Skip to content
Bára Baldursdóttir
Bára Baldursdóttir

Kröfur um sögulegt réttlæti hafa færst mjög í aukana á undanförnum árum. Ástralski sagnfræðingurinn Klaus Neumann heldur því fram að fram til þessa hafi sagnfræðingar ekki haft mikil áhrif á umræður um álitamál sem snúa að sögulegu réttlæti. Hins vegar hafi þeir gegnt lykilhlutverki við að setja fram gagnrýna greiningu á því hvernig við minnumst sögulegs óréttlætis og setjum það í samhengi, vakið athygli á þögnum og eyðum í sagnaritun um sögulegt óréttlæti, tekist á við birtingarmyndir fortíðarinnar í samtíðinni og greint hvatir og hagsmuni einstakra þátttakenda í sögunni.1

Þessar fullyrðingar Neumanns hafa vakið mig til umhugsunar um það álitaefni hvort persónuverndarsjónarmið og aðgangstakmarkanir löggjafans að skjalasöfnum geti hugsanlega hamlað sagnfræðingum og öðrum fræðimönnum í viðleitni þeirra til þess að knýja fram sögulegt réttlæti til handa þeim sem samfélagið hefur brotið á í fortíðinni. Í ljósi þeirrar spurningar mun ég reifa eigin upplifun af þeim hindrunum sem geta orðið á vegi fræðimanna í tengslum við aðgang að rituðum heimildum á opinberum skjalasöfnum.

Umdeild ríkisafskipti

Árið 2000 lauk ég meistaranámi í kynjasögu við bandarískan háskóla og fjallaði lokaverkefni mitt um afskipti ríkisvaldsins af samböndum íslenskra unglingsstúlkna og setuliðsmanna í síðari heimsstyrjöld. Ég byggði rannsóknina að miklu leyti á gögnum frá embætti sakadómara í Reykjavík sem varðveitt eru á Þjóðskjalasafni Íslands. Þar er meðal annars að finna skýrslur frá ungmennaeftirliti lögreglunnar sem og skjöl frá ungmennadómi.

Tilurð þessara skjala má rekja til umdeildra neyðarlaga sem stjórnvöld ákváðu að setja í árslok 1941 til þess að koma böndum yfir óstýrilátar unglingsstúlkur. Í kjölfar mikils úlfaþyts sem átti sér stað eftir opinbera birtingu svonefndrar „ástandsskýrslu“ í helstu dagblöðum landsins gengu stjórnvöld svo langt að setja bráðabirgðalög til þess að sporna við „ástandinu“ en samkvæmt stjórnarskránni er einungis heimilt að setja slík lög af brýnni nauðsyn. Þann 9. desember 1941 undirritaði ríkisstjóri Íslands bráðabirgðalög nr. 122/1941 um eftirlit með ungmennum o.fl. Samkvæmt lögum þessum gátu barnaverndarnefndir og skólanefndir fylgst með ungmennum allt til 20 ára aldurs, sem verður að teljast með ólíkindum í ljósi þess að sjálfræðisaldur miðaðist þá við 16 ár. Þá skyldi stofnaður sérstakur ungmennadómstóll, skipaður héraðsdómara ásamt tveimur fulltrúum völdum af bæja- eða sveitarstjórnum, og heimilt var að vista ungmenni í allt að þrjú ár á heimilum eða hælum.2

Í meðförum Alþingis vorið 1942 voru gerðar breytingar á lögunum sem drógu töluvert úr refsihörku þeirra. Náðu lögin hér eftir einungis til ungmenna undir 18 ára aldri enda kom skýrt fram í nefndaráliti að það þætti óviðeigandi að fólk sem komið var á giftingaraldur væri undir eftirliti barnaverndarnefndar. Allsherjarnefnd þingsins féllst á þá meginhugsun sem lá til grundvallar lögunum en efaðist um „að lækning þessara meina“ fengist „með ströngum ráðstöfunum og refsihörku af hálfu hins opinbera“.3 Brynjólfur Bjarnason formaður Sósíalistaflokksins gekk skrefinu lengra í gagnrýni á lögin og vítti ríkisstjórnina harðlega fyrir stjórnarskrárbrot þar sem stjórnarskráin kvæði á um að bráðabirgðalög skyldi einungis setja er brýna nauðsyn bæri til. Hann fullyrti enn fremur að siðgæði og menningu væri aldrei hægt að skapa með lögregluaðgerðum.4

