Líf í útlegð: Ferðasaga Árna Magnússonar sem hnattræn ævisaga
Ártal:
2022
Bls:
116–143
DOI:
10.33112/saga.60.1.1
Árna Magnússonar frá Geitastekk (1726–um 1801) er minnst með áletrun á vegvísi á fæðingarstað hans í Snóksdal sem eins víðförlasta Íslendings sem uppi hefur verið. Þessa nafnbót ávann hann sér með því að sigla um hnöttinn frá Íslandi til Kanton og verja 48 árum í að ferðast um Evrópu og dansk-norska ríkið og búa á Grænlandi, í Kaupmannahöfn, Noregi og Jótlandi. Óvenjuleg ævi hans og ferðir, þar sem hann gegndi ýmsum störfum, sýna þá möguleika sem venjulegir menn höfðu til að móta líf sitt á árnýöld. Þótt ævi Árna væru settar skorður af vaxandi valdi danska ríkisins til að mynda þegar hann sat í fangelsi í Kaupmannahöfn, nýtti hann einnig innviði þess, eins og asíska verslunarfélagið, til að brjótast undan valdi ríkisins eins og Michel Foucault lýsti því. Með greiningu á Ferðasögu Árna, sem var rituð eftir að hann sneri aftur til Íslands, má öðlast skilning á því hvernig venjulegir menn gátu sveigt atvinnumöguleikana sem vaxandi ríkisvaldið bauð að eigin áhugamálum, og forðast eða sloppið undan valdi ríkisins. Árni er "venjuleg undantekning" og saga hans varpar ljósi á stærri heim ferðalaga og minniháttar uppreisnar í veröld átjándu aldarinnar.