Skip to content
Sjálfsvörn gamla mannsins. Vegna útkomu bókar um hnignun í sögu Íslendinga
Gunnar Karlsson
Sjálfsvörn gamla mannsins. Vegna útkomu bókar um hnignun í sögu Íslendinga

Á síðastliðnu ári kom út hjá Sögufélagi bókin Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir Axel Kristinsson. Eins og titillinn bendir til er þetta deilurit fremur en rannsóknarrit. Drjúgur hluti af fyrsta kafla hennar snýst um að lasta kenninguna um hnignunartímabil í íslenskri sögu áður en byrjað er að tefla fram rökum gegn henni, byrjað er á að stimpla hana sem goðsögn, Öskubuskusögu, flökkusögn.1 Síðar í bókinni  er þó komið á margvíslegan hátt að innihaldi hnignunarkenningarinnar en þess er víðast gætt að nefna hana hnignunargoðsögn eða mýtu svo að lesendur gleymi því aldrei að þeir eru í herferð gegn rangri skoðun.

Nú hef ég síst á móti því að út komi rit með gagnrýni á kenninguna um hnignun í sögu Íslendinga. Mér finnst þetta forvitnilegt umræðuefni. Sérstaklega var skemmtilegt á síðasta áratug liðinnar aldar þegar Árni Daníel Júlíusson herjaði á hnignunarkenninguna af makalausri dirfsku og sjálfsöryggi. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að gera athugasemdir við sumt sem Axel Kristinsson segir, og lætur ósagt, um það sem ég hef lagt til málanna í þessari umræðu. Ég óttast að hann skrifi út úr umræðunni sumt sem ég hef skrifað um hnignunarmálið og geri þar með að engu verk sem betur eru þekkt og munuð en ekki. Hins vegar ætla ég að reyna að stilla mig um að gera athugasemdir við annað í bók Axels þótt stundum sé það freistandi, ekki ber að skilja grein mína sem tilraun til að skrifa almennan ritdóm um bókina enda er annar maður búinn að gera það fyrir Sögu.2

Axel flokkar mig þannig að ég sé „hallur undir“ hnignunarkenninguna (AK 29). Sjálfur man ég ekki eftir eða get fundið að ég hafi nokkurn tímann lýst því yfir. Í inngangsfyrirlestri að málstofu um kenninguna á 2. íslenska söguþinginu árið 2002 gekk ég ekki lengra en svo að spyrja í kaflafyrirsögn: „Var kannski hnignun á Íslandi?“ og hvetja til áframhaldandi þverfaglegra rannsókna sagnfræðinga og náttúrufræðinga á efninu.3 Um svipað leyti sneri ég drögum að íslenskri miðaldasögu, sem ég hafði glímt við í nokkur ár, upp í fjölbinda handbók sem var ekki skipulögð í heild frá upphafi en gaf sterklega í skyn að ég byggist ekki við að mér entust kraftar eða aldur til að ljúka henni.4 Þarna er einfaldlega tekið á efnisatriðum þegar höfundi finnst komið að þeim í efnisröð sem hann býr auðvitað til sjálfur. Fyrsta bindi reyndi ég að skrifa eins og inngang að yfirlitsbók um íslenska miðaldasögu og sá ekki tilefni til að fjalla neitt um hnignunarkenningu þar. Hún er að minnsta kosti ekki nefnd í efnisyfirliti eða bendiskrá bindisins.5 Í öðru bindi um landnám Íslands (sem kom raunar út á eftir þriðja bindi) fór svo lítið fyrir hnignunarkenningunni að ég varð að beita orðaleit í tölvu til að finna hana. En þar reynist hnignun vera nefnd þar sem sagt er frá landnámssögum sem finnast ekki skráðar fyrr en á nítjándu öld, til dæmis þjóðsögu sem segir að Ingólfur Arnarson hafi grafið Soginu farveg úr Þingvallavatni suður í Hvítá og þess vegna heiti sveitin vestan þess Grafningur. Ég spyr hvað eigi að lesa út úr þessari tilhneigingu til að afbaka stærðarhlutföll landsins og landnámsfólksins. „Er það merki um upphafningu á stofni Íslendinga eða hugmynd um langvarandi hnignun mannlífsins á Íslandi?“6 Þriðja bindi handbókarinnar, Lífsbjörg Íslendinga frá 10. öld til 16. aldar, kallar Axel Kristinsson „málsvörn sagnfræðings fyrir hnignunarkenningunni“ (AK 36, sbr. AK 113). Sannleikurinn er sá að meirihluti bindisins fjallar um framleiðslu þjóðarinnar, einkum matvælaframleiðslu, og þar hefði það verið hrein sögufölsun í handbók að fjalla ekki rækilega um hnignunarkenninguna að því leyti sem hún snýst um samdrátt í framleiðslu. Hér var það hreinn talnasamanburður sem leiddi mig að þeirri niðurstöðu að framleiðsla hefði dregist verulega saman á tímabilinu frá hámiðöldum til átjándu aldar. Það varð að meginniðurstöðu þeirrar bókar, en aðeins hennar.7

