem augljóst er af tilvísunum. Í tveimur samhangandi setningum má greina vissa orðalagslíkingu við orðfæri Vilmundar á tilvitnuðum stað. Þar er Worm lýst sem einum þeirra „fjölvitrunga“ sem lögðu stund á háskólanám á sautjándu öld. Hann er sagður „víðförull og víða lærður“. Nokkru neðar segir að hann hafi hann kynnst handlækningum „með því að fylgjast með lærðustu læknum síns tíma við sóttarsæng sjúklinga“. Vel hefði farið á því að hafa gæsalappir utan um þessi orð líkt og hér er gert en þarna hefur tilvitnun verið leyst upp í óbeina ræðu og tilvísunum í sömu heimild verið fækkað úr þremur í tvær. Slíkt er alþekkt enda er langstærstur hluti af allri fræðimennsku fólginn í endursögn á hugmyndum og verkum annarra fræðimanna eins og bent hefur verið á.[3] Fyrri tilvísunin (aftanmálsgrein 195) er tveimur efnisgreinum framar, sú síðari er við beina tilvitnun tveimur efnisgreinum aftar (aftanmálsgrein 196). Ekki er því sanngjarnt að segja að verk Vilmundar liggi óbætt hjá garði í þessu samhengi.
Við þetta má svo bæta að flestir fræðimenn sem gefið hafa út bækur fyrir almennan markað kannast við ritstjórnarlega togstreitu um fjölda tilvitnana í slíkum bókum. Mörg dæmi mætti nefna um svipað verklag við tilvísanir og viðhaft er í minni bók, jafnvel þar sem enn lengra er gengið, til dæmis með því að hafa heimildatilvísanir á eftir köflum án þess að um efnislegar aftanmálsgreinar sé að ræða. Nærtækast í því sambandi er ritverk Viðars Hreinssonar um Stephan G. Stephansson, Landneminn mikli (2002) og Andvökuskáld (2003).
Flugur skotnar með fallbyssum
Viðar setur fram fjölmargar fullyrðingar um heimildanotkun og tilvísanir. Hann segir að orðalag á bls. 23 um Avicenna sem nefndur hefur verið konungur læknanna sé tekið upp „án auðkenningar“. Þetta er ekki rétt hjá Viðari. Orðalag er auðkennt með skáletrun á tilgreindum stað og umfjölluninni lýkur með beinni tilvitnun í bók Vilmundar Jónssonar á bls. 89 (aftanmálsgrein 17). Auk þess segir í sömu aftanmálsgrein „sjá einnig sömu heimild s. 75–76 varðandi arabísku læknisfræðina“ sem er einmitt það sem til umræðu er í efnisgreinunum á undan.
Viðar segir að í mínu riti (bls. 72–73) sé „stiklað á“ lýsingu Þorvaldar Thoroddsens á gömlu lækningabókunum, og að í þeirri umfjöllun séu nefnd nokkur handrit sem Þorvaldur vísar í neðanmáls. „Aðeins er vísað í handritin en ekki Þorvald í aftanmálsgrein“ segir Viðar svo. Þetta er heldur ekki rétt. Á bls. 72 er byrjað á því að vísa til Þorvaldar Thoroddsens II, bls. 55–56 og aftur á bls. 73 þar sem vísað er til bls. 59 í sömu heimild.
