Skip to content
Alheimsbókasafn?
Guðmundur Hálfdanarson

„Sérhver breyting á miðlun hefur í för með sér ummyndun á skráðum vitnisburði [e. literary record],“ skrifar kanadíski bókmenntafræðingurinn Adam Hammond í nýlegri bók um bókmenntir á stafrænni öld.1 Bylting varð á varðveislu og dreifingu texta við upphaf ritaldar þegar orð sem áður höfðu aðeins varðveist í minni manna og flust á milli fólks í mæltu máli voru fest með táknum á papýrus eða bókfell. Svipað má segja um uppgötvun prenttækninnar sem opnaði alveg nýjar og áður óþekktar leiðir við miðlun texta. Breytingar af þessu tagi hafa jafnan ýmislegt jákvætt í för með sér en óhjákvæmilega glatast einnig eitthvað annað við þær, annaðhvort í því hvernig lesendur nálgast texta eða skilningi þeirra á því sem sagt er eða ritað. Þegar texti var fluttur úr munnlegri geymd yfir í ritað mál varð hann ekki eins lifandi og áður, segir Hammond, ekki eins kvikur eða mannlegur en hann geymdist þó mun betur á bókfelli en í mannsheila og hægt er að tjá mun flóknari hluti í rituðu máli en mæltu. Eins verður prentuð bók sjaldan eins glæsileg á að líta og fallega skrifað og lýst handrit en prentuð rit náðu aftur á móti til miklu fleiri lesenda en mögulegt var með handskrifuðum texta. Nýjasta byltingin í miðlun hófst með þróun tölvutækni á síðari hluta síðustu aldar og henni er hvergi nærri lokið. Margt vinnst með þeirri breytingu því að auðvelt er að flytja útlit bæði prentaðra bóka og handrita yfir á stafrænt form en aftur á móti er útilokað að færa líkamlega skynjun af því að halda á bók eða að fletta skjölum og handritum yfir á netið. Þannig verður sú tilfinning sem grípur okkur við það að strjúka hönd yfir blaðsíðu í handriti eða lyktin af nýrri bók ekki flutt yfir á tölvuskjáinn. Enn sem komið er, skrifar Hammond, „þá er ekki til neitt stafrænt snið sem gefur í skyn hversu þungt bók vegur í höndum okkar eða kemur í stað snertiskyns okkar þegar við blöðum í gegnum prentað rit, þar sem fingur getur merkt mikilvægan stað á blaðsíðu.“ Það eru þó augljósir kostir við það að dreifa rituðu máli á stafrænan hátt því að slík dreifing er bæði auðveld og ódýr. Stafræn útgáfa opnar líka óteljandi möguleika á að blanda saman rituðu máli og myndmáli um leið og hún býður upp á óendanlega margar leiðir til að leita að ákveðnum orðum eða hugtökum í stórum textasöfnum, nú eða að vinna með flóknar tölfræðilegar upplýsingar í gagnasöfnum.2

