Skip to content
Drög að mannorðsmorði
Ásgeir Jónsson
bfu2140

Miðvikudaginn 8. desember 2021 lagði Bergsveinn Birgisson fram opinberar ásakanir á hendur mér um ritstuld úr bók hans Leitin að svarta víkingnum (LSV)[1] í álitsgerð sem hann birti á Vísir.is og ber titillinn „Stolið og rangfært – um Eyjuna hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónsson“.[2] Jafnframt því lagði hann téða álitsgerð fram sem kæru til Siðanefndar Háskóla Íslands. Í upphafsorðum hennar segir: „Hér er því um ritstuld að ræða, og það svo umfangsmikinn að mér er til efs að viðlíka dæmi séu til í sögu íslenskrar bókaútgáfu.“ Fjölmiðlastormur fylgdi í kjölfarið. Fyrstu viðbrögð mín voru þau að hringja í Bergsvein sjálfan – enda hlyti þetta allt að vera misskilningur. Okkar tveggja manna tal rataði í fjölmiðla strax daginn eftir.[3] Það var forsmekkurinn af því sem koma skyldi. Þannig hófst undarleg atburðarás þar sem ýmsar persónur úr þjóðlífinu komu við sögu og ég skil raunar ekki til hlítar enn í dag.

Þann 9. desember átti ég að flytja auglýstan fyrirlestur hjá Miðaldastofu um íslenska hagsögu en var meinað að halda hann af forsvarsmönnum stofnunarinnar. Hygg ég að það sé einsdæmi í sögu Háskóla Íslands en þetta heitir víst slaufun á nútímamáli.

Þann 10. desember hófu meðlimir Siðanefndar fyrst að tjá sig um málið í fjölmiðlum. Jafnframt lýsti Bergsveinn því yfir að hann ætlaði með málið fyrir dóm í Noregi þar sem LSV var upprunalega gefin út ef stuldarmálið yrði ekki tekið fyrir hérlendis.[4]

Þann 13. desember hélt Siðanefnd Háskólans fund þar sem kæra Bergsveins var tekin fyrir og nefndin hóf málarekstur gegn mér. Þegar ég bað nefndina um rökstuðning fyrir þessari ákvörðun var mér svarað með einni setningu sem barst viku síðar: „Það er virkt ráðningarsamband á milli þín og Háskóla Íslands.“[5] Hins vegar hafði formaður nefndarinnar svarað sömu spurningu þremur dögum á undan í blaðaviðtali þar sem hann sagði siðareglur Háskólans gefa tilefni til „víðra túlkana“.[6]

Þetta kom mér spánskt fyrir sjónir, þar sem ég er í launalausu leyfi frá Háskólanum án nokkurrar rannsóknar- og kennsluskyldu og er hvergi talinn upp meðal starfsmanna skólans. Höfundarverk mín eru heldur ekki færð í ritaskrá stofnunarinnar. Þá gegni ég ótengdu embætti sem gerir gríðarlega strangar kröfur um sjálfstæði og óhæði. Raunar er mér samkvæmt lögum óheimilt að vera í virku ráðningarsambandi við nokkurn annan aðila en forsætisráðuneytið meðan á skipunartíma mínum stendur. Fyrir mér var því um algert grundvallarmál að ræða, að ég væri fyrir utan lögsögu Siðanefndar Háskólans, ella gæti það skapað mjög óheppilegt fordæmi fyrir embætti seðlabankastjóra. Þá er Bergsveinn Birgisson ekki heldur í ráðningarsambandi við Háskólann þannig að vandséð er hvernig deila okkar tveggja, þar sem hvorugur lýtur agavaldi rektors, hefði átt að eiga erindi við siðanefnd hans.

Hafi einhver lagalegur efi verið til staðar var honum eytt með lögfræðiáliti sem Trausti Fannar Valsson, deildarforseti Lagadeildar Háskólans, ritaði. Þar er kveðið skýrt á um að prófessor í launalausu leyfi sé ekki í virku ráðningarsambandi við Háskólann og falli almennt utan við lögsögu Siðanefndar meðan á launalausa leyfinu stendur. Þetta álit var afhent formanni Siðanefndar Háskóla Íslands þann 4. janúar 2022. Tveimur dögum síðar sendi Bergsveinn bréf til rektors Háskólans þar sem hann fór þess á leit að þessi sami formaður segði af sér vegna vanhæfis sem fælist í að viðkomandi hefði aldarfjórðungi áður kennt við Bændaskólann á Hólum þegar faðir undirritaðs var þar skólastjóri.[7] Svo fór hins vegar að formaðurinn sat áfram, lögfræðiálitinu var haldið leyndu og Siðanefnd hélt áfram með málið á grundvelli víðrar siðfræðilegrar túlkunar. Sannleikurinn kom ekki í ljós fyrr en ég sendi rektor formlegt bréf þar sem ég krafði hann svara sem fyrirsvarsmann Háskólans um hvert ráðningarsamband mitt væri við þessa ágætu stofnun. Hygg ég að engum í slíkri stöðu hefði verið stætt á því að hafna beiðninni. Svo mikið var samráð okkar rektors í málinu.

Í kjölfar þessa sá Siðanefnd engan annan kost en að segja af sér 10. febrúar. Þann 4. mars birti nefndin opinbera grein til að útskýra afsögn sína sem var skreytt ýmsum persónulegum og ófagmannlegum aðdróttunum í garð þess sem hér ritar.[8] Fyrir mér staðfesti þessi grein þann slæma grun sem ég hafði strax fengið um málarekstur nefndarinnar. Nýskipuð siðanefnd felldi síðan málið formlega niður 11. apríl á grundvelli áðurgreinds lögfræðiálits. Það er því úr sögunni. Loksins þá upplýsti hin nýja siðanefnd mig um tilvist álitsins frá deildarforseta lagadeildar sem fráfarandi nefnd hafði stungið undir stól.

Það sem við mér blasti þann 8. desember var einbeitt atlaga að æru minni og mannorði. Ég þurfti vitaskuld að svara þessum ásökunum með efnislegum hætti. Ég fékk dr. Helga Þorláksson, prófessor emerítus í sagnfræði, til þess að fjalla um þær í álitsgerð sem ég hafði upphaflega áætlað sem málsgagn fyrir Siðanefnd en ég ákvað síðan að birta strax opinberlega 6. janúar 2022.[9] Helgi komst að þeirri niðurstöðu að engin af þessum ásökunum ætti við rök að styðjast og segir orðrétt: „Hér hefur verið leitt í ljós að Ásgeir hefur ekki nýtt sér hugmyndir frá Bergsveini, a.m.k. ekki í dæmunum sem Bergsveinn rekur.“[10] Ég vil einnig taka fram í ljósi umræðu sem spannst í kjölfarið að Helgi hefur hvorki þegið úr minni hendi neinar peningagreiðslur vegna þessarar álitsgerðar né er hann skuldbundinn mér eða vandabundinn á nokkurn hátt.[11]

Ég svaraði síðan áðurgreindum ásökunum lið fyrir lið í álitsgerð til Siðanefndar sem ég sendi henni innan tilgreinds frests, 15. febrúar 2022, og birti hana jafnframt á Vísir.is. Hún sýnir með skýrum hætti að ásakanir Bergsveins eru byggðar á mistökum í heimildanotkun. „Lokaniðurstaða mín er því sú að mér er til efs að viðlíka dæmi séu til í sögu íslenskrar bókaútgáfu um jafn alvarlegar ásakanir byggðar á jafn hroðvirknislegri heimildavinnu,“ segir þar.[12]

Í ljósi alls þessa kom mér á óvart að lesa grein Bergsveins Birgissonar í vorhefti tímaritsins Sögu 2022 en hún ber titilinn „Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi“.[13] Ég hefði frekar búist við afsökunarbeiðni. Í nefndri grein heldur hann því enn fram að ég hafi gerst sekur um ritstuld við ritun bókarinnar Eyjan hans Ingólfs ásamt því að fara með rangfærslur um embættisfærslu Siðanefndar vegna téðrar kæru. Ég verð að líta svo á að þetta séu vísvitandi rangfærslur þar sem lögfræðingur Bergsveins hefur beðið um og fengið öll samskipti mín við Siðanefnd og rektor Háskólans.