Viðar dylgjar víða um orðalagstengingar án tilvísana og virðist hafa lagt í mikla vinnu við að finna hvaðan ég hafi einstök þekkingaratriði sem koma fram í bók minni. Hann telur til dæmis að á bls. 71 eigi að vera tilvísun í Ben Waggoner sem í formála sinnar bókar segir frá því líkt og ég í minni bók að brot úr Salernófræðum megi víða finna í gömlum íslenskum heimildum. Athugasemd Viðars er fráleit því að hvorki ég né Waggoner eigum þessa þekkingu, hún hefur lengi legið fyrir, til dæmis hjá Konráði Gíslasyni (1860), Kålund (1908), Marius Kristensen (1908–1920), Larsen (1931), Vilmundi Jónssyni (1949) og fleirum og fleirum. Á þeim stað sem Viðar telur að ég ætti að vísa í Waggoner er sá síðarnefndi raunar að tala um handlæknisfræði en ég um lyfjaforskriftir. Waggoner segir í sínum formála:
Bits and pieces of Salernitan medical texts turn up embedded in sagas, law codes, and other old manuscripts, and several sagas describe surgical techniques that are recognizable Salernitan.[4]
Svipuð sannindi orða ég (og rökstyð) með þessum orðum:
Í þeim heimildum sem nú eru taldar – lækningabókum, gömlum lagagreinum og frásögnum gamalla handrita – birtast hér og hvar brot úr fræðum Salernóskólans, til dæmis lyfjaforskriftir. Þess háttar þekkingaráhrif í íslenskum heimildum þurfa ekki að koma á óvart, því að ætla má að íslenskir munkar og prestar sem lærðu guðfræði í evrópskum háskólum hafi borið með sér læknisþekkingu og bækur um það efni til landsins.[5]
Lesendur bókar minnar átta sig strax á að þarna er verið að vísa til sérstakrar umfjöllunar framar í bókinni þar sem beinlínis er unnið með texta umræddra heimilda, þ.e. lagagreina og fornbókmennta (bls. 37–40) auk frásagna gamalla handrita sem víða er getið, ekki síst lækningabókanna sem eru til sérstakrar umfjöllunar (sjá bls. 55–69).
Viðar heldur víðar fram svipuðum ásökunum um rit- eða þekkingartengsl við Waggoner og lætur meira að segja í það skína að stolið sé frá honum, jafnvel þar sem til hans er vitnað (eins og í kaflanum „Aðferðir við lækningar fyrr á tíð“). Þeim aðdróttunum hafna ég með öllu. Varla getur hjá því farið þegar fleiri en einn fræðimaður fjalla um sama efni að sömu eða svipuð þekkingaratriði komi fram í skrifum þeirra. Vert er þó að geta þess að rækilega er vitnað til Waggoners í bók minni af ýmsum verðugum tilefnum (að minnsta kosti sex sinnum) enda bjóða skrif hans um norrænar lækningar upp á að mark sé á þeim tekið. Er í raun óskiljanlegt að Viðar skuli láta eftir sér að halda á lofti svo veikri gagnrýni sem að framan getur. Sannarlega væri hægur leikur að fara í gegnum nánast hvaða vísindaverk sem er með sama lagi og hann gerir og komast að svipaðri niðurstöðu.
Og áfram heldur Viðar að höggva í sama knérunn. Hann segir að á bls. 197 sé efni tekið úr bók Sigurjóns Jónssonar, Sóttarfar og sjúkdómar (1944), en hann lætur þess ógetið að á umræddum stað er til Sigurjóns vísað í aftanmálsgrein 263. Hann segir enn fremur að á bls. 204 sé tekið „nærri orðrétt“ upp úr Jóni Steffensen „án nokkurra tilvísana“ eins og hann orðar það. Það er rangt. Á umræddum stað er vísað til Jóns Steffensens, ekki aðeins í meginmáli heldur einnig í aftanmálsgrein 276. Þessi tiltekni kafli byggir að verulegu leyti á ritgerðasafni Jóns, Menning og meinsemdir, og því er í kaflanum til hans vísað í fjórum aftanmálsgreinum.
Þau dæmi sem nú hafa verið rakin varpa vonandi ljósi á það hversu mikið fóður er undir því fati sem aðfinnslur Viðars eru.