Áhugaverðasta framlag stafrænu byltingarinnar er þó kannski það að með henni kann draumsýn enska rithöfundarins H. G. Wells um hina „varanlegu alheimsalfræðibók“ (e. permanent world encyclopaedia) loks að verða að veruleika. Alfræðibækur fortíðarinnar „voru skrifaðar af ‚heldrimönnum fyrir heldrimenn‘,“ skrifaði Wells árið 1937, „í heimi þar sem engum hafði dottið í hug að innleiða almenna menntun og stofnanir lýðræðis með almennum kosningarétti, … sem er svo erfitt og hættulegt að starfrækja, höfðu enn ekki komið fram á sjónarsviðið.“3 Tilefni orða Wells var útkoma fyrsta bindis nýrrar franskrar alfræðiorðabókar í ritstjórn sagnfræðingsins Luciens Febvre og lögfræðingsins Anatoles de Monzie4 en margir sáu útgáfuna sem nútímalegt framhald af alfræði upplýsingarinnar sem heimspekingarnir Denis Diderot og Jean-Baptiste le Rond d’Alembert ritstýrðu á árunum 1751–1772. Það sem vakti bjartsýni Wells var ný tækni sem ruddi sér til rúms í Ameríku á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld, örfilman. Með henni, skrifar Wells, er hægt að rannsaka flókin skjöl og fágæt rit með því að varpa myndum af þeim á vegg: „Nú er því engin raunveruleg hindrun í vegi þess að búa til skilvirka skrá yfir alla mannlega þekkingu, hugmyndir og afrek,“ skrifaði hann, „það er að segja til að búa til fullkomið jarðarminni fyrir allt mannkyn [e. a complete planetary memory for all mankind].“5 Textar á stafrænu formi taka örfilmum auðvitað langt fram því að með nettengingu er hægt að nálgast þá, hvort sem þeir hafa upphaflega verið prentað mál, handrit, skjöl eða myndefni, hvaðanæva úr heiminum, hvar sem er og hvenær sólarhringsins sem lesandanum hugnast það.

Hammond víkkar út hugmynd Wells um alfræðina og bendir á að nú sé tæknilega mögulegt að sameina öll öflugustu rannsóknarbókasöfn heims, sem flest eru lokuð öðrum en fámennum forréttindahópum, í eitt alheimsbókasafn (e. universal library). Alheimsbókasafnið er opið öllum jarðarbúum allan sólarhringinn — eða að minnsta kosti þeim sem geta tengst netinu með einhverjum hætti. Á „tímum handrita og bóka“, skrifar Hammond, „var mun auðveldara að ná því markmiði að safna saman öllum ritum en að veita öllum aðgang að ritum í bókasöfnum.“6 Á stafrænni öld er þessum hindrunum rutt úr vegi því að hið nýja alheimsbókasafn er opið stærstum hluta mannkyns sem getur á annað borð tileinkað sér efnið sem það geymir og hefur aðgang að þeim tækjabúnaði sem til þarf.

Þótt enn sé aðeins örlítið brot af útgefnum ritum í heiminum aðgengilegt á netinu þá stækkar hið stafræna alheimsbókasafn með ári hverju. Bækur og tímarit sem ekki eru háð höfundarrétti streyma þannig óðum inn á netið undir merkjum upplýsingaveitna á borð við Europeana Collection (www.europeana.eu), Project Gutenberg (www.gutenberg.org), Internet Archive (archive.org) og Google Books (books.google.is), oft í leitarbærum útgáfum og í útgáfusniði sem endurskapar útlit bókanna. Nálgast má fjölda íslenskra rita í gegnum þessar veitur enda eru þær í mörgum tilvikum tengdar innbyrðis í eitt allsherjar rafrænt net sem spannar heiminn allan.7 Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur tekið virkan þátt í þessari stafrænu byltingu og fært mikilvæga hluta safnkosts síns yfir á netið og þá bæði tímarit og bækur. Formleg opnun vefsíðunnar Tímarit.is á tíu ára afmæli Þjóðarbókhlöðunnar árið 2004 markaði til að mynda byltingu í aðgengi að íslenskum tímaritum og dagblöðum8 en þar má nú nálgast tæplega sex milljón blaðsíður nær 1.300 dagblaða og tímarita frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og reyndar einnig frá byggðum íslenskra innflytjenda í Kanada og afkomenda þeirra.9 Landsbókasafnið var að mörgu leyti brautryðjandi á Norðurlöndum með þessu verkefni en norrænu systursöfnin fylgdu síðar í kjölfarið þannig að nú má lesa fjölda danskra, finnskra, færeyskra, norskra og sænskra dagblaða og tímarita á netinu.10

