Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2011 XLIX: II
Útgáfuár
2011
Tölublað
49:2
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
245
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2011 XLIX: II

Þjóðerni hefur verið fyrirferðarmikið rannsóknarefni fræðimanna síðustu ár. Í grein sinni um nýhúmaníska menntastefnu í íslensku skólakerfi á 19. öld dregur Clarence E. Glad fram nýjan og áður lítt kannaðan þátt í sögu íslenskrar þjóðernishyggju og færir rök fyrir áhrifum grísk-rómverskrar arfleifðar á sjálfsmynd Íslendinga, menningu og stjórnmálaumræðu.

Björn Jón Bragason skrifar grein um orsakir og aðdraganda einkavæðingar Búnaðarbankans í byrjun árs 2003 sem minnir okkur á að brátt munu tíðindi haustsins 2008 heyra sögunni til og verða í auknum mæli raunverulegt viðfangsefni sagnfræðinga.

Undanfarin ár hefur staðið yfir kynningarátak Sögu í erlendum háskólum sem kenna íslensku eða norrænar fornbókmenntir, og af því tilefni birtir tímaritið nú í fyrsta skipti grein á ensku með ítarlegum útdrætti á íslensku. Greinin er svar brasilísku fræðikonunnar Patriciu Pires Boulhosa við gagnrýni Helga Skúla Kjartanssonar á kenningu hennar um aldur Gamla sáttmála. A

Grein Skafta Ingimarssonar í þessu hefti, um bók Þórs Whitehead Sovét-Ísland, óskalandið, fjallar meðal annars um túlkun og val heimilda, nálægð fræðimanna við viðfangsefni og áhrif textaframsetningar á niðurstöðu rannsókna. Þá gera þrír höfundar athugasemdir við skrif um verk sín í tímaritinu, birt eru andmæli þeirra Önnu Dísar Rúnarsdóttur og Ragnheiðar Kristjánsdóttur við doktorsvörn Arndísar S. Árnadóttur, en ritgerð hennar fjallaði um sögu íslenskrar húsgagnahönnunar, og nokkrir sagnfræðingar skrifa ritdóma um bækur. Ritdómur um bók ritstjóra er birtur að frumkvæði ritnefndar Sögu sem einnig hafði umsjón með ritstjórn hans.

Spurning Sögu lýtur að hugmyndum um ævisagnaformið en þar velta fræðimenn úr ýmsum greinum því fyrir sér hvað ævisaga sé og hver sé staða hennar innan sagnfræði, hvort hún sé bókmenntaverk eða fræðirit, hvort hún sé aðferð eða form, hvort hún búi í efnisheimi sem stendur eftir að ævi manna er öll, hvort hefðbundin efnistök í ævisögu séu innbyggð í form hennar og þannig að einhverju leyti óhjákvæmileg.

Á kápu Sögu er falleg litmynd af kóngi og drottningu eftir Jón Bjarnason bónda í Vatnsdal frá því um miðja 19. öld.