Skip to content
Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi
Bergsveinn Birgisson
Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi

Framhald af þessari grein má finna á vefsíðu höfundar.

Snemma í desember síðasta árs las ég bók núverandi seðlabankastjóra, dr. Ásgeirs Jónssonar, Eyjan hans Ingólfs (hér eftir EHI).1 Sá ég þar rannsóknir úr minni eigin bók settar fram, annaðhvort sem almenna þekkingu eða athuganir Ásgeirs sjálfs, án þess að mín eða minnar bókar væri getið. Þann 8. desember 2021 tók ég saman greinargerð sem ég sendi til Siðanefndar Háskóla Íslands og Nefndar um vandaða starfshætti í vísindum. Birti ég síðan sömu greinargerð á Vísi.2 Þar gerði ég í stuttu máli grein fyrir ritstuldi Ásgeirs Jónssonar í EHI úr verki mínu Leitin að svarta víkingnum (2016, hér eftir LSV),3 sem er þýðing á eldra verki sem ég skrifaði á norsku og heitir Den svarte vikingen (2013, hér eftir DSV).4 Siðanefnd ákvað að taka málið fyrir og verkferill gekk út á að Ásgeir sendi nefndinni andmæli, sem ég fengi síðan aftur að svara. Ásgeir, sem hefur neitað öllum ásökunum, hafði hins vegar samband við Helga Þorláksson, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands, og lét hann svara fyrir sína hönd. Birtist álitsgerð Helga á Facebook-vegg Ásgeirs Jónssonar þann 6. janúar 2022 og síðan með frétt á Vísi.5

Þann 7. febrúar síðastliðinn sagði Siðanefnd Háskóla Íslands af sér út af málinu. Ástæður uppsagnarinnar voru samkvæmt bréfi til okkar málsaðila, að annar málsaðila hefði kosið að nýta ekki sinn andmælarétt en þess í stað „valið að fá stjórnendur skólans til samtals við sig um málareksturinn“.6 Rektor hafði rætt við Ásgeir og þannig farið á bak við siðanefnd, sem hafði ákveðið að taka málið fyrir. Hann tók undir með Ásgeiri um að erindi hans ætti ekki heima á borði siðanefndar, og sendi Ásgeir bréf til siðanefndar um að málinu væri af þessum sökum „sjálfhætt.“7 Ásgeir valdi síðan að birta þann 15. febrúar andmæli gegn minni upprunalegu grein á Vísi frá 8. desember.8 Segir hann í lok greinar að hann hafi sent þau sömu andmæli til Siðanefndar Háskóla Íslands, sem reyndar hafði sagt af sér viku áður. Eru þetta þeir tveir textar sem hér verða teknir fyrir, álitsgerð Helga Þorlákssonar og andmæli Ásgeirs.

Toppurinn á ísjakanum?
Fjölmargir hafa haft samband við mig og greint frá svipaðri reynslu. Samkvæmt því er um útbreiddan vanda að ræða, sem endurspeglast ekki nægilega í umræðu um þessi efni á Íslandi. Fyllsta umfjöllunin er líklega fræðileg úttekt Helgu Kress á „Stóra Hannesarmálinu“, þar sem hún færði gild rök fyrir því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson væri sekur um víðtækan ritstuld.9 Afleiðingar urðu samt óverulegar; Hannes hlaut dóm í Hæstarétti en vinir hans söfnuðu pening fyrir bótum og málskostnaði.10 Þá ríkir viðlíka viðbragðsleysi í máli Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings á hendur rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna, þó svo að óháð álitsgerð tveggja vísindamanna hafi komist að þeirri niðurstöðu að þar sé „án vafa um ritstuld að ræða“.11 Þá er ritstuldur ekki einber vandi vísindasamfélagsins. Nýlega kom upp mál þar sem leikrit Kristínar Eiríksdóttur, Hystory, virðist hafa verið nýtt í sjónvarpsseríu að nafni Systrabönd. Eins og Kristín rekur í pistli um málið eru hugmyndir ekki í sjálfu sér bundnar höfundarrétti, heldur úrvinnslan á þeim. Rekur hún að mínu mati á sannfærandi hátt hvernig útfærsla hennar á sameiginlegri hugmynd að baki endurómar í sjónvarpsseríunni.12

Á meðan siðareglur evrópskra og bandarískra vísindasamfélaga kveða á um að eina viðhlítandi refsingin fyrir ritstuld sé, eins og það er til dæmis orðað hjá bandarísku sagnfræðisamtökunum, „abhorrence of the community of scholars,”13 þ.e. að viðkomandi hljóti óbeit eða útskúfun fræðasamfélagsins, þá eiga þessi íslensku mál það sameiginlegt hversu menn láta sér afleiðingar í léttu rúmi liggja. Í öllum tilvikum vísar fólk ásökunum á bug, reynir jafnvel að tala niður verkið sem stolið er úr. Hannes Hólmsteinn sagðist ekki hafa gert neitt rangt14 og hélt ótrauður áfram störfum sínum við Háskóla Íslands; málið um ritstuld rannsóknarnefndar á verki Árna H. Kristjánssonar er ekki heldur til lykta leitt, en einn skýrsluhöfunda var Ásgeir Jónsson.15 Framleiðendur Systrabanda hafa ekki orðið við óskum Kristínar Eiríksdóttur um að hennar sé getið í þeirri framleiðslu. Um samskonar viðbragðsferli er að ræða í mínu máli. Ásgeir vísar ásökunum á bug, kallar LSV „sögulega skáldsögu,“ sem hafi ekkert „sjálfstætt fræðilegt framlag.“ Fullyrðir hann að ásakanir mínar stafi af „vanþekkingu á heimildum“ og að heimildavinna mín sé „hroðvirknisleg.“16 Ef rétt væri má undrast af hverju Ásgeir er svona mótfallinn því að láta siðanefnd fjalla um málið.17

Bók Ásgeirs: viðhorfsgrein eða fræðirit?
Þungvægur liður í röksemdafærslu Helga Þorlákssonar og Ásgeirs Jónssonar gengur út á að sýna að EHI sé ekki „alvörugefið fræðirit“. Ásgeir talar um rit sitt sem „leikmannsþanka.“18 Niðurstaða Helga er svohljóðandi: „Rit Ásgeirs er á sinn hátt fræðirit en ekki á sérsviði hans í hagfræði … Hér er litið svo á að nálgun Ásgeirs sé þannig vaxin að hann hljóti að hafa frjálsar hendur um það hvenær hann vísar til rita.“19 Bók Ásgeirs er samkvæmt Helga á sinn hátt fræðirit, en höfundur hefur frjálsar hendur um vísun í heimildir af því að ekki er um sérsvið höfundar að ræða.

Lítum á þær spurningar sem Helgi sjálfur varpar fram og skoðum þær lið fyrir lið. Hann skrifar:

Spyrja má: … (1) hvort rit Ásgeirs sé „alvörugefið fræðirit“, (2) hvort það fjalli fyrst og fremst um rostungsveiðar, (3) hvort rit Bergsveins birti algjöra nýjung um rostungsveiðar.20

Umræddur „leikmaður“ sem Helgi Þorláksson segir að Ásgeir Jónsson sé (bls. 7), er með doktorspróf í hagfræði. Hann var lengi í forsvari fyrir hagfræðideild Háskóla Íslands og sinnti þar kennslustörfum. Meðal annars leiðbeindi hann nemendum við ritgerðarsmíðar. Í kennsluefni Ásgeirs má finna þessi ráð varðandi heimildanotkun:

Verið viss um að nefna öll megin verk sem hafa fjallað um málsefni þitt … Allar rannsóknir byggja á fyrri verkum. Þess vegna er notkun heimilda nauðsynleg. Munið að geta heimildar. Ef þið takið efni orðrétt, eða lítið breytt og gerið það að ykkar, er það ritstuldur. Þið verðið að virða hugmyndir og vinnu annarra … Ritstuldur er slæmur afspurnar. Ef glæpurinn kemst upp, fær ritgerðin einkunnina 0.21

Ásgeir hefur 81 neðanmálsgrein í bók sinni með tilvísunum til rita: „Það er vissulega einkennandi fyrir fræðirit,“ skrifar Helgi.22 Það mikilvægasta sem ég bendi á eru samt lokaorð EHI: „Ég vona því svo sannarlega að framangreind umfjöllun af minni hendi verði upphaf að nýrri umræðu um landnám Íslands“ (EHI, 193). Í þessum orðum felst mat á verkinu sem skoðanamyndandi hvað efnið varðar, en bakvið slíkt mat hlýtur að liggja hugmynd Ásgeirs um eigið verk sem frambærilegt fræðirit þar sem það er kynnt sem nýmæli í umræðunni.