Þrátt fyrir andmæli voru bráðabirgðalögin frá 1941 staðfest með lögum nr. 62/1942. Með gildistöku laganna var lagður grunnur að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi vistun barna utan heimilis. Ríkisvaldinu var ætlað að sjá um vistun barna með hegðunarvandamál sem voru álitin gerendur en sveitarfélögin ráðstöfuðu börnum sem töldust þolendur vegna erfiðra heimilisaðstæðna, vanrækslu eða ofbeldis.5 Þó svo lögin tækju til „ungmenna“ almennt var þeim nær eingöngu beitt gegn stúlkum.6

Barnaverndarsjónarmið virðast ekki hafa verið höfð að leiðarljósi við framkvæmd laganna þrátt fyrir ungan aldur stúlknanna, heldur var einblínt á þær sem gerendur í afbrotamálum sem skyldi refsað með betrunarvist. Ungmennadómurinn úrskurðaði því bágstaddar unglingsstúlkur til dvalar á sveitaheimilum eða hælisvistar á vafasömum forsendum.7 Nánast undantekningarlaust voru sakborningar grunaðir eða fundnir sekir um að hafa átt í kynferðissamböndum við hermenn, sem virðast sjálfir ekki hafa verið látnir taka ábyrgð á eigin gjörðum. Þegar dómsuppkvaðning lá fyrir voru stúlkurnar vistaðar tímabundið á upptökuheimili sem sett var á stofn í sóttvarnarhúsinu við Ánanaust í Reykjavík þar til frekari vistunarúrræði tóku við.8

Skjöl Sakadóms Reykjavíkur

Vitneskjan um þennan þátt í sögu hernámsins hér á landi var mér að mestu ókunn þar til Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur birti grein í tímaritinu Sögnum árið 1996 sem bar heitið „Blórabögglar og olnbogabörn. „Ástandskonur“ og aðrar konur í Reykjavík í seinna stríði“. Grein Eggerts kveikti áhuga minn á viðfangsefninu sem varð til þess að ég tók að grennslast fyrir um heimildir á Þjóðskjalasafni Íslands haustið 1999 í þeirri von að skjöl opinberra aðila sem komu að málinu væru aðgengileg á safninu. Skjalasafn ungmennaeftirlits lögreglunnar var þar efst á óskalistanum. Þar sem ungmennadómurinn starfaði aðeins í tæp tvö ár efaðist ég um að gögn frá þeirri starfsemi væru mikil að vöxtum eða hefðu varðveist enda kom á daginn að hvorki skjalasafn ungmennaeftirlitsins né skjöl Kleppjárnsreykjahælisins voru þá skráð í vörslu Þjóðskjalasafns. Mér var hins vegar gert kunnugt að einkaskjalasafn forstöðukonu ungmennaeftirlitsins væri varðveitt á safninu, innsiglað og innilokað í öryggisgeymslu safnsins fram til ársins 2011. Ég taldi því nokkuð víst á þessum tíma að opinber gögn varðandi málið hefðu fuðrað upp í orðsins fyllstu merkingu enda efni þeirra afar eldfimt.

Ég neyddist því til að róa á önnur mið í heimildaleitinni. Með dyggri aðstoð og ábendingum skjalavarða Þjóðskjalasafns, sem lögðu sig alla fram til þess að ég færi ekki erindisleysu, var mér bent á skjalasafn Sakadóms Reykjavíkur. Gögnin voru óskráð á þessum tímapunkti og því lítið vitað um innihald þeirra. Persónuvernd tók ekki til starfa fyrr en árið 2001 og því var vinnsla upplýsinga úr gögnunum háð ákvörðun safnsins. Þjóðskjalasafn leitaði hins vegar eftir áliti Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði tekið við hlutverki Sakadóms, með skírskotun til 2. mgr. 20. gr. upplýsingalaga en þar segir: „Ef vafi er um rétt til aðgangs að gögnum, getur safnið [þ.e. Þjóðskjalasafn Íslands] aflað rökstuddrar umsagnar þess stjórnvalds, sem afhenti gögnin áður en ákvörðun er tekin.“9 Mér var síðan veittur aðgangur að þessum gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996 að fenginni umsögn Héraðsdóms Reykjavíkur sem heimilaði aðganginn að uppfylltum skilyrðum varðandi „trúnaðar- og þagnarskyldu“.10 Í ljósi þess hve gögnin þóttu viðkvæm ákvað þjóðskjalavörður að koma mér fyrir í lokuðu skrifstofuherbergi til að eiga ekki á hættu að aðrir gestir gætu „lesið yfir öxlina“ á mér í lestrarsal safnsins.

