Skip to content
„Við, sem nú lifum, erum tímamótamenn“
Gunnar Þór Bjarnason

1.

Allir tímar eru sögulegir. Hvert andartak er sögulegt og kemur aldrei aftur, hver stund, hver dagur, hvert ár. Sagnfræðingur getur ekki komist að annarri niðurstöðu.

2.

Engu að síður, eru sumir tímar ekki sögulegri en aðrir? Flest okkar myndu eflaust svara þeirri spurningu játandi. Þá höfum við í huga viðburðaríka tíma, oftast tíma stríðs, átaka og áfalla, byltinga og gagngerra umskipta eða hamfara og drepsótta.

Og þannig tíma lifum við núna á árinu 2020. „Við lifum á sögulegum tímum“, hversu oft hefur ekki mátt heyra og lesa þessi orð í blöðum, útvarpi, sjónvarpi eða á samfélagsmiðlum allt frá því að COVID-19 tók að breiðast út um heiminn snemma árs? Það er eins og mannkynssagan hafi tekið krappa beygju. Margir ganga að því vísu að áhrifa faraldursins muni gæta í mörg ár eða áratugi, jafnvel breyta samfélagi og samskiptum fólks varanlega.

Starfsfólk handritadeildar Landsbókasafns var fljótt að taka við sér og hvatti almenning til að halda dagbók og varðveita persónulegar heimildir um COVID-19 og senda síðan safninu til varðveislu. „Þetta er sannarlega sögulegur tími og mikilvægt að til séu heimildir um hann,“ sagði Bragi Þorgrímur Ólafsson fagstjóri safnsins.1 Og umboðsmaður barna, Salvör Nordal heimspekingur, hafði áhyggjur af velferð barna í veirufaraldrinum og skrifaði: „Við lifum á sögulegum tímum þar sem ýmsar samfélagslegar breytingar hafa orðið í kjölfar þess faraldurs sem nú stendur yfir. Umboðsmaður barna vill gjarnan heyra frá börnum og fá þeirra sýn og reynslu af því að vera barn á þessum tímum.“2

En er víst að eftir 50 eða 100 ár muni fólk hafa meiri áhuga á áhrifum veirufaraldursins en ýmsu öðru á okkar tímum, til dæmis því hvernig tækniþróun, netvæðing og snjallsímar eru smátt og smátt að umbreyta lífi okkar? Eða því hvernig hamfarahlýnun sannfærir æ fleiri um nauðsyn þess „að endurhugsa heiminn“ svo notuð séu orð Andra Snæs Magnasonar?3 Verður COVID-19 ef til vill einungis neðanmálsgrein í mannkynssögunni?

Við vitum auðvitað ekki hvernig seinni tíma kynslóðir munu meta samtíma okkar og hvað þær munu skilgreina sem sögulega tíma, hvaða mælikvarða þær munu leggja á atburði. En stundum gerast atburðir sem við erum strax sannfærð um að muni teljast sögulegir þegar fram líða stundir. Það á við um veirufaraldurinn sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Og var ekki svipað uppi á teningnum í fjármálakreppunni og bankahruninu fyrir rúmum áratug, þótt ólíku sé saman að jafna? „Fall bankanna á Íslandi haustið 2008 telst til afdrifaríkustu atburða í sögu lýðveldisins,“ skrifaði sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson einungis örfáum mánuðum eftir að bankarnir féllu.4

Fleiri atburði úr sögu síðari áratuga mætti nefna, til að mynda hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Það var einstakur atburður sem hafði sterk áhrif á mjög marga. Ég man enn hvernig mér leið að kvöldi dags, gagntekinn af þeirri hugsun að nú færu í hönd átök og umbrot, að 11. september markaði upphaf sögulegra tíma. Og vissulega leiddu hryðjuverkaárásirnar af sér átök og ófrið eins og allir vita. En var þetta í raun „dagurinn sem breytti heiminum“ eins og oft var sagt þá? Varla. Nú, tæpum tveimur áratugum síðar, virka þessir atburðir í september 2001 undarlega fjarlægir og ekki eins sögulegir og manni fannst þá að þeir yrðu taldir síðar.

