Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2012 L: II
Útgáfuár
2012
Tölublað
50:2
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
208
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2012 L: II

Það fer lítið fyrir myndefninu á forsíðu haustheftis Sögu 2012. Örlítill hluti af þriggja lítra jarðvegssýni úr fornleifauppgreftri á Skriðuklaustri. Sýnið inniheldur meðal annars skordýr og fræ sem geyma dýrmætar upplýsingar um lifnaðarhætti manna fyrr á öldum líkt og Steinunn Kristjánsdóttir fræðir okkur um í örstuttu máli.

Þrjár ritrýndar greinar eru í heftinu. Vilhelm Vilhelmsson skrifar um róttæklinga í Vesturheimi, hóp sem til þessa hefur ekki fengið mikla athygli í sagnaritun um Vesturferðir, enda byggðist hún til skamms tíma á fremur einsleitri mynd af brottfluttum Íslendingum. Sverrir Jakobsson fjallar um hugmyndir og þekkingu á íslam í íslenskum handritum; jaðarviðfangsefni hvort sem um er að ræða rannsóknir á íslenskri miðaldasögu eða íslenskt miðaldasamfélag. Hrefna Róbertsdóttir hefur fundið stóra og mikla heimild — verslunarbók frá árinu 1784 — sem geymir upplýsingar um innflutta munaðarvöru til Íslands það ár. Þar er að finna loðfeldi í ýmsum litum, gullhringi og postulín. Líka kirsiber, saffran, engifer, möndlur, ólífuólíu og kransakökur.

Í heftinu birtast ræður andmælenda við tvær doktorsvarnir: Guðrún Helgadóttir og Guðmundur Jónsson andmæla doktorsritgerð Áslaugar Sverrisdóttur, og þau Jón Karl Helgason og Rósa Magnúsdóttir andmæla doktorsritgerð Ólafs Rastrick.

Ritdómar eru sjö, þar af einn ítardómur eftir Guðna Th. Jóhannesson um tvær fræðibækur um þorskastríðin og bók Rogers Boyes um íslenska efnahagshrunið, en í grein sinni veltir Guðni meðal annars fyrir sér færni erlendra höfunda, sem ekki lesa íslensku, til að takast á við sögu Íslands og heimildir um hana.