Helgi vísar til svokallaðra óritrýndra viðhorfsgreina sem birtar eru í tímaritinu Sögu. Slíkum textum er ætlað að veita yfirsýn yfir umræðu og vekja áhuga, án þess að krafist sé að viðkomandi fræðimaður búi sjálfur til „nýja umræðu.“ Hvergi kemur þó fram neitt um að höfundar slíkra greina hafi „frjálsar hendur“ um tilvísanir í heimildir.23 Engin dæmi eru heldur um það í fræðilegri umræðu um heimildanotkun í sögulegum umfjöllunum, að hún sé gefin frjáls. Nægir að nefna hér skýrslu sem unnin var í Noregi fyrir hönd bókaútgefenda og fræðibókasamtakanna NFFO eftir að stórt ritstuldarmál kom upp þar í landi. Þar er meðal annars talað um tilvísanir í greinum eins og í tímaritinu Lifandi saga eða í fjölfræðibókum handa börnum og sagt að í slíkum tilvikum „ætti allavega að mæta lágmarkskröfum um ráðvendni hvað varðar að upplýsa um notkun á annarra rannsóknum.“24 Létt er að sjá að metnaður Ásgeirs miðar nokkuð hærra.

Skoðum spurningu 2 hjá Helga, hvort rit Ásgeirs fjalli fyrst og fremst um rostungsveiðar. Röksemdin að baki er sú að ég ásaki Ásgeir um að stela af mér almennum hugmyndum um rostungsveiðar landnámsmanna. Ásakanir mínar á hendur Ásgeiri snúast ekki um þetta, eins og vikið verður að, en skoða má hugsunina að baki. Hún virðist sú að ef ég til dæmis væri að skrifa fræðirit innan jarðfræði sem aðeins kæmi inn á flekakenninguna mætti ég stela frá öðrum rannsóknum innan jarðfræði sem hefðu flekakenninguna að meginefni, af því að flekakenningin væri ekki meginefni minnar bókar.

Til aðgreiningar frá skáldverkum þar sem heimildatilvísana er ekki krafist er almennt talað um fræðirit, handbækur, frásagnir (hér undir ævisögur) og rit almenns eðlis. Það virðist venslað því sem kalla mætti alþýðlegt rit, eða það sem fellur undir „populærvitenskap“ meðal nágrannaþjóða. Þar er líkt og í viðhorfsgreinum ekki gerð krafa um að menn skapi nýja umræðu, öllu heldur einsetur höfundur sér að miðla þeim frumrannsóknum sem til eru um efnið og gera það aðgengilegt almenningi. Hvergi eru til neinar reglur sem tilsegja að heimildanotkun í ritum almenns eðlis sé frjálsari en annars staðar. Nægir að nefna áðurnefnda norska skýrslu, þar sem kjarninn í almennum siðareglum hugvísinda er látinn mynda kjarnann í því hvernig umgangast eigi heimildir: „Allir höfundar og fræðimenn, hvort sem um áhuga- eða fagfólk sé að ræða … eiga að kosta kapps um að nota góðar tilvísanareglur.“25

Ljóst er þó af ofangreindu að sú höfundarhugsun sem liggur í bók Ásgeirs er til marks um fræðirit, því bera tilvísanir og lokaorð vitni. Íslenska fræðiritið rímar við þýska hugtakið Sachprosa, á Norðurlandamálum sakprosa. Sameiginleg öllum löndum er krafan um „etterrettelighet,“ þ.e. umfjöllun sem hægt er að sannreyna á grundvelli tilvísana.26 Heimildarýni er einnig orð sem ber á góma og sameiginleg er sú regla að vísa til heimilda þar sem þess er þörf, sem reyndar er ólíkt hvernig menn útfæra. En þegar rætt er um söguleg efni í sakprosa, þar sem rannsóknasaga er fyrir hendi og vitnað er í hana, eru heimildatilvísanir ófrávíkjanleg krafa. Málið sem hér um ræðir fjallar því að mínu viti um samspil tveggja fræðirita, og þar af leiðandi um grundvallaratriði vísinda- og fræðasamfélags hvað varðar ráðvendni í rannsóknum. Eru þau atriði ágætlega orðuð í álitsgerð Guðmundar Jónssonar og Páls Sigurðssonar í máli Árna H. Kristjánssonar:

Í samræmi við viðurkennd sjónarmið í vísindasamfélaginu telja undirritaðir að jafnan skuli getið heimilda þegar hugverk annarra manna eru notuð og gildir einu hvort í hlut eiga fræðirit, almenn rit eða opinberar skýrslur. Það teljast góð fræðileg vinnubrögð að geta nýlegra rita sem hafa að geyma markvert framlag til þess rannsóknarsviðs sem fjallað er um, en teljast ekki enn hluti af almennum þekkingarforða.27

Ónákvæm staðsetning tilvísana
Athyglisvert er að líta til nýlegs máls í Noregi. Um er að ræða fræðibókina En samisk verdenshistorie eftir Hugo Lauritz Jenssen,28 sem studdist meðal annars við hugmyndir og rannsóknir Cathrine Baglo, sem skrifað hafði doktorsritgerð um sama efni og gefið síðar meir út í bókinni På ville veger.29 Strax eftir útkomu bókar Jenssens birtist ritdómur þar sem hann er ásakaður um „þekkingarstuld“ (no. kunnskapstyveri) og seinna „ritstuld“ (no. plagiat). Síðar meir er talað um „hugmyndastuld“ (no. ideplagiering)30 og enn síðar að bókin sé til marks um „afleita ritstjórn“ (no. dårlig kvalitetssikring).31 Hugo Lauritz hafði áður unnið í fjölmiðlum, hann er ekki með háskólagráður, og hefur aldrei kennt við æðri menntastofnanir.

Margir tóku þátt í umræðunni og kölluðu eftir skýrari mörkum milli bókmenntagreina og hvaða siðareglur giltu varðandi frumrannsóknir annars vegar og „popularisering“ hins vegar.32 Hvað svo sem er hæft í ásökunum á hendur Hugo Lauritz Jenssen ber að geta þess að hann vísaði til bókar Baglo í 50 neðanmálsgreinum. Auk þess gat hann hennar sem „fremsta fræðimannsins“ varðandi efnið, sagði að bók hennar hefði verið „innblástur að [hans] eigin bók“ og tók fram að kaflar í verki hans „byggðu mikið til á fræðilegu stórvirki Baglo.“33 En það dugði ekki til.

Talað var um að Jenssen setti ekki tilvísanir á réttan stað í textanum, svo það gat litið út fyrir að hann sjálfur væri höfundur að vissu efni sem hann skrifaði um og byggði á Baglo, eða endursagði með eigin orðum. Slík vinnubrögð myndu annaðhvort falla undir það sem Helga Kress þýðir sem „hugmyndastuld“ eða „endursagnaritstuld.“34 Simen Sætre og Bernhard Ellefsen vísuðu í þessu sambandi í vísindasiðareglur í Noregi þar sem segir: „Það telst einnig ritstuldur ef maður er með eina tilvísun í annarra rannsókn snemma í eigin texta, og nýtir síðan þá rannsókn umfangsmikið án frekari tilvísana.“35

Í Noregi gilda almennar vísindasiðareglur en þær eru, með orðalagi áðurnefndrar skýrslu: „greinilega viðeigandi þegar um ræðir almenn sagnfræðirit sem miðast við breiðan lesendahóp.“36 Einmitt slík rit voru norsku nefndinni hugleikin árið 2006, þar sem ritstuldurinn sem lá til grundvallar skýrslunni birtist í slíkri bók. Ég hef á þessum sama grundvelli sett fram ásakanir mínar á hendur fræðimanninum Ásgeiri Jónssyni út frá gildandi siðareglum í vísindasamfélagi þessa lands.37

Fyrsti útúrsnúningur Helga og Ásgeirs
Helgi Þorláksson fullyrðir að ég telji mig sjálfan upphafsmann að tilgátunni um fyrstu landnema Íslands sem veiðimenn og rostungsveiðimenn. Hann svarar síðan þessu með því að útlista hvernig hugmyndin um landnema sem veiðimenn var orðin þekkt áður en bók mín, DSV, kom út árið 2013.38

Helgi fullyrðir að Ásgeir vísi til þessarar almennu rostungsveiðihugmyndar og þurfi því ekki að vísa til minnar bókar sérstaklega. Skoðum málflutninginn.

Helgi gerir ekki greinarmun á almennu hugmyndinni um fyrstu landnema sem veiðimenn og hugmyndinni um rostungsveiðar. Hann teflir fram Jóni Jóhannessyni til að sýna fram á að menn hafi lengi vitað um dýrmæti svarðreipa áður en bók mín kom til sögunnar,39 en þessa er getið víða í miðaldaheimildum. Þá vísar Helgi til yfirlits Gunnars Karlssonar um hugmyndina um fyrstu landnámsmenn sem veiðimenn, sem Gunnar rekur til skrifa Björns Þorsteinssonar frá árinu 1953.40 Snýst þessi hugmynd upphaflega gjarna um fisk, fugl og sel auk söfnunar grasa.

Fjölmargar tilvísanir eru frá minni hendi til þessarar hugmyndar um veiðar við frumlandnám í LSV, svo sem um þátt Helga Skúla Kjartanssonar í því að móta hugmyndina. Vísa ég að auki í þær miðaldaheimildir sem sýna að veiðiskapur hafi verið mikilvægur við frumlandnám, svo sem Landnámabókar, Egils sögu og Laxdælu.