Hryðjuverkaárásir, fjármálakreppa, heimsfaraldur. Sögulegir tímar eldast misvel og viðhorf okkar til þessara viðburða munu örugglega breytast með tímanum.

Við upplifum líka atburði á ólíkan hátt. Sjálfur hef ég aldrei skynjað sterkar að lifa sögulega tíma, heimssöguleg tímamót, en þegar kommúnisminn hrundi í Austur-Evrópu, Sovétríkin leystust upp og kalda stríðinu lauk. Þá var ég nýfluttur heim eftir nokkurra ára námsdvöl í Þýskalandi, Vestur-Þýskalandi réttara sagt. Það var ógleymanlegt að fylgjast með því í sjónvarpi þegar Berlínarmúrinn var rifinn niður og Austur-Þjóðverjar fögnuðu frelsinu. Þvílíkir tímar! Og ég var ekki einn um slíkar hugsanir.

Rás atburða á alþjóðavettvangi á árinu 1990 hefur verið hröð engu síður en árið á undan og þarf engum að blandast hugur um, að við höfum lifað sögulega tíma. Sú heimsmynd, sem flestir núlifandi menn í okkar hluta veraldar hafa búið við alla sína tíð og hefur mótað viðhorf manna og pólitískt mynstur, sennilega í ríkari mæli en við höfum gert okkur grein fyrir, er að hrynja.

Þetta skrifaði Ögmundur Jónasson formaður BSRB, síðar alþingismaður og ráðherra, í árslok 1990.5

Um svipað leyti vakti bandaríski fræðimaðurinn Francis Fukuyama athygli fyrir orð sín um „endalok sögunnar“. Fasismi og kommúnismi hafa beðið ósigur, sagði Fukuyama, vestrænt lýðræði og markaðsbúskapur geta hrósað sigri, pólitísk hugmyndaátök tuttugustu aldar hafa verið til lykta leidd, fyrir fullt og allt.6

En svo var ekki. Nú hafa ummæli Fukuyama holan hljóm, á tímum þegar popúlískir þjóðernisflokkar láta æ meir til sín taka í Evrópu og leiðtogar sumra þeirra þjóða sem brutust undan oki kommúnismans í Austur-Evrópu grafa leynt og ljóst undan lýðræði og mannréttindum í löndum sínum. Nær daglega lesum við fréttir og fréttaskýringar um að lýðræði eigi í vök að verjast og öfgasjónarmið hafi byr í seglin. Og ekki bara í Evrópu. Forseti Bandaríkjanna talar opinskátt um að óvíst sé að hann muni viðurkenna úrslit forsetakosninganna þar í landi í nóvember 2020. Það var ekki að ósekju sem fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, fann hjá sér hvöt fyrir fáeinum árum til að skrifa bók og vara við þeirri ógn sem lýðræði geti stafað af fasisma, austanhafs og vestan.7

Rússland, undir stjórn Vladímírs Pútín, getur vart talist lýðræðisríki og engan bilbug er að finna á kommúnistastjórninni í Kína þar sem lygilegur hagvöxtur undanfarna áratugi hefur ekki veikt valdhafa nema síður sé. Við höfum ekki orðið vitni að „endalokum sögunnar“ í neinum skilningi. Enda heldur sagan alltaf áfram, sama á hverju gengur, svo lengi sem mannkynið lifir hér á jörð. Þegar við pökkum niður í ferðatöskur á sólríkum sumardegi er hætta á að við gleymum regnfötunum. En það mun rigna!

3.