Ekki kemur mér þó mest á óvart það sem stendur í þessari grein, heldur það sem vantar. Nánar tiltekið er hvergi getið um veigamestu atriðin úr upphaflegri álitsgerð Bergsveins. Þau virðast hafa horfið án þess að svarað sé fyrir þau eða þau dregin til baka.

Þetta getur góðfús lesandi sannreynt sjálfur með því að lesa téða álitsgerð frá 8. desember 2021, „Stolið og rangfært“, og bera saman við „Rýnt í ritstuld“ sem birtist í Sögu. Í álitsgerðinni er ég sakaður um að hafa haft bók Bergsveins Leitin að svarta víkingnum fyrir framan mig þegar ég ritaði bók mína og stolið blákalt úr henni tilgátum og upplýsingum sem höfðu verið settar „fram í LSV og hvergi annars staðar“ líkt og segir orðrétt. Þá er ég sakaður um að hafa stolið uppgötvunum Bergsveins um norska og írska víkingaaldarsögu. Loks margendurtekur Bergsveinn að tilgáta hans um rostungsútflutning Geirmundar heljarskinns endurómi um alla bók mína og raunar megi tala um hana „sem rauðan þráð gegnum bókina, sem ég reyndar fæ ekki séð að hangi saman á öðru en þessum eina þræði“.[14] Svo orðrétt sé haft eftir.

Eins og áður segir hafa nær allar þessar einstöku ásakanir gufað upp án þess að dögg sjáist á grasi í grein Bergsveins í tímaritinu Sögu. Sömu stóryrðin um stuld eru þó enn á sínum stað en nú með nýrri en heldur rýrri röksemdafærslu. Greinin er að meginefni tilraun til að festa niður höfundarrétt á umfjöllun um rostungsveiðar á landnámstíð á grundvelli sértækrar úrvinnslu á þeirri hugmynd. Svo sama orðalag sé notað. Í framhaldi er ég ásakaður um að hafa brotið á höfundarrétti Bergsveins í einum eða tveimur atriðum samkvæmt þessari skilgreiningu. Þessi atriði eru satt best að segja mjög veigalítil – væru þau rétt. Þau vísa til hliðarefnis í undirkafla í upphafi Eyjunnar hans Ingólfs sem hafa enga þýðingu fyrir framvindu bókarinnar né niðurstöður. Í versta falli hefðu þau kallað á 1–2 neðanmálsgreinar í bók minni og geta með engu móti réttlætt heitingar og þjófkenningar Bergsveins gegn mér í bæði innlendum og erlendum fjölmiðlum auk hótana um málsókn í Noregi og svo framvegis.

Þetta tilkall til höfundarréttar sem Bergsveinn gerir í téðri grein stendur þó ekki á styrkum stoðum ekki fremur en endurnýjaðar ásakanir hans á hendur mér um að ég hafi brotið þennan skilgreinda rétt. Þær eru enn sem fyrr rangar og byggðar á rangri – eða kannski öllu heldur skapandi – heimildanotkun líkt og áður. Það er enda augljóst öllum þeim sem hafa lesið báðar bækur – LSV og Eyjuna hans Ingólfs – að þær eiga eiginlega ekkert sameiginlegt nema að fjalla um sama tíma í sögu þjóðarinnar enda eru engin rittengsl á milli þeirra. Við Bergsveinn erum einfaldlega ósammála um framgang landnáms á Íslandi og bækur okkar endurspegla það.

Skal nú vikið að efnisþáttum í ásökunum Bergsveins Birgissonar.

Hverjar voru upphaflegar ásakanir Bergsveins?

Mér telst svo til að álitsgerðin „Stolið og rangfært“ eftir Bergsvein Birgisson innihaldi 14 beinar ásakanir á hendur mér um þjófnað og hugmyndastuld. Þetta er samt einföldun en svo má segja að ný ásökun spretti upp í hverri línu þegar álitsgerðin er lesin. Það skiptir þó kannski ekki höfuðmáli. Rétt er þó að geta þess að eina ásökun hefur Bergsveinn dregið til baka opinberlega á fésbókarsíðu sinni og með bréfi til Siðanefndar.[15] Af þessum 14 ásökunum Bergsveins eru fimm byggðar á beinu ranghermi á því sem stendur í bók minni. Til að mynda inniheldur hún hvorki langa „endursögn á því hvernig strendur Íslands hafi verið kjörnar fyrir rostunga sem lifa á skeldýrum“ né er lagt upp eitthvert veiðiþrælalíkan sem myndar „rauðan þráð gegnum bókina“ líkt og Bergsteinn heldur fram.[16] Þetta má auðveldlega sannreyna með því að fletta Eyjunni hans Ingólfs.

Aðrar fimm ásakanir Bergsveins byggðu á mjög víðtæku tilkalli til höfundarréttar yfir ótal aðskildum atriðum í hagsögu Íslands, Noregs og Írlands – svo sem um rostungsveiðar hér við land, siglingar eftir Norðurveginum og stjórnmálatengsl Dyflinnarmanna við írska konunga. Þessar eignarréttarkröfur verða að teljast nokkur tíðindi í sagnfræði og snúa að miklu fleiri höfundum en mér einum. Af þessum fimm hafa fjórar horfið en ein stendur eftir og fjallar um veiðar og útflutning Geirmundar heljarskinns á rostungum. Þannig heldur Bergsveinn því ekki lengur fram að hann hafi fyrstur fjallað um siglingar eftir Norðvesturströnd Noregs með rostungsafurðir eða verið sá fyrsti sem hafi fjallað um ríki sækonunga á Norðurveginum né heldur að faðir Geirmundar heljarskinns hafi búið á Ögvaldsnesi. Þá er jafnframt horfin ásökun um að ég hafi stolið úr LSV umfjöllun um viðskipti og hjónabönd Ólafs konungs í Dyflinni. Það er engin furða að þessar ásakanir hafi horfið þar sem umfjöllun mín um þessi atriði í hagsögu þessara landa var ítarlega studd tilvitnunum í erlenda sagnfræðinga.[17]

Að síðustu eru fjórar ásakanir sem stafa eingöngu af vanþekkingu á heimildum þar sem margt af því sem Bergsveinn staðhæfir að séu tilgátur sínar stendur skýrum stöfum í fornum rituðum heimildum. Mestur þungi ásakana Bergsveins hvíldi á þessum atriðum sem koma fram í lok álitsgerðar hans. Þessi dæmi áttu að sanna það með ótvíræðum hætti að sá sem hér ritar væri svo fingralangur að hann hefði hrifsað til sín efnisatriði og tilgátur úr LSV sem kæmu hvergi annars staðar fyrir. Af þessum fjórum stendur ein eftir sem fjallar um rostungsveiðar Ketils gufu og farið er yfir hér á eftir.

Hér er hvorki rými til þess að fara í smáatriðum yfir þessar upphaflegu ásakanir né svör mín við þeim enda hafa þau nú þegar birst opinberlega og vísa ég til þeirra.[18] Mig langar þó til að taka tvö lýsandi dæmi um ásakanir sem settar voru fram af Bergsveini þann 8. desember og hafa síðan horfið.  