Önnur viðfangsefni mín í handbókinni geta auðveldlega leitt að öðrum niðurstöðum. Núna er ég til dæmis að þoka áleiðis bókarhluta um húsakost Íslendinga á miðöldum og er búinn, og var búinn áður en bók Axels kom út, að komast að þeirri niðurstöðu að heimildir, einkum fornleifar, sýndu ekki almennan samdrátt í stærð íbúðarhúsa á síðmiðöldum og merki væru þar um eina tæknilega framför. Þessi ályktun er að vísu reist á allt of fáum dæmum en ef ekkert á eftir að koma í ljós sem breytir henni, og mér tekst að ljúka bindinu, þá verður sannarlega ekki þagað um hana. Umræða um hnignunarkenninguna í heild bíður svo einhvers enn síðara bindis, ef einhvern tímann kemur að því, en ég lofa engri eindreginni niðurstöðu. Eins og Axel ræðir í bók sinni, og ég hafði raunar rætt á prenti áður,8 er hnignun flókið hugtak og lýtur tæplega vísindalegri skilgreiningu (AK 37). Það merkir að mínu mati alls ekki að hugtakið sé ónothæft í sagnfræði, kannski er það aðeins nothæft í samræðum þeirra sem eru nokkurn veginn sammála um hvað eigi að kalla hnignun. Og það er líklega smekksmunur hvort fólki finnst besti kosturinn að skipa sér í flokk með henni eða á móti.

Ein leiðin til að gera lítið úr framlögum eldri kynslóðar fræðimanna er að gefa í skyn að þeir fylgist ekki með nýjungum í fræðunum. Axel segir að þrátt fyrir háan aldur minn megi líta á Lífsbjörg Íslendinga „sem samræðu við ennþá eldri fræðimenn sem nú eru flestir gengnir til feðra sinna en nýrri rannsóknir eru að miklu leyti hunsaðar“ (AK 36–37). Þarna nefnir Axel ekki eitt einasta dæmi þessu til stuðnings heldur vísar í ritdóm Orra Vésteinssonar um Lífsbjörg í Sögu þar sem fundið var að því að ég fjallaði lítið og skilningslaust um það sem hefði verið skrifað um efnið eftir 1985 eða 1990.9 Hins vegar lætur Axel ógert að nefna að ég svaraði Orra rækilega í sama tímariti og sýndi með tölum að staðhæfingar hans væru í verulegum atriðum rangar og villandi, einkum um aldur þeirra rita sem ég á orðastað við í bókinni. Ég reyndist hafa vísað til 155 fræðirita sem höfðu komið út eftir 1985 og þar af 60 frá tuttugustu og fyrstu öld.10