Hin hugmyndin, sem er vaxin upp úr þessum jarðvegi, snýst um að ferðir fyrstu manna út hingað hafi snúist um veiðar á sjávarspendýrum og einkum rostungum. Þessa hugmynd hef ég heldur ekki eignað mér, enda getur Helgi þess að ég vísa bæði til skrifa hans sjálfs og Orra Vésteinssonar um efnið.41 Reyndar er hugmyndin um rostungsveiði mun eldri, og vitna ég meðal annars til Helga Guðmundssonar í minni greinargerð, sem hafði vikið að þessu um áratug fyrr, bæði rostungum og þeim vörum sem mátti vinna úr þeim og koma í verð.42 Eins og lesa má í LSV er hugmyndin um mikið af rostungi til forna mun eldri. Því hafði til dæmis Ævar Petersen haldið fram árið 1989 og 1993,43 en áður hafði Bjarni Einarsson norrænufræðingur skrifað um Hvala-örnefni eins og Hvallátur, og tengt við rostunga. Reyndar má rekja hugmyndina mun lengra aftur, eins og lesa má í bréfi Friðriks Eggerz Eggertssonar frá nítjándu öld sem er ívitnað í LSV. Friðrik skrifar: „… mega og miklu fleiri [rostungsmenjar] fundnar vera, og hyggja menn fyrir þessa sök, að mikið af rostungi væri forðum í Breiðafirði, en hafi styggst meir en selur, þá landið tók að fjölbyggjast umhverfis fjörðinn og í eyjonum [svo].”45

Bréf Friðriks ýjar að því að rostungurinn hafi styggst vegna veiða, en þetta mun elsta heimild sem ég hef fundið um vissu seinni tíma manna um mikinn rostungsstofn á Íslandi til forna. Vísar Friðrik til þessa sem almennrar þekkingar við Breiðafjörð á seinni hluta nítjándu aldar. Þannig ályktaði einnig Þorvaldur Thoroddsen út frá rostungsmenjum árið 1911.46 Af þessum sökum er það hrein firra að álykta að ég líti á sjálfan mig sem upphafsmann þessarar hugmyndar.

Þegar Helgi Þorláksson skrifar árið 2006 að rostungur „hefði átt náttúruleg heimkynni á Íslandi á landnámstíma,“47 voru fjölmargir búnir að benda á hið sama, en hvað sem því líður kynnir Helgi málið þannig að ég haldi því fram að ég sé upphafsmaður bæði að fyrstu landnemum sem veiðimönnum og hugmyndinni um þá sem rostungsveiðimenn, og að ég ásaki Ásgeir Jónsson um að stela frá mér þeirri hugmynd. Helgi skrifar: „Af þessu sést að umræða um rostung og veiðistöð á Íslandi fyrir 870 var umtalsverð áður en Bergsveinn gaf út bók sína 2013.“48 Ásgeir bergmálar síðan þetta í sínum andmælum: „Sú hugmynd eða vitneskja að rostungsveiðar hafi verið stundaðar hérlendis í upphafi landnáms, með þeim afleiðingum að stofninum var útrýmt, eru alls ekki nýjar af nálinni. Þessar hugmyndir voru komnar fram vel áður en LSV kom út og eru nú orðnar að viðurkenndri söguskoðun.“49

Það er hins vegar öllum ljóst sem athuga málið að ég hef aldrei talið mig upphafsmann þessara hugmynda, og er skýrast vitni að ég tilgreini alla þá fræðimenn sem setja fram þessar hugmyndir á undan mér í LSV, og nokkra þeirra í minni greinargerð frá 8. desember 2021.

Um hvað snúast ásakanir mínar á hendur Ásgeiri Jónssyni?
Nefna má að áðurnefndar hugmyndir um veiðar og rostungsveiðar eru á þann veg í frumritunum að oftast er um að ræða setningar á stangli þar sem höfundarnir varpa fram hugmyndum án ítarlegrar umfjöllunar. Undantekningu má finna hjá Orra Vésteinssyni sem gefur efninu rúmlega hálfa síðu í bók tengdri Landnámssýningunni í Reykjavík,50 og áðurnefndum Helga sem reifar efnið á einni opnu í sama riti.51 Í raun réttri eru fræðimenn að varpa fram hugmyndinni án þess að skoða hvernig hún samræmist til dæmis miðaldaheimildum eða skoða málið á þverfaglegum grunni. Fyrsta rækilega umfjöllunin þar sem þessum hugmyndum eru gerð skil í heilli bók er að mínu viti í áðurnefndum verkum mínum. Þar nálgast ég málið út frá þeim manni sem sagður er í Landnámu „göfgastr allra landnámsmanna á Íslandi“, Geirmundi heljarskinn.52

Í þessu fólst víðtæk rannsókn á þeim efnahag sem gæti búið að baki slíkum veiðiskap og nákvæmlega hvaða vörur menn unnu úr rostungi. Í samvinnu við tilgátu-fornleifafræðinga gerði ég tilraunir á úrvinnslu seldýra bæði er varðar lýsis- og reipagerð, auk annars varnings frá sjávarnytjum sem hægt var að koma í verð, eða það sem stundum er kallað „knowing by doing“.53 Þá rannsakaði ég hvaða efnahagsveldi kann að hafa búið að baki slíku veiðilandnámi (Írland), teymismyndun í vesturvegi og myndun landnámskjarna út frá slíkum veiðiefnahag. Rannsókn mín leiddi mig til skipamenningar þeirra tíma, en mikill markaður var fyrir húðir og spik rostunga þar, hvernig menn hafa praktískt staðið að veiðum og því þrælahaldi sem tengdist slíkri úrvinnslu, svo fátt eitt sé nefnt. Þá geri ég flutningsleiðum skil, til dæmis hvernig Geirmundur heljarskinn hefur komið vörum frá Hornströndum til Stranda og Breiðafjarðar. Tilgátur mínar vann ég í samræðu við örnefnasérfræðinga, sérfræðinga í genarannsóknum hér heima og erlendis, sérfræðinga í aðstæðum Írlands og Norður-Noregs á níundu öld, auk héraðssagnfræðinga innanlands. Þá fór ég til Rússlands og Síberíu og stofnaði til samstarfs við sérfræðinga þar um frumbyggjamenningu Norður-Síberíu, bæði innan fornleifafræði og mannfræði.

Í áðurnefndum ritum mínum birti ég margrætt og flókið efnahagslíkan sem ég tel geta átt við frumlandnám Íslands, og kalla það ýmist veiðimanna-efnahag, módel eða líkan, og stilli því upp gegn landbúnaðartilgátunni (e. farming hypothesis) sem einkennt hafði umræðu um landnámið frá miðöldum. Það er á þessum rökum sem ég gagnrýni það sem Ásgeir Jónsson tekur upp í sinni bók og kallar „veiðiþræla-viðskiptalíkan.“54 Þar vil ég meina að Ásgeir byggi greinilega á umfjöllun minni um stórfelldan innflutning Geirmundar heljarskinns á þrælum frá Dyflinni til veiða og úrvinnslu á sjávarspendýrum á Íslandi. Lítum á dæmi.

Geirmundur heljarskinn og umsvif hans
Ásgeir skrifar í bók sinni (EHI, 47–48):

Einn landnámsmaður, Geirmundur heljarskinn, virðist hafa tekið þetta veiðiþræla-viðskiptalíkan alla leið. Hann sló eign sinni á allar Hornstrandir og stofnaði þar fjögur bú: eitt í Aðalvík, annað í Kjaransvík, þriðja á Almenningum og það fjórða í Barðsvík. Öll þessi bú voru mönnuð af þrælum sem sinntu veiðum og vinnslu á rostungum og öðrum sjávarspendýrum.

Skoðum nú út frá þessu dæmi hina „umtalsverðu umræðu“ og það „alþekkta efni“ sem Helgi Þorláksson skrifar að Ásgeir byggi á þegar hann fjallar um rostungsveiðar, þótt hann svari ekki fyrir þetta tiltekna atriði. Byrjum á gerðum Landnámabókar. Þar segir um Geirmund: „Hann var vellauðigr at lausafé ok hafði of kvikfjár. Svá segja menn, at svín hans gengi á Svínanesi, en sauðir á Hjarðarnesi, en hann hafði selför í Bitru.“55 Selför er eins og þekkt er tengt landbúnaði, að hafa búfé í seli. Þá er talað um „bú“ Geirmundar, sem aftur tengir hann við landbúnað á Hornströndum, því ef átt væri við veiðistaði í fornum heimildum, væri talað um ver eða verstöðvar. Í Melabók og Þórðarbók Landnámu kemur ekkert fram um veiðar Geirmundar, né aðrar skýringar á umsvifum hans og ríkidæmi. Í „Geirmundar þætti heljarskinns“ sem markar upphaf Sturlunga sögu skrifar að öllum líkindum sjálfur Þórður Narfason, sem bjó á jörð Geirmundar: „Geirmundur bóndi var stórmenni mikið … Hann átti fjögur bú önnur … þjónuðu öll þessi búin undir það sem hann sjálfur hélt kostnað af á Geirmundarstöðum.“56

Þá kemur ekkert fram um veiðiskap Geirmundar „bónda“ á Hornströndum eða annars staðar í Hálfs sögu ok Hálfsrekka, sem Hubert Seelow hefur reyndar sýnt fram á að styðjist við eldri heimildir en Landnámabók.57 Í þeim Íslendingasögum sem geta Geirmundar, Laxdæla sögu, Egils sögu Skallagrímssonar og Grettis sögu, er að sama skapi hvergi nefnt neitt um veiðar né rostungaveiðar Geirmundar, hvorki á Hornströndum né við Breiðafjörð.

