Útgáfuár | 2019 |
---|---|
Tölublað | 57:1 |
Ritstjórar | Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson |
Blaðsíðufjöldi | 222 |
ISSN | 0256-8411 |
Saga: Tímarit Sögufélags 2019 LVII:I
Þrjár ritrýndar greinar eru í heftinu: Erla Hulda Halldórsdóttir skrifar um sagnaritun íslenskra kvenna fyrir tíma akademískrar kvennasögu, Árni Daníel Júlíusson fjallar um mannvíg og morð á Íslandi frá fimmtándu öld til sautjándu aldar og Arnór Gunnar Gunnarsson skrifar um Rainbow Navigation-málið svokallaða sem átti sér stað um miðjan níunda áratug síðustu aldar og snerist um vöruflutninga fyrir varnarliðið.
Í „Álitamálum“ Sögu að þessu sinni fjalla fjórir íslenskir og danskir fræðimenn um söguleg tengsl Íslands og Danmerkur. Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðbrandur Benediktsson veita lesendum innsýn í vinnu við nýja grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík og Marjatta Ísberg skrifar viðhorfsgrein um sögu líkklæða á Íslandi. Í þættinum „Úr skjalaskápnum“ dregur Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir fram athyglisverða uppboðsskrá frá Viðey.
Auk þess er að finna í heftinu ellefu ritdóma um nýleg sagnfræðiverk og eina athugasemd við ritdóm. Kápuna prýðir mynd af tveimur samstarfskonum á reykvískri ljósmyndastofu um 1910 og skrifa Íris Ellenberger, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir pistil um myndina þar sem þær setja hana í samhengi við hugmyndir um rómantíska vináttu kvenna.