Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2014 LII: I
Útgáfuár
2014
Tölublað
52:1
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
257
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2014 LII: I

Fyrsta grein þessa vorheftis Sögu er eftir Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur og fjallar um þróun garðræktar á Íslandi á síðari hluta 18. aldar og viðbrögð Íslendinga við átaki stjórnvalda til að efla ræktun matjurta meðal almennings. Guðmundur Hálfdanarson ræðir nýlenduhugtakið og skilning íslenskra stjórnmálamanna, danskra stjórnvalda og lögfræðinga á stöðu Íslands innan ríkisheildarinnar. Síðasta grein heftisins er eftir Sverri Jakobsson og fjallar um leiguhirðstjórn sem tekin var upp á Íslandi um miðja 14. öld, en í greininni færir Sverrir ýmis rök fyrir því að fyrirkomulagið sé ekki jafn vel afmarkaður þáttur í þróun íslenskrar stjórnskipunar og sagnfræðirit gefa til kynna.

Viðhorfsgreinar eru þrjár. Helga Kress bregst við grein Eggerts Þórs Bernharðssonar um sögulegar heimildir er varða morðið á Natani Ketilssyni með því að rýna nánar í texta dómabóka og merkingu einstakra orða sem þar koma fyrir. Loftur Guttormsson og Helgi Skúli Kjartansson fjalla um rannsóknir Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur á sögu siðaskiptanna á Íslandi og benda á ýmis vandkvæði sem fylgja því að skoða þróunina hér á landi í evrópsku samhengi, einkum þegar kemur að áhrifum þessara breytinga á fátækraframfærslu. Óðinn Melsteð kynnir okkur fyrir þeirri grein sagnfræði sem einblínir á manninn sem hluta af vistkerfinu sem hann tilheyrir, svonefndri umhverfissagnfræði.

Að venju birtir Saga andmæli við doktorsvörn í sagnfræði og að þessu sinni er það ritgerð Þorsteins Helgasonar, Minningar og saga í ljósi Tyrkjaránsins, sem er til umfjöllunar. Guðni Th. Jóhannesson skrifar ítardóm um sögur þriggja stjórnmálamanna sem komu út fyrir síðustu jól, þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Össurar Skarphéðinssonar. Ritdómar um tólf nýlegar bækur reka lestina auk ritfregnar um útgáfur í tengslum við svokallað Reykholtsverkefni.

Forsíðumyndin er eftir konu, af konu við klifur á hálendi Íslands fyrir um 70 árum.

No data was found