Heimildagrunnur og fræðasýn
Í ljósi heimildaskrár bókarinnar skýtur skökku við fullyrðing Viðars um skort á alþjóðlegri fræðasýn. Sjálfur tilgreinir hann enga erlenda fræðigrein sem mætti bæta við það sem til er vitnað í minni bók. Honum verður þó tíðrætt um þetta víða í ritdómnum. Segir á einum stað að „höfundur hefði getað tileinkað sér nýrri fræði um Avicenna til að undirbyggja gagnrýni sína á vísindahyggju nútímans“ en getur þess ekki hvaða fræði er þar um að ræða og engin dæmi nefnir hann hvorki hér né síðar þar sem svipaðar aðfinnslur koma fram, með einni undantekningu þó. Viðar finnur nefnilega að því að ég skuli ekki vísa til bókar Sverris Tómassonar, Pipraðir páfuglar (2017), þar sem fjallað er um matargerð á miðöldum enda séu „mataruppskriftir í lækningabókunum í samræmi við hugmyndir um virkni fæðutegunda og til að skýra hugmyndabaksvið lækningabókanna í vessakenningunni um helstu vökva mannslíkamans“ eins og hann orðar það.
Því er til að svara að vessakenningunni eru gerð greinagóð skil í bók minni, til dæmis í kaflanum um grísku læknisfræðina og víðar (bls. 18–22 og bls. 126–134). Umrædd umfjöllun Sverris Tómassonar bætir engu við það sem vitað er um vessakenninguna eða það sem til að mynda Vilmundur Jónsson og Jón Steffensen hafa rakið í því sambandi og ýmsir síðan haft eftir þeim, þar á meðal Viðar Hreinsson. Um gildi bókar Sverris að öðru leyti vísast til ritdóms Sólveigar Ólafsdóttur í vorhefti Sögu 2018 og þeirra athugasemda sem þar koma fram varðandi efnistök.[6]
Afar neikvæð er umfjöllun Viðars um kafla sem nefnist „Jörð tekur við öldri en eldur við sóttum“ (bls. 74–78). Er þar litið til norrænna trúarhátta og þjóðmenningar í sambandi við tengsl galdurs og lækninga. Viðar segir þennan kafla vera skrifaðan eftir „úreltum heimildum“. Raunar er þessi stutti kafli (fjórar blaðsíður) skrifaður eftir ýmsum heimildum og vandséð er hverjar þeirra geta talist úreltar. Varla á það við um Hávamál eða Íslenzka þjóðhætti Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili (1945) sem er einstæð samantekt um íslenska þjóðmenningu — til þessara heimilda er vitnað í sambandi við menningarsöguleg og þjóðfræðileg atriði. Varla getur fróðleikur A. Christians Bang, Norske Hexeformularer og Magiske Opskrifter (1901–1902) talist úreltur heldur um norræna galdraiðju, hvað þá handritið AM 655 xxx 4to sem er elsta varðveitta lækningahandrit á Íslandi og að sjálfsögðu frumheimild. Um efni sem lýtur að norrænni heilbrigðissögu er vísað í grein eftir Peder Seeberg, „Lægedom og sygehjælp“, í ritinu Daglig liv i Danmark i det nittende og tyvende århundred, I. (1963) sem er margra binda ritröð um danska þjóðmenningu og mannlíf. Íslensk hliðstæða væri helst ritröðin Íslensk þjóðmenning sem kom út hjá Þjóðsögu á árunum 1987–1990. Auk Vilmundar Jónssonar (1949) sem kemur hér við sögu í einni tilvísun er loks vitnað til greinar frá 2006 eftir Robert V. Hill um framlag Bartholin-fjölskyldunnar til læknisfræða.[7] Sem sagt: Fyrir utan frumheimildir og grundvallarrit um norræna þjóðmenningu, þjóðfræði og galdur er í umræddum kafla vísað til verka tveggja fræðimanna sínum af hvorri kynslóð, annars vegar grundvallarskrifa Vilmundar Jónssonar landlæknis frá miðri síðustu öld, hins vegar nýlegrar fræðasýnar frá fyrsta áratug þessarar aldar.