Dæmi 1. Í „Stolið og rangfært“ segir:

                  Um gervalla bókina eru, þrátt fyrir að Leitin að svarta víkingnum eða Den svarte vikingen séu hvergi á nafn nefndar, litlar opinberanir sem sýna hvaða bók «höfundur» hefur haft á borði sínu við sinn «lestur» á Landnámabók. Mætti hér sem dæmi nefna hvað Ásgeir skrifar um Hámund heljarskinn: «Hann fékk Örn, frænda sinn, til sín en hann hafði numið Arnarfjörð á Vestfjörðum … Örn … kom til Eyjafjarðar til að vinna með frænda sínum að héraðsskipan» (bls. 148). Hvergi kemur fram í Landnámabók né öðrum miðaldaheimildum að Örn sé frændi Hámundar eða Geirmundar heljarskinns. Þetta setti ég fram sem tilgátu í LSV (bls. 135, upprunalega frá 2013), og í annarri bók sem byggð var á þeirri rannsókn og heitir Geirmundar saga heljarskinns (2015, Bjartur). Það gerði ég sökum þess að Örn velur að flýja undar Geirmundi og á náðir Hámundar, og því gat ég mér til um þessa frændsemi.[19]

Skýrum stöfum stendur í Landnámu að Örn sá er nam Arnarfjörð sé frændi þeirra bræðra Hámundar og Geirmundar heljarskinns. Það er ekki tilgáta Bergsveins Birgissonar. Í Landnámu segir nánar tiltekið: „Örn hét maður ágætur; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svo vítt sem hann vildi.“[20]

Dæmi 2 úr „Stolið og rangfært“:

                  Í LSV kemur fram að Eyvindur austmaður hafi mögulega verið skipasmiður, en einnig er vísað í ossíanskt þjóðkvæði þar sem talað er um stríðsmanninn Eyvind (Eibhinn) sem birtist sem nokkurs konar landvarnamaður, þ.e.a.s. að hann hafi haft «sama hlutverk og Göngu-Hrólfur og hans menn höfðu í Rúðuborg; hann varði fólk sitt gegn innrás víkinga» (LSV bls. 172). Þetta var þá reist á þeirri tilgátu að heimildin getur um að Eyvindur barðist við Clian, sem gæti verið skylt Cliath, þ.e. gamla írska nafninu á Dyflinni, Baile Átha Cliath.

Eins og sjá má er þetta algerlega frjáls túlkun og tilgáta sett fram í LSV og hvergi annars staðar, og því ærið umhugsunarefni að Eyvindur sé í bók Ásgeirs að jafnaði kallaður «landvarnarmaður Kjarvals Írakonungs» og «landvarnamaður Cerballs konungs» (bls. 117) án þess að geta þess hvaðan sú hugmynd sé komin. Í norrænum heimildum er hún ekki til, í Hauksbók Landnámabókar kemur fram að Eyvindi «leiddisk hernaðr».[21]

Nokkrar norrænar heimildir nefna Eyvind austmann – þar með talin Grettissaga. Í 3. kafla hennar segir: „Hann [Eyvindur] hafði landvörn fyrir Írlandi.“ Og áfram: „Eyvindur hafði þá tekið við herskipum föður síns og var nú orðinn höfðingi mikill fyrir vestan haf. Hann átti Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.“[22] Í 4. kafla segir enn fremur: „ … þar til að Eyvindur austmaður tók landvörn þar [á Írlandi].“[23] Sú vitneskja að Eyvindur austmaður hafi verið landvarnarmaður Kjarvals Írakonungs kemur því beint úr Grettissögu en hvorki úr ossíönsku þjóðkvæði né er hún tilgáta Bergsveins.

Hvað stendur eftir af ásökunum Bergsveins?

Í hinni upphaflegu álitsgerð fjallar Bergsveinn um það sem hann kallaði höfundarréttarvarða tilgátu um landnám Íslands sem hafi verið sett fram í Leitinni að svarta víkingnum. Með hans eigin orðum hljómar hún svona:   

                  Hið nýja í mínu verki var að nota miðaldaheimildir, auk þess að leita til annarra fræðigreina, til stuðnings því sem ég birti og kalla efnahagsmódel veiðimenningar sem ég tel hafa einkennt frumlandnám Íslands, sem síðan hafi þróast út í meiri áherslu á landbúnað þegar veiði þvarr. Þessi veiðimenning hafi byggt á veiðum á rostungum og öðrum sjávarspendýrum, vegna þess að skipaútgerð þess tíma hafi algerlega verið háð slíku til reipa í skipsreiða og til verndar á trévirki í sjó. Er þessi heildartilgáta bókarinnar rökstudd gegnum allt verkið.[24]

Bergsveinn fékk strax opinbera gagnrýni fyrir að eigna sér stolnar fjaðrir þar sem mjög margir fræðimenn höfðu fjallað um rostungsveiðar við Ísland á undan honum og það undir svipuðum formerkjum.[25] Hér væri til að mynda hægt að vísa til yfirlitsgreinar Elizabeth Pierce frá árinu 2009 sem ber hinn lýsandi titil „Walrus Hunting and the Ivory Trade in Early Iceland“.[26] Líka má nefna yfirlitsgrein Bjarna F. Einarssonar frá 2011, „Róum við í selin, rostungs út á melinn. Um rostunga við Íslandsstrendur“.[27] Þá veitir álitsgerðin sem Helgi Þorláksson ritaði að beiðni undirritaðs einnig ágæta yfirsýn yfir þessa umræðu. Þar kemur fram að margir höfundar úr ýmsum fræðigreinum hafi fjallað um rostungsveiðar, svo sem út frá örnefnum, vistleifum og rituðum heimildum, áður en Bergsveinn ritaði bók sína Leitin að svarta víkingnum sem upphaflega kom út í Noregi 2013. Af þessum sökum telur Helgi að nokkuð ljóst sé að undirritaður „víki hér að alþekktu efni“ þegar fjallað er um rostungsveiðar í Eyjan hans Ingólfs.[28] Loks er einnig rétt að benda á nýja yfirlitsgrein, „Um rostung við Ísland til forna“, eftir þá Bjarna F. Einarsson, Hilmar J. Malmquist, Snæbjörn Pálsson og Ævar Petersen sem birtist í vorhefti Skírnis 2021.[29]

Í stuttu máli gerðu allmargir fræðimenn sér grein fyrir því um svipað leyti, fyrir og um 2010, að rostungsveiðar kynnu að hafa verið hvati til Íslandsferða jafnframt því að hafa verið stundaðar af fyrstu landnámsmönnum. Hér gætu margar persónur úr Landnámu komið við sögu, Ingólfur og hans fólk, Steinunn gamla og skyldmenni á Rosmhvalanesi, Örlygur gamli og ættingjar á Kjalarnesi, Skagamenn, Skalla-Grímur á Borg og loks landnámsfólk við Breiðafjörð. Þetta ætti að sýna svart á hvítu á hve veikum fótum höfundarréttartilkall Bergsveins stendur í þessu efni. Hér er einnig gott að taka dæmi um þann höfundarrétt sem Bergsveinn reyndi að taka sér. Í álitsgerð sinni „Stolið og rangfært“ talar Bergsveinn um „klausu úr Egils sögu um svokölluð Hvalsker“ og hann hafi fyrstur komið með þá tilgátu að hér væri átt við rostunga. Þessari tilgátu hafði ég náttúrulega stolið.[30] Í Eglu koma þó Hvalsker hvergi fyrir, heldur er sagt: „Eyjar lágu þar úti fyrir [Mýrum], er hvalur fannst í og kölluðu þeir Hvalseyjar“.[31] Mörgum var þegar orðið ljóst, fyrir útgáfu LSV árið 2013, að hér var um rosmhval að ræða eða rostung eins og bent er á í áðurgreindri grein í Skírni frá síðasta vori. Helgi Þorláksson nefnir einnig Hvalseyjar í þessu samhengi árið 2006.[32]

Bergsveinn bregst við þessari gagnrýni í Sögu með nýrri röksemdafærslu. Hann segist ekki saka undirritaðan „um að stela almennri hugmynd um rostungsveiðar, heldur sértækri úrvinnslu minni á þeirri hugmynd.“[33] Síðan skýrir Bergsveinn nánar hvað hann á við um „sértæka túlkun“:

