Skip to content

Samfélag átjándu aldar: hugarfar, handverk og arfur fyrri alda.

Höfundur:
Hrefna Róbertsdóttir
Birtist í
Saga: Tímarit Sögufélags 2011 XLIX: I
Ártal:
Bls:
DOI:
Efnisorð:
Í samfélagi 18. aldar voru ræddar ýmsar leiðir til að efla landshagi á Íslandi. Handiðnaður var svar margra viðreisnarmanna en slíkar hugmyndir höfðu verið kynntar konungi allt frá 17. öld. Hér verða raktar helstu niðurstöður rannsókna minna á samfélagi 18. aldar, hreyfanleika innan þess og kyrrstöðu, þar sem ullariðnaður er rauði þráðurinn. Kannaðar voru hugmyndir um landshagi á Íslandi og í Danmörku á 18. öld og hagstjórnarstefna og hagrænt hugarfar skoðað í samhengi við þróun ullarframleiðslu á tveimur völdum verslunarsvæðum á Íslandi. Rannsóknin leiddi í ljós að viðreisnarhugmyndir voru hugsaðar inn í samfélagsgerð þess tíma og að vinnulöggjöfin var nýtt til að styrkja breytta ullarvinnslu í landinu. viðreisnaráformin áttu þannig að efla stoðir gamla samfélagsins fremur en gera á þeim grundvallarbreytingar. Handiðnaður á Íslandi var skoðaður með hliðsjón af þróun í dansk-norska ríkinu, þeirri ríkisheild sem Ísland var hluti af á þessum tíma, stjórnarfarslega, hugarfarslega og ullartæknilega. Með vefsmiðjustarfsemi var tekin upp handiðnaðarvinnsla með samvinnu verkstæða og sveita, þar sem markmiðið var aukin nýting hráefna og mannafla hvers hluta ríkisins um sig. Handverksvinnsla ullar með breyttum vefnaði og spuna var kjarni nýjunganna á Íslandi. Prjónlesútflutningur efldist jafnframt, þótt yfirvöld hafi beint kröftum sínum í aðra átt. Enginn þegn konungs skyldi sitja auðum höndum, möguleg vinnustund ekki látin líða ónotuð og engar auðlindir látnar liggja án þess að koma að gagni. Handiðnaðareflingu 18. aldar má túlka sem hluta af innri þenslu gamla samfélagsins sem hafði sterkar rætur í 17. öldinni, fremur en að breytingarnar væru forboði 19. aldar verksmiðjuvinnslu og þéttbýlismyndunar.