Um Sögu
- Home
- Um Sögu
Um Sögu
Tímaritið Saga er ritrýnt tímarit á sviði sagnfræði sem komið hefur út síðan árið 1949. Það hefur um margra áratuga skeið verið helsta fagtímarit sagnfræðinga á Íslandi og telst jafnframt meðal fremstu fræðirita sem gefin eru út á íslensku. Saga er eina fagtímaritið í heiminum sem er sérhæft á sviði Íslandssögu. Það er líka eina tímaritið á sviði Íslandssögu sem er almennt tímarit og hefur að ritstjórnarstefnu að gefa breiða mynd af rannsóknum í íslenskri sagnfræði. Einnig leggja ritstjórar áherslu á faglega umræðu um það sem helst er á döfinni í fræðigreininni og önnur álitamál er varða akademískar sagnfræðirannsóknir. Saga er auk þess í fararbroddi þegar kemur að umfjöllun um rannsóknir og birtir ítarlega ritdóma um ný innlend sagnfræðiverk og erlend verk sem snúa að sögu Íslands.
Sögu er ætlað að vera leiðandi tímarit á sviði sagnfræði og tengdra fræðagreina hér á landi. Starfshættir þess taka mið af ströngum fræðilegum kröfum og er megin áhersla tímaritsins á birtingu fræðigreina sem byggja á nýjum rannsóknum eða veita nýja sýn á Íslandssöguna. Í hverju hefti birtast að jafnaði 3–5 ritrýndar greinar. Allar greinar fara í gegnum tvíblinda ritrýni hjá sérfræðingum á viðeigandi sviði.
Ritstjórar leggja jafnframt áherslu á að Saga sé lifandi vettvangur fyrir umræðu um rannsóknir á Íslandssögu og hugmyndir og aðferðir við ritun og miðlun sögu almennt. Birtar eru styttri greinar um margvísleg fræðileg álitamál og sögulega aðferðafræði og heimildir, auk vandaðra og ítarlegra ritdóma um ný sagnfræðiverk.
Þannig er markmiðið að Saga gegni lykilhlutverki við miðlun rannsókna og nýrrar þekkingar á Íslandssögu til íslenskra lesenda, bæði leikra og lærðra, með fræðilegar kröfur og verklag að leiðarljósi.
Ritstjórar Sögu
Kristín Svava Tómasdóttir er sagnfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur, síðast Stormviðvörun árið 2015. MA-ritgerð hennar fjallaði um sögu kláms á Íslandi 1969–1978 og árið 2018 kom út bók hennar um sama efni, Stund klámsins, sem Sögufélag gaf út. Verkið hlaut viðurkenningu Hagþenkis það árið. Kristín Svava var formaður Sagnfræðingafélags Íslands frá 2016 til 2019 en þá tók hún við sem annar ritstjóra Sögu.
Vilhelm Vilhelmsson er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Vilhelm er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands og fjallaði doktorsritgerð hans um vistarband á Íslandi á 19. öld. Hann hefur einnig lagt fyrir sig rannsóknir á sögu íslenskra vesturfara og aðlögun þeirra að kanadísku samfélagi í lok 19. aldar ásamt hugmynda- og hugarfarssögu 19. aldar. Árið 2017 gaf Sögufélag út bók hans, Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Sama ár tók Vilhelm við sem annar ritstjóra Sögu.
Ritnefnd Sögu er fagráð sem veitir ritstjórum ráðgjöf og aðhald í þeim tilgangi að halda á lofti faglegum gildum og fræðilegum vinnubrögðum við útgáfu tímaritsins. Nefndin samanstendur af tíu sérfræðingum með fjölbreyttan bakgrunn og sérþekkingu.
Á meðal hlutverka ritnefndar er:
- Að veita ritstjórum ráðgjöf varðandi stefnumörkun og vinnureglur (ritreglur o.s.frv.)
- Að veita álit sitt á vafaatriðum um ritstjórnarleg málefni
- Að ritrýna greinar óski ritstjórar þess
- Að ritstýra einstaka greinum komi hagsmunaárekstrar í veg fyrir faglegt hlutleysi ritstjóra
- Að tala máli tímaritsins í fræðasamfélaginu, hvetja höfunda til að birta efni í Sögu og vísa ritstjórum á álitlegt efni til birtingar
- Að taka þátt í árlegum fundi með ritstjórum þar sem staða Sögu er rædd, framtíðaráform, efni og efnistök og hvers kyns álitamál
Um val á ritnefndarmeðlimum
Ritnefndarmeðlimir eru valdir af stjórn Sögufélags eftir tillögu ritstjóra. Seta í ritnefnd skal vera í þrjú ár í senn en með möguleika á endurnýjun að þeim tíma liðnum.