                  Í áðurnefndum ritum mínum birti ég margrætt og flókið efnahagslíkan sem ég tel að geti átt við frumlandnám Íslands og kalla það ýmist veiðimanna-efnahag, módel eða líkan, og stilli því upp gegn landbúnaðartilgátunni (e. farming hypothesis) sem einkennt hafði umræðu um landnámið frá miðöldum. Það er á þessum rökum sem ég gagnrýni það sem Ásgeir Jónsson tekur upp í sinni bók og kallar „veiðiþræla-viðskiptalíkan“. Þar vil ég meina að Ásgeir byggi greinilega á umfjöllun minni um stórfelldan innflutning Geirmundar heljarskinns á þrælum frá Dyflinni til veiða og úrvinnslu á sjávarspendýrum á Íslandi. … Það kemur á daginn að þessa hugmynd um stórfelldan veiðiskap Geirmundar á sjávarspendýrum á Hornströndum er hvergi að finna nema í áðurnefndum verkum undirritaðs og nú í bók Ásgeirs Jónssonar.[34]

Ég tel nokkuð augljóst að sú hugmynd að fyrstu landnámsmenn hafi stundað veiðar áður en þeir komu sér fyrir í hefðbundnum landbúnaði geti ekki talist höfundarréttarvarin tilgáta Bergsveins Birgissonar. Þessi þróun endurómar um ritaðar heimildir frá fyrri tíð og skrif sagnfræðinga. Þær yfirlitsgreinar sem þegar hafa verið nefndar sanna það. Ég held því að hin sértæka túlkun sem Bergsveinn telur sig hafa höfundarrétt að hljóti að vera tvíþætt. Annars vegar hvað varðar hið margræða og flókna efnahagslíkan sem hann álítur sig hafa sett fram í LSV þar sem grunnþættirnir eru tveir: innflutningur þræla og útflutningur rostungsafurða. Svo er hins vegar frumkvæði hans í því að tengja Geirmund heljarskinn við rostungsveiðar á Hornströndum. Og þá telur hann jafnframt að þeim sem impra á þessum tveimur viðfangsefnum í rituðu máli beri að geta LSV sem heimildar.

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að ítreka að þær hugmyndir og niðurstöður sem settar voru fram í bók minni eru allt aðrar en settar voru fram í LSV árið 2013. Samkvæmt ofangreindri skilgreiningu (sem ég tel alltof einfalda) er ég fylgjandi landbúnaðartilgátunni þar sem ég álít að veiðar fyrstu landnámsmanna hafi aðeins verið stundaðar af krafti á meðan þeir voru að koma upp búum sínum og þær síðan orðið hlunnindi. Ísland var byggt upp sem þjóðríki á grundvelli hefðbundins landbúnaðar en ekki veiða. Umfjöllun um rostungsveiðar og aðrar veiðar við Ísland er því hliðarefni í upphafi bókar minnar þar sem ég taldi sjálfan mig byggja á viðurkenndri söguskoðun. Það er algerlega skýrt af minni hálfu að ég taldi mig aldrei setja fram eigin tilgátur um eitt eða neitt sem tengist rostungum eða veiðum á þeim. Þá tel ég að Geirmundur heljarskinn hafi verið alger aukapersóna í landnámssögunni sem er í samræmi við frásagnir ritaðra heimilda af honum.

Í bók minni er því heldur aldrei haldið fram að Geirmundur eða hans menn hafi flutt úr landi rostungsafurðir, heldur að hann hafi nýtt hlunnindi af jörðum sínum á Vestfjörðum til þess að standa undir risnu og því mannahaldi sem heimildir greina frá. Landnáma segir hann hafa riðið um á milli búa sinna með „átta tigu manna“.[35] Að mínu mati var hlunnindanýting Geirmundar sambærileg því hvernig Þórólfur Mostraskeggi, landnámsmaður á Þórsnesi, nytjaði Breiðafjarðareyjar til þess að halda veglegar blótveislur á eigin kostnað líkt og segir í Eyrbyggju: „Þórólfur gerðist rausnarmaður mikill í búi og hafði fjölmennt með sér því að þá var gott matar að afla af eyjum og öðru sæfangi.“[36]

Í bók minni er einnig fjallað um útibúarekstur Skallagríms Kveldúlfssonar á Mýrum og í Borgarfjarðardölum undir sömu formerkjum og búrekstur Geirmundar á Vestfjörðum. Egilssaga segir frá því að fjárafli Skallagríms hafi staðið „á mörgum fótum“.[37] Hann átti mörg útibú sem hvert sinnti sérstökum hlunnindum; reka, fjárbeit, laxveiði og svo framvegis. Búi hans á Álftanesi er svo lýst:

                  Hann lét gera bæ á Álftanesi og átti þar bú annað, lét þaðan sækja útróðra og selveiðar og eggver, er þá voru nóg föng þau öll, svo rekavið að láta að sér flytja. Hvalkomur voru þá og miklar, og skjóta mátti sem vildi; allt var þar þá kyrrt í veiðistöð, er það var óvant manni.[38]

Hér er hlunnindanýtingu Skallagríms lýst fremur nákvæmlega og vart er hægt að halda öðru fram en að um alþekkt efni sé að ræða. Svo vill til að í Landnámu er einnig sagt svo greinilega frá útibúarekstri Geirmundar á Vestfjörðum að vart þarf tilgátur til þess að álykta að um svipaða hlunnindanýtingu hafi verið að ræða og veiðar hafi verið stundaðar á sjávarspendýrum þar vestra. Hér segir:

                  Geirmundur fór vestur á Strandir og nam þar land frá Rytagnúp vestan til Horns og þaðan austur til Straumness. Þar gerði hann fjögur bú, eitt í Aðalvík, það varðveitti ármaður hans; annað í Kjaransvík, það varðveitti Kjaran þræll hans; þriðja á almenningum hinum vestrum, það varðveitti Björn þræll hans, er sekur varð um sauðatöku eftir dag Geirmundar; af hans sektarfé urðu almenningar: fjórða í Barðsvík, það varðveitti Atli þræll hans, og hafði hann fjórtán þræla undir sér.[39]

Af þessum texta er ljóst að Geirmundur rak fjögur útibú á Vestfjörðum sem voru í umsjón þræla líkt og hjá Skallagrími. Einnig kemur fram að á einu þeirra, Barðsvík, voru 14 þrælar hafðir til vinnu. Barðsvík er harðbalakot þar sem búskapur hefur frá upphafi grundvallast á nýtingu sjávar. Þar hafa 14 þrælar lítið að gera annað en að stunda veiðar í einu eða öðru formi. Það er því fremur augljóst að þrælar Geirmundar voru að veiða sjávarspendýr á Hornströndum, auk þess að taka fugla, egg og draga fiska.

Við þetta er einnig að bæta að sá sem hér ritar er ættaður af Ströndum norður. Afi hans og áar mann fram af manni bjuggu þar samkvæmt hinu gamla spakmæli: „Föðurland vort hálft er hafið“. Því er algerlega augljóst af heimildum og búskaparsögu Norðurstranda og Hornstranda að þar skiptu ýmiss konar veiðar eða hlunnindi höfuðmáli fyrir lífsafkomu íbúanna. Ég hlýt því að endurtaka orð úr fyrri álitsgerð minni: „Þannig getur það ekki talist höfundarvarin túlkun neins manns að, Geirmundur hafi verið í forsvari fyrir slíka veiðimenningu á Hornströndum líkt og Bergsveinn heldur fram.“[40]  

Veiðiþrælaviðskiptalíkan

Flestir fræðimenn eru sammála um að ánauðugt vinnuafl hafi verið flutt til Íslands á landnámsöld enda birtast þrælar okkur mjög víða í rituðum heimildum, bæði við veiðar og búfjárhirðingu ýmiss konar. Í bók minni Eyjan hans Ingólfs er fjallað um ánauðugt vinnuafl í samhengi við ágæta grein þeirra Ragnars Árnasonar og Önnu Agnarsdóttur, „Þrælahald á þjóðveldisöld,“ sem birtist í Sögu árið 1983.[41] Þar setja þau fram klassískt hagfræðilíkan til þess að skýra efnahagslegar forsendur þrælahalds á Íslandi og síðan endalok þess á elleftu öld. Það sem skiptir mestu máli í þessu líkani er framboð af frjálsu vinnuafli annars vegar og landi eða auðlindum hins vegar þó að vitaskuld skipti tæknistig og framleiðsluverð einnig máli.