Þá er að gá í seinni tíma rannsóknir. Ekki nefnir Friðrik Eggerz Geirmund í áðurnefndu bréfi. Ekki er það að finna í áðurnefndu riti Helga Guðmundssonar, í greinum Helga Skúla Kjartanssonar, í áðurnefndri umfjöllun Orra Vésteinssonar og Helga Þorlákssonar né hjá Bjarna F. Einarssyni fornleifafræðingi.59 Ekki nefnir Sverrir Jakobsson það í sínu riti um Breiðafjörð frá landnámi til 1400,60 og ekki getur Gunnar Karlsson um þetta í áðurnefndu riti sínu, Landnám Íslands. Þá gat Guðrún Ása Grímsdóttir sér til um að þessi „landnámsauki“ Geirmundar (þ.e. á Hornstöndum) speglaði ágirnd Sturlunga og Skarðverja þrettándu aldar í rekastrendur norður þar.61 Og úr því Helgi teflir fram Jóni Jóhannessyni gegn mínum ásökunum á hendur Ásgeiri, mætti vísa í upphaf hagsöguþáttar þess sama rits: „Landnámsmenn stofnuðu hér á landi algert bændaþjóðfélag, og landbúnaður varð aðalbjargræðisvegur landsmanna“.62 Látum þessi dæmi nægja. Það kemur á daginn að þessa hugmynd um stórfelldan veiðiskap Geirmundar á sjávarspendýrum á Hornströndum er hvergi að finna nema í áðurnefndum verkum undirritaðs – og nú í bók Ásgeirs Jónssonar.

Að eigna sér tilgátu eða kynna hana sem almenna þekkingu
Ein leið til að líta á málið er að Ásgeir geri mína kenningu að sinni, en einnig má segja að þarna breytist tilgáta mín, sem ég hef varið áratuga rannsókn í að þróa í samræðu við heimildir og fræðimenn innan margra faga, yfir í almenna þekkingu í meðförum Ásgeirs. Ég sjálfur lít á mitt framlag sem tilgátu, sem nýja sýn á þennan part sögunnar, og því er eðlilegt að ég spyrji hvernig þetta gat svo skyndilega orðið að almennri þekkingu. Slík tilgáta er ekki hrist fram úr ermi rétt fyrir jólabókaflóð.

Rannsókn mín gekk út á að túlka heimild eins og Landnámabók og sýna fram á að hægt sé að fá merkingu í þau sagnabrot sem tengja Geirmund við svæðið, án þess að landbúnaðartilgátu miðaldamanna væri fylgt. Ég þróaði eigin gerð heimildarýni, sem ég kalla raunrýni (no. realkritikk), og stilli því hugtaki upp gegn því sem á norðurlandamálum kallast „sagakritikk“, sem oftlega leiðir til þess að ef eitthvað er skakkt í fornri frásögn er gjarna allri sögninni varpað fyrir róða sem sagnfræðilegri heimild. Það útheimti líka að ég gerði grein fyrir því þrælalíkani sem ég taldi Geirmund hafa nýtt og tengdi við evrópsk líkön, gerði landfræðilegar rannsóknir og setti fram nýjar túlkanir á örnefnum við veiðistöðvarnar (svo sem Kirfi/Kyrfi), auk lýsinga á veiðum og vinnslu á vörum úr rostungum. Að auki var sýnt fram á flutningsleiðir frá Hornströndum til Breiðafjarðar og hvernig Landnáma virtist hafa varðveitt arfsagnir um hvar Geirmundur „vísaði mönnum til landa“ eða „gaf þeim bú“, þá rímaði það við að Geirmundur setti niður sína menn niður á ákveðin svæði til að sinna starfi slíks fyrirtækis sem ég hafði tilgátu um (LSV, 239–284).

Bæði hugtakið sem Ásgeir notar, „veiðiþræla-viðskiptalíkan,“ og rostungs- og sjávarspendýraveiðar Geirmundar á Hornströndum geta því ekki talist „alþekkt efni“ né má það vera tekið úr „umtalsverðri umræðu“, eins og Helgi skrifar. Hér er um sértæka túlkun á tilteknu efni að ræða. Hér fellur dæmið við það sem Kristín Eiríksdóttir benti á, að það er fyrst og fremst úrvinnslan á ákveðinni hugmynd sem varðar höfundarrétt; hér er Ásgeiri ekki brigslað um að stela almennri hugmynd um rostungsveiðar, heldur sértækri úrvinnslu minni á þeirri hugmynd. Evrópskar siðareglur virðast ekki gera greinarmun á því hvort fræðimaður eigni sér hugmynd annarra eða kynni nýja hugmynd annarra sem almenna þekkingu, það að nýta hugmynd án þess að gera grein fyrir uppruna hennar fellur undir ritstuld: „Plagiarism is using other people’s work and ideas without giving proper credit to the original source, thus violating the rights of the original author(s) to their intellectual outputs.“63

Skýring Helga á því af hverju Ásgeir vísar stundum ekki til fræðimanna gengur út á að Ásgeir lætur vera að geta um „tilvísanir til þess sem hann telur alþekkt“.64 En tilgáta mín um umsvif Geirmundar heljarskinns á Hornströndum eða í Breiðafirði er ekki alþekkt hugmynd. Undrast má af hverju Helgi ekki svarar þessu atriði úr minni greinargerð,65 en meiri undrum sæta andmæli Ásgeirs í þessu atriði. Þau eru svo í heild sinni:

Búskapur á Hornströndum hefur frá upphafi byggst á sjávarnytjum og það kemur einnig fram í Landnámu að Geirmundur heljarskinn hafi átt fjögur bú á Vestfjörðum þar sem þrælar voru í forsvari. Eitt þessara búa var í Barðsvík en það varðveitti Atli þræll hans og hafði hann fjórtán þræla undir sér.

Þannig getur það ekki talist höfundarvarin túlkun neins manns að „Geirmundur hafi verið í forsvari fyrir slíka veiðimenningu á Hornströndum“ líkt og Bergsveinn heldur fram. Það má lesa beint af heimildum líkt og margir sagnfræðingar hafa áður gert og farið er skilmerkilega yfir í álitsgerð Helga Þorlákssonar.66

Hér í fyrstu setningu nýtir Ásgeir niðurstöður rannsókna minna í LSV sem röksemdafærslu gegn ásökunum mínum. Það sama er uppi á teningnum undir lið 13 í hans andmælum: „Geirmundur var að sögn Landnámu með fjögur bú á Hornströndum sem hafa án nokkurs efa byggt á sjávarnytjum, líklega veiðum sjávarspendýra.“

Er þetta firn athyglisverð þrætubókaraðferð. Hvorki „heimildir,“ „margir sagnfræðingar“ né nokkur einn sagnfræðingur höfðu birt þessa tilgátu um umsvif Geirmundar á Hornströndum áður en bók mín kom út. Svarið við þriðju spurningu Helga hér að framan um „hvort rit Bergsveins birti algjöra nýjung um rostungsveiðar,“ er því játandi, og er það sú nýjung sem Ásgeir gerir að sinni.