Annars staðar finnur Axel að því við Gunnar Karlsson „að hann víkur ekki einu orði að rannsóknum Árna Daníels Júlíussonar á mannfjölda á Íslandi sem hefur þó fjallað um efnið í fjölda bóka og ritgerða.“ (AK 118). Þetta er að vísu ekki bókstaflega rétt: í mannfjöldapælingum mínum í Lífsbjörg vísa ég í grein Árna Daníels í Sögu 1990, „Áhrif fólksfjöldaþróunar á atvinnuhætti gamla samfélagsins“ (GK 85 nmgr.). En það er um alþekkt fólksfjöldafræðilegt atriði, spurninguna hvort framfærslumöguleikar takmarki fólksfjölda eða fólksfjöldabreytingar breyti framfærslumöguleikum. Líklega hefur mér fundist að Árni Daníel hafi fyrstur manna kynnt þennan skoðanaágreining á íslensku og ætti ég því að vísa til hans. Hitt er rétt að ég rek ekki kenningar Árna Daníels um fólksfjölda á Íslandi. Hvort það voru alvarleg mistök ætlaði ég að ráða af því til hvers Axel vísi eftir Árna Daníel í umræðu sinni um fólksfjölda. Axel skrifar að erfitt  sé „að ímynda sér að þá [á fjórtándu öld] hafi verið færri en 70 þúsund manneskjur í landinu og alls ekki útilokað að þær hafi verið 100 þúsund“. Hér vísar Axel neðanmáls: „Sjá einkum Árni Daníel Júlíusson (1997), bls. 79–111.“ (AK 119). Ef maður flettir upp í heimildaskrá Axels (AK 254) er þar aðeins tilfært eitt rit eftir Árna frá árinu 1997, Skírnisgreinin „Myndin af fortíðinni. Um orsakir þess hversu neikvæð hún er í hugum Íslendinga“, stutt en yfirgripsmikil og skemmtileg grein, en þar er ekki orð um fólksfjölda. Alla getur nú hent að ýta á rangan lykil á lyklaborði, ætlaði Axel kannski að vísa í rit frá öðru ári? Vísun hans var til blaðsíðna 79–111 sem getur raunar ekki átt við greinina frá 1997 en í heimildaskrá Axels er skráð grein eftir Árna Daníel í Sögu 1998 á bls. 77–111, „Valkostir sögunnar. Um landbúnað fyrir 1700 og þjóðfélagsþróun á 14.–16. öld“ (AK 254). Þar er fjallað um margt sem mætti nota í röksemdafærslu um fólksfjölda: um búfjárfjölda, lögbýli, hjáleigur, eyðibyggð, landskuld og leigukúgildi en ekkert er þar sagt um fólksfjöldann sjálfan.

Um þetta efni vísar Axel líka í óbirtar rannsóknir Árna Daníels, „(2018, handrit)“ (AK 119 nmgr.) en að þeim hafði ég auðvitað ekki aðgang þegar ég skrifaði bók mína á árunum fram til 2009. Einhver mundi giska á að ég hefði getað sótt gagnlegan fróðleik um fólksfjölda í doktorsritgerð Árna Daníels frá Kaupmannahafnarháskóla, Bønder i pestens tid. Landbrug, godsdrift og social konflikt i senmiddelalderens islandske bondesamfund (1996). En það var eitt af ráðum mínum til að komast á einhvers konar leiðarenda með eins yfirgripsmikið verkefni og lífsbjörg Íslendinga á miðöldum að nota helst ekki óprentaðar námsritgerðir og gerði ég fyrirvara um það í formála Lífsbjargar (GK 9–10). Raunar las ég doktorsritgerð Árna áður en ég lauk Lífsbjörg en líklega hef ég ákveðið að láta rökfærslu hans bíða þangað til kæmi að því að ég fjallaði heildstætt um hnignunarkenninguna í mínu langa verkefni. Hafi mér samt sem áður sést yfir eitthvað sem hefði betur komið með í Lífsbjörg leyfi ég mér að benda Axel á að það getur hent hvern sem er að hlaupa yfir eitthvað sem sjálfsagt er að taka með. Eftir allt sem hann skrifar sjálfur um pólitíska þjóðernishyggju Íslendinga tilfærir hann ekki í heimildaskrá sinni grein mína „Dönsk stjórn á Íslandi, böl eða blessun?“ sem birtist í Sögu XLVI:2 (2008), bls. 151–163. Vissulega er þetta yfirborðsleg grein (enda samin til að falla inn í þverfaglega málstofu á hugvísindaþingi um samskipti Dana og Íslendinga). Samt er það annaðhvort mismunun eða skyssa að nefna hana ekki í heimildaskrá.

Stundum finnst mér Axel beita nokkuð einföldum ráðum til að véfengja ályktanir mínar um hnignun í búskap landsmanna á síðmiðöldum. Til dæmis skrifar hann (AK 144–145):

Í heimi hnignunarmýtunnar er tilhneiging til að túlka breytingar á atvinnulífi sem afturför, jafnvel þótt þær feli ekki endilega í sér meiri einhæfni. Þetta kemur vel fram hjá Gunnari Karlssyni þegar hann þykist finna tvær sterkar vísbendingar um afturför í búskap á miðöldum. Annað er að menn drógu mjög úr garðhleðslum sem svo mjög virðist einkenna fyrstu aldirnar en hitt að byggðin á hálendisjaðrinum skrapp saman.

