Skip to content
Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Ritdómur
Helgi Skúli Kjartansson
Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Ritdómur

Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar skrifuðu sjálfir birtust þar á næstu árum nokkrar úrvalsgóðar BA-ritgerðir sem staðfestu eftirminnilega þær framfarir sem þá höfðu orðið í sagnfræðinámi við Háskóla Íslands.

Smárit Sögufélags er yngri ritröð og að sumu leyti arftaki hinnar fyrri. Hefur Már Jónsson reynst þar drjúgur drifkraftur, sem útgefandi, ritstjóri og þýðandi. Hér ritstýrir Már endurskoðaðri BA-ritgerð nemanda síns, Jóns Kristins Einarssonar, og reynist hún ekki síðri en þær sem athygli vöktu fyrir 40 árum.

Rannsóknin er þrengri en ætla mætti af heiti bókarinnar. Hún snýst um þau vandræði sem eldklerkurinn, Jón Steingrímsson, kom sér í á öðru sumri Skaftárelda með því að opna peningasendingu, sem hann hafði átt að skila innsiglaðri frá stiftamtmanni til sýslumanns, og ráðstafa í heimildarleysi nokkru af þeim 600 ríkisdölum sem hún hafði að geyma. Hér kafar Jón Kristinn í samtímaskjöl sem sýna atburðarásina í smáatriðum og breyta verulega þeirri mynd sem Jón átti eftir að gefa af henni og höfð hefur verið fyrir satt. Peningarnir voru ekki samskotafé frá Danmörku heldur teknir úr sjóði tugthússins í Reykjavík. Þeir voru utan við þá neyðarhjálp sem reynt var að skipuleggja í Móðuharðindunum og átti að nota þá til þess eins að koma upp bústofni á jörðum sem eyðst höfðu í bili en orðið byggilegar á ný. Og gripina mátti ekki kaupa á Suðurlandi, þar sem eftirspurn eftir búpeningi var þegar langt umfram framboð og verðið eftir því, heldur vonaðist stiftamtmaður til að kaupa mætti kýr og hesta austan Skeiðarársands.

Ég hélt ég hefði staðið Jón Kristin að ónákvæmni þegar hann talar ýmist um gripakaup „í Múlasýslum“ (114) eða „í Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu“ (117). En það er hvort tveggja rétt og sýnir ólík stig í ráðagerðum stiftamtmanns. Þegar hann fékk slæmar fréttir af ástandinu á Suðausturlandi fór hann að binda vonir við Mið-Austurland – af því að hann vissi ekki ennþá að þaðan var sömu sögu að segja.

Atburðarakning Jóns Kristins leiðir líka í ljós að séra Jón var engan veginn einn á báti í þessu máli, heldur tóku bæði sýslumaður og klausturhaldari þátt í óheimilli ráðstöfun peninganna. Af því leiðir meginniðurstaða rannsóknarinnar: að peningasendingarmálið spegli árekstur milli hefðbundinnar hentugleikastjórnsýslu Íslendinga og nýrrar kröfu danskra yfirvalda um agaða og ábyrga stjórnsýslu. Sú ályktun er bæði vel rökstudd og mikilvæg.

Þessa þröngu og nákvæmu rannsókn tekst Jóni Kristni, í merkilega stuttu máli, að setja í samhengi við almennari atriði: æviferil Jóns Steingrímssonar; atburðarás Móðuharðindanna; tilraunir til neyðarhjálpar; viðbrögð við fyrri áföllum aldarinnar, harðindum og fjárkláða; og ekki síst þróun „kameralismans“, hinnar nýju stefnu um hagstjórn og stjórnsýslu. Reynist hann hafa glögga yfirsýn yfir heimildir og rannsóknir, innlendar sem erlendar.

Þessi bók er kannski í þykkara lagi af „smáriti“ að vera, enda geymir hún í rauninni tvö ritverk, nokkurn veginn jafnlöng. Annað er hin ágæta BA-ritgerð Jóns Kristins Einarssonar, en þótt hann sé á titilblaði tilgreindur sem höfundur bókarinnar, og Már Jónsson sem ritstjóri, þá er „Viðauki um Skaftárelda“ (121–238) allt annars konar, ekki verk Jóns Kristins og Már þar ekki ritstjóri heldur útgefandi.

Viðaukinn er útgáfa tíu heimildatexta, gerð eftir handritum þótt flestir hafi þeir verið prentaðir áður. Aðallega eru valdar til útgáfu lýsingar á Skaftáreldunum sjálfum og afleiðingum þeirra (nr. 1–4, 6, 10), flestar ritaðar af séra Jóni, þar á meðal hið kunna „Eldrit“ hans sem fyllir meirihluta viðaukans. Þar við bætist efni sem beinlínis varðar hina umdeildu peningasendingu: tvö bréf frá Jóni, annað áður óprentað, og partar af tveimur óútgefnum bréfum Thodals stiftamtmanns.