Í hinni íslensku deild rafræna alheimsbókasafnsins er ekki aðeins að finna útgefið efni því að íslensk handrita- og skjalasöfn hafa opnað talsvert af sínum safnkosti á netinu. Af íslenskum heimildasöfnum má benda á Handrit.is sem er samstarfsverkefni handritadeildar Landsbókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnastofnunar í Kaupmannahöfn. Þar er rafrænn aðgangur að á þriðja þúsund handrita sem geymd eru í söfnunum þremur.11 Þjóðskjalasafn Íslands hefur einnig gert átak í að koma sínum skjalakosti á netið með því að mynda fjölda skjalabóka (svo sem dómabækur, prestsþjónustubækur, skiptabækur, vesturfaraskrár og svo framvegis) og með úrvinnslu manntalsgagna á manntalsvef safnsins er hægt að fletta í 14 manntölum sem tekin voru á Íslandi á árunum 1703–1920.12

Erfitt er að meta endanleg áhrif þessarar þróunar á iðju fræðimanna því að enn fer því fjarri að alheimsbókasafnið standi undir nafni. Það takmarkast enn bæði af því hvað hefur verið sett á netið og að aðgangur að stærstum hluta bóka og annarra rita sem út hafa komið á stafrænu formi síðustu áratugi, og eru enn varin af höfundarrétti, er aðeins opinn gegn áskriftargjaldi. Slíkar áskriftir eru dýrar og því eru stórir hlutar stafræna bókasafnsins enn jafn óaðgengilegir og öflugu rannsóknarbókasöfnin voru á árum áður. Þægindin sem skapast með stafrænni birtingu gagna eru þó augljós því að hún gerir bæði heimildaleit og úrvinnslu úr heimildum óháða því hvar efnið er geymt í bóka- eða skjalasöfnum. Alheimsbókasafnið er staðsett alls staðar og hvergi og safngestir nota sömu tækin til að

„heimsækja“ safnið og til að skrá niðurstöður rannsóknanna. Útilokað er annað en að fagna þessari breytingu enda er nú hægt að stunda rannsóknir hér á Íslandi á sviðum sem áður voru lokuð sökum skorts á heimildarritum á bókasöfnum. Þægindin skapa þó ákveðna hættu, ekki síst á meðan ummyndun hins ritaða máls frá pappír á stafrænt form er enn tiltölulega skammt á veg komin. Ef fræðimenn nota aðeins það efni sem þeir finna í stafrænum grunnum og læra ekki að nýta sér heimildir sem enn er aðeins að finna í skjölum, handritum og bókum á söfnum þá stýrist þekkingarleit þeirra af því hvaða efni er þeim tiltækt á netinu fremur en því hvaða upplýsingar hægt er að finna í skjala- og bókasöfnum. Þótt Tímarit.is sé ómetanlegt tæki fyrir sagnfræðinga, svo eitt dæmi sé tekið, þá verða rannsóknir þeirra næsta einhæfar ef þeir líta aldrei út fyrir þann heim sem veraldarvefurinn opnar þeim. Þetta eru vonandi aðeins byrjunarörðugleikar sem stafa af því hversu skammt við erum komin í myndun alheimsbókasafnsins á netinu því að um leið og það nær til fleiri tegunda heimilda þá fjölgar auðvitað möguleikum fræðimanna til rannsókna.

Erfiðara verður að bæta upp annað sem glatast við ummyndun hins skráða vitnisburðar úr skjölum og bókum á stafrænt form en það eru hin líkamlegu tengsl við fortíðina sem myndast við það eitt að snerta skjöl og aðrar heimildir á skjala- og bókasöfnum. Það er einfaldlega ekki sama tilfinning sem fylgir því að handleika skjal, handrit eða gamla bók og að rýna í myndir af þessum gögnum á skjá. Einnig fá fræðimenn ekki sömu innsýn í þau flóknu kerfi sem liggja að baki röðun og vistun skjala við að leita að þeim í stafræn- um gagnagrunnum. Það er auðvitað mun auðveldara að finna upplýsingar með því að nýta sér leitarvélar en að rekja sig í gegnum skjalaskrár eða grafa sig í ofan í skjalamöppur og -kassa. Við finnum líka miklu síður það sem við vorum alls ekki að leita að, af því við vissum ekki að það væri til, ef við treystum á Google og gerum okkur aldrei ferð á gamaldags skjalasafn.