Ég gleymi seint þeim degi þegar ég fékk skjölin í hendurnar. Þau reyndust meðal annars innihalda óvenju ítarlegar og berorðar skýrslur um yfirheyrslur sakborninga og vitna af hálfu ungmennaeftirlits lögreglunnar sem og dómsuppkvaðningar ungmennadóms. Mér var verulega brugðið þegar ég renndi í gegnum hverja síðuna af annarri. Algjört varnarleysi stúlknanna var sláandi. Þær sem þráuðust við að mæta til yfirheyrslu gátu átt von á að vera sóttar með lögregluvaldi á heimili sín, vinnustaði eða samkomustaði. Margar þurftu enn fremur að sæta læknisskoðun til að skera úr um hvort meyjarhaft þeirra væri rofið.11 Örfá sendibréf þeirra höfðu slæðst með gögnunum sem kom ekki til af góðu því að bréf þeirra voru ritskoðuð og jafnvel afrituð á meðan þær voru undir vistunarúrskurði. Sendibréfin veittu innsýn í hugarheim stúlknanna og gáfu til kynna að sumar þeirra hefðu sætt ósanngjarnri og illri meðferð í hælisvistinni. Í einu bréfanna lýsir stúlka til að mynda endurtekinni einangrunarvist í myrkvuðum klefa sem staðsettur var í kjallara hússins að Kleppjárnsreykjum.12

Ég sannfærðist á augabragði um brýna nauðsyn þess að fjalla um þessar viðkvæmu persónuheimildir, sem legið höfðu í þagnargildi í ríflega hálfa öld, út frá sjónarmiði mannréttinda og sögulegs réttlætis. Það var sjálfgefið að ég gæti fjallað um málið frá sjónarhóli ríkisvaldsins en hins vegar var mér gert ókleift að setja mig í samband við þær konur sem um var fjallað í gögnunum. Eina leiðin til þess að ná til þeirra kvenna sem enn lifðu og voru þá komnar á áttræðisaldur var að auglýsa eftir þeim á síðum dagblaðanna og vonast til að einhverjar þeirra hefðu kjark til að svara kallinu. En ég hvarf fljótlega frá þeirri hugmynd. Í ljósi langvarandi fordóma gagnvart „ástandsstúlkum“ þótti mér ólíklegt að nokkur þeirra gæfi sig fram enda var viðfangsefnið á þessum tíma enn tabú sem var umlukið þöggun. Í ljósi þess ákvað ég að auglýsa ekki eftir viðmælendum. Hins vegar þótti mér ekki ólíklegt að einhverjar þessara kvenna hefðu haft kjark til þess að rjúfa þagnarmúrinn ef leyfilegt hefði verið að hafa samband beint við hverja og eina þeirra að því gefnu að nafnleyndar væri tryggilega gætt. Vegna persónuverndarsjónarmiða hafa raddir þessara kvenna því aldrei fengist að heyrast. Það er verulegt álitamál hvort þau sjónarmið hafi átt að vega þyngra en þau mannréttindasjónarmið sem snúa að sögulegu réttlæti og hugsanlegri afsökunarbeiðni af hálfu stjórnvalda.

Skjalasafn Sakadóms Reykjavíkur varð grunnurinn að meistararitgerð minni og síðar grein sem birtist í afmælisritinu Kvennaslóðir sem gefið var út árið 2001 til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi sjötugri. Sömuleiðis fjallaði ég