Skip to content

Þrældómur og frelsi. Áhrif repúblikanisma á frelsishugmyndir í sjálfstæðisbaráttunni og kvenfrelsisbaráttunni á nítjándu öld

Höfundur:
Sveinn Máni Jóhannesson
Birtist í
Saga: Tímarit Sögufélags 2021 LIX:I
Ártal:
2021
Bls:
83-117
DOI:
10.33112/saga.59.1.3
Fá fræðileg greiningarhugtök hafa notið meiri hylli í alþjóðlegri sagnaritun á undanförnum áratugum en repúblikanismi. Enn sem komið er hefur því þó lítið verið beitt við rannsóknir í íslensku samhengi. Í þessari grein verður gerð grein fyrir frelsishugmyndum í anda repúblikanisma og færð rök fyrir því að repúblikanismi hafi verið leiðarstef í íslenskri stjórnmálahugsun á nítjándu öld. Þátttakendur í sjálfstæðisbaráttunni og kvenfrelsisbaráttunni skilgreindu frelsið á pólitískan hátt sem sjálfstjórn og í andstöðu við þrældóm. Frelsi fælist í að vera óháð¬(ur) vilja og geðþóttaákvörðunum annarra en forsenda þess væri virk pólitísk þátttaka ásamt því að velja ávallt hið almenna gagn fram yfir einkahagsmuni og flokkadrætti. Neikvætt frelsi í anda frjálslyndis¬stefnu var gagnrýnt auk þess sem aukin sjálfstjórn Íslands var til lítils ef valdið yrði einungis í höndum fáeinna manna. Með því að beina sjónum að áhrifum repúblikanisma er markmiðið jafnframt að gera tilraun til að skrifa hugmyndasögu sem fjallar um stjórnmálaþátttöku beggja kynja. En þótt í auðn sé erum vér frjálsir, um skil skyldugir ok skatt aungvum; fellum heldr hug at hörðu frelsi, enn oki léttu ánauðugs glansa   John Milton, Paradísarmissir.1