Samkvæmt þessu líkani leið þrælahald undir lok vegna þess að það borgaði sig ekki lengur eftir að aukið framboð af frjálsu vinnuafli hafði lækkað launastig og landrými minnkaði. En önnur niðurstaða þessa líkans er sú að við lítið framboð af frjálsu vinnuafli og mikið framboð af landi séu stórbú hagkvæmasta búskaparleiðin. Og búin verða stærri eftir því sem meiri skortur er á frjálsu vinnuafli og meira landrými er til staðar. Það var í þessu samhengi að ég notaði heitið „veiðiþræla-viðskiptalíkan“ í bók minni sem kallast á við lýsingar fornrita á stórbúskap hinna fyrstu landnámsmanna.

Í grein sinni í Sögu og álitsgerðinni „Stolið og rangfært“ telur Bergsveinn sig hafa sett fram efnahagslíkan í bók sinni LSV frá árinu 2013 um einhvers konar hringrás þar sem rostungsafurðir voru seldar til Írlands og fólk keypt í staðinn. Líklega myndu fæstir hagfræðingar fallast á að hér væri komið efnahagslíkan né að það væri flókið og margrætt, en látum það vera. Fyrir það fyrsta er ljóst að þetta rostungalíkan er hvergi sett fram í bók minni eða notað sem grunnur að eigin tilgátum eða ályktunum. Ég hef heldur enga trú á því að Geirmundur heljarskinn hafi verið þátttakandi í slíku líkani enda var hann með seinni mönnum til Íslands og þá kominn á efri ár. Þetta er raunar nokkuð sem Bergsveinn sjálfur gerir sér grein fyrir. Í upphaflegu álitsgerðinni segir hann í þessu samhengi: „Hið grátlega í þessum plagíarisma er að jafnan er farið vitlaust með það sem stolið er. … Þetta er til votts um brotakenndan stuld og þar af leiðandi merkingarlausan, því það sama «líkan» og Ásgeir sjálfur setur fram varðandi Geirmund heljarskinn er óhugsandi ef Geirmundur hefði komið svo seint út til Íslands, þegar landið var að mestu numið.“[42]

Bergsveinn staðfestir því sjálfur að hið flókna og margræða efnahagslíkan hins svarta víkings um útflutning á rostungum var aldrei sett fram í bók minni Eyjan hans Ingólfs þó að ég tæpi á orðinu líkan. Það hindraði hann þó ekki í því að skrifa síðar í sömu álitsgerð eftirfarandi: „Mætti tala um þetta «líkan Ásgeirs» sem rauðan þráð gegnum bókina, sem ég reyndar fæ ekki séð að hangi saman á öðru en þessum eina þræði.“[43] Þessi skrif hafa valdið mér nokkrum heilabrotum þar sem ég er fyrst ásakaður um að hafa misskilið líkanið og það sé þannig merkingarlaust í mínum meðförum en jafnframt á öll bók mín að vera byggð á því. Þetta er einfaldlega rökleysa.

Staðreyndin er þó sú að nefnt rostungalíkan Bergsveins var aldrei grundvöllur neinna ályktana eða tilgátna af minni hálfu. Þegar ég vísa til líkans er það hið klassíska hagfræðilíkan um nýtingu ánauðugs vinnuafls, sem var sett fram af þeim Ragnari Árnasyni og Önnu Agnarsdóttur. Ég get heldur ekki samþykkt að Bergsveinn hafi sett efnahagslíkan fram í LSV þó hann fjalli þar um rostungsveiðar – að minnsta kosti ekki í hinum hefðbundna skilningi hagfræðinnar. Þar vantar þó nokkuð upp á.

Enn og aftur tel ég útflutning á rostungsafurðum ekki hafa skipt miklu máli fyrir framvindu landnámsins enda er hvergi minnst á slíkan útflutning í Eyjunni hans Ingólfs. Aftur á móti hafa framleiðslumöguleikar á matvælum skipt gríðarmiklu máli fyrir þróun pólitísks valds á Íslandi líkt og fjallað er um í bók minni. Sjávarhlunnindi víkka út hinn þrönga framleiðslumöguleikajaðar (e. Production Possibility Frontier) sem fylgir hefðbundnum landbúnaði og gefa færi á því að fæða fleira fólk á einum stað – og safna um sig sveit vopnaðra manna líkt og Geirmundur heljarskinn virðist hafa gert. Dæmið af Þórólfi Mostraskegg er þó áhugaverðara þar sem hann samkvæmt lýsingu Eyrbyggju nær að byggja upp þing og goðorð í kringum blótveislur sínar þar sem gestir hans eru mettaðir á eyjafangi.

Ketill gufa og Gufa Ketilsson

Landnáma er til í þremur megingerðum – það er Sturlubók, Hauksbók og Melabók.[44] Af þeim er Sturlubók (sem Sturla Þórðarson lögmaður ritaði) best þekkt og hefur mótað söguskoðun Íslendinga um aldir. Melabók er minnst þekkt en frásögn hennar er í mörgum greinum ólík því sem segir í Sturlubók. Tökum til dæmis fyrsta landnámsmanninn, Ingólf. Í Sturlubók er hann sagður Arnarson. Í Melabók er hann sagður Björnólfsson, afkomandi Bjarnar bunu hins ágæta hersis í Sogni og í beinni frændsemi við helsta forystufólk landnámsins við Breiðafjörð, líkt og Björn austræna og Auði djúpúðgu. Ég tel engan vafa á því að Melabók hafi rétt fyrir sér í þessu efni, líkt og í mörgu öðru. Frásögn hennar myndar því kjarnann í bók minni Eyjan hans Ingólfs. Í bók sinni LSV gerir Bergsveinn ekki tilraun til þess að greina á milli þessara þriggja gerða Landnámu og virðist ekki nýta sér upplýsingar úr Melabók. Ingólfur er til að mynda kallaður Arnarson eftir Sturlubók. Þetta er samt atriði sem ætti að skipta Bergsvein miklu máli. Samkvæmt ættfærslu Melabókar er Ingólfur tengdur þeim bræðrum Geirmundi og Hámundi heljarskinni.

Ég leyfði mér að setja fram þá tilgátu í andsvörum mínum, „14 rangfærslum Bergsveins svarað“, að hinar mörgu meinlegu villur í heimildanotkun sem Bergsveinn gerðist sekur um við ritun álitsgerðar sinnar, „Stolið og rangfært“, stafi af því að hann hafi ekki þekkt til Melabókar. Það skýrir meðal annars þá ásökun að ég hafi stolið úr LSV þeirri hugmynd að þau Hjör og Ljúfvina, foreldrar Geirmundar heljarskinns, hafi búið á Ögvaldsnesi í Noregi. Svo vill til að í Melabók er hin merka ætt Geirmundar tengd við Ögvaldsnes og sagt berum orðum að þau Hjör og Ljúfvina hafi dvalist á Rogalandi. Það er því algerlega augljós ályktun í ljósi þess að Hjör konungur átti ríki á Rogalandi að hann hafi setið á Ögvaldsnesi líkt og aðrir konungar Rogalands, bæði fyrir og eftir hans tíð. Það er því ekki að undra að þessi ásökun um þjófnað sem Bergsveinn setti fram í álitsgerð sinni sé ein af mörgum sem gufuðu upp í Sögugrein hans.

