Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Ritdómur
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Skjalasöfn og varðveisla upplýsinga
Opinberir aðilar mynda skjöl í starfsemi sinni vegna þeirra lögbundnu verkefna sem þeir sinna.1 Þessi skjöl eru til dæmis bréf, tölvupóstar, færslur í rafrænum gagnagrunnum, bókhaldsgögn, skýrslur og svo framvegis. Skjöl í skjalasöfnum opinberra aðila eru heimildir um starfsemi þessara aðila og úrlausn þeirra verkefna sem þeir hafa með höndum, þau eru sönnunargögn um tiltekna atburðarás, viðfangsefni eða úrlausnarefni sem hafa verið til meðferðar hjá þeim. Um skyldu opinberra aðila til að varðveita skjöl gilda lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Þar er meðal annars kveðið á um að ekki megi eyða neinu skjali úr skjalasöfnum opinberra aðila nema með heimild þjóðskjalavarðar, samkvæmt reglum sem settar eru á grundvelli laganna eða samkvæmt sérstöku lagaákvæði.2 Varðveisluskylda opinberra aðila hvílir einkum á fjórum sjónarmiðum. Í fyrsta lagi að opinber aðili geti sýnt fram á að hann hafi framkvæmt lögin sem um hann gilda. Þessu tengist svo réttur einstaklinga til aðgangs að upplýsingum um þá sjálfa sem almennt telst vera þáttur í réttaröryggi þeirra. Í öðru lagi að skjöl séu varðveitt til að tryggja samfellu og samræmi í stjórnarframkvæmd svo að mál séu afgreidd á skilvirkan hátt og jafnræðis sé gætt í málsmeðferð. Í þriðja lagi ber stjórnvöldum að afhenda upplýsingar og gögn, til dæmis til einstaklinga og fjölmiðla, samkvæmt þeim lögum sem um það gilda en augljóst er að ef skjöl eru ekki fyrirliggjandi er ekki hægt að uppfylla þær lagareglur. Í fjórða og síðasta lagi er lögbundin varðveisluskylda til að tryggja varðveislu þjóðararfsins.3
Lög um opinber skjalasöfn mynda ramma utan um opinbera skjalavörslu og skjalastjórn, þar með talið um varðveislu skjala hjá opinberum aðilum. Markmið laga um opinber skjalasöfn er að „tryggja myndun, vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi“ eins og kemur fram í fyrstu grein laganna.4 Í markmiðinu felst krafa um skilvirkt skjalahald hjá opinberum aðilum og er hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands, sem framkvæmdaaðila opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar og opinbers skjalasafns lögum samkvæmt, að fylgja því eftir með reglusetningu, leiðbeiningum, ráðgjöf og eftirliti með skjalahaldi.5 Héraðsskjalasöfn, sem eru 20 talsins, gegna jafnframt mikilvægu hlutverki í þessu samhengi með leiðbeiningum og eftirliti með skjalahaldi sveitarfélaga. Skjalasöfn opinberra aðila eru svo afhent til varðveislu til opinberra skjalasafna, þ.e. Þjóðskjalasafns eða héraðsskjalasafna eftir því sem við á, sem varðveita þau áfram og veita aðgang að þeim á grundvelli laga.
