Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2014 LII: II
Útgáfuár
2014
Tölublað
52:2
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
163
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2014 LII: II

Ljósmyndin á forsíðu Sögu sýnir utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar steypta í vax. Lífrænt efni, seigfljótandi og umbreytanlegt, og þeim eiginleikum gætt að sá sem það meðhöndlar af færni getur líkt eftir holdi klæddum mannslíkama og framkallað sjónblekkingu sem varir þar til hið ókennilega augnablik rennur upp og stillan og þögnin leiða áhorfandann í sannleika um að myndin er dauður hlutur, eiginlega sjúklegur í raunveruleika sínum.

Fyrsta ritrýnda grein heftisins ber heitið „Nýr söguþráður. Hugleiðingar um endurritun íslenskrar stjórnmálasögu“. Hún er eftir Ragnheiði Kristjánsdóttur og fjallar um þá hefð sagnaritunar sem skapast hefur um þróun íslenskra stjórnmála á 20. öld og leiðirnar til þess að brjótast út úr þeirri hefð, m.a. með því að horfa á stjórnmál í víðari skilningi, t.d. í samhengi stjórnmálaskrifa og almennrar þátttöku innan stjórnmálaflokka.

Mat heimilda og takmarkaður aðgangur að þeim er viðfangsefni greinar eftir Guðna Th. Jóhannesson, en þar beinir Guðni sjónum sínum að breskum og bandarískum skjölum um íslenska bankahrunið. Síðustu grein þessa heftis skrifar Þorsteinn Helgason. Hún ber heitið „Minning sem félagslegt fyrirbæri“ og er gagnrýnið yfirlit yfir þau fræði sem fást við minni og minningu innan sagnfræði og annarra hugvísinda.

Ítardómur Sögu er um bókina Fjarri hlýju hjónasængur eftir Ingu Huld Hákonardóttur sagnfræðing. Inga Huld lést fyrr á þessu ári en bók hennar markaði þáttaskil þegar hún kom út fyrir um tuttugu og tveimur árum. Þá birtir Saga fjórar andmælaræður við tvær doktorsvarnir í sagnfræði, sem fram fóru í Háskóla Íslands 2013, en lestina reka tveir ritdómar um tvö ólík verk á sviði sagnfræði. Reyndar bíða nokkrar bækur á því sviði umfjöllunar og brátt bætist við þann lista. Saga mun kappkosta að gera skil eins mörgum þessara bóka og frekast er unnt í næsta hefti.