Sama á við um þá ásökun hans að ég hafi stolið frá honum umfjöllun um Ketil nokkurn gufu sem var með seinni landnámsmönnum og hraktist milli verstöðva við Faxaflóa. Ásökunin var sett fram orðrétt með eftirfarandi hætti í títtnefndri álitsgerð: „ … hvergi eru í norrænum heimildum nefndar veiðar eða rostungar sem ástæður hrakninga Ketils. Þá tilgátu setti ég hinsvegar fram í LSV, og reyndi þannig að fá merkingu í söguna sem sagnabrot frá endalokum veiðimenningarinnar.“[45]

Í andsvörum mínum færi ég rök fyrir því að þessi ásökun stafi af því að Bergsveinn hafi ekki kynnt sér umfjöllun Melabókar um þennan hrakningsmann enda megi þar finna ítarlegri frásögn um ferðir hans sem vanti í umfjöllun LSV. Líklega hefur höfundur tekið það til sín þar sem hann leggst í síðbúna textafræðilega greiningu á sögunni um Ketil gufu í Sögugrein sinni undir hinni hógværu millifyrirsögn: „Námskeið í textafræði“.  

Málið snýst um það að Sturlubók Landnámu og Egilssaga tala um Ketil gufu Örlygsson en Melabók talar um Gufu Ketilsson. Þeir tveir eru ættfærðir með mismunandi hætti en annars eiga þeir eiginlega allt sameiginlegt. Báðir komu þeir seint til Íslands með fullt skip af þrælum. Báðir vildu þeir setjast að á Gufuskálum á Rosmhvalanesi en fóru síðan á Gufunes við Reykjavík, þaðan yfir á Mýrar hjá Gufá og þaðan yfir á Gufuskála á Snæfellsnesi. Og loks námu báðir land í Gufudal á Barðaströnd og settust þar að. Báðir áttu þeir þræl sem hét Skorri sem strauk frá þeim og gerðist landnámsmaður í Skorradal þar til hann var drepinn þar.

Ég tel einsýnt að þeir Ketill gufa og Gufa Ketilsson séu einn og sami maðurinn enda alls ekki óalgengt að ættartölur geti verið mismunandi á milli ólíkra gerðra Landnámu – samanber umfjöllun um ættrakningu Ingólfs hér að framan. Ég er heldur ekki sá fyrsti til þess að telja Ketil og Gufu sama mann. Í útgáfu sinni á Landnámu frá árinu 1968 telur Jakob Benediktsson að frásögnin um Gufu Ketilsson í Melabók komi beint frá hinni glötuðu Styrmisbók og Sturla lögmaður hafi síðan borið hana saman við umfjöllun Egilssögu um Ketil gufu – og sameinað í Sturlubók.[46] Að hans mati er auðsjáanlega um sama manninn að ræða og því er aðeins talað um Ketil gufu Örlygsson í megintexta Landnámu í hans útgáfu en ekki Gufu Ketilsson. Í Egilssögu segir frá því að þrælar Ketils hafi farið að Lambastöðum á Mýrum, borið eld að húsum og brennt inni heimilisfólk.  Þeir „brutu upp búr hans og báru út gripi og vöru; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu og fóru síðan út til Álftaness.“[47] Egilssaga segir líka frá því að Ketill gufa hafi kvænst Ýri dóttur Geirmundar heljarskinns. Þessum upplýsingum er líklega skeytt við frásögn Melabókar þegar hún er rituð í Sturlubók. Hins vegar inniheldur Melabók nokkur mikilvæg atriði um Ketil Gufu sem hafa tapast í Sturlubók, svo sem að Steinunn gamla hafi samið við Gufu um að fara frá Rosmhvalanesi, eða greitt honum fyrir, Ingólfur hafi rekið hann frá Gufunesi og auk þess hafi eiginkonan strokið frá honum.

Í námskeiði sínu um textafræði reynir Bergsveinn að færa rök fyrir því að þeir Ketill gufa og Gufa Ketilsson séu alls ekki sami maðurinn. Af þeim sökum hafi ekki verið nein ástæða fyrir hann að nýta upplýsingar úr Melabók um Gufu Ketilsson þegar hann fjallaði um Ketil gufu í LSV. Þess í stað hafi ég misskilið allt saman og misfarið með heimildir. Helsta röksemd Bergsveins fyrir þessu er sú – fyrir utan mismunandi ættrakningu – að bæði Ketill gufa og Gufa Ketilsson komi fyrir sem aðskildar persónur í Þórðarbók sem var rituð af Þórði Jónssyni í Hítardal á sautjándu öld. Eins og kunnugt er hafa aðeins nokkur blöð verið varðveitt úr hinni upprunalegu Melabók. Þórðarbók er samsteypurit af Sturlubók og Hauksbók en hefur textafræðilega þýðingu þar sem Þórður hefur haft Melabók fyrir framan sig og bætt inn klausum úr henni. Það er alls ekki einhlítt verkefni að aðgreina þessar klausur frá öðru efni í bókinni enda geymir Þórðarbók efni úr mismunandi áttum sem stundum stangast á. Til að mynda er Ingólfur bæði ættfærður sem Arnarson og Björnólfsson á mismunandi stöðum í bókinni. Sú staðreynd að Þórðarbók minnist bæði á Ketil gufu frá Sturlubók og síðan Gufu Ketilsson frá Melabók sannar því ekkert til né frá. Það ætti öllum nemendum í textafræði að vera ljóst.   

Vitaskuld eru Ketill gufa og Gufa Ketilsson sami maðurinn. Vart er hægt að búast við öðru en að Bergsveinn hefði nýtt sér umfjöllun Melabókar um Gufu Ketilsson við ritun LSV til þess að afla gleggri upplýsinga um sjálfan tengdason Geirmundar heljarskinns – ef hann hefði þekkt til Melabókar. Sú tilraun að halda því fram að þeir Ketill og Gufa hafi verið tveir einstaklingar er fremur ódýr útúrsnúningur eða þrætubókarlist.

En aftur að hinum meinta stuldi. Það er samt sameiginlegt með þeim Katli og Gufu að þeir tóku sér báðir bólfestu á Rosmhvalanesi og færðu sig síðan á milli helstu verstöðva við Faxaflóa. Eins og menn vita er orðið rosmhvalur hið forna norræna heiti yfir rostung. Það þarf því ekki sérstaklega mikið ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að veiðimaðurinn Ketill/Gufa hafi verið að fanga rosmhval á Rosmhvalanesi, né að hann/þeir hafi farið á milli þekktra verstöðva til að veiða rostunga, seli eða fiska, né heldur að það að þrælar hafi strokið frá þeim og stolið sér til matar sé til vitnis um að veiðarnar hafi gengið illa. Og loks hafi Ketill gufa leitað ásjár hjá Geirmundi heljarskinni eftir að eiginkonan strauk á brott og látið hann vísa sér til landa norðan Breiðafjarðar ásamt því að kvænast dóttur hans. Þessi litla saga fellur inn í allt það sem ritað hefur verið um rostungsveiðar við Faxaflóa og farið er yfir hér að ofan.

Þessi ólíki skilningur okkar Bergsveins á því hvort Ketill gufa og Gufa Ketilsson séu einn eða tveir menn ætti að sýna það svart á hvítu að aðkoman að þessari sögu er ólík. Téð saga af Katli/Gufu er líklega að miklu leyti þjóðsaga, samin í kringum Gufu-örnefni við Faxaflóa. Hún er alger hliðarsaga í bókum okkar beggja og það er mjög undarlegt að byggja stórar ritþjófnaðarásakanir á túlkunum á þessari litlu sögu. 

