Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2024 LXII:II
Útgáfuár
2024
Tölublað
62:2
Ritstjórar
Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson
Blaðsíðufjöldi
208
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2024 LXII:II

Það er söguleg ljósmynd á forsíðu tímaritsins: „nokkuð áreiðanlega elsta ljós mynd sem tekin hefur verið á Íslandi“, svo vitnað sé í forsíðumyndargrein Guðmundar J. Guðmundssonar. Myndin sýnir konu fyrir framan torfbæ en hana tók austurríska ævintýrakonan Ida Pfeiffer þann 24. júní 1845, aðeins þremur dögum áður en Frakkinn Alfred Des Cloizeaux tók þær myndir sem áður voru taldar elstar. Guðmundur fjallar um ljósmynd Idu Pfeiffer og rekur leit sína að frummyndinni, sem var sannarlega ekki snurðu laus.

Álitamál Sögu eru helguð söguritun um pólitískt andóf og grasrótarhreyfingar á Íslandi og varðveislu heimilda um þá sögu. Þar er að mörgu að huga enda viðfangsefnið víðfeðmt. Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns Íslands, Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og sagnfræðingarnir Stefán Pálsson og Pontus Järvstad skrifa pistla um efnið.

Þrjár ritrýndar greinar eru í heftinu. Hrafnkell Lárusson rýnir í þá söguskoðun að íslensk alþýða um aldamótin 1900 hafi staðið sameinuð að baki stjórnmálamönnunum sem leiddu baráttuna fyrir sjálfstæði landsins og varpar fram þeirri spurningu hvort almenningur hafi ef til vill þvert á móti verið áhugalaus um sjálfstæðisbaráttuna. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir skrifar um systkinin Steinunni Thorsteinsson og Harald Hamar í ljósi hinsegin sögu. Þau voru bæði þekkt nöfn í menningarlífi Reykjavíkur á fyrri hluta tuttugustu aldar og lifðu að einhverju leyti utan hins gagnkynhneigða norms en sagan hefur minnst þeirra með gjörólíkum hætti. Loks skrifar Árni Daníel Júlíusson um hjáleigubyggð á miðöldum, umfang hennar og útbreiðslu. Með því að bera saman lýsingar á eyðibýlum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og niðurstöður úr fornleifaskráningum síðustu áratuga dregur hann fram fyllri mynd af umfangi byggðar á Íslandi fyrir siðaskipti.

Í þættinum Skemmtilegt skjal birtist grein eftir Sigríði Jónsdóttur, sérfræðing á Leikminjasafni Íslands. Hún fjallar um vinnuhandrit Helga Skúlasonar leikstjóra fyrir uppsetningu Leikfélags Reykjavíkur á Stólunum eftir Eugène Ionesco árið 1961 og vekur athygli lesenda á þeim fjársjóði heimilda sem leynist innan Leikminjasafnsins.

Viðhorfsgrein heftisins er eftir Guðmund J. Guðmundsson um embættismannafundinn 1839.

Í heftinu sjö ritdómar um nýleg sagnfræðiverk.

Ritstjórar hafa ákveðið í samráði við ritnefnd Sögu að hætta að birta andmælivið doktorsvarnir í sagnfræði, þar sem þeim hefur farið mjög fjölgandi auk þess sem færst hefur í vöxt að andmælendur tali á ensku. Vorhefti Sögu 2024 var
því síðasta hefti tímaritsins þar sem birt voru andmæli við doktorsvörn.