Hvað sem því líður þá hefur stafræna byltingin þegar opnað íslenskum fræðimönnum leiðir til rannsókna sem voru þeim lokaðar eða kostuðu þá gríðarlega fyrirhöfn. Nú getur áhugamaður um skrif franska sextándu aldar lögfræðingsins Jeans Bodin um fullveldið auðveldlega fundið og litið í hinar ýmsu útgáfur af bókum hans um lýðveldið, svo ég taki dæmi af sjálfum mér, án þess að þurfa að gera sér ferð af bæ.13 Of snemmt er að dæma um hvaða áhrif þessi bylting mun hafa á rannsóknir fræðimanna í framtíðinni, því að henni er ekki lokið, en það verður ekki aftur snúið. Stafræna alheimsbókasafnið er komið til að vera, eða mun koma í fyrirsjáanlegri framtíð, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

 1. Adam Hammond, Literature in the Digital Age. An Introduction (Cambridge: Cambridge University Press 2016).
 2. Sama rit, bls. 41–42.
 3. H. G. Wells, „Contribution to the new Encyclopédie Française, August, 1937“, World Brain (Garden City: Doubleday, Dorian & Co 1938), bls. 83.
 4. Fyrsta bindið, L’Outillage mental. Pensée, langage, mathématique, kom út í París árið 1937.
 5. Wells, „Contribution to the new Encyclopédie Française“, bls. 86.
 6. „… in the eras of manuscript and print, universality of holdings was a far more achievable goal than universality of access.“ Hammond, Literature in the Digital Age, bls. 43.
 7. Þannig er hægt að finna þær bækur sem birtar eru á vef Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Bækur.is, með leit í gagnagrunni Internet Archive.
 8. Sigrún Klara Hannesdóttir, „Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn 10 ára“, Fregnir 29:3 (2004), bls. 13; Örn Hrafnkelsson, „VESTNORD. Stafrænar endur- gerðir dagblaða og tímarita á Netinu — www.timarit.is“, Bókasafnið 27 (2003), bls. 65–68.
 9. Vef. „Um vefinn“, Tímarit.is, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, https:// timarit.is/about.
 10. Sjá m.a.: Vef. Aviser i Mediestream, Det Kgl. Biblioteks mediesamlinger, Det Kongelige Bibliotek, Kaupmannahöfn, http://www2.statsbiblioteket.dk/medie stream/avis; Vef. Digitala samlingar, Nationalbiblioteket, Helsinki, https:// digi.kansalliskirjasto.fi; Vef. Tidarrit.fo, Landsbókasavnið, Þórshöfn, https:// apps.infomedia.dk/AvisPortal2/fo/fao; Vef. „Digitale aviser“, Nasjonalbiblio- teket, Ósló, https://www.nb.no/search?mediatype=aviser; Vef. Svenska dags- tidningar, Kungliga biblioteket, Stokkhólmi, https://tidningar.kb.se. Opinn aðgangur að norrænu dagblöðunum er yfirleitt takmarkaður við efni sem ekki er háð höfundarrétti.
 11. Vef. https://handrit.is.
 12. Vef. Stafrænar heimildir úr Þjóðskjalasafni Íslands, https://heimildir.is.
 13. Sbr. nýlega ritgerð mína um sögu fullveldishugtaksins; Guðmundur Hálf- danarson, „Saga fullveldishugtaksins frá frjálsu fullveldi konungs til fullveldis þjóðar“, Frjálst og fullvalda ríki. Ísland 1918–2018. Ritstj. Guðmundur Jónsson (Reykjavík: Sögufélag 2018), bls. 27–58.

Deila:

Annað efni