Skip to content

Um Sögu

Um Sögu

Tímaritið Saga er ritrýnt tímarit á sviði sagnfræði sem komið hefur út síðan árið 1949. Það hefur um margra áratuga skeið verið helsta fagtímarit sagnfræðinga á Íslandi og telst jafnframt meðal fremstu fræðirita sem gefin eru út á íslensku. Saga er eina fagtímaritið í heiminum sem er sérhæft á sviði Íslandssögu. Það er líka eina tímaritið á sviði Íslandssögu sem er almennt tímarit og hefur að ritstjórnarstefnu að gefa breiða mynd af rannsóknum í íslenskri sagnfræði. Einnig leggja ritstjórar áherslu á faglega umræðu um það sem helst er á döfinni í fræðigreininni og önnur álitamál er varða akademískar sagnfræðirannsóknir. Saga er auk þess í fararbroddi þegar kemur að umfjöllun um rannsóknir og birtir ítarlega ritdóma um ný innlend sagnfræðiverk og erlend verk sem snúa að sögu Íslands. 

Sögu er ætlað að vera leiðandi tímarit á sviði sagnfræði og tengdra fræðagreina hér á landi. Starfshættir þess taka mið af ströngum fræðilegum kröfum og er megin áhersla tímaritsins á birtingu fræðigreina sem byggja á nýjum rannsóknum eða veita nýja sýn á Íslandssöguna. Í hverju hefti birtast að jafnaði 3–5 ritrýndar greinar. Allar greinar fara í gegnum tvíblinda ritrýni hjá sérfræðingum á viðeigandi sviði.

Ritstjórar leggja jafnframt áherslu á að Saga sé lifandi vettvangur fyrir umræðu um rannsóknir á Íslandssögu og hugmyndir og aðferðir við ritun og miðlun sögu almennt. Birtar eru styttri greinar um margvísleg fræðileg álitamál og sögulega aðferðafræði og heimildir, auk vandaðra og ítarlegra ritdóma um ný sagnfræðiverk.

Þannig er markmiðið að Saga gegni lykilhlutverki við miðlun rannsókna og nýrrar þekkingar á Íslandssögu til íslenskra lesenda, bæði leikra og lærðra, með fræðilegar kröfur og verklag að leiðarljósi.