Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2009 XLVII: I
Útgáfuár
2009
Tölublað
47
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
263
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2009 XLVII: I

Þær heita Catarina, Mette Maria, Magdalena og Anna Sophia og prýða forsíðu Sögu að þessu sinni. Catarina var eiginkona og barnsmóðir Lauritz Gottrups lögmanns á Þingeyrum, sem hefur ásamt einkasyninum, Jóhannesi, verið klipptur í burtu svo myndin af málverkinu passi í bókarbrotið. Um málverkið og fjölskylduna má lesa í umfjöllun þeirra Þóru kristjánsdóttur og Gunnars Hannessonar, sem skrifuð er í tilefni af forsíðunni og birtist í nýjum bálki Sögu sem ber heitið „Forsíðumyndin“. kápa Sögu verður því hér eftir ekki myndskreyting við efni ritsins heldur mynd á forsíðu með texta í tímaritinu.

Annar nýr bálkur frá og með þessu hefti er „Spurning Sögu“. Hugmyndin er að hann geti orðið vettvangur sagnfræðilegrar umræðu þótt ákveðið hafi verið að hefja leikinn með spurningu til stjórnmálamanna varðandi hugmyndir þeirra um eigin eftirmæli eða sögulega arfleifð. Hér er ekki endilega verið að bregðast við umróti í íslenskum stjórnmálum síðustu mánuði því hugmyndina má frekar tengja langlífri tilhneigingu stjórnmálamanna og þó einkum fjölmiðla til að vísa til sögunnar sem einskonar dómstóls í álitamálum samtímans í framtíðinni. Með þessari umfjöllun vill Saga sýna fram á að þetta hlutverk sögunnar á sjaldnast við rök að styðjast frá sjónarhóli nútímasagnfræði en jafnframt leiða í ljós afstöðu stjórnmálamannanna sjálfra til þessarar hugmyndar.

Fyrsta grein heftisins er eftir Guðmund Jónsson og fjallar um kreppur á Íslandi.  Aðrar greinar Sögu eru á sviði miðaldasögu og fyrri alda. Gunnar Karlsson fjallar um og gerir tilraun með nýtt sagnfræðilegt hugtak sem hann kallar tilfinningarétt. Aðalheiður Guðmundsdóttir fjallar um danskvæði sem heimildir um danssamkomur fyrri alda. Hjalti Hugason skrifar um deilur þeirra kolbeins Tumasonar og Guðmundur Arasonar biskups og skoðar þær í kirkjupólitísku ljósi. ein viðhorfsgrein er í Sögu að þessu sinni og er það svar Jóns Ólafssonar við harðri gagnrýni Þórs Whitehead á rannsóknir hans á samskiptum íslenskra kommúnista við komintern í aðdraganda stofnunar Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins árið 1938.

Viðtal Sögu er við Jóhann Pál Árnason, prófessor í sögulegum félagsvísindum, einn kunnasta núlifandi félags- og hugvísindamann Íslendinga. Jóhann Páll hefur gegnt prófessorsstöðum víða um heim en hóf fræðimannsferil sinn undir handleiðslu Jürgens Habermas við lok sjöunda áratugarins. Ritfregnir og ritdómar birtast í Sögu að vanda, þar af tveir ítardómar. Halldór Bjarnason skrifar um bók Sigurðar Gylfa Magnússonar, Sögustríð, en Páll Björnsson skrifar um umdeilda bók Guðjóns Friðrikssonar, Sögu af forseta. Þá er þess að geta að í Sögu birtast nú andmæli Gunnars Karlssonar og Rósu Magnúsdóttur við doktorsvörn Ragnheiðar Kristjánsdóttir 6. febrúar 2009.