Ekki veit ég hvaða hugmyndir Viðar Hreinsson gerir sér um viðunandi heimildir í svona umfjöllun en hér er fylgt viðurkenndum vinnubrögðum vísinda þar sem efni úr fyrri rannsóknum blandast umfjöllun um frumheimildir og um þær fjallað á greinagóðan hátt. Ég tel algjörlega ástæðulaust að hunsa eldri fræðimenn sem lagt hafa góðan þekkingargrunn fyrir þá sem á eftir koma. Fræðin sjálf verða ekki endilega ný með nýrri prentsvertu eða pappír ef ekki fylgja fersk efnistök eða niðurstöður. Þá skal þess getið að uppistaða þessa tiltekna kafla er fræðigrein sem undirrituð fékk birta í Læknablaðinu árið 2017.[8] Sú grein var ritrýnd af tveimur nafnlausum sérfræðingum á fræðasviðinu og stóðst skoðun. Aðfinnsla Viðars er því skot yfir markið.
Vert er að taka fram af þessu tilefni að í bók minni er litið til helstu rannsókna og fræðirita sem tengjast efninu fyrr og síðar. Af nýlegum verkum frá síðustu tveimur áratugum sem stuðst er við, eins og heimildaskrá vottar, má nefna doktorsritgerð Ólafar Garðarsdóttur um barnadauða fyrr á öldum (2002), heilbrigðissögu Jóns Ólafs Ísbergs (2005), fyrrnefnda bók Bens Waggoners um norrænar galdra- og grasalækningar (2011), meistaraprófsritgerð Elsu Óskar Alfreðsdóttur um alþýðulækningar (2013), doktorsritgerð Erlu Doris Halldórsdóttur um fæðingarhjálp á Íslandi (2016) og bók Steinunnar Kristjánsdóttur um klausturlíf á miðöldum (2017). Við þessa upptalningu má loks bæta bók Viðars Hreinssonar, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar (2016), sem kom út þegar ég var langt komin með mitt verk en bætti sáralitlu við mínar eigin rannsóknir á efninu. Vert er að geta þess að bók mín er afrakstur margra ára fræðavinnu sem hófst með doktorsritgerð minni um galdur og galdramál sautjándu aldar sem kom út árið 2000 (Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum) og er að vissu marki rannsóknargrunnur fyrir það verk sem hér er til umræðu enda náin tengsl milli galdurs og lækninga.
Þá er í bók minni fjallað um mörg hundruð ára gamlar frumheimildir sem lítt hafa sést áður en eru þar kynntar lesendum. Í úrvinnslu og umfjöllun um þessar heimildir sýni ég eldri fræðimönnum verðskuldaða virðingu með því að styðjast við það sem þeir hafa lagt af mörkum um efnið. Mér vitanlega hafa ekki verið bornar fræðilegar brigður á verk Vilmundar Jónssonar (Curationes Þorkels Arngrímssonar, 1949), Sigurjóns Jónssonar (Sóttarfar og sjúkdómar, 1944), Jóns Steffensens (t.d. Menning og meinsemdir 1975; „Alþýðulækningar“ í Íslenskri þjóðmenningu VII, 1990) og fleiri sem lögðu grunn að síðari tíma rannsóknum um sögu lækninganna eins og til dæmis er auðséð á heilbrigðissögu Jóns Ólafs Ísbergs, Lífi og lækningum (2005), og fyrrnefndri doktorsritgerð Erlu Doris Halldórsdóttur um fæðingarhjálp á Íslandi.
