Skip to content

Senda inn efni

Allt innsent efni, þ.m.t. greinar, ritdóma og ritfregnir, skal senda til ritstjóra á netfangið saga@sogufelag.is. Almennt eiga ritreglur Sögu við um allt innsent efni.

Ritstjórar og ritnefnd Sögu bera ritstjórnarlega ábyrgð á öllu efni tímaritsins og er ritnefnd þeim til stuðnings í því efni. Höfundar efnis sem birtist í Sögu bera höfundarábyrgð á öllum þeim texta sem þeir skila inn. Sögufélag og ritstjórn Sögu starfa eftir siðareglum Sagnfræðingafélags Íslands

Handrit skal senda á rafrænu formi. Allar blaðsíður skulu tölusettar og texti með að minnsta kosti 3 cm spássíu, 12 punkta letri og tvöföldu línubili. Heiti greinar, nafn höfundar, heimilisfang, símanúmer og netfang komi fram á fyrstu síðu. Einnig fylgi með upplýsingar um höfund þar sem fram komi fæðingarár hans, síðasta prófgráða og núverandi starf. Handrit skal senda á netfang Sögu (saga@sogufelag.is).

Saga tekur við greinum á íslensku og ensku. Greinar sem skrifaðar eru á ensku fara í gegnum ritrýniferli á því tungumáli en eru þýddar af viðurkenndum þýðanda sem tímaritið útvegar áður en tímaritið fer í prentun. Æskilegt er að höfundur standi straum af kostnaði við þýðinguna. Mögulegt er að birta enskar greinar á frummálinu á vefsíðu Sögu og skal það gert í samráði höfundar, ritstjóra og útgefanda.

Hámarkslengd ritrýndra greina er 10.000 orð að meðtöldum neðanmálsgreinum. Ekki er tekið við handritum greina sem eru lengri en sem því nemur. Viðhorf, sjónrýni og aðrar óritrýndar greinar skulu að jafnaði ekki vera lengri en 8.000 orð.

Greinum skal fylgja efniskynning (8–10 línur) sem birt verður fremst og útdráttur (um 400 orð) sem birtur verður á ensku (abstract) í lok greinar. Ritstjórar sjá um að snúa textanum á ensku ef þess er óskað. Texti sem skilað er á ensku er yfirfarinn af þýðanda fyrir birtingu. Útdráttur verður einnig birtur á vefsíðu Sögufélags (www.sogufelag.is) bæði á íslensku og ensku.

Vilji höfundur færa stofnunum, samtökum eða einstaklingum þakkir fyrir veitta aðstoð skal það gert í fyrstu neðanmálsgrein á eftir fyrstu málsgrein. Gæta skal þess að ekki má setja tilvísunarnúmer á eftir titli né í efniskynningu. Ef greinin byggist að einhverju leyti á fyrirlestri eða námsritgerð, svo dæmi sé tekið, skal þess einnig getið á þessum stað.

Töflur og skýringarmyndir skulu tölusettar í þeirri röð sem þær birtast í greininni. Efst í þeim komi lýsandi titill en heimildir og skýringar neðst. Þær má einnig senda í sérstöku skjali en höfundur merki þá í textanum hvar þær eigi að vera.

Höfundur skal aðstoða ritstjóra við að útvega myndir sem eiga að birtast með greininni, sé þess óskað, og semja myndatexta í samvinnu við þá. Ákvarðanir um notkun myndefnis skulu teknar að fengnu samráði við ritstjóra.

Saga er ritrýnt tímarit.

Ritstjórar lesa yfir fyrstu gerð handrits og leggja mat á hvort það eigi erindi til birtingar í Sögu. Sé handrit samþykkt af ritstjóra fer það í ritrýniferli þar sem að lágmarki tveir sérfræðingar leggja mat á verkið og leggja til við ritstjóra hvort það skuli samþykkt eða því hafnað. Á grundvelli álits þeirra ákveða ritstjórar hvort viðkomandi texti verði birtur. Þess er ætíð gætt að fræðimenn með sérþekkingu á efni þeirra greina sem ritinu berast lesi þær yfir. Höfundar fá þá í hendur umsögn ritrýna og ritstjóra. Stundum er birting samþykkt með fyrirvara um að höfundur geri umtalsverðar breytingar á handriti sínu. Sjá einnig sérstakar leiðbeiningar fyrir ritrýna.

Breytingar í umbroti eru kostnaðarsamar.

Eftir að höfundur hefur skilað endanlegri gerð af handriti er það lesið yfir af prófarkalesara Sögu. Að því búnu fer það í umbrot. Höfundur fær eina próförk til yfirlestrar. Honum er ekki gefinn kostur á að breyta texta í próförk nema um minniháttar leiðréttingar á villum sé að ræða. Þess vegna er mikilvægt að lögð sé mikil alúð við lokagerð handrits. Óski höfundur hins vegar eftir því að gera breytingar á umbrotnum texta umfram það sem hér hefur verið lýst þá ber hann allan kostnað af því sjálfur. Slíkar breytingar eru þó aðeins mögulegar svo fremi að ekki hljótist af því tafir á vinnsluferlinu.

Birtingatöf

Saga er ekki í opnum aðgangi og því er einungis hægt að lesa á netinu þau tölublöð sem eru eldri en þriggja ára. Í birtingartöf felst að óheimilt er að birta greinina á öðrum vettvangi, þ.m.t. vefsíðum höfunda á borð við ResearchGate og Academia.edu, í þrjú ár frá útgáfudegi. Allar undanþágur frá birtingartöf eru háðar leyfi útgefanda.