Útgáfuár | 2015 |
---|---|
Tölublað | 53:2 |
Ritstjórar | Sigrún Pálsdóttir |
Blaðsíðufjöldi | 196 |
ISSN | 0256-9411 |
Saga: Tímarit Sögufélags 2015 LIII: II
Fyrsta grein haustheftis Sögu 2015 ber heitið Svarti Pétur: eða klám í köldu stríði. Hún er eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur og fjallar um klámfengnar ljósmyndir sem komust í dreifingu á Íslandi á tímum kalda stríðsins.
Næst er það Sigurður Jónsson Arasonar, prestur á Grenjaðarstað, og þáttur þessa biskupssonar í siðaskiptunum. Það er Hjalti Hugason sem skrifar.
Þá birtir Arnþór Gunnarsson athuganir sínar á þróun ferðamennsku á Íslandi á árunum 1858–1914 og leitar skýringa á þeirri fjölgun sem varð í hópi ferðamanna til landsins á þessu tímabili.
Viðhorfsgreinar Sögu eru tvær. Vilhelm Vilhelmsson greinir þá sögusýn sem birtist í grunnsýningu Safnahússins við Hverfisgötu. Sýningin var opnuð snemma vors á þessu ári og áætlað er að hún standi til ársins 2019. Arngrímur Vídalín reifar hugleiðingar sínar um áherslur í rannsóknum á íslenskum miðaldabókmenntum, einkum út frá þeirri hugmynd sem hann nefnir nýbókfestu.
Saga birtir stutta umfjöllun Gísla Gunnarssonar um Hans Jónatan og athugasemdir hans við tvö nýleg verk sem fjalla um þennan danska þræl frá Jómfrúareyjum sem settist að á Djúpavogi við upphaf 19. aldar. Ítardómur Sögu að þessu sinni er um verk Eggerts Þórs Bernharðssonar, Sveitin í sálinni, sem kom út síðla árs 2014, skömmu fyrir andlát höfundar. Lestina reka sex ritdómar um bækur sögulegs efnis auk einnar ritfregnar.