Þegar Viðar Hreinssonheldur því fram að í bók minni sé „enginn stuðningur af nútímalegri vísindasögu, hvað þá sögu læknisfræðinnar“ þá er það einfaldlega rangt. Bók mín er framlag til íslenskrar menningarsögu, heilbrigðissögu og þjóðfræða og verður vonandi hvati til frekari rannsókna á þeim sviðum. Svar mitt við þeirri gagnrýni Viðars að bókin sé „safn fróðleiksmola án eiginlegrar úrvinnslu“ er í raun hið sama og hann sjálfur gaf við sambærilegri gagnrýni sem hann varð fyrir í febrúar 2017 en þá sagði hann:
Eftir sem áður ber ekki mikið á eiginlegri fræðilegri rökræðu í textanum enda reyndi ég töluvert að nýta frásagnarhátt sagnaþátta, þeirrar merkilegu hefðar, til að byggja upp alþýðlega frásögn og ná um leið utan um sem mesta fjölbreytni þvingunarlaust.[9]
Aðferðin sem Viðar lýsir þarna og hefur tileinkað sér er alþekkt í heimi fræða. Á líkan hátt reyni ég í mínu riti að láta heimildirnar sjálfar tala þegar það á við en legg út af þeim þegar þess gerist þörf. Gildir þá einu hvort um er að ræða aldagömul frumhandrit, fornbókmenntir okkar og lagagreinar eða skrif fræðimanna frá ýmsum tímum.
Afstaða Viðars til verksins birtist einna skýrast í þeirri staðreynd að hann greinir hvergi frá markmiði bókarinnar eða megininntaki, til dæmis eins og því er lýst á bókarkápu eða í formála. Þess í stað stingur hann sér beint til sunds í fordæmingarpollinum og svamlar þar lengi. Það er hvorki góð né sanngjörn nálgun á verk manna og leitt að verða vitni að slíkum vinnubrögðum.
Margur heldur mig sig
Árið 2017 varð Viðar sjálfur fyrir harkalegri ágjöf annars fræðimanns, Einars Gunnars Péturssonar, rannsóknarprófessors við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilefnið var bók Viðars, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Var hann harðlega gagnrýndur fyrir skort á heimildarýni, að tilgreina ekki heimildir og setja fram glannalegar ályktanir og tilgátur án heimilda. Þótti Einari Gunnari sem riti Viðars væri svo ábótavant að efast mætti um hvort það stæðist „svo vel fræðilegar kröfur, til að hægt sé að tilnefna það til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita?“[10]
Fræðaheimi var brugðið við þessi skrif. Viðar sjálfur stóð í ströngu við að bera af sér sakir og velti upp ýmsum hugleiðingum í svargrein sem hann birti um svipað leyti. Hann dró í efa „fræðilega dómgreind og heiðarleika“ ádeilanda síns, gekk jafnvel svo langt að tala um „illvilja“ hans. Þá vakti Viðar athygli á óvönduðum rökleiðslum, til dæmis þeirri orðnotkun að segjast taka „örfá dæmi af mörgum“ sem hann benti á að væri „gamalt bragð, að segja að tekin dæmi séu aðeins lítill hluti af heild.“[11] It takes one to know one segja enskumælendur. Viðar beitir nefnilega nákvæmlega sömu brögðum í sínum dómi um mína bók. Ritdómur hans er í raun endurómur af þeirri árás sem hann sjálfur mátti sæta hér um árið, svo sorglegt sem það nú er, og tildrögin einkennilega lík. Báðar eru bækur okkar afrakstur sex til sjö ára vinnu. Báðum var almennt vel tekið og sómi sýndur en urðu síðan fyrir harkalegri árás. Höfundarnir báðir sjálfstætt starfandi fræðimenn að fást við skyld rannsóknarefni. Báðir á einhvern hátt óvelkomnir inn á fræðasvið sem einhver annar hafði helgað sér. Já, sagan hefur sannarlega tilhneigingu til að endurtaka sig.
Viðar Hreinsson verður að eiga um það við sínar eigin kenndir hvernig hann velur að koma fram við aðra fræðimenn en fleiri mættu líta í eigin barm. Til dæmis ritstjórar Sögu sem í umboði Sögufélagsins stýra útgáfu fræðirits sem á að vera vettvangur fyrir „ritrýndar greinar og viðhorf“ eins og segir innan á kápu þess. Þegar leiða má rök að augljósri ærumeiðingu í umfjöllun um fræðilega ritsmíð með orðbragði eins og hér um ræðir vakna óhjákvæmilega spurningar um eiginlega ritstjórnarstefnu Sögu, að ekki sé talað um ábyrgð.