Stór hluti skjala sem eru í skjalasöfnum opinberra aðila innihalda persónugreinanlegar upplýsingar, oft viðkvæmar persónuupplýsingar, enda mörg verkefni hins opinbera sem snúa að þjónustu við íbúa, bæði hjá sveitarfélögum og ríkisvaldinu. Þetta á við hvort sem skjölin eru enn í notkun hjá viðkomandi stofnun, embætti, fyrirtæki eða sveitarfélagi eða hafa verið afhent til varðveislu á opinbert skjalasafn. Almennt eru upplýsingar um fjárhags- og einkamálefni einstaklinga háðar aðgangstakmörkunum þar til 80 ár eru liðin frá tilurð skjalsins.6 Lög vernda því viðkvæmar persónuupplýsingar hjá hinu opinbera og hindra að þær verði opinberar og aðgengilegar öllum á meðan einstaklingur er enn á lífi. Þessi vernd er grundvölluð á sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs sem kveðið er á um í 71. gr. stjórnarskrárinnar.7 Einstaklingar geta, eins og áður hefur komið fram, haft lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að fyrirliggjandi skjölum er varða þá sjálfa eða um þeirra mál sem liggja hjá opinberum aðilum eða í opinberum skjalasöfnum. Þeir fá því aðgang að eigin gögnum þótt aðrir hafi ekki þann rétt á sama hátt. Einnig geta fræðimenn fengið aðgang að gögnum í skjalasöfnum sem aðgangstakmarkanir gilda um með samþykki Persónuverndar og gegn því að persónugreinanlegar upplýsingar séu ekki birtar í rannsóknarniðurstöðum eða á annan hátt samkvæmt skilyrðum um rannsóknarleyfi.8 Réttur til aðgangs að skjölum hjá hinu opinbera, þar með talin vernd gegn því að viðkvæmar persónuupplýsingar séu aðgengilegar öllum, er meðal annars tryggður í upplýsingalögum nr. 140/ 2012, í lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Nokkur mál hafa komið upp undanfarin ár sem sýna fram á mikilvægi varðveislu persónugreinanlegra upplýsinga er varða réttindi einstaklinga og varpa ljósi á aðstæður og meðferð tiltekinna hópa í samfélaginu. Árin 2007–2017 voru rannsökuð nokkur mál sem tengdust illri meðferð barna á vistheimilum á vegum ríkisins, þar með talið Breiðavík, Unglingaheimili ríkisins og Kópavogshæli, þar sem börn dvöldu á tímabilinu 1945–1994. Mikilvægur hluti af þeim gögnum sem var aflað í rannsóknarvinnunni, sem nefnd á vegum ríkisins fór með, voru skjöl um rekstur þessara heimila og um þá einstaklinga sem þar dvöldu. Þessi skjöl komu frá Þjóðskjalasafni Íslands, héraðsskjalasöfnum og stofnunum og sveitarfélögum sem höfðu með mál þeirra einstaklinga að gera sem vistaðir voru á heimilunum. Má þar nefna skjöl barnaverndaryfirvalda, barnaverndarnefnda, félagsþjónustu sveitarfélaga, Landspítala og vistheimilanna sjálfra.9 Hefðu þessi gögn ekki verið til staðar er ljóst að erfiðara, og jafnvel í sumum tilfellum ómögulegt, hefði verið að varpa ljósi á hvernig hið opinbera stóð að málum. Á grundvelli rannsókna vistheimilanefndar á starfsemi viðkomandi stofnana gátu einstaklingar sem þar voru vistaðir um og eftir miðja síðustu öld, og urðu þar fyrir ofbeldi eða annars konar illri meðferð, átt rétt á greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði.10
Annað dæmi sem hér skal tekið er skjalasafn ungmennaeftirlits lögreglunnar 1941–1945 sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands. Vegna tilurðar þessara skjala, sem fyrst urðu aðgengileg árið 2011 og Þjóðskjalasafn hefur veitt rannsóknaraðgang að, er hægt að varpa ljósi á þessa starfsemi yfirvalda, afstöðu ráðherra, embættismanna og áhrifamanna hérlendis til ástandsmálanna svokölluðu.11 Ekki síst eru skjölin heimild um meðferð sem ungar stúlkur sættu af hálfu yfirvalda vegna kynna þeirra við erlenda hermenn, svo sem með vistun á vinnuhæli á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942–1943.
Þá er vert að benda á að fjöldi skjallegra heimilda sem innihalda persónugreinanlegar upplýsingar, stundum viðkvæmar, eru með mikilvægustu heimildum um íslenskt samfélag á fyrri öldum. Má þar nefna manntöl, dómabækur, fátækra- og framfærslumál og prestþjónustubækur. Mikilvægt er að safnkostur skjalasafna endurspegli samfélagið sem best á hverjum tíma en án þessara heimilda væri sú mynd sem við hefðum af samfélagi fyrri alda bjöguð. Einnig er vert að hafa í huga að upplýsingar teljast vera viðkvæmar í tiltekinn tíma, oftast meðan einstaklingur er enn á lífi. Þess vegna er í lögum kveðið á um aðgangstakmarkanir að slíkum upplýsingum í tiltekinn tíma, almennt í 80 ár eins og áður er nefnt, en með heimild til að takmarka aðgangi að skjölum sem eru allt að 110 ára gömul.
