Skip to content
Úr fjarska norðursins. Ritdómur
Kristján Sveinsson
Sogufelag_I-fjarska-nordursins

Úr Sögu LIX: 2 (2021)

Sumarliði R. Ísleifsson hefur lengi fengist við þau viðfangsefni sem fjallað er um í því riti sem hér er til umfjöllunar. Árið 1996 kom út bók hans, Ísland, framandi land, þar sem ferðalýsingar frá Íslandi voru til umfjöllunar og árið 2015 bókin Tvær eyjar á jaðrinum. Ímyndir Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar sem að stofni til er doktorsritgerð Sumarliða. Höfundur Í fjarska norðursins hefur því áður farið huga og höndum um talsverðan hluta þess efnis sem þar er til meðhöndlunar en hið nýja rit er þó ekki endursögn eða endurgerð hinna fyrri og í því er talsvert efni sem ekki var í fyrri ritum.

Viðfangsefni Sumarliða, viðhorf erlendra höfunda til Íslands og Grænlands og þjóðanna sem byggja þessi lönd, hefur orðið umfjöllunarefni ýmissa íslenskra höfunda fyrr og síðar en enginn hefur á undan honum haft áræðni og úthald til að kanna og rekja sögu viðfangsefnisins á svo löngu tímabili. Í fjarska norðursins spannar tíu aldir, þúsöld, og langtum flest rit sem taka yfir svo langt tímaskeið eru yfirlitsrit sem byggð eru á fjölda rannsókna. Fræðimaður sem leggur það fyrir sig að gera tíu alda sögu skil í frumrannsókn, greina fjölþætta sögulega ferla og henda reiður á hugmyndastraumum margra ólíkra tímaskeiða hefur sannarlega skammtað sér ærið viðfangsefni.

Í inngangi getur höfundur þess að bollaleggingar um það hvernig sjálfsmynd Íslendinga varð til hafi leitt hann inn á vettvang viðhorfasögunnar sem hann hefur svo lengi ræktað, ekki síst áhrif utanaðkomandi hugmynda um Ísland og Íslendinga og samanburður Íslendinga á eigin samfélagi við önnur, einkum samfélög Norðurlanda. Eftir að hafa rekið augun í þetta kom það undirrituðum nokkuð á óvart hversu lítinn gaum Sumarliði gefur í raun að áhrifum þeirra lýsinga sem hann rannsakaði á hugarheim Íslendinga og hvað Grænlendinga varðar er ekki snert á viðfangsefninu. Það eru fyrst og fremst frásagnir hinna erlendu höfunda sem fá athygli og fræðilegur styrkur umfjöllunarinnar liggur ótvírætt í greiningu heimildanna sem valdar voru til úrvinnslu.

Staðalímyndir eru grunnhugtak í umfjöllun Sumarliða og á hann þar við rótgrónar hugmyndir sem beitt er síendurtekið og sjálfkrafa og eru taldar „einkennandi fyrir tiltekinn hóp, fjölskyldu, þjóð eða einhvern annan hóp“ (15). Er vitnað til hins víðförla norsk-danska fræðimanns og rithöfundar Ludvigs Holberg (1684–1754) um þau áhrif staðalímynda að gera hið ókunna framandlegt, óviðeigandi og jafnvel skoplegt eða háskalegt eftir atvikum. Staðalímyndir sem steypa alla í sama mót eru yfirleitt ærið heimskulegar og Holberg nýtti sér þær óspart þannig í háðsádeiluverkum sínum. Ímyndir af þessu tagi verða gjarnan til þegar fólk nær ekki saman sökum þess að það talar ekki sama tungumál eins og átti við um Evrópumenn og inúíta á Grænlandi og þær verða hæglega vopn í höndum þeirra sem leita réttlætingar á áformum sínum um að leggja undir sig lönd og þjóðir. Eins og Holberg komst að sjálfur þegar hann átti spjall við grænlenska inúítann Pooq í Kaupmannahöfn á þriðja áratug átjándu aldar reyndist skemmra á milli hugmyndaheims hans og „villimannsins“ en hann hugði. Upplýsingamaðurinn Holberg taldi grænlenska inúíta skynsama og dró ekki í efa siðferðisvitund þeirra en margir upplýsingamennirnir voru á öðru máli og á þeirri tíð sem kennd er við upplýsingu var lagður grunnur að vísindakenningum um kynþáttahyggju sem höfðu afgerandi áhrif á afstöðu Vesturlandabúa til fólks sem hafði annan hörundslit og aðra menningu en tíðkaðist í samfélögum Vesturlanda. Þarna er komin ein fjöldamargra ábendinga Í fjarska norðursins um hina margþættu og óröklegu framrás hugmyndanna og áminning um að þekking leiðir ekki ávallt til frjálslyndis eða mannúðar.