Ketill gufa
Annað dæmi í minni greinargerð fjallar um tengdason Geirmundar, Ketil gufu. Skoðum fyrst málflutning Helga, sem svarar ekki fyrir dæmið, heldur snýr út úr með því að vísa í almennar rostungsveiðihugmyndir Ásgeirs: „Ásgeir gerir mun betur [en Bergsveinn] og tengir rostungsveiðar almennt við hina fyrstu, nafngreindu Íslandsfara sem sögur fara af, ekki einungis Ingólf heldur líka Garðar og Hrafna-Flóka. Og enn fremur Geirmund og Ketil gufu og Bergsveinn víkur líka að Katli.“67

Ég vék líka að Katli, og á Helgi þá sennilega við það sem ég skrifa um hann í LSV. Eins og ég rek í minni greinargerð á Vísi birti ég í LSV túlkun á þeim fjölmörgu sagnabrotum sem segja frá Katli gufu í hinum ýmsu landshlutum og varpaði ég fram og rökstuddi þá tilgátu fyrstur manna að þessi sagnabrot mætti skilja sem svo að Ketill hafi verið rostungsveiðimaður í leit að hjörðum undir lok veiðitímabilsins þegar erfiðara var að komast yfir rostung. Því hafi hann þurft að standa í búferlaflutningum og þokast æ meira norður. Að lokum hafi hann misst stjórn á þrælum sínum (LSV, 285–286):

Sé tilgátan rétt hefur Ketill ekki verið meðal hinna fyrstu ævintýramanna sem fengu gnótt veiði á Suðurlandi. Hann kemst ekki yfir nógu mikið hráefni til að halda útgerðinni gangandi. Sögnin af strokuþrælunum gefur þetta til kynna: Ketill hefur ekki lengur efni á að halda eftirlitsmenn … Saga Ketils er vasabrotsútgáfa af sögu Geirmundarveldisins; rostungaveiðimaður sem notar írska þræla til að vinna hráefnið sem hann ætlar að selja gegnum viðskiptasambönd í vesturvegi. Það fer að hrikta í útgerð Ketils á síðustu áratugum 9. aldar. Það útilokar samt ekki þann möguleika að hann hafi stundað veiðar með góðum árangri fyrir þann tíma. Eins og við vitum fer helst sögum af því þegar vandræðin byrja; velgengni er ekki söguefni. Þá er meirihluti rostungsstofnsins í suðri annaðhvort styggður, flúinn eða uppveiddur og þetta á einnig við um Breiðafjörð.

Þessi túlkun er hvergi til í miðaldaritum, né í seinni tíma rannsóknum, enda hefði Helgi þá getið þess. Helgi lætur nægja að segja að Ásgeir geri „mun betur“ í umfjöllun sinni um rostungsveiðar en ég. Þórhallur Vilmundarson reyndi að túlka þessi sagnabrot út frá hinum ýmsu Gufu-örnefnum á Íslandi, það er að segja að Landnámuritarar hefðu tengt örnefnin við Ketil gufu og túlkað sem svo að hann væri á stöðugu flakki milli Gufu-staðanna, sem í raun kæmu frá gufumyndunum í náttúrunni.68 Bara það sýnir að aðrir höfðu spreytt sig á að túlka þessi undarlegu sagnabrot. Eins og ég nefni í minni greinargerð er hverjum manni frjálst að endursegja sögu Ketils gufu í Landnámabók og Egils sögu. En Ásgeir Jónsson er ekki að endursegja sögu Ketils úr miðaldaritum. Hann endursegir nákvæmlega mína túlkun á þessum sömu sagnabrotum (EHI, 50):

Hins vegar þoldi rostungsstofninn illa mikla veiði. Sú ákvörðun Geirmundar heljarskinns að hætta rekstri þrælabúða á Hornströndum, til að veiða sjávarspendýr, sýnir án efa að stofninn var kominn nálægt útrýmingu og veiðar borguðu sig ekki lengur þar vestra. Ketill gufa og faðir hans virðast hafa ætlað að reyna að halda áfram með þetta viðskiptalíkan. Ketill gufa þvældist meðfram ströndum með þræla sína, væntanlega til að leita uppi síðustu rostungana en með rýrum árangri. Auk þess var hann hrakinn úr einum stað í annan. Það virtist lítil ánægja hjá fólki að hafa eftirlitslausa þræla nálægt sér. Þrælarnir í verbúðunum á Mýrum hafa væntanlega verið svo aðframkomnir af hungri að þeir neyddust til að stela sér til matar. Rán þeirra og manndráp markar lokin á upphafstímabili Íslandssögunnar, þegar landið var veiðistöð.

Ásgeir gerir eftirfarandi efni skil: Ketill var rostungsveiðimaður (tekið úr LSV), Geirmundur veiðir sjávarspendýr á Hornströndum (LSV), Ketill og faðir hans, Örlygur, vinna með sama viðskiptalíkan og Geirmundur (LSV), ástæða sagna um búferlaflutninga Ketils er minnkandi rostungsveiði og leit að dýrum (LSV), hann missir stjórn á veiðiþrælum sínum af þessum sömu sökum, þ.e. getur ekki tryggt eftirlit (LSV), dæmi Ketils má ætla að séu sagnabrot frá lokum veiðitímabilsins (LSV).

Í stað þess að svara málefnalega er Helga í mun að sýna að Ásgeir geri gott betur en ég, því hann tengir rostungsveiðar við menn eins og Hrafna-Flóka og getur Helgi þessa í tvígang á sömu síðu.69 Ásgeir hafði skrifað: „Mjög líklega voru þeir [Hrafna-Flóki og félagar] að veiða rostunga en afurðir þeirra voru sem fyrr segir í háu verði ytra.“ (EHI, 46). Helga yfirsést að ég byrja bókarhluta minn um Ísland á að vitna í það sem Landnámabók segir um veiðiskap Hrafna-Flóka og félaga og soðholur þeirra (fornísl. Seyði), sem inngang að umfjöllun minni um rostungsveiðar við Breiðafjörð og Hornstrandir (LSV, 226). Í endamálsgrein nr. 475 tiltek ég fund á tveimur rostungstönnum á Brjánslæk og fjalla um soðgryfjur Hrafna-Flóka. Þetta geri ég eftir að hafa rækilega fjallað um hellusteinsgryfjur (Hvalgrafir, seyði) sem nýttar voru til að bræða lýsi úr spiki rostunga og sela (LSV, 239–242). Má af þessu ímynda sér hvaðan Ásgeir hefur hugmyndina um Hrafna-Flóka sem rostungsveiðimann. Ekki er mér kunnugt að slík kenning hafi áður verið sett fram í fræðiriti en í LSV.

Helgi heldur áfram að reyna að sýna að umfjöllun Ásgeirs um veiðar sé mun ítarlegri en mín: „Hann [Ásgeir] gerir ráð fyrir að Geirmundur hafi ekki aðeins látið veiða rostung heldur fleiri sjávarspendýr.“70 Ég á sem sagt aðeins að hafa talað um rostung, en Ásgeir er víðsýnni og nefnir sjávarspendýr. Í gegnum alla bókina LSV vísa ég jöfnum höndum til veiða Geirmundar og hans fólks á rostungi og sjávarspendýrum, meðal annars á bls. 105, 106, 109, 111, 123, 129, 130, 131, 152, 156, 197, 240, 243, 267, 274 og 276. Einnig hefði hann getað séð umfjöllun mína um hvers konar sjávarspendýr ég tel Geirmundarveldið hafa veitt í viðbót við rostunga til dæmis á bls. 111, 118, 149, 204, 239, 240, 242, 248, 274 og endamálsgreinum nr. 423 og 424.

Helgi skrifar: „Er svo að skilja á Ásgeiri að rostungur sem Geirmundur lét veiða muni hafa verið hafður til matar (EHI, 146–7). Hér fara þeir Ásgeir og Bergsveinn hvor sína leið því að Bergsveinn telur að Geirmundur hafi látið veiða rostung til að nýta afurðir hans, tennur, húð og spik, og gera úr þessu útflutningsvöru”.71

Enn og aftur eru flösur í arghyrnu, eins og Skallagrímur hefði sagt. Í LSV skrifa ég eftir að hafa ályktað að rostungskjöt hafi verið eftirsótt meðal fyrstu landnema: „Kjötið mettaði því ekki aðeins hundruð þræla; það gat einnig aflað Geirmundi tekna, vina og bandamanna innanlands. Við skulum ekki afskrifa þann möguleika að eitthvað hafi verið saltað niður í tunnur og flutt til Írlands. Þetta kjöt varð síðar mjög eftirsótt í Evrópu“ (LSV, 243 og endamálsgrein nr. 436). Þó ber að taka fram að ég lít á þetta sem aukaafurð, sem ekki var hægt að bera saman við aðrar afurðir rostungsins hvað verðmæti varðar. Á bls. 146–147 í EHI fer því Ásgeir ekki „sína leið“ heldur gamalkunnar slóðir um lendur svarta víkingsins. En um leið er þetta villandi framsetning hjá Helga á umfjöllun Ásgeirs um umsvif Geirmundar. Því sá landnámsmaður sem á að hafa tekið „veiðiþræla-viðskiptalíkan alla leið“ samkvæmt Ásgeiri, Geirmundur heljarskinn, hefur varla bara verið að fá sér rostungskjöt í soðið fyrir sig og sína. Er það frekar slappt „viðskiptalíkan“ á mælikvarða hagfræðinnar.

Námskeið í textafræði
Greinilegt er að Ásgeiri hafa ekki þótt andsvör Helga fullnægjandi varðandi Ketil gufu, og setur því fyrir sig að svara sjálfur. Ásgeir byrjar á því að bjóða upp á dálítið námskeið í textafræði, í kafla í sínum andmælum sem kallast „Missir Melabókar og meira til.“ Þar reynir hann að sýna fram á að ég þekki ekki muninn á „þremur gerðum Landnámabókar,“ og hafi ekki lesið Melabók, en í Melabók kemur fram samkvæmt Ásgeiri: „að tengdasonur Geirmundar hafi átt í deilu við Ingólf um veiðiréttindi sem er heldur ekki getið í LSV.“ Ásgeir tjáir að gervalla túlkun mína á sagnabrotum um Ketil gufu sé í raun að finna í Melabók.

