Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2016 LIV: II
Útgáfuár
2016
Tölublað
54:2
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
208
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2016 LIV: II

Fjórar ritrýndar greinar eru í heftinu.

Íris Ellenberger fjallar um félagslegar aðstæður lesbía á Íslandi og fléttar saman sögu kvennahreyfingarinnar og réttindabaráttu samkynhneigðra. Haukur Ingvarsson fjallar líka um félagsskap en af allt öðrum toga, Frjálsa menningu sem stofnuð var árið 1957. Félagið var hluti af alþjóðlegum andkommúnískum samtökum, Congress for Cultural Freedom, sem höfðu starfsemi í 35 þjóðlöndum. Sveinbjörn Rafnsson skrifar um griðarétt á Sturlungaöld út frá ólíkum heimildum en Rósa Þorsteinsdóttir um alþýðuhljóðfæri á Íslandi fyrir aldamótin 1900.

Í bálknum Sögur og tíðindi getur að líta tvær greinar. Sú fyrri er eftir Má Jónsson en þar er rakin fróðleg útgáfusaga skáldsögunnar Piltur og stúlka. Umfjöllun sína byggir Már meðal annars á bréfum Jóns Thoroddsen sem hann gaf nýlega út í ritröðinni Smárit Sögufélags. Síðari greinin er eftir Sólveigu Ólafsdóttur og segir þar frá litlum legsteini í Hólavallakirkjugarði. Steinninn prýðir einnig kápu tímaritsins.

Einar Laxness, sagnfræðingur og heiðursfélagi Sögufélags, lést í maí á þessu ári. Einar var ritstjóri Sögu frá 1973 til 1978 og eftir það forseti Sögufélags til ársins 1988. Sem höfundur fræðirita á sviði sagnfræði, einkum Íslandssögu a-ö, átti einar stóran þátt í að móta söguvitund bæði leikra og lærðra Íslendinga eins og Sverrir Jakobsson rekur í ítardómi þessa heftis.
Að lokum birtir Saga nokkra ritdóma um bækur sem komu út á árinu. Enn bíða þó nokkur mikilvæg rit umfjöllunar fram á vor.