Flestir helstu viðburðir Íslandssögunnar hafa í raun gerst í útlöndum, það sem mest hefur mótað líf okkar á nær alltaf rætur að rekja til útlanda. Í fámennu landi á jaðri siðmenningarinnar eru sögulegir tímar innflytjendur. Hverfum rúmlega 100 ár aftur í tímann. Ég hef á undanförnum árum skrifað þrjár bækur um árin 1914–1918; stríðið mikla, fullveldi Íslands og nú síðast spænsku veikina. Þetta voru sannarlega viðburðarík ár. Og í öllu heimildagrúskinu samhliða bókaskrifunum varð ég þess fljótt áskynja hversu sterkt margir hér á landi skynjuðu þessi ár sem sögulega tíma.

Þetta má strax greina í blaðaskrifum síðsumars 1914 þegar vopnaskakið mikla hófst í Evrópu. Enn greinilegar kemur það þó í ljós árin 1918 og 1919 enda gekk ýmislegt á: Keisaradæmi liðu undir lok, heimssöguleg bylting var gerð í Rússlandi, ný Evrópuríki spruttu upp, í Miðausturlöndum voru dregin ný landamæri eftir að Tyrkjaveldi leið undir lok og í Versölum var undirritaður afdrifaríkur friðarsamningur sem í stað þess að tryggja varanlega frið sáði fræjum haturs og ófriðar. Á sama tíma fengu konur kosningarétt í hverju landinu á eftir öðru. Í heimsstyrjöldinni og því pólitíska umróti sem henni fylgdi má segja að línurnar hafi verið lagðar fyrir átakasögu tuttugustu aldar. Þar liggja rætur fasismans á Ítalíu og nasismans í Þýskalandi, Sovétríkin voru skilgetið afkvæmi heimsstyrjaldarinnar fyrri.

Árið 1918 var „stórviðburðaár“, bæði erlendis og hér heima, skrifaði Þorsteinn Gíslason ritstjóri Lögrjettu í janúar 1919.8 „En árið, sem nú er að byrja,“ bætti hann við, „getur orðið enn merkilegra og minnisstæðara ókomnum öldum, vegna þess, að á því verða dregnar fyrstu gildu ályktanirnar af öllu því, sem á undan er gengið, og stefnulínur markaðar nýjum brautum, sem ætlast er til að liggi langar leiðir inn í framtíðina.“ Síðan segir Þorsteinn:

Við, sem nú lifum, erum tímamótamenn. Það getur ekki hjá því farið, að þeir viðburðir, sem hafa verið að gerast á undanförnum árum og enn eru að gerast í heiminum í kring um okkur, geri tímaskil í veraldarsögunni, einhver hin stórfengilegustu tímaskil, sem þar hafa nokkru sinni orðið. Hugsum okkur nokkurt árabil aftur í tímann, og að við þá opnum kenslubók í veraldarsögunni. Nýjasti höfuðþátturinn hefst þá ekki með stjórnarbyltingunni í Frakklandi. Þar fyrir aftan verður komin önnur og stærri fyrirsögn. Nýjasti höfuðþátturinn byrjar á frásögn þeirra viðburða, sem hafa verið að gerast og eru að gerast í kring um okkur. Afleiðingar þeirra eru enn í þoku. En enginn getur efast um, að þær verði miklar og margvíslegar. Ekki einasta á þann veg, að ríki hrynja í rústir og ný rísa upp, og gamlir landamerkjagarðar sjeu rifnir og nýir hlaðnir, heldur eru líka öll líkindi til þess, að hið innra skipulag þjóðfjelaganna taki miklum breytingum, nýjar kenningar ryðji sjer til rúms á því sviði og nýjar hugarstefnur komi upp yfir höfuð á öllum sviðum.