Í bréfi sem mér barst af þessu tilefni þann 16. febrúar síðastliðinn frá forseta Sögufélags kemur fram að stjórn félagsins hafi ráðist í endurskoðun verklags og nánari skilgreiningu á hlutverki ritstjóra, ritnefndar og höfunda. Er það vel. Samviskuspurningin sem eftir stendur er engu að síður þessi: Hvernig vettvangur á ritið Saga að vera? Á það að vera blóðvöllur fyrir sláturfórnir fræðimanna hvers á öðrum? Eða á það að vera gróandi akur þar sem jafningjar geta óhræddir lagt fram verk sín og hugmyndir til umræðu og annars gagns fyrir framtíðarrannsóknir og fræðastarf? Verkin sýna merkin segir máltækið.
Andanum af skrifum Viðars Hreinssonar, gífuryrðum hans sem og því erindi sem hann virðist reka í umræddum bókadómi beini ég hér með aftur til föðurhúsa.
[1] Helga Kress, „Um konur og bókmenntir“ í Draumur um veruleika. Íslenskar sögur um og eftir konur. Helga Kress sá um útgáfuna (Reykjavík: Mál og menning, 1997), 11–35; Vef. Erla Hulda Halldórsdóttir, „Að ganga út fyrir sitt gólf. Orðræða um konur,“ Hugrás. Vefrit hugvísindasviðs Háskóla Íslands. 30. nóv. 2018.
[2] Sjá t.d. hvernig andlegt ofbeldi er skilgreint af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/ofbeldi-og-vanraeksla/tegundir-ofbeldis/andlegt-og-felagslegt-ofbeldi/; enn fremur S. Alam, T. Nazir og F. Nesheen, „Emotional abuse: Wiping out mental health of adolescents,“ Indian Journal of Health and Wellbeing, 6, nr. 11 (2015): 1138‒1141.
[3] Sigurður Gylfi Magnússon, Fortíðardraumar. Sjálfsbókmenntir á Íslandi. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 9 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004), 290.
[4] Norse Magical and Herbal Healing. A Medical Book from Medieval Iceland. Ben Waggoner þýddi og ritstýrði (New Haven, Connecticut: Troth Publications, 2011), xxv.
[5] Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Lífgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi (Reykjavík: Forlagið/Vaka-Helgafell, 2019), 70.
[6] Sólveig Ólafsdóttir, ritdómur um Pipraðir páfuglar. Matargerðarlist Íslendinga á miðöldum eftir Sverri Tómasson, Saga 56, nr. 1 (2018): 225‒227.
[7] Robert V. Hill, „The contribution of the Bartholin family to the study and practice of clinical anatomy,“ Clinical Anatomy 20, nr. 2 (2007): 113‒115.
[8] Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, „Lækningar, trú og töfrar – samþætting og þróun fram yfir siðaskipti,“ Læknablaðið 103, nr. 12 (2017): 543‒550.
[9] Vef. Viðar Hreinsson, „14:2. Um athugasemdir við bók um Jón lærða,“ Vefur Náttúruminjasafns Íslands, 2017. Sótt 8. febrúar 2021.
[10] Einar Gunnar Pétursson, „Athugasemdir um bók Viðars Hreinssonar, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar,“ Morgunblaðið 17. febrúar 2017.
[11] Viðar Hreinsson, „14:2.“
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Miðvikudaginn 8. desember 2021 lagði Bergsveinn Birgisson fram opinberar ásakanir á hendur mér um ritstuld
Framhald af þessari grein má finna á vefsíðu höfundar. Snemma í desember síðasta árs las
Úr Sögu LIX: 2 (2021) Sumarliði R. Ísleifsson hefur lengi fengist við þau viðfangsefni sem