Í gegnum járntjaldið. Íslenskir popparar í austurvegi á síðustu árum kalda stríðsins
Ferðir íslenskra poppara austur fyrir járntjaldið voru fátíðar í kalda stríðinu enda litu yfirvöld í kommúnistaríkjum á vestræna dægurtónlist sem ógn við sósíalíska menningu og stjórnarfar. Á níunda áratug síðustu aldar fóru tveir vinsælustu dægurtónlistarflytjendur Íslands, Björgvin Halldórsson og Stuðmenn, í slíkar tónleikaferðir -- Björgvin ásamt hljómsveit til Sovétríkjanna árið 1982 og Stuðmenn, eða Strax, til Kína árið 1986. Tildrög ferðanna og umfjöllun um þær eru hér skoðaðar í samhengi við dægurmenningu og hlutverk hennar í hugmyndafræðilegum átökum stórveldanna. Í greininni er ótti sovéskra yfirvalda við spillingaráhrif íslensku popparanna greindur sem og atbeini og þróun viðhorfa íslensks tónlistarfólks á þessum síðustu árum kalda stríðsins.