Sumarliði skiptir umfjöllun sinni um heimildir um viðhorf til Íslendinga og Grænlendinga í fjögur tímabil og meðal styrkleika Í fjarska norðursins er sú alúð sem hann hefur lagt við að gera lesandanum ljósar meginlínurnar í hugmyndasögu hvers tímabils, einkum hinna þriggja fyrstu. Þessi leiðsögn er lesandanum gott veganesti og hjálpleg við að setja umfjöllunarefnið í samhengi við það sem hæst bar í samtíð þeirra heimilda sem nýttar eru. Lögð er rækt við að gera grein fyrir tæknibreytingum sem höfðu áhrif á tilurð og miðlun efnis um Ísland og Grænland. Hins vegar eru forsendur tímabilaskiptingarinnar sem beitt er ekki ávallt sannfærandi eða fyllilega ljósar. Til dæmis eru gerð skil um 1750 „vegna þess að þá verða verulegar breytingar á umfjöllun um Ísland — miklu síður um Grænland — í kjölfar upplýsingarinnar“ (55). En þegar lesinn er kaflinn um tímabilið 1750–1900 birtist slík breyting vart, hvorki við upphaf né endi tímaskeiðsins. Þessi hluti tímabilaskiptingarinnar kemur því ekki að ýkja miklu gagni við að henda reiður á efninu.

Hinar óglöggu forsendur tímabilaskiptingarinnar leiða einmitt fram mikilvæga eiginleika heimildanna sem höfundur Í fjarska norðursins byggir verk sitt á og aðferðarinnar sem hann beitir við túlkun þeirra. Vissulega bera miðaldaheimildir þess vott að þær urðu til á tímum þegar ný þekking var tortryggð en kapp lagt á að styðjast við sagnahefð og mæta kröfum hennar. Sumarliði dregur skilmerkilega fram ýmis dæmi um áhrif sagnaminna um helg og óspillt eyðilönd á goðsögulegar miðaldafrásagnir af Íslandi og Grænlandi og hann gerir grein fyrir vitnisburðum í frásögnum síðari tíma ferðalanga um að þeir höfnuðu yfirnáttúrulegum skýringum á gjósandi eldfjöllum og vellandi leirhverum en höfðu uppi lærdóma nútímalegrar náttúrufræði um slík fyrirbrigði. Heimildirnar eru þannig tengdar sínum samtíma í umfjöllun höfundar og varpað á þær fræðilegu ljósi hugmyndasögunnar og það er ábyggilega ekki vegna þess að hann hafi verið eitthvað óstyrkur með þann geisla vísindanna sem undirrituðum þótti mörg stefin í þúsaldarkviðu viðhorfa til hins ysta norðurs ærið keimlík.