Margir aðrir skrifuðu í þessum anda um þessar mundir, bæði hér á landi og erlendis. Í árslok 1918 birtist í Tímanum hugleiðing um málefni líðandi stundar undir yfirskriftinni „Konungahrun og keisara“. Þetta var eins konar ritstjórnargrein og höfundurinn var því sennilega ritstjóri blaðsins, Tryggvi Þórhallsson, síðar forsætisráðherra.9 Hún hefst svo: „Við árslokin 1918 er Evrópa keisaralaus. Nóvembermánuðurinn síðasti var nokkurskonar fellivetur fyrir hin krýndu höfuð Norðurálfunnar, meiri og grimmari en nokkur annar, sem sögur fara af.“ Alls staðar komi nú „lýðstjórn“ í stað „fámennisvaldsins“ og það marki heimssöguleg tímamót. „Fjölmörg bönd og hömlur springa. En menn vita ekki gerla hvað á að koma í staðinn. Múgurinn á eftir að læra þá vandasömu list, að drotna yfir sjálfum sér. Af því stafa mörgu dökku blikurnar, sem bera nú við sjóndeildarhringinn bæði í austri og suðri.“ Greininni lýkur með þessum orðum: „Í okkar augum er langur tími frá 1789 til 1918. Þegar sagan verður skráð í framtíðinni munu þau ár tákna upphaf og enda hins sama tímabils.“

Þetta síðasta var spámannlega sagt. „Nítjánda öldin langa“ er þekkt hugtak sem breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm (1917– 2012) mótaði löngu síðar um tímann frá frönsku stjórnarbyltingunni 1789 og fram að fyrri heimsstyrjöldinni 1914. Kannski að hann hafi fengið hugmyndina eftir að hafa gluggað í Tímann frá því í desember 1918!

4.

Heimsstyrjöldin fyrri og fyrstu eftirstríðsárin hafa elst vel sem sögulegir tímar að því leyti að við lítum enn á þau sem tímamótaár líkt og fólk gerði þá. En gleymum ekki að allir tímar eru sögulegir og það sem sögulegast þykir þegar upp er staðið tengist alls ekki alltaf einstökum atburðum, átökum og áföllum.

Ef til vill verður það sem hefur þótt sæta mestum tíðindum á síðustu öld og tveimur fyrstu áratugum nýrrar aldar alls ekki það sem mestan áhuga mun vekja hjá komandi kynslóðum. Hvort mun skipa hærri sess í sögubókum framtíðarinnar, heimsstyrjaldir og kalt stríð eða valdefling kvenna, mannréttindabarátta og afleiðingar af hlýnun jarðar? Svarið er kannski augljóst. Eða verða erfðatækni og gervigreind stóru mál framtíðarinnar og mun þá ekki söguskoðun fólks (og vélmenna!) taka mið af því? Hvað vitum við annars?

„En þetta er í fyrsta skifti í mannkynssögunni sem nokkur maður hefur þorað að gera kirkju með glugga yfir altarinu,“ sagði presturinn í Atómstöðinni. „Hér hefur verið gerð mikil byltíng, sagði hann; ein sú mesta sem orðið hefur í mannkynssögunni, og einsog allar stórbyltíngar hefur hún gerst þegjandi, án þess nokkur tæki eftir því.“10

  1. „Hvetja fólk til að skrásetja og senda minningar um faraldurinn,“ Fréttablaðið 16. mars 2020, 6.
  2. Vef. „Áhrif kórónuveirunnar á líf barna,“ barn.is. Umboðsmaður barna, 24. apríl 2020, sótt 16. október 2020.
  3. Andri Snær Magnason, Um tímann og vatnið (Reykjavík: Mál og menning, 2019), 299.
  4. Guðni Th. Jóhannesson, Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykjavík: JPV, 2009), 7.
  5. Ögmundur Jónasson, „Ár uppgjörs og endurmats,“ Morgunblaðið 30. desember 1990, 40–41, tilv. 40.
  6. Francis Fukuyama, The End of History and the Last Man (New york: Simon & Schuster, 1992).
  7. Madeleine Albright, Fascism: A Warning (London: HarperCollins Publishers, 2018).
  8. „Tímamót,“ Lögrjetta 15. janúar 1919, 3. Greinin er ekki höfundarmerkt en hún er skrifuð af ritstjóra blaðsins, Þorsteini Gíslasyni.
  9. „Konungahrun og keisara,“ Tíminn 28. desember 1918, 253.
  10. Halldór Kiljan Laxness, Atómstöðin (Reykjavík: Helgafell, 1948), 200.

Deila:

Annað efni