Í aðdraganda setningar nýrrar löggjafar um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga árið 2018 varð nokkur umræða um áhrif laganna á skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila og á varðveislu opinberra skjala. Þjóðskjalasafni bárust til dæmis margar fyrirspurnir frá opinberum aðilum um áhrif nýrra laga á skjalasöfn þeirra, svo sem um hvort að ný persónuverndarlöggjöf skyldaði opinbera aðila til að eyða öllum persónuupplýsingum reglulega og hvort að þeir mættu yfirhöfuð varðveita persónuupplýsingar. Fyrirferðarmest í umræðunni var þó líklega hugtakið „rétturinn til að gleymast“. Um þann rétt er lagaákvæði í persónuverndarlögum sem felst í því að við ákveðnar aðstæður á einstaklingur rétt á að persónuupplýsingum sem hann varða verði eytt án ótilhlýðilegrar tafar.12 Umræðan snerist einkum um hversu langt þessi réttur ætti að ná og í hvaða tilvikum einstaklingur ætti rétt á að fara fram á að upplýsingum um hann yrði eytt.
Í Evrópu andmæltu meðal annars Samtök skjalavarða í Frakklandi (fr. Association des archivistes français) hugmyndum um réttinn til að gleymast og létu í ljós áhyggjur sínar af því að ef upplýsingum á til dæmis samfélagsmiðlum og í tölvupóstum yrði eytt myndu mikilvægar heimildir um samfélag tuttugustu og fyrstu aldar hverfa og sagnfræðingar framtíðarinnar hefðu því ekki þessi gögn til að vinna úr í rannsóknum sínum.13 Umræðan um réttinn til að gleymast snerist að nokkru marki, oft vegna misskilnings á ákvæðinu, um hvort að hann ætti að ná til persónuupplýsinga í skjalasöfnum hins opinbera. Þetta má til dæmis sjá af umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp um lög um opinber skjalasöfn árið 2014 en þar var meðal annars bent á réttinn til að gleymast í tengslum við varðveislu persónuupplýsinga í skólum.14 Í umsögn þjóðskjalavarðar um það frumvarp um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem varð að lögum benti hann á að mikils misskilnings gætti innan stjórnsýslunnar um gildisákvæði tilvonandi persónuverndarlaga og borið hefði á því að aðilar innan stjórnsýslunnar teldu sér heimilt eða jafnvel skylt að eyða persónuupplýsingum sem myndast í starfseminni. Jafnframt að einstaklingar teldu að þeir hefðu rétt á að óska eftir að upplýsingum um þá verði eytt með vísan í réttinn til að gleymast. Benti þjóðskjalavörður réttilega á að það gæti valdið einstaklingum og stjórnvöldum miklum skaða ef skjölum stjórnsýslunnar yrði eytt án heimildar Þjóðskjalasafns.15 Í kjölfar setningar laganna sendi þjóðskjalavörður svo út tilmæli til allra aðila sem eru afhendingarskyldir til safnsins þar sem minnt var á að ekki mætti eyða neinu skjali nema heimild þjóðskjalavarðar lægi fyrir, samkvæmt reglum sem settar eru á grundvelli laga um opinber skjalasöfn eða samkvæmt sérstöku lagaákvæði.16
Í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem tóku gildi 15. júlí 2018, eru ákvæði um réttinn til að gleymast (20. gr.) og er vísað í nánari skilyrði í reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) nr. 2016/679 (16.–19. gr.).17 Þessi réttur nær þó ekki til skjalasafna opinberra aðila eða safnkosts opinberra skjalasafna. Þar er tvennt sem kemur til. Í fyrsta lagi er kveðið á um það í 3. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar að rétturinn til að gleymast gildi ekki þegar vinnsla persónuupplýsinga er nauðsynleg til að (1) neyta réttarins til tjáningar- og upplýsingafrelsis, (2) til að framfylgja lagaskyldu um vinnslu upplýsinga, (3) með skírskotun til almannahagsmuna á sviði lýðheilsu, (4) vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna, rannsókna á sviði vísinda eða sagnfræði eða í tölfræðilegum tilgangi eða (5) til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.18