Þessu veldur að Sumarliði gerir sér allmikið far um að gera grein fyrir gildisdómum í þeim frásögnum sem hann hefur kannað. Í ljós kemur að á öllu því langa tímabili sem Í fjarska norðursins tekur yfir hafa gildisdómarum löndin tvö og þjóðir þeirra verið bæði jákvæðir og neikvæðir og það eru býsna oft sömu umfjöllunarefni sem kalla fram áþekk viðhorf höfunda sem rituðu með margra alda millibili. Í fjarska norðursins færir heim sanninn um að margar þeirra ímynda sem komast á kreik um lönd og þjóðir verða lífseigar og birtast hvað eftir annað. Ímyndir og fordómar eru náskyld fyrirbæri og það svo mjög að fordómar byggjast ávallt á ímynd. Stundum verða kynni af því sem fordómarnir beinast að til þess að breyta viðhorfum eða ný almenn þekking verður til þess að þeir fá ekki lengur þrifist. Í Í fjarska norðursins er sýnt fram á margar slíkar breytingar en einnig að á öllum tímum eru gildishlaðin ummæli notuð til að draga fram einkenni náttúrufars og þjóða og skipa þeim sess í stigveldi ríkjandi hugmyndaheims.

Víða er vikið að framandleika í umfjöllun Sumarliða og mörg dæmi rakin um það hvernig höfundar ólíkra rita nýta sér þetta stílbragð til að hlaða frásögnina þeirri spennu sem annarleiki og furður geta vakið. Fyrir rúmri öld síðan birtist í fyrsta sinn ritgerð Sigmunds Freud, „Das Unheimliche“, um fyrirbæri sem gera fólk skelkað. Sálkönnuðurinn lýsti því að mestan ótta vekur ekki það sem er fullkomlega framandi heldur hið kunnuglega sem hefur fengið torkennilegt yfirbragð, umturnast, gengið aftur. Margar þeirra lýsinga sem Sumarliði færir til bókar og kryfur bera merki um beitingu þessa stílbragðs. Íslendingum eða Grænlendingum er lýst sem hálfmennskum eða siðlausum í þeim skilningi að þeir haldi ekki í heiðri evrópska eða kristna siði en samt eru þeir nægilega áþekkir Evrópumönnum til þess að lesandinn gat miðað sig við þá. Það getur vart farið á milli mála að mörg þeirra rita sem Sumarliði fjallar um í Í fjarska norðursins voru að einhverju leyti samin vegna skemmtigildis þeirra og til að treysta hugmyndir lesendanna um sjálfa sig og evrópskan menningarheim, skapa hæfilegan framandleika til þess að Ísland og Grænland yrðu „eins konar speglar fyrir Evrópu“ (301) sem íbúar álfunnar gætu litið í og sannfærst um að þeir væru þeir sjálfir, frábrugðnir hálfgildings villimönnum hins ysta norðurs sem hírðust þar við þröngan kost í ógnandi og háskalegri náttúru. Slíkum frásögnum er beinlínis ætlað að skapa andúð og fyrirlitningu með það að markmiði að efla samkennd og félagslegan aga meðal lesendanna og eru sá efniviður sem gefa Sumarliða tilefni til að benda á gagnsemi kenninga Edwards Said til að skilja og skilgreina áhrif frásagna um hið ysta norður á hugmyndaheim Evrópubúa og viðhorf þeirra til Íslands og Grænlands og íbúa þeirra.

Á bls. 290–291 telur Sumarliði upp átta staðalímyndir um Ísland og Grænland sem birtast hvað eftir annað í ritum frá síðmiðöldum til samtímritdómarans og segir jafnframt á öðrum stað í verkinu: „Á síðmiðöldum var lagður grunnur að lands- og þjóðarímyndum um Ísland, grunnur sem enn stendur að nokkru leyti.“ (87). Sú spurning hlýtur að vakna hvort langlífi þjóðarímynda Íslands og Grænlands stafi af því að höfundar síðmiðalda hafi gert svo glögga grein fyrir þeim að ekki þurfti að gera betur eða hvort vald hefðar og endurtekningar í frásögnum skýri þetta. Síðari skýringarkosturinn virðist langtum nærtækari en sá fyrri og þetta vekur upp spurningu sem forvitnilegt væri að sjá Sumarliða taka fastari tökum sem lýtur að áhrifum náttúruvísinda á þekkingu um Ísland og Grænland.