Í EHI skrifar Ásgeir að allar gerðir Landnámu séu í heimildalegu tilliti „sama marki brenndar … og því er ekki sjálfgefið að ein gerð sé réttari en önnur.“ (EHI, 28) Í andmælum á Vísi er komið annað hljóð í strokkinn: „Frásögn Melabókar myndar því kjarnann í bók minni. Ég vil þó taka hér fram að hér byggi ég á áratuga fræðilegri umræðu þar sem Melabók hefur verið hampað fram yfir aðrar útgáfur Landnámu.“72

Strax hér kemur Ásgeir upp um annaðhvort vanþekkingu eða hvernig hann reynir að villa fólki sýn. Í bók sinni vísar Ásgeir (EHI, 28) til greinar „Auðar Yngvadóttur“ (þ.e. Auðar Ingvarsdóttur) sem meðal annars fjallar um þá meira en 100 ára gömlu hugmynd um að Melabók sé upprunalegri gerð Landnámabókar.73 Rannsóknir Auðar benda hins vegar í allt aðra átt: „Ekki er heldur hægt að benda á að forrit Melabókar sé á einhvern hátt eldra eða upprunalegra en hinna gerðanna. Menn eru samdóma um að telja forritið frá því um 1210–1245, Sturlubók og Styrmisbók hafa verið ritaðar á svipuðum tíma eða á tímabilinu frá 1200–1284 og því er fullt eins líklegt að „Melamaðurinn“ hafi notast við aðra hvora þá gerð eða báðar.“74 Melabók er aðeins nokkrum sinnum nefnd í EHI, í flestum tilvikum talar Ásgeir bara um Landnámu, en þessi nýja áhersla á Melabók mun brátt skýrast. Fyrst er þó að nefna nokkrar textafræðilegar staðreyndir þar sem þær vantar hjá Ásgeiri.

Aðeins eru varðveitt tvö blöð af upprunalegri gerð Melabókar (í AM 445 b, 4to) sem er frá fimmtándu öld. Á sautjándu öld hefur handritið hins vegar verið heillegra, því þá studdist skrifarinn Þórður Jónsson í Hítardal við þetta handrit þegar hann gerði sína gerð af Landnámabók, Þórðarbók (hér eftir Þ) (AM 106 og 112 fol.). Eins og Jón Jóhannesson hefur sýnt fram á er Þórðarbók samsteypurit, en þar lagði Þórður Skarðsárbók (Sk) til grundvallar (enn eina gerð Landnámu frá sautjándu öld sem var samsteypurit úr Sturlubók og Hauksbók), en Þórður bætti síðan við texta úr Melabók gömlu (AM 445 b, 4to), sem þar af leiðandi er aðeins brotakennt varðveitt. Ég segi þetta til útskýringar á því að þegar Ásgeir Jónsson talar um Melabók, á hann við Þórðarbók, en það er byggt á heiti Finns Jónssonar frá 1921 þegar hann gaf út handrit Þórðar (AM 106 og 112 fol.). Það að kalla Þórðarbók Melabók er nú aflagt, eftir að rannsókn Jóns Jóhannessonar, Gerðir Landnámabókar, kom út. Í því sama riti eru leidd rök að sterkum tengslum gömlu Melabókar við Styrmisbók Landnámu, sem er með öllu glötuð.75 Kjarninn í þessu er sá að varðveisla hinnar upprunalegu Melabókar er slæm og er það háð túlkunum textafræðinga hvenær Þórður vísar til hennar eða til dæmis Styrmisbókar. Þá hefur Melabók gamla sennilega stuðst við Sturlubók Landnámu. Læt ég þetta duga um textafræðilegar staðreyndir.

hugmyndaríka textafræði sem Ásgeir býður upp á er í raun eina stóra atriðið sem hann bætir við álitsgerð Helga. Rökleiðslan um að ég þekki ekki Melabók er síðan tekin upp á ný undir 7. lið í hans greinargerð sem snýst um Ketil gufu:

Skýrast er sagt frá hrakningarsögu Ketils gufu í Melabók Landnámu. Þar segir orðrétt: „hann [Ketill gufa] vildi byggja í Nesi [Gufunesi] en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu. En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á brott fara en verstöð skyldi ávallt vera frá Hólmi [Reykjavík]“ Síðan heldur frásögnin áfram. Ketill flækist upp að Gufá að Mýrum og að Gufuskálum á Snæfellsnesi. Þrælar taka að strjúka frá honum og svo má einnig skilja að kona Ketils hlaupist á brott með einum þeirra. Á endanum stela þrælarnir sér til matar á Álftanesi á Mýrum og kveikja í húsum og eru allir drepnir í kjölfarið.

Umfjöllun Bergsveins um Ketil í LSV ber þess merki að hann hefur ekki lesið frásögnina í Melabók þar sem mörg lykilatriði vantar í hana. Hann virðist því styðjast við styttri útgáfu sem er að finna í Sturlubók. Staðreyndin er þó sú að það stendur skýrum stöfum í Melabók að Ketill hafi verið við veiðar á öllum helstu verstöðvum við Faxaflóa og átt í deilum við sjálfan Ingólf um veiðiréttindi. Honum gengur svo illa að þrælar og eiginkona strjúka frá honum eða stela sér til matar. Að lokum verður Ketill að leita ásjár hjá Geirmundi heljarskinni.

Ályktunin sem ég dreg í Eyjunni hans Ingólfs um að Ketill hafi verið að eltast við sjávarspendýr á þessum ferðum sínum, og þar með hreinsað upp síðustu leifar rostungsstofnsins, er því alls ekkert sérstaklega frumleg heldur leiðir beint af heimildum og getur ekki talist einkatilgáta eins né neins heldur stendur þetta skýrum stöfum í Melabók.76

Byrjum á tilvitnun Ásgeirs í Melabók (þ.e. Þórðarbók), sem hann segist vitna í „orðrétt.“ Umræddur texti er skráður svo í stafréttri útgáfu Finns Jónssonar, sem Ásgeir hefur texta Melabókar (það er að segja Þórðarbókar) frá (EHI, 27):

Gufe het annar s(on) Ketils. hann villde byggia i Nese en Ingolfur rak hann a brott þadan. þa for hann a Rosmhvalanes og villde byggia ad Gufu. En þau Steinudur keiptu saman ad hann skyllde a brutt fara, en vermst skyllde vera avallt fra Holme.77

Þá er fyrst að athuga um hvaða mann ræðir í þessum texta Þórðar, sem kann að hafa stuðst við hina gömlu Melabók.78 Hann hét Gufe (Gufi) og var Ketilsson. Það kemur fram í öðrum gerðum Landnámu, Sturlubók (S 22 og S 23), og í Hauksbók (H 21), að Ketill þessi, faðir Gufu, hafi verið bróðir Þormóðar og þeir Bresasynir. Í Hauksbók stendur: „Þormóðr hinn gamli ok Ketill Bresasynir fóru af Írlandi til Íslands ok námu Akranes allt á milli Aurriðaár ok Kalmansár. Þeir váru írskir.“79 Hið sama kemur fram í Sturlubók og Melabók (Þ), nema Sturlubók nefnir ekki að bræðurnir hafi verið írskir. Í Melabók (Þ) kemur líka fram að börn Ketils hafi verið, auk Gufu: Bresi, Jörundur og Eðna og eru öll talin í umfjöllun um landnám Akraness. Eru ættir raktar í öllum gerðum Landnámabókar frá þessu fólki, og ættir raktar frá Gufu Ketilssyni í Þórðarbók.

Þá er að sjá hvað Melabók (Þ) segir um Ketil gufu, þann sem ég skrifaði um, og er nefndur löngu síðar í því riti: „Ketill gufa het madur Ørlygss(on) Bodvarss(onar) Vijgsterkss(onar). Ørlygur a(tti) Signýiu Oblaudzd(ottur) systur Högna inz huijta.“80

Af þessu er ljóst að í því dæmi sem Ásgeir tiltekur úr Þórðarbók er ekki um Ketil gufu Örlygsson að ræða. Ásgeir setur annan mann inn í textann sem hann segist vísa orðrétt í; í stað Gufu Ketilssonar setur hann inn Ketil gufu. Það er síðan til að æra óstöðugan að ætla sér að greiða úr því hvort eða hvernig tengslum sé háttað milli Gufu Ketilssonar Bresasonar og Ketils gufu Örlygssonar,81 og skiptir litlu máli hér. Meginatriðið er að í því verki sem Ásgeir segist byggja á er þessum mönnum haldið aðskildum.