Af þessu leiðir að ekki er hægt að óska eftir, með vísan í réttinn til að gleymast, að persónugreinanlegum upplýsingum sem myndast við starfsemi opinberra aðila við úrlausn lögbundinna verkefna sé eytt. Á sama hátt er ekki hægt að óska eftir að persónugreinanlegum upplýsingum í safnkosti opinberra skjalasafna sé eytt en sú starfsemi fellur undir hugtakið „skjalavistun í þágu almannahagsmuna“. Opinber skjalasöfn starfa eftir lögum um opinber skjalasöfn eins og áður hefur komið fram. Í þessu samhengi má benda á að í lögum um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga er ákvæði sem heimilar að upplýsingar sem falla undir lögin séu afhentar opinberu skjalasafni til varðveislu.19 Þetta ákvæði á þó aðeins við um skjöl einkaaðila enda gilda lög um opinber skjalasöfn um varðveislu og eyðingu á skjölum opinberra aðila. Í öðru lagi teljast lög um opinber skjalasöfn vera sérlög gagnvart lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er varðar varðveislu og eyðingu á gögnum opinberra aðila og safnkosts opinberra skjalasafna.20 Því gilda ákvæði laga um opinber skjalasöfn framar almennum reglum persónuverndarlaga er varða varðveislu og eyðingu á persónugreinanlegum skjölum í skjalasöfnum opin- berra aðila og í safnkosti opinberra skjalasafna. Í nefndaráliti alls- herjar- og menntamálanefndar um frumvarpið um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem varð að lögum er tekið undir þetta sjónarmið.21 Í lögum um opinber skjalasöfn er kveðið skýrt á um að opinberir aðilar megi ekki eyða neinu skjali í skjalasöfnum sínum nema að heimild liggi fyrir eins og áður hefur komið fram.
Rétturinn til að gleymast snýr því einkum að persónuupplýsingum á netinu og veitir hann einstaklingum rétt til þess að geta farið fram á það við netþjónustuaðila, til dæmis rekstraraðila leitarvéla eins og Google, að þeir fjarlægi persónuupplýsingar sem þeir hafa safnað um viðkomandi.22 Í minnisblaði frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í byrjun árs 2014 var tekið sérstaklega fram að rétturinn til að gleymast væri ekki til þess að leggja stein í götu sögulegra rannsókna eða skjalasafna:
Rétturinn til að gleymast snýst ekki um að endurskrifa söguna. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar verndar tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla sem og sögulegar rannsóknir og vísindarannsóknir. Tillagan veitir undanþágur fyrir þessar greinar þar sem aðildarríkin eru hvött til að innleiða landslög til að tryggja þessi grundvallarréttindi. Þetta gerir skjalasöfnum kleift að starfa áfram á grundvelli sömu meginreglna og þau gera í dag. Á sama hátt má varðveita persónuupplýsingar eins lengi og þörf er á til að standa við samninga eða uppfylla lagaskyldu (svo sem þegar borgarar gera lánssamning við banka). Í stuttu máli er rétturinn til að gleymast ekki alger og hefur ekki áhrif á sögulegar rannsóknir eða frelsi fjölmiðla.23
Rétt er að hafa í huga að þegar fjallað er um persónuvernd í sahengi við skjalamyndun og skjalasöfn opinberra aðila að skjöl verða til í starfsemi opinberra aðila vegna lögbundinna verkefna. Skjöl þessara aðila eru svo varðveitt til að tryggja réttindi almennra borgara, lögvarða hagsmuni stjórnsýslunnar og sögulegar upplýsingar og þekkingu sem mikilvægan þátt í íslenskri menningu. Þetta er óháð því hvort að skjölin innihaldi persónuupplýsingar eða ekki. Stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um opinber skjalasöfn eru til verndar því að viðkvæmar persónuupplýsingar séu aðgengilegar óviðkomandi aðilum. Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hafa því ekki áhrif á varðveislu og eyðingu skjala opinberra aðila og safnkost opinberra skjalasafna. Það gera hins vegar lög um opinber skjalasöfn en með þeim er réttur samfélagsins til að muna sína sögu tryggður. Persónuverndarlögin mynda ramma utan um meðferð persónuupplýsinga og að með þær sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Þau eiga að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.24 Þessara þátta í lögunum þurfa opinberir aðilar að sjálfsögðu að taka tillit til.
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Miðvikudaginn 8. desember 2021 lagði Bergsveinn Birgisson fram opinberar ásakanir á hendur mér um ritstuld
Framhald af þessari grein má finna á vefsíðu höfundar. Snemma í desember síðasta árs las
Úr Sögu LIX: 2 (2021) Sumarliði R. Ísleifsson hefur lengi fengist við þau viðfangsefni sem