Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2015 LIII: I
Útgáfuár
2015
Tölublað
53:1
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
199
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2015 LIII: I

Sagan af morðinu á Natani Ketilssyni heldur áfram á síðum Sögu. Nú eru það viðbrögð Vilhelms Vilhelmssonar við skrifum Eggerts Þórs Bernharðssonar og Helgu Kress um það efni. Í grein sinni ræðir Vilhelm um efnið með hliðsjón af eðli og gildi réttarskjala sem sögulegra heimilda. Önnur grein er eftir Steinunni Kristjánsdóttur og fjallar um einsetulifnað en Steinunn veltir fyrir sér einsetulifnaði sem undankomuleið frá hjónabandi á miðöldum. Þá skrifar Gunnar Óskarsson arkitekt um verkamannabústaðina við Hringbraut í Reykjavík og fjallar um hönnun þeirra í samhengi evrópskrar byggingarsögu. Síðasta grein heftisins er seinni hluti greinar Þorsteins Helgasonar um minni og minningar sem viðfangsefni fræða.
Viðhorfsgrein Sögu er eftir Erlu Huldu Halldórsdóttir og fjallar um stöðu fræðimannsins í ævisögulegum verkum, einkum með vísan í ævisögu Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871) sem Erla Hulda hefur í smíðum.

Næst eru andmælaræður við doktorsvörn Sumarliða Ísleifssonar sem fram fór sumarið 2014. Doktorsritgerð Sumarliða fjallar um ímyndir Íslands og Grænlands fyrr á öldum og fram til 19. aldar en andmælendur við vörnina voru Hrefna Róbertsdóttir og Sverrir Jakobsson. Lestina reka ritdómar um nokkrar bækur á sviði sagnfræði og skyldra greina sem komu flestar út árið 2014. Eitt athyglisverðasta verkið á því sviði, Sveitin í sálinni eftir Eggert Þór Bernharðsson, sem lést á síðasta degi ársins 2014, er þó ekki þar á meðal. Saga ákvað að fjalla um verkið í formi ítardóms sem birtur verður í næsta hefti.