Um garðana er það fyrst að segja að ekki aðeins dró úr hleðslu þeirra á síðmiðöldum heldur var þeim görðum sem höfðu verið hlaðnir leyft að hrörna og falla (GK 102). Og margan fræðimann hygg ég svo fljótfæran að hann myndi umsvifalaust flokka það sem hnignun þegar kerfi búfjárvarnargarða voru látin falla í rústir án þess að það væri afleiðing af afnámi bjúfjárræktar. Hér gerist Axel í meira lagi vandfýsinn á skýringar, talar um „einhverjar áherslubreytingar í búskap en hvorki Gunnar né aðrir hafa nema missennilegar tilgátur um hverjar þær voru. Ráðgáta er hvernig hægt er að halda því fram að óþekktar breytingar á búskaparháttum feli í sér hnignun.“ (AK 145). Óþekktar í hvaða skilningi? Við vitum að garðarnir voru hlaðnir og þeir voru látnir ganga úr sér á síðmiðöldum og/eða síðar. Að finna út hvers vegna það gerðist er viðfangsefni okkar fræðimannanna og leiðin til þess er að setja fram tilgátur sem hljóta að þykja missennilegar. Mér finnst Axel vera að víkja sér undan því að ræða mikilvægt mál efnislega.

Um samdrátt byggðar á hálendisjaðrinum finnur hann misræmi í málflutningi mínum. Eins og hann nefnir segi ég frá hugmyndum sem fornleifafræðingar hafi nýlega birt um að byggðin hafi, eins og Axel orðar það, „vísvitandi verið rýmd til að bændur í lágsveitum gætu nýtt landið fyrir skógarhögg eða sumarbeit“. Hins vegar segi ég líka síðar í bók minni að þessa samdráttar „gæti svo víða „að varla verður kallað annað en hnignun í búskap landsmanna““ (AK 145, sbr. GK 114 og 323). Já, það er rétt að ég er líklega ekki gersamlega samkvæmur sjálfum mér um þetta atriði, enda efasemdamaður um efnið eins og komið hefur fram. En Axel ræðir þetta ekki efnislega heldur. Í stað þess endar hann umfjöllun sína á fyndni: „Íslands ógæfu verður allt að vopni í höndum hnignunarsinna.“ (AK 145). Það er ein leiðin til að snúa sig út úr málefnaumræðu. Axel var líka kominn að niðurstöðu strax í upphafi bókar, er bara að herja á mýtu og þarf ekki að hirða um rökstuðning.

Loks kem ég að meginefni mínu og tilefni þess að ég tek til máls um bók Axels. Í Lífsbjörg gerði ég nokkuð umfangsmikla en óhjákvæmilega umdeilanlega tilraun til að áætla magn matvælaframleiðslu á Íslandi á miðöldum. Fyrst áætlaði ég og reiknaði út stærð 14 fjósa sem hafa verið könnuð svo rækilega að ég þóttist geta giskað á hvað þau hefðu getað hýst marga nautgripi.11 Niðurstaðan var sú að þessi 14 fjós hefðu rúmað 274 gripi eða tæplega 20 að meðaltali (sjá töflu). Þá er eftir að draga frá rúm sem kálfar og ókelfdar vetrungskvígur hafa tekið og einnig bása sem hafa staðið auðir um lengri eða skemmri tíma. Það hlýtur að hafa komið fyrir. Ég ákvað því að reikna með að á meðalbúi hefðu verið 16 fullorðnir nautgripir. Síðan mat ég hlutfallið á milli nautgripa og sauðfjár (og geita), aðallega út frá hlutfalli nautgripabeina og sauðfjárbeina sem fornleifafræðingar höfðu talið upp úr öskuhaugum. Jafnframt nýttust öskuhaugarnir til að álykta að bein svína, alifugla eða hrossa væru ekki svo algeng í öskuhaugum bændaheimila að ástæða væri til að reikna þessar tegundir með. Rétt er að halda því til haga að við þetta hafði ég mikla hliðsjón af margvíslegum vitnisburðum ritheimilda um búfjárfjölda sem Helgi Þorláksson hafði tínt saman í doktorsritgerð sína, Vaðmál og verðlag (GK 133, 134, 136–137).