Ekki kemur fram hvað ræður vali þessara heimilda. Ef viðaukinn væri hugsaður út frá ritgerð Jóns Kristins hefði mátt birta meira af áður óprentuðum heimildum, til dæmis bréfum eldklerksins, stiftamtmanns og Skálholtsbiskupa sem eru meðal lykilheimilda ritgerðarinnar. Eða heimildir fyrst og fremst um peningasendinguna og málið sem af henni spratt; þá hefði til dæmis verið ástæða til að birta eina þrjá kafla úr sjálfsævisögu Jóns en varla nema einn úr Eldritinu (227–229 í viðaukanum). En hér er óþarfi að fjölyrða um það sem ekki var gert og meiri ástæða til að fagna útgáfu Más sem er aðgengileg, vönduð og efnið athyglisvert þó það sé ekki endilega lesið í samhengi við ritgerð Jóns Kristins. Már er vandvirkur og þaulvanur heimildaútgefandi og hefur tamið sér ákveðið handbragð. Smámuni má alltaf gera að álitum, svo sem af hverju nútímareglum er fylgt miklu fastar um stafsetningu en um greinarmerki, en aðferð Más er einkar heppileg til að sýna lesanda heimildina nokkurn veginn orðrétt án þess að ritháttur skyggi á inntakið.

Hér eru sem sagt tvö rit í einni kápu, ágætlega heppnuð hvort á sinn hátt og bæði einkar fróðleg, ritgerðin um peningasendingarmál eldklerksins, viðaukinn um Skaftárelda og Móðuharðindi. Ýmislegt flýtur svo með sem líka er fróðlegt út af fyrir sig. Um það skulu nefnd tvö dæmi, hvort úr sínum hluta.

Þar sem Jón Kristinn segir frá seðlunum úr sjóði tugthússins minnir hann á (76–81) að frá 1778 höfðu Danir gefið út sérstaka kúrant-seðla fyrir Ísland, með íslenskum texta á bakhlið en þó gjaldgenga um allt ríkið. Er það athyglisverður áfangi í peningasögu Íslands.

Í viðaukanum má benda á eitt af bréfum séra Jóns þar sem fram kemur (164) að hann hafði sem prófastur milligöngu um að piltur austur í Hornafirði þreytti sem heimapróf „examen theologicum“ á vegum Skálholtsbiskups. Þar sem próftakinn var þegar útskrifaður frá prestaskólanum í Skálholti (hafði raunar lært undir skóla hjá Jóni Steingrímssyni sjálfum) er þetta ekki aðeins gamalt dæmi um „dreifnám“ heldur um framhaldsnám í guðfræði sem ég vissi ekki til að hefði verið í boði á Íslandi.

Bókarhlutunum fylgja sameiginlegar skrár, heimildaskrá og nafnaskrá. Þá síðari er ekki reynt að gera alveg tæmandi, enda er í viðaukanum grúi af nöfnum sem bregður fyrir án þess að varða samhengi frásagnarinnar. Þannig er til dæmis guðfræðineminn hornfirski skráður, enda líka nefndur í ritgerð Jóns Kristins, en ekki sá „séra Bergur … emeritus“ sem sat yfir í prófinu. Að það hafi vafalaust verið Bergur Guðmundsson í Bjarnanesi er fróðleikur sem ég get fallist á að ekki hafi verið nauðsynlegt að grafa upp fyrir nafnaskrána.

Útlit bókarinnar og umbrot er allt hið snyrtilegasta. Augljósar prentvillur sá ég ekki, örfáa hnökra sem hefði mátt leiðrétta, en ekki áberandi né bagalega. Sem dæmi má nefna tvo þá fyrstu: að ritraðarheitið er aðeins á bókarkápu en ætti að sjást á titilblaði líka, og að heimildatextana tíu vantar í efnisyfirlit.

Jón Steingrímsson og Skaftáreldar er rit sem aðstandendur mega vera stoltir af. Það er hluti af öflugu og vel heppnuðu útgáfustarfi Sögufélags nú síðustu árin, viðbót við margvíslega heimildaútgáfu Más Jónssonar, og einkar glæsileg frumraun ungs sagnfræðings, Jóns Kristins Einarssonar. Lesendur Sögu mega hlakka til að sjá meira frá hans hendi.

Deila:

Annað efni