Ásgeir skrifar að með „Hólmi“ sé átt við Reykjavík. Það landnám sem hér um ræðir er á Akranesi og sennilega átt við það sem kallast „Hólmr enn iðri“ (S 24, H 21), eða það sem nú kallast Innri-Hólmur við Kirkjuból í Innri-Akraneshreppi.82 Þá er að skoða orðið „vermst“ sem stendur í handriti Þórðar. Á spássíu í Þ stendur sem skýring á orðinu „forsan vermannastod.“83 Mun vermannastöð vera réttara orð að baki bundna orðinu „vermst“, en verstöð. Textinn greinir frá Gufu Ketilssyni Bresasonar sem Ingólfur og Steinunn frænka hans hafa hrakið frá sér á Rosmhvalanesi út af einhverju máli sem kemur þó ekki fram hvað fól í sér. Svo stutt er kveðið að orði að klassísk fílólógía myndi kalla dæmið reductio ad absurdum. Samkvæmt Þórðarbók skyldi vermannastöð vera ávallt frá Hólmi á Akranesi, en ekkert um hvort eða hvernig það tengist téðum Gufu Ketilssyni, ekkert um hvers kyns vermannastöð ætti að vera frá Hólmi, hvort þar sé átt við fiskveiðar, eggver eða veiðar á sjávarspendýrum.

Ekkert af þessu efni Þórðarbókar hefur því neitt að segja um túlkanir mínar á sagnabrotum um Ketil gufu Örlygsson áður en hann verður tengdasonur Geirmundar, sem Ásgeir gerir að sínum í EHI. Ég studdist við sögnina um Ketil gufu að mestu leyti í Sturlubók og Egils sögu, en hafði hliðsjón af öðrum heimildum. Ásgeir segir að ég hafi byggt á „styttri útgáfu Sturlubókar,“ en þar telur sögnin af Katli gufu 343 orð, meðan að hún er endursögð með 335 orðum í Melabók (Þ). Ekkert kemur fram varðandi Ketil gufu í Melabók (Þ) sem ekki er í Sturlubók. Fullyrðing Ásgeirs um: „að það stendur skýrum stöfum í Melabók að Ketill hafi verið við veiðar á öllum helstu verstöðvum við Faxaflóa,“ hefur ekki við nein rök að styðjast. Þá notar Ásgeir enn mínar túlkanir sem röksemdir gegn mínum ásökunum en niðurstaða mín um tengdasoninn Ketil var að: „Gjaldþrota veiðimanni er borgið með með því að kvænast ríksmanns dóttur“ (LSV, 286), og Ásgeir orðar það svo að Ketill hafi af sömu ástæðum „leitað ásjár“ hjá Geirmundi.

Niðurstaða
Hér að framan hefur verið rakinn hluti af mun stærra máli sem að mínu mati snýst um umfangsmikinn ritstuld úr fræðiriti mínu Leitin að svarta víkingnum.84 Málið sé ég sem alvarlegt af fleiri ástæðum. Eitt er að ritþjófurinn, sem er seðlabankastjóri lýðveldisins, hefur áður verið ásakaður um ritstuld, en annað er hvernig sá sami kallaði til fyrrverandi prófessor í sagnfræði til að reyna að bera í bætifláka fyrir það sem ég sé ekki betur en séu forkastanleg vinnubrögð í fræðastarfi. Þá hefur alvaran vaxið þegar það sýndi sig að „kerfið“ sem á að taka á slíkum málum hefur brugðist. Annars vegar er um að ræða siðanefnd Háskóla Íslands sem hefur sagt af sér vegna afskipta rektors af málinu og kallað þau afskipti „ósigur fyrir Háskóla Íslands og fræðastarf í landinu.“85 Hitt er að Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum, sem Katrín Jakobsdóttir skipaði árið 2019, hefur verið fjársvelt og á vergangi milli ráðuneyta síðan hún var skipuð, og því óstarfhæf. Ég hef því gert það eina sem ég get, en það er að gera skýra grein fyrir mínu sjónarhorni á málið, skoða það í samhengi við siðareglur og tilvísanareglur annarra þjóða og leggja þannig málið undir dóm fræðasamfélags og almennings á Íslandi.

Sjálfur lít ég svo á að í dæmunum hér að framan sé um svokallaðan „rannsóknarstuld“ að ræða samkvæmt þýðingu Helgu Kress: „þegar höfundur tekur rannsóknaspurningar, röksemdafærslu og rannsóknaniðurstöður úr birtu verki eftir annan og setur fram sem sínar eigin“.86 Þá er að lokum að nefna hið augljósa, að annaðhvort gilda reglur og prinsipp um alla menn eða engan mann.

[1] Ásgeir Jónsson, Eyjan hans Ingólfs (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2021).

[2] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært,” Vísir, 8. desember 2021, sótt 11. mars 2022.

[3] Bergsveinn Birgisson, Leitin að svarta víkingnum (Reykjavík: Bjartur, 2016).

[4] Bergsveinn Birgisson, Den svarte vikingen (Oslo: Spartacus, 2013).

[5] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir Bergsveins Birgissonar á hendur Ásgeiri Jónssyni um ritstuld,“ fylgiskjal með „Prófessor emeritus telur ásakanir Bergsveins hæpnar,“ Vísir 6. janúar 2022, sótt 11. mars 2022.

[6] Skúli Skúlason, Sólveig Anna Bóasdóttir og Henry Alexander Henrysson, Yfirlýsing um afsögn siðanefndar Háskóla Íslands, ópr. bréf, dags. 10. febrúar, 2022. Í vörslu höfundar.

[7] Vef. Skúli Skúlason, Sólveig Anna Bóasdóttir og Henry Alexander Henrysson, „Um afsögn siðanefndar Háskóla Íslands,“ Vísir, 4. mars 2022, sótt 11. mars 2022.

[8] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað,“ Vísir, 15. febrúar 2022, sótt 11. mars 2022.

[9] Helga Kress, „Meðal annarra orða – Um aðferðafræði og vinnubrögð við ritun ævisögu Halldórs Laxness. Fyrri hluti,“ Saga 42 nr. 1 (2004): 187–220; Helga Kress, „Meðal annarra orða – Um aðferðafræði og vinnubrögð við ritun ævisögu Halldórs Laxness. Síðari hluti,“ Saga 42, nr. 2 (2004): 187–222.

[10] Vef. „Hannes Hólmsteinn dæmdur til að greiða 3,1 milljón,“ Viðskiptablaðið 13. mars 2008, sótt 15. mars 2022.

[11] Guðmundur Jónsson og Páll Sigurðsson, Álitsgerð sérfróðra matsmanna til Alþingis 3. júlí 2015, 13. Í vörslu höfundar.

[12] Vef. Kristín Eiríksdóttir, „Nanna, Hanna og Shanda,“ ruv.is. RÚV, sótt 4. febrúar 2022.   

[13] Vef. „Statement on Standards of Professional Conduct,“ historians.org. American Historical Association, sótt 17. janúar 2022. Evrópskar siðareglur taka í sama streng og tiltaka ritstuld sem „particularly serious,“ sjá: The European Code of Conduct for Research Integrity – Revised Edition (Berlin: ALLEA – All European Academies, 2017), 8.

[14] Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Ég gerði ekkert óheiðarlegt, framdi engan ritstuld,“ Morgunblaðið 9. janúar 2004, 27.   

[15] Vef. Árni H. Kristjánsson, „Óhreinn hvítþvottur seðlabankastjóra,“ Fréttablaðið 7. janúar 2022, sótt 11. mars 2022.

[16] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað.“

[17] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Yfirlýsing vegna ritstuldar úr Leitinni að svarta víkingnum“, Vísir 7. mars 2022, sótt 11. mars 2020.

[18] Vef. Gígja Einarsdóttir, „Þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni,“ Viðskiptablaðið 10. desember 2012, sótt 11. mars 2020; Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað,“ liður 1.

[19] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir,“ 7.

[20] Sama heimild, 4.

[21] Vef. Ásgeir Jónsson, „Ritun lokaritgerða, Lokaritgerðir-2. Uppskrift að ritgerð,“ dags. 9. júní 2021, punktar 25, 31 og 32, sótt 11. janúar 2022 gegnum vefsafn slidetodoc.com. 

[22] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir,“ 4.

[23] Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur Jónsson og Hrefna Róbertsdóttir, „Formáli,“ Saga 40, nr. 1 (2002): 5–6. 

[24] Ole-Andreas Rognstad, Anne-Hilde Nagel, Hallstein Laupsa og Johan L. Tønnesson, God skikk. Om bruk av litteratur og kilder i allmenne, historiske framstillinger (Oslo: Privatrettsfondet, 2006), 51. Frumtexti: „Her bør i alle fall stilles minstekrav til redelighet når det gjelder å oppgi bruk av andres arbeider.“ Þýðingar beinna tilvitnana í greininni eru höfundar.

[25] Sama heimild, 47. Frumtexti: „Alle forfattere og forskere, uansett om de er amatører eller profesjonelle … skal etterstrebe god henvisningsskikk.“

[26] Sbr. Johan Tønnesson í umfjöllun um hugtakið sakprosa í Vef. Store norske leksikon. snl.no, sótt 12. janúar 2022. 

[27] Guðmundur Jónsson og Páll Sigurðsson, Álitsgerð sérfróðra matsmanna, 13.

[28] Hugo Lauritz Jenssen, En samisk verdenshistorie (Oslo: Cappelen Damm, 2019).