Niðurstaða

Leitin að svarta víkingnum er með raun og réttu söguleg skáldsaga miðað við þá frjálslegu notkun sem höfundur leyfir sér á túlkun og beitingu heimilda. Í formála hinnar íslensku þýðingar bókarinnar notar höfundur hugtakið „röksaga“ eða „ímyndun grundaða á þekkingu“ til þess að lýsa verkinu. [48] Í eftirmála er jafnframt sagt að verkið sé „formtilraun, viðleitni til að brúa bilið milli fræðimanns og rithöfundar og nota bæði heilahvelin samtímis. Útkoman er blendingur.“[49] Hins vegar virðist margt hafa breyst á þeim tæpa áratug sem liðið hefur frá útkomu bókarinnar. Mér virðist nokkuð ljóst af skrifum höfundar að hann hafi breytt um skoðun á verki sínu og vilji nú markaðssetja það sem sagnfræðirit og sjálfan sig í leiðinni sem helsta kunnáttumann Norðurlanda í íslenskum landnámsfræðum. Ég leyfi mér einnig að setja þá tilgátu fram að hinar opinberu árásir hans á mig hafi verið liður í þeirri áætlun. Sú markaðssetning hlýtur að stranda á skerjum, miðað við hvernig bókin var skrifuð í upphafi og hve frjálslega er farið með heimildir.

Í grein sinni í Sögu segir Bergsveinn frá því að hann hafi þróað „eigin gerð af heimildarýni“ sem hann kallar raunrýni(no. Realkritikk).[50] Mér sýnist af lýsingu af dæma að þessa aðferðafræði megi kalla konfektkassarýni þar sem höfundur leyfir sér að velja af eigin lyst þá mola sem honum líkar úr rituðum heimildum en hafna öðrum eftir eigin smekk. Hér er enn og aftur gott að taka dæmi. Í LSV er Geirmundur heljarskinn gerður að helsta forvígismanni landkönnunar og landnáms hérlendis þrátt fyrir að þess sjáist fremur lítil merki í rituðum heimildum. Þannig heldur Bergsveinn því fram að Geirmundur hafi komið hingað til lands í könnunarleiðangur árið 867,  án þess að nefna nokkra heimild því til stuðnings.[51] Í kjölfar þessa könnunarleiðangurs byggði hann upp „Geirmundarveldi“ á Íslandi sem fól í sér að nánast hver einasti landnámsmaður á Vestfjörðum vann með honum að veiðum og útflutningi á rostungi.[52] Landnáma segir aftur á móti að Geirmundur hafi tekið „það ráð að leita Íslands“ eftir að Haraldur konungur hárfagri vann sigur í Hafursfjarðarorrustu. Í Grettissögu er honum einnig lýst sem flóttamanni sem talar um að „leita sér annarra forráða“ eftir missi jarðeigna hans á Rogalandi. Þessi önnur forráð voru að sigla til Íslands ásamt öðrum sem flúðu ofríki Haraldar.[53] Þáttur Geirmundar í uppbyggingu Íslands er aukinheldur afgreiddur með einni setningu í Landnámu: „Lítt átti hann hér deilur við menn; hann kom heldur gamall út.“[54] Þessum heimildum er einfaldlega hafnað í LSV og tel ég nokkuð ljóst að hér hafi ímyndunin verið sterkari þekkingunni, svo skilgreining höfundarins sjálfs sé notuð.

Í ritdómi um íslensku útgáfu LSV, sem Gunnar Karlsson ritaði í Sögu árið 2019, eru gerðar alvarlegar athugasemdir við heimildanotkun og túlkanir bókarinnar og segir að ritverk af þessum toga séu „býsna ósambærileg við sagnfræði“. Nánar tiltekið segir Gunnar: „Enga einhlíta leið gefur Bergsveinn lesendum sínum til að greina á milli þess úr hvoru heilahvelinu ályktanir hans hafa sprottið.“ Hann fari „ógætilega með heimildir sem líta sagnfræðilega út, …“[55] Staðreyndin er því sú að engar tilgátur úr LSV hafa verið viðurkenndar innan fræðaheimsins og eftir þeim fræðilegu viðmiðum hefur Bergsveinn Birgisson enn sem komið er ekki lagt sjálfstætt framlag til þekkingar á landnámi Íslands.

Bergsveinn á aftur á móti heiðurinn af að hafa vakið áhuga almennings á landnáminu og komið hugmyndum um rostungsveiðar hér við land í almenna umræðu. Það kann hæglega að hafa haft óbein áhrif á hvernig fjallað er um upphaf landnáms af bæði leikmönnum og sagnfræðingum, og þar með talið af mér. Hann hefur einnig verið ötull í því að kynna sagnaarfinn á Norðurlöndum og fengið viðurkenningar fyrir það starf. Og er það vel. Þó að ég sé í grundvallaratriðum ósammála eiginlega öllum ályktunum og túlkunum sem koma fram í LSV þá hefði ég álitið að við værum samherjar í því að vekja áhuga almennings á landnámi Íslands og að þrátt fyrir allt væri ómaksins virði að lesa Landnámu. Það var ástæða þess að mín fyrstu viðbrögð þegar Bergsveinn setti ásakanir sínar fram voru þau að hringja í hann til að leiðrétta það sem ég taldi vera leiðan misskilning. Mér varð hins vegar strax ljóst af því samtali að málið snerist um eitthvað allt annað en rostungaveiðar Geirmundar heljarskinns.

Í fyrstu línu greinar Bergsveins í Sögu nefnir hann að ég sé „núverandi seðlabankastjóri“ – líkt og það sé mikilvægasti inngangspunkturinn. Sama á við um hina upphaflegu álitsgerð frá 8. desember 2021. Undir lokin segir jafnframt: „En ritstuldur sá sem ég tel Ásgeir Jónsson vera sekan um í þessu tilfelli er að sama skapi grafalvarlegt mál. Það gerir málið enn alvarlegra að seðlabankastjóri Íslands sé uppvís að þjófnaði á hugverkum annarra.“[56] Sögugreinin endar á eftirfarandi setningu: „Þá er að nefna hið augljósa, að annaðhvort gilda reglur og prinsipp um alla menn eða engan mann.“ Hvað er það sem er hið augljósa?

Svo vill til að ég er með doktorsgráðu í peningahagfræði og hagsögu, hef starfað í 20 ár hjá Háskóla Íslands og ritað margar greinar og bækur um hagsögu á ferli mínum þar. Bókin mín, Eyjan hans Ingólfs, var hins vegar skrifuð í frítíma mínum og ekki tengd störfum mínum fyrir Seðlabanka Íslands á nokkurn hátt. En það er víst aukaatriði. Það virðist skipta öllu máli fyrir málatilbúnað Bergsveins og málarekstur Siðanefndar á svig við lög og rétt að ég er „bankastjóri“ og það sem á engilsaxnesku kallast high profile target. Til þess voru víst refirnir skornir. En setjum þetta upp á annan hátt. Þótt ég sé skipaður seðlabankastjóri til fimm ára felur það ekki í sér að ég hafi vald yfir bókmenntaheiminum né sagnfræðirannsóknum á Íslandi eða geti í krafti embættis míns farið fram á einhverja sérmeðferð. Öðru máli gildir um Bergsvein Birgisson sem er þekktur og viðurkenndur skáldsagnahöfundur bæði hérlendis og erlendis. Honum heppnast þannig í krafti stöðu sinnar að slaufa bók minni. Ásakanir hans birtust á forsíðum blaða, mér var meinað að halda opinberan fyrirlestur fyrir hans orð og enn sem komið er hefur ekki birst ritdómur um bók mína í neinum fjölmiðli á Íslandi.

Hin stóra ásökun Bergsveins sem hann setti fram í álitsgerð sinni þann 8. desember 2021 var að ég hefði stolið tilgátu hans um rostungastórveldi Geirmundar og byggt bók mína á henni. Tala megi um tilgátuna „sem rauðan þráð gegnum bókina, sem ég reyndar fæ ekki séð að hangi saman á öðru en þessum eina þræði“, segir þar orðrétt. Ég fæ enn ekki skilið hvernig hægt var að halda þessu fram þar sem ég hef enga trú á téðri rostungakenningu og hún er sannanlega hvergi sett fram í bók minni. Þar fyrir utan er hún auðsjáanlega skáldskapur líkt og Gunnar Karlsson setur svo snyrtilega niður á blað í ritdómi sínum. Þá er einnig nöturlega augljóst að aðrar ásakanir Bergsveins byggðust á rangri og flausturslegri heimildavinnu af hans hálfu.