- Ritnefndarmeðlimir skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á sínu sviði
- Í ritnefnd skulu vera sérfræðingar á öllum helstu sérsviðum sagnfræðinnar og í öllum tímabilum (miðaldir, árnýöld, nýöld, samtímasaga)
- Samsetning ritnefndar skal gæta jafnræðis hvað varðar kyn, stöðu og starfsaldur
- Leitast skal eftir að ritnefndarmeðlimir séu frá a.m.k. þremur aðskildum rannsóknarstofnunum sé þess kostur
Í ritnefnd Sögu eru:
Anna Agnarsdóttir, prófessor emerita í sagnfræði við Háskóla Íslands
Auður Magnúsdóttir, dósent í sagnfræði við Gautaborgarháskóla
Davíð Ólafsson, lektor í menningarfræði við Háskóla Íslands
Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Hans Andrias Sølvará, prófessor í sagnfræði við Fróðskaparsetur Føroya
Helgi Þorláksson, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands
Karen Oslund, prófessor í sagnfræði við Towson-háskóla
Óðinn Melsted, nýdoktor við Maastricht-háskóla
Páll Björnsson, prófessor í sagnfræði við Háskólann á Akureyri
Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
Ryan Eyford, dósent í sagnfræði við The University of Winnipeg
Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands
Ritrýniferli
Í hverju hefti Sögu birtast að jafnaði 3-5 ritrýndar greinar. Ritrýni felur í sér efnislega gagnrýni og mat á gæðum greina. Allar greinar fara í gegnum tvíblinda ritrýni hjá sérfræðingum á viðeigandi sviði.
Auk ritstjóranna lesa a.m.k. tveir nafnlausir ritrýnar allar greinar sem tekið er við. Efnið berst ritrýnum nafnlaust og ritrýnar njóta nafnleyndar þar sem ritstjórar gæta þess að höfundar fái engin þau gögn í hendur sem rekja má til ritrýna. Er í þessu samhengi stuðst við almennar venjur við útgáfu vísindatímarita en þar að auki beina ritstjórar þeim tilmælum til ritrýna að fylgja siðareglum þeim sem Committee on Publication Ethics hafa gefið út fyrir ritrýna vísindatímarita
Saga Sögu
Saga hóf göngu sína árið 1949. Fyrstu árin kom Saga út í örkum og var nokkrum árlegum arkarútgáfum síðan slegið saman í eitt bindi. Þetta veldur því að merktir árgangar útgáfunnar eru mun færri en útgáfuárin segja til um. Frá 1968 kom Saga út reglulega, eitt myndarlegt hefti á ári hverju. Frá árinu 2002 hefur Saga komið út í tveimur heftum árlega, að vori og hausti. Fram til þessa dags hafa því komið út 75 hefti af Sögu og í hvert hefti skrifa að meðaltali 20 höfundar.
Áður hafði Sögufélag gefið út tímaritið Blöndu á árunum 1918 til 1953 en segja má að um það leyti hafi Saga tekið við keflinu. Á árunum 1987 til 2001 gaf Sögufélag út Nýja sögu samhliða Sögu en með nýja ritinu vildu höfundar „svara kröfum tímans og leggja sitt af mörkum til þess að íslensk sagnfræði nái athygli sem flestra.“[1] Ný saga kom út á fyrri hluta árs og Saga á þeim síðari. Útgáfu fyrrnefnda ritsins var hætt þegar Saga hóf að koma út tvisvar á ári á aldarafmæli Sögufélags.
Ritstjórar Sögu frá upphafi
Einar Arnórsson (1950-1955)
Jón Jóhannesson (1954-1958)
Björn Sigfússon (1954-1976)
Björn Þorsteinsson (1960-1972)
Björn Teitsson (1972-1980)
Einar Laxness (1973-1978)
Jón Guðnason (1979-1983)
Sigurður Ragnarsson (1981-2001)
Helgi Þorláksson (1984-1986)
Sölvi Sveinsson (1987-1989)
Gísli Ágúst Gunnlaugsson (1990-1994)
Ragnheiður Mósesdóttir (1995)
Guðmundur Jónsson (1995-2002)
Guðmundur J. Guðmundsson (1995-2002, 2005, 2007)
Anna Agnarsdóttir (1995-1996)
Már Jónsson (1997-1998)
Hrefna Róbertsdóttir (2001-2006)
Páll Björnsson (2003-2008)
Eggert Þór Bernharðsson (2007-2008)
Sigrún Pálsdóttir (2009-2016)
Erla Hulda Halldórsdóttir (2017-2018)
Vilhelm Vilhelmsson (2017- )
Kristín Svava Tómasdóttir (2019- )