[29] Cathrine Baglo, På ville veger (Oslo: Orkana akademisk, 2017).

[30] Eirik Stokke, „Ingen lov, ingen sheriff,“ Prosa 2 (2020).

[31] Kjerstin Gjengedal, „Godt nok?,“ Prosa 3 (2021).

[32] Simen Sætre, „Tyvens historie,“ Prosa 6 (2021), 24–26.

[33] Sama heimild, 23.

[34] Helga Kress, „Meðal annarra orða – Fyrri hluti,“ 190. Helga byggir á framsetningu Brian Martin, „Plagiarism: A Misplaced Emphasis,“ Journal of Information Ethics 3, nr. 2 (1994): 36–47.  

[35] Vef. „Forskningsetiske retningslinjer for samfunnsvitenskap, humaniora, juss og teologi“, ákvæði 28, forskningsetikk.no. De nasjonale forskningsetiske komiteene, sótt 5. mars 2022. Frumtexti: „Det regnes også som plagiat om man gjør henvisning til et annet arbeid tidlig i sin egen tekst, og så gjør omfattende bruk av det uten videre henvisninger.“

[36] Ole-Andreas Rognstad o.fl., God skikk, 42. Frumtexti: „har åpenbar relevans når det gjelder utarbeidelsen av allmenne historiske verk for en bred allmennhet.“  

[37] Ásgeir er nú í leyfi frá Háskóla Íslands, en segir að að bók sín hafi verið mjög lengi í smíðum, sjá EHI, 11. Siðanefnd komst vitanlega að sinni niðurstöðu út frá þeim skyldum sem starfsmenn Háskólans hafa þótt þeir séu í leyfi.

[38] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir,“ 7.

[39] Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I. Þjóðveldisöld (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1956).

[40] Gunnar Karlsson, Landnám Íslands. Handbók í íslenskri miðaldasögu II (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2016), 258–259. 

[41] Orri Vésteinsson, „Samhengið,“ í Reykjavík 871 +/– 2 – Landnámssýningin/The Settlement Exhibition, ritstj. Bryndís Sverrisdóttir (Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur, 2006), 14–45; Helgi Þorláksson, „Hefðin / Helgin,“ í Reykjavík 871 +/– 2 – Landnámssýningin/The Settlement Exhibition, ritstj. Bryndís Sverrisdóttir (Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur, 2006), 47–75.

[42] Helgi Guðmundsson, Um haf innan: Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1997), 54.

[43] Ævar Petersen, „Náttúrufar í Breiðafjarðareyjum,“ í Árbók Ferðafélags Íslands (Reykjavík: Ferðafélag Íslands, 1989), 17–52, hér 25; Ævar Petersen, „Rostungar við Ísland að fornu og nýju,“ í Villt íslensk spendýr, ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag, 1993), 214–216.

[44] Bjarni Einarsson, „Hvallátur“, Gripla 6 (1984): 129–134.

[45] Lbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, handritasafn) Lbs. 2005 4to. Friðrik Eggerz Eggertsson til Eyjólfs Einarssonar í Svefneyjum, ódagsett, sjá LSV, 254.

[46] Þorvaldur Thoroddsen, Lýsing Íslands. 2. bindi (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1911), 466.

[47] Helgi Þorláksson, „Hefðin / Helgin,“ 2.

[48] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir, 2.

[49] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“. Reyndar voru ekki færð rök fyrir því að stofninum hafi verið útrýmt sökum veiða, eins og Ásgeir skrifar, fyrr en í grein frá 2019, og þá nefndar fleiri tilgátur þar fyrir hvarfi stofnsins, sjá: Keighley, Xénia, Snæbjörn Pálsson, Bjarni F. Einarsson, Ævar Petersen, Meritxell Fernández-Coll, Peter Jordan, Morten Tange Olsen og Hilmar J. Malmquist, „Disappearance of Icelandic Walruses Coincided with Norse Settlement,“ Molecular Biology and Evolution 36 (12) 2019: 2656–2667.

[50] Orri Vésteinsson, „Samhengið,“ 33.

[51] Helgi Þorláksson, „Hefðin / Helgin,“ 34–35. Þá er ég gagnrýndur í álitsgerð Helga fyrir að geta ekki umfjöllunar Illuga Jökulssonar í tímaritinu Sagan öll nokkru síðar, sjá: Illugi Jökulsson, „Rostungar í Reykjavík,“ Sagan öll, nr. 1 (2007), 34–41. Eins og Illugi sjálfur bendir á lagði hann enga eigin rannsókn fram í þessu efni, heldur byggði á þessum hugmyndum og miðlaði þeim, sjá Vef. „Rostungakenningin hreint ekki ný af nálinni,“ Vísir 13. desember 2021, sótt 13. mars 2022.

[52] Sturlubók 115 (S), Hauksbók 87 (H). Landnámabók (S og H), í Íslendingabók – Landnámabók. Fyrri hluti. Íslenzk fornrit I, útg. Jakob Benediktsson (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1986), 155–156.

[53] Um þessar tilraunir sjá LSV, 240–242.

[54] Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært,” 2.

[55] Íslendingabók – Landnámabók (Sturlubók 115), 154. Í Hauksbók (H 87) kemur hið sama fram, nema hann er kallaður „stórauðigr at lausafé ok hafði of kvikfjár,“ 155. 

[56] Sturlunga saga I, ritstj. Örnólfur Thorsson m.fl. (Reykjavík: Svart á hvítu, 1988), 3–4.

[57] Hubert Seelow, „Zu den genealogischen Quellen der Hálfs saga ok Hálfsrekka,“ í Greppaminni – Rit til heiðurs Vésteini Ólasyni sjötugum, ritstj. Margrét Eggertsdóttir m.fl. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2009), 351–364; Hálfs saga ok Hálfsrekka, útg. Hubert Seelow (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1981).

[58] Helgi Skúli Kjartansson, „Landnámið eftir landnám,“ Ný saga 9, nr. 1 (1997): 22–34; Helgi Skúli Kjartansson, „Hvenær landnám hófst á Íslandi,“ Ný saga 13, nr. 1 (2001): 95–96.

[59] Bjarni F. Einarsson, „Róum við í selin, rostungs út á melinn,“ í Fjöruskeljar ― Afmælisrit til

heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri 29. mars 2011, ritstj. Guðrún Kvaran m.fl. (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2011), 31–52.

[60] Sverrir Jakobsson, Saga Breiðfirðinga I: Fólk og rými frá landnámi til plágunnar miklu (Reykjavík: Sagnfræðistofnun, 2015).

[61] Guðrún Ása Grímsdóttir, „Hvað segja heimildir um uppruna Íslendinga?,“ í Um landnám á Íslandi, ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir (Reykjavík: Vísindafélag Íslendinga, 1996), 33–48.

[62] Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I, 341.

[63] The European Code of Conduct for Research Integrity – Revised Edition (Berlin: ALLEA – All European Academies, 2017), 8.

[64] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir, 5.

[65] Vef. Bergsveinn Birgisson, „Stolið og rangfært,” 2–3.

[66] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“.

[67] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir,“ 3.

[68] Þórhallur Vilmundarson, „Gufá, Gufufjörður, Gufunes, Gufuskálar,“ Grímnir Rit um nafnfræði 1 (Reykjavík: Örnefnastofnun Þjóðminjasafns, 1980), 92–98.

[69] Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir,“ 3.

[70] Sama heimild, 3.

[71] Sama heimild, 3–4. 

[72] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“.

[73] Auður Ingvarsdóttir, „Sagnarit eða skrá? – Staða Melabókar sem upprunalegustu gerðar Landnámabókar,“ Saga 42, nr. 1 (2004): 91–119, hér 93. 

[74] Sama heimild, 115. Með „Melamanni“ vísar Auður til ritara hinnar upprunalegu Melabókar.

[75] Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1941), 170–174.

[76] Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“.

[77] Landnámabók – Melabók AM 106. 112 FOL., útg. Finnur Jónsson (København: Gyldendalske Boghandel, 1921), 35.

[78] Sbr. Jakob Benediktsson, Íslendingabók – Landnámabók, 66–67, nmgr. 5. 

[79] Íslendingabók Landnámabók, 59–60.

[80] Landnámabók – Melabók, 72.

[81] Sjá m.a. hugleiðingar Jakobs Benediktssonar um þetta: Íslendingabók–Landnámabók, 66–67; Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar, 81–84.    

[82] Adolf Friðriksson, Fornleifar í Innri-Akraneshreppi (Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands), 15.

[83] Landnámabók – Melabók, 35.

[84] Svör mín við þeim efnisatriðum sem eftir standa, þar sem Helga og Ásgeiri er svarað lið fyrir lið, má lesa á heimasíðu minni á vefslóðinni: bergsveinnbirgisson.is, og á facebook-vegg mínum.

[85] Vef. Skúli Skúlason m.fl., „Um afsögn siðanefndar“. [1] Helga Kress, „Meðal annarra orða – Fyrri hluti“, 190.

Deila:

Annað efni