Skip to content

Japanska tímabilið í hvalveiðum Íslendinga, 1971-1990

Höfundur:
Kristín Ingvarsdóttir
Birtist í
Saga: Tímarit Sögufélags 2021 LIX:II
Ártal:
2021
Bls:
59-95
DOI:
10.33112/saga.59.2.2
Hvalveiðar hafa leitt saman Íslendinga og Japani bæði í viðskiptum og milliríkjasamstarfi. Hvalveiðar eiga sér langa sögu í báðum löndunum og á undanförnum áratugum hefur Íslendingum og Japönum oft verið skipað í sífellt fáliðaðri flokk hvalveiðiþjóða. Þótt hagsmunir landanna hafi vissulega oft farið saman er þó mikil einföldun að leggja löndin að jöfnu þegar kemur að hvalveiðum. Í þessari grein er horft til sögu hvalveiða í Japan og á Íslandi, viðhorfa gagnvart hvalveiðum og nýtingar á afurðinni. Fyrst og fremst er fjallað um tímabilið frá því að útflutningur hvalkjöts frá Íslandi til Japans hófst árið 1971 og þar til Íslendingar gerðu hlé á hvalveiðum árið 1990. Þetta tímabil er hér kallað japanska tímabilið í íslenskum hvalveiðum en þá miðast sala, vinnsla og milliríkjasamskipti Íslendinga um hvalveiðar í vaxandi mæli við Japan og Japansmarkað. Í greininni verður leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Hver hafa samskipti og tengsl Íslands og Japans verið varðandi hvalveiðar? Hver var aðdragandi þess að útflutningur á hvalkjöti hófst til Japans og í hverju fólust viðskiptin? Hvernig hafa hagsmunir Íslands og Japans farið saman í hvalveiðideilunni?