Á bls. 12 er greint frá því að myndir og landakort gegni miklu hlutverki í ritinu og á bls. 89 kemur fram að landakort og myndir eru meðal efnis sem nýtt er í umfjöllun um tímabilið 1500–1700. Meðal stórbreytinga á þekkingar- og tækniheimi Vesturlandabúa á síðari hluta átjándu aldar og á nítjándu öld voru langtum nákvæmari mælitæki en áður höfðu þekkst og þróaðar voru vísindalegar aðferðir við mælingar og kortagerð sem leiddu til nákvæmari korta en völ var á áður. Mikið var unnið að mælingum og kortagerð á norðurslóðum frá því um 1780 og fylgdi þeirri gagnaöflun umfangsmikil útgáfa korta og landlýsinga sem ekki eru nýttar í ritinu. Það kom nokkuð á óvart þar sem kort höfðu verið meðal heimildaefnis í fyrri köflum og líklegt að þessar breytingar sem urðu á þekkingu um söguslóðir Sumarliða hafi haft veruleg áhrif á vitneskju Evrópubúa um lönd hins ysta norðurs og þar með áhrif á hugmyndir um þau og viðhorf til þeirra. Þetta er ekki kannað í bók Sumarliða og þar birtist helsti veikleiki ritsins sem varðar fyrirferð og áhrif hinna langlífu staðalímynda um Ísland og Grænland og íbúa þessara landa sem svo rækilega er gerð grein fyrir. En var ekki áhrifamáttur þeirra allur annar og minni á síðari tímum, eftir að áhrifa náttúruvísinda nútímans tók að gæta heldur en á fyrri tímaskeiðum? Eru staðalímyndir Íslands og Grænlands á tuttugustu öld ef til vill skrum og skopstæling með ráðum gerð þar sem augljóst er að þær grundvallast ekkert endilega á viðurkenndri þekkingu heldur á fordómum og einhvers konar skáldaleyfi auglýsingastofanna sem nýta sér þær óspart til að vekja athygli á ýmsum skringilegheitum hinna norðlægu samfélaga?

Ekki verður skilist við hið mæta rit Í fjarska norðursins án þess að vikið sé að myndefni sem þar birtist og er að verulegu leyti heimildaefni en annað til skrauts og áréttingar og á það einkum við um myndefni frá nítjándu og tuttugustu öld. Virðist það vel valið og er ugglaust meðal þess sem skapað hefur og viðhaldið fornum og nýjum staðalímyndum um Ísland og Grænland. Myndatextar fylgja jafnan og gegna því hlutverki að hjálpa lesandanum til að glöggva sig á því sem fyrir augu ber. Er þetta yfirleitt hjálplegt efni og gagnlegt en á stöku stað vöknuðu efasemdir um réttmæti túlkana á mynd efni svo sem í myndatexta á bls. 13 þar sem sýndir eru litríkir þjóðbúningar fólks í Austur- og Norður-Evrópu og taldir til merkis um „framandleika fólksins á „jöðrum“ álfunnar“. Eru ekki jaðrar álfunnar komnir þarna allnærri miðju hennar og voru ekki litríkir búningar enn í tísku víða í sveitum hvarvetna í Evrópu á síðari hluta nítjándu aldar, en frá því skeiði er litógrafían?

Þegar að slíkum sparðatíningi er komið er líklega mál að linni. Sumarliða ber lof og prís fyrir vandað rit og Íslensku bókmenntaverðlaunin hefur hann þegar maklega hlotið. Hann og aðrir aðstandendur Í fjarska norðursins hafa unnið gott verk sem áhugafólk um menningarsögu ætti alls ekki að láta fram hjá sér fara.

Deila:

Annað efni