Nú þegar Bergsveinn gerir aðra og öllu yfirvegaðri tilraun til þess að sanna upp á mig stuld í Sögugrein sinni er það heldur lítið sem stendur eftir. Nær allar ásakanir sem hann setti fram í kæru sinni til Siðanefndar í desember 2021 hafa horfið sporlaust og raunar gerir hann ekki lengur tilraun til þess að fylgja eftir hinni upphaflegu stóru ásökun um að bók mín sé byggð á tilgátu hans um rostungsútflutning. Samt heldur Bergsveinn enn á lofti sömu ærumeiðandi upphrópunum um stuld. Já – er ekki komið mál að linni?


[1] Bergsveinn Birgisson, Leitin að svarta víkingnum. Íslensk þýðing: Eva Hauksdóttir og Bergsveinn Birgisson (Reykjavík: Bjartur, 2016).

[2] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært – um Eyjuna hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónsson,“ Vísir.is, 8. desember 2021 ,sótt 18. september 2022.

[3] Vef. „Ásgeir hringdi í Bergsvein vegna ásakana,“ Fréttablaðið.is, 9. desember 2021, sótt 18. september 2022.

[4] Vef. „Gæti dregið seðla­bankastjóra fyrir dóm í Noregi,“ Fréttablaðið.is, 10. desember 2021, sótt 18. september 2022.

[5] Ofangreint bréf Siðanefndar til mín var ódagsett og óundirritað en sent til mín af ritara nefndarinnar þann 20. desember 2021.

[6] Vef. „Siðareglur gefi tilefni til „víðra túlkana“,“ Mbl.is, 17. desember 2021, sótt 18. september 2022.

[7] Bergsveinn Birgisson, „Beiðni um að nefndarmaður siðanefndar víki til hliðar í máli vegna vanhæfis“. Bréf dagsett og undirritað þann 6. janúar 2022. Þetta bréf kom fyrir almenningssjónir í frétt á Vísir.is: Vef. „Bergsveinn telur fulla ástæðu til að vantreysta siðanefnd Háskóla Íslands,“ Vísir.is, 31. janúar 2022, sótt 18. september 2022.

[8] Vef. Henry Alexander Henrysson, Sólveig Anna Bóasdóttir og Skúli Skúlason, „Um afsögn Siðanefndar Háskóla Íslands,“ Vísir.is, 4. mars 2021, sótt 18. september 2022.

[9] Vef. „Prófessor emeritus telur ásakanir Bergsveins hæpnar,“ Vísir.is, 6. janúar 2021, sótt 18. september 2022.

[10] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir Bergsveins Birgissonar á hendur Ásgeiri Jónssyni um ritstuld,“ fylgiskjal með „Prófessor emeritus telur ásakanir Bergsveins hæpnar,“ Vísir.is, 6. janúar 2021, sótt 18. september 2022.

[11] Vef. „Ásgeir pantaði álitsgerð til að hreinsa sig af ásökunum um ritstuld,“ DV.is, 6. janúar 2021, sótt 16. september 2022;

Vef. Jóhann Þorvarðarson, „Að kaupa sér sakleysi hjá vin,“ Miðjan.is, 6. janúar 2021, sótt 16. september 2022.

[12] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað,“ Vísir.is, 15. febrúar 2022, sótt 18. september 2022.

[13] Bergsveinn Birgisson, „Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi,“ Saga 55, nr. 1 (2022): 168–191.

[14] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[15] Bergsveinn Birgisson, „Stutt leiðrétting á yfirsjón í greinargerð minni, sem send var til Siðanefndar 8. desember 2021“. Ódagsett en undirritað bréf í vörslu höfundar; Vef. „Ásgeir segir auðvelt að sanna sakleysi sitt,“ Mbl.is, 16. desember 2021, sótt 18. september 2022.

[16] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[17] Sjá til að mynda: Dagfinn Skre o.fl., „The Beginning of the Viking Age in the West,“ Journal of Maritime Archaeology 14, nr. 3 (2019): 43–80; Dagfinn Skre, „Norðvegr – Norway: From Sailing Route to Kingdom,“ European Review 22, nr. 1 (febrúar 2014): 34–44; Donnchadh Ó Corráin, „Vikings in Ireland and Scotland in the Ninth Century,“ Peritia 12 (1998): 296–339.

[18] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“.

[19] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[20] Jakob Benediktsson (ritstj.), Íslendingabók og Landnámabók (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1968), 176–177. 

[21] Sama heimild.

[22] Grettis saga Ásmundssonar (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1986), 8. 

[23] Sama heimild, 10. 

[24] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[25] Vef. „Rostunga­kenningin hreint ekki ný af nálinni,“ Vísir.is, 13. desember 2021, sótt 20. september 2022.

[26] Elizabeth Pierce, „Walrus Hunting and the Ivory Trade in Early Iceland,“ Archaeologia Islandica 7 (2009): 55–63.

[27] Bjarni F. Einarsson, „Róum við í selin, rostungs út á melinn. Um rostunga við Íslandsstrendur,“ Fjöruskeljar. Afmælisrit til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri 29. mars 2011 (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2011), 31–52.

[28] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir Bergsveins Birgissonar á hendur Ásgeiri Jónssyni um ritstuld“.

[29] Bjarni F. Einarsson, Hilmar J. Malmquist, Snæbjörn Pálsson og Ævar Petersen, „Rostungar við Ísland til forna. Mannvistfræði og menningarsögulegt gildi,“ Skírnir 196 (vor 2022): 126–172.

[30] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[31] Egils saga Skallagrímssonar (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1983), 75. 

[32] Helgi Þorláksson „Rostungur og Reykjavík,“ í Reykjavík 871 +-2. Landnámssýningin = The Settlement Exhibition, ritstj. Bryndís Sverrisdóttir (Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur, 2006), 34–35.

[33] Bergsveinn Birgisson, „Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi,“ 182.

[34] Sama heimild, 179–181.

[35] Jakob Benediktsson (ritstj.), Íslendingabók og Landnámabók, 155. 

[36] Eyrbyggja saga (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1985), 10. 

[37] Egils saga Skallagrímssonar, 76. 

[38] Sama heimild, 75. 

[39] Jakob Benediktsson (ritstj.), Íslendingabók og Landnámabók, 155. 

[40] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“.

[41] Ragnar Árnason og Anna Agnarsdóttir, „Þrælahald á þjóðveldisöld,“ Saga 121 (1983): 5–26.

[42] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[43] Sama heimild.

[44] Þegar vísað er til Melabókar er átt við Landnámabók, Melabók AM 106. 112 fol., gefin út af Kommissionen for det Arnamagnæanske legat (Kaupmannahöfn: Gyldendal, 1921).

[45] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

[46] Jakob Benediktsson (ritstj.), Íslendingabók og Landnámabók, 66–67. 

[47] Egils saga Skallagrímssonar, 241. 

[48] Bergsveinn Birgisson, Leitin að svarta víkingnum, 24–25.

[49] Sama heimild, 328.

[50] Bergsveinn Birgisson, „Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi,“ 181.

[51] Bergsveinn Birgisson, Leitin að svarta víkingnum, 191.

[52] Sama heimild, 227–228.

[53] Grettis saga Ásmundssonar, 7. 

[54] Jakob Benediktsson (ritstj.), Íslendingabók og Landnámabók, 155. 

[55] Gunnar Karlsson, „Bergsveinn Birgisson, LEITIN AÐ SVARTA VÍKINGNUM,“ Saga 57, nr. 2 (2019): 229–232, hér 231, 233.

[56] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært“.

Deila:

Annað efni