Síðan nýtti ég nýlegar niðurstöður mælinga á hlutfalli ólíkra kolefnisísótópa í mannabeinum sem sýna að sjávarafurðir hafi að jafnaði verið um 20% af fæði fólks en það hlutfall lækkaði ég niður í 15% vegna þess sem landbúskapurinn lagði fram til klæðaefnis en sjávarútvegur ekki. Þetta umreiknaði ég síðan í einingu sem ég kallaði jafngildi kúgildis og komst að þeirri niðurstöðu að kvikfjárrækt landsmanna hefði skilað 170.000 slíkum á ári og sjávarútvegurinn þá 30.000. Þessar stærðir voru síðan bornar saman við tölur um framleiðslu á átjándu öld, fyrst og fremst búfjártal sem er til frá 1703. Þá reyndist kvikfjárræktin skila 80.000 kúgildum. Áður hafði ég gert grófa áætlun um að vinna Íslendinga á átjándu öld hefði verið að tveimur þriðju hlutum framlag til landbúnaðar en einum þriðja til sjávarútvegs.12 Miðað við að framleiðni hafi verið jafnmikil í þessum atvinnuvegum má þá meta framleiðslu landsmanna á átjándu öld sem jafngildi 120.000 kúgilda. Útfluttar vörur eru reiknaðar með og gert ráð fyrir að jafngildi þeirra hafi flust inn í landið sem innflutningsvörur. Nú hafði ég áætlað að landsmenn hefðu farið mest upp í að vera 60.000 talsins á miðöldum en árið 1703 voru þeir rétt rúmlega 50.000. Samanburð tímabilanna má því setja upp svona, reiknað í jafngildum kúgilda:

 KvikfjárræktSjávarútvegurSamtalsÁ hvern íbúa
Hámiðaldir170.00030.000200.0003,3
Átjánda öld80.00040.000120.0002,4

Hér virðist því koma í ljós býsna mikill samdráttur í framleiðslu á hvern íbúa frá miðöldum til átjándu aldar. Mér fannst það vera sterk vísbending um hnignun á framleiðslusviðinu (GK 127–150, 168–180, 322–324, 327–328). Það var auðvitað ekki hugmynd mín að ég væri þar með kominn á leiðarenda að áætla samdráttinn í framleiðslu Íslendinga frá miðöldum til átjándu aldar. En ég var svo bjartsýnn að halda að einhverjir fræðingar mundu kannski einhvern tímann gera rökstuddar tillögur um einstakar breytingar á áætlunum mínum og því kynni að vera nokkurs virði fyrir rannsóknarferilinn að þessi tilraun mín yrði þekkt.

Til þess að bók Axels komi að notum í þeim tilgangi segir hann allt of lauslega frá áætlunum mínum. Eins og áður sagði byrjar hann á að lýsa þær ómerkar sem hluta af mýtu. Síðan nefnir hann ekki einu sinni hvernig þær eru reistar á fornleifafræðilegum grunni en segir aðeins: „Gunnar metur það svo að á miðöldum (fyrir 1400) hafi fólksfjöldi verið svipaður [og um 1700] en kúgildi um 170 þúsund.“ Síðan segir hann að áætlanir mínar séu „fjarri því að vera nákvæmar“ (AK 114) og það get ég sannarlega tekið undir. Allt er þetta óhjákvæmilega afar ónákvæmt þótt þar fylgi auðvitað ýmiss konar rökstuðningur sem hér er ekki rúm til að nefna. En ónákvæmt er ekki það sama og rangt, enda verður varla nokkurn tímann kostur á nákvæmum niðurstöðum um þessi efni. Axel sagði að niðurstaða mín væri sú að landsmenn hefðu lifað á 170.000 kúgildum á miðöldum. Þá er hann ekki farinn að reikna með þeim 20% fæðunnar sem voru sjávarafli samkvæmt því sem mælist í beinum miðaldafólks. Í stað þess segir hann: „Munurinn [á afrakstri kvikfjárræktar á miðöldum og um 1700] er langtum meiri en svo að mismiklar fiskveiðar geti skýrt hann en reyndar er ósennilegt að fiskneysla hafi verið meiri á 18. öld en þeirri 14.“ (AK 114). En þessi munur á niðurstöðum okkar kemur ekki svo mjög að sök vegna þess að Axel fer ekkert ofan í áætlanir mínar um framleiðslumagn en leggur nánast eingöngu áherslu á að ég meti „mannfjölda á miðöldum óeðlilega lágan … og þar með fleira búfé á mann“ (AK 114). „Til gamans“ prófar Axel „að snúa tölum Gunnars á haus og“ notar „bústofninn, eins og hann áætlar hann, til að reikna út mannfjölda fyrir 1400 miðað við sama hlutfall og gilti um 1700. Út úr því kemur að mannfjöldinn hafi þá verið ríflega hundrað þúsund (um 106.250)“ (AK 114–115). Síðar í bók Axels kemur fram að hann leggur einkum áherslu á að fólksfjöldi hafi verið meiri á fjórtándu öld, fram að plágunni miklu 1402–1404, en ég reiknaði með. Hann segir „erfitt … að ímynda sér að þá hafi verið færri en 70 þúsund manneskjur í landinu og alls ekki útilokað að þær hafi verið 100 þúsund“ (AK 119). Og annars staðar: „Við getum giskað á að mannfjöldinn hafi verið 90 þúsund um 1400 en minnkað niður í 30 þúsund eftir svartadauða 1402–04.“ (AK 122). Þessari skoðun, um hámarksfólksfjölda í 80.000–100.000 á fjórtándu öld, deilir Axel með Árna Daníel Júlíussyni.13 Ágreiningur minn við þá félaga snýst þá einkum um fólksfjölda á fjórtándu öld. Gallinn er bara sá að mikill fólksfjöldi á fjórtándu öld hjálpar ekki til að skýra hinn mikla nautgripafjölda sem birtist í fjósarústunum.

Annars vegar stafar það af því að ég leiddi til niðurstöðu um heildarfjölda nautgripa á miðöldum með því að margfalda áætlaðan meðalfjölda gripa í hverju fjósi með áætluðum fjölda býla. Að svo miklu leyti sem fólksfjöldatalan er hækkuð með því að áætla fjölda býla meiri en ég gerði þá fjölgar fjósunum og þar með nautgripum, kannski ekki alveg að sama skapi af því að búast má við að stærri hluti nýju byggðarinnar sé viðbótarbýli á býlum sem voru til fyrir, og deildu þá kannski fjósi með þeim sem höfðu búið þar fyrir, eða hjáleigur sem hafa síður dregið til sín athygli fornleifafræðinga en lögbýli. En ástæðulaust er annað en að gera ráð fyrir að fjósunum fjölgi umtalsvert ef gert er ráð fyrir meiri fólksfjölda.

Hitt er það að stærð uppgröfnu fjósanna skýrist ekki af fólksfjölda á fjórtándu öld vegna þess að aðeins eitt þeirra er frá fjórtándu öld, í Gröf í Öræfum. Hin eru öll eldri, flest miklu eldri (sbr. töflu). Ef uppgrafnar fjósarústir frá miðöldum vitna um nautgripabúskap meira en 100.000 íbúa þá á það einna helst við elleftu til tólftu öld. Er þá nærtækast að álykta af fjölda fjósbása að fjöldi Íslendinga hafi farið yfir 100.000 á elleftu og tólftu öld? Þegar ég skrifaði Lífsbjörg Íslendinga fannst mér það helst til einföld lausn að bæta bara við fólki þangað til dæmið gengi upp. Svo margt hefur líka verið skrifað um fólksfjölda í landinu um það leyti, þegar Ari fróði segir frá því í Íslendingabók að bændur sem greiddu þingfararkaup hafi verið 38 hundruð nálægt aldamótunum 1100, að ekki virtist hægt að vaða yfir það í krafti einnar áætlaðrar tölu. Ekki er vitað til að neinar kvikfjárafurðir hafi verið seldar úr landi á þessum tíma nema ullarvörur. Er hugsanlegt að Íslendingar hafi vanið sig á einhvers konar matarsóun eða ofneyslu? Mér datt í hug að þeir hefðu tamið sér að neyta meira feitmetis en fólk gerir yfirleitt af því að þeir voru svo illa búnir gegn því að ganga um blautlendi og dveljast úti í rigningu. Axel tekur þessari hugmynd minni afleitlega, ég hafi ekki annað svar við þeirri ofneyslu sem komi út úr útreikningum mínum „en hálfkæringslega tilgátu um að fólk hafi étið sér til hita. Þá hugmynd er varla hægt að taka alvarlega enda kannski ekki ætlast til þess“ (AK 114).

Hvers vegna ekki? Við vitum að það hlýtur að krefjast orku þegar líkaminn er sífellt að hita upp vatnið í klæðum sínum, og Íslendingar virðast aldrei hafa tamið sér að búa til sæmilega vatnsheld leðurstígvél eða yfirhafnir. Ég ólst upp með sveitafólki sem notaði enn málsháttinn „það er fleira matur en feitt ket“ þegar þurfti að notast við eitthvað sem þótti ekki fullgott. Í mínu minni var þetta fólk að vísu komið á það tæknistig að það þurfti ekki að éta sér til hita og það hafði engar sérstakar mætur á feitmeti. En það gat borðað það. Mér er óskiljanlegt hvernig ekki eldri menn en eldri bræður mínir gátu úðað í sig feitu hrossaketi, væmnustu fitu sem ég hef smakkað. Það var ekki af því að þeir gengju í votum fötum heldur af því að þeir höfðu vanist feitmeti í bernsku. Alkunna er að fólki finnst það gjarnan bragðgott alla ævi sem það hefur byrjað snemma að borða sér til ánægju.

Hér er auðvitað mörgu ósvarað. Hvernig lauk þessu háneyslutímabili? Hvað tók við af því og hvenær? Kannski dróst matvælaframleiðslan smátt og smátt saman og vandi fólk á að búa við rakan og kaldan klæðnað án þess að það væri beinlínis vannært á alþjóðlega mælikvarða. Ég kann ekki svör við þessu en held að við ættum að hugleiða málið fremur en að dæma nýja tillögu rökstuðningslaust úr leik. Okkur miðar ekkert áleiðis ef við hugsum bara gamlar hugsanir.

Tilvísanir:

  1. Axel Kristinsson, Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið á sögu Íslands (Reykjavík: Sögufélag 2018), bls. 11–17. Framvegis verður vísað í bókina innan sviga í meginmáli með stöfunum AK og blaðsíðutali: (AK 11–17).
  2. Guðmundur J. Guðmundsson, „Axel Kristinsson, HNIGNUN. HVAÐA HNIGNUN? GOÐSÖGNIN UM NIÐURLÆGINGARTÍMABILIÐ Í SÖGU ÍSLANDS.“ Saga LVII:1 (2019), bls. 200–203.
  3. Gunnar Karlsson, „Saga og eðli hnignunarkenningar“, 2. íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní 2002. Ráðstefnurit I. Ritstjóri Erla Hulda Halldórsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 2002), bls. 106–107.
  4. Gunnar Karlsson, Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2007), bls. 13–16.
  5. Gunnar Karlsson, Inngangur að miðöldum, bls. 5–7, 362.
  6. Gunnar Karlsson, Landnám Íslands. Handbók í íslenskri miðaldasögu II (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2016), bls. 376.
  7. Gunnar Karlsson, Lífsbjörg Íslendinga frá 10. öld til 16. aldar. Handbók í íslenskri miðaldasögu III (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2009). Framvegis verður vísað í bókina innan sviga í meginmáli með stöfunum GK og blaðsíðutali.
  8. Gunnar Karlsson, „Saga og eðli hnignunarkenningar“, bls. 106.
  9. Orri Vésteinsson, „Gunnar Karlsson, LÍFSBJÖRG ÍSLENDINGA FRÁ 10. ÖLD TIL 16. ALDAR (Handbók í íslenskri miðaldasögu III).“ Saga XLIX:1 (2011), bls. 211–213.
  10. Gunnar Karlsson, „Í tilefni af ritdómi.“ Saga XLIX:2 (2011), bls. 211–216.
  11. Hluta fjósanna fann ég með hjálp greinar eftir Bruno Berson, „A Contribution to the Study of the Medieval Icelandic Farm: the Byres.“ Archaeologia Islandica II (2002), bls. 34–54.
  12. Gunnar Karlsson, Afli og sjósókn Íslendinga frá 17. öld til 20. aldar. Fjölrit nr. 135 (Reykjavík: Hafrannsóknastofnun 2007), bls. 30–44, 55 (tafla IV.5), 59 (tafla IV.7).
  13. Árni Daníel Júlíusson, Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700. Sagnfræðirannsóknir XXIII (Reykjavík: Háskólaútgáfan, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 2018), bls. 123, 127, 149, 246. Bækur Axels og Árna Daníels komu báðar út árið 2018 og halda fram sömu skoðunum um öll meginatriði. Ástæðulaust er hér að reyna að rekja hvað kom upphaflega frá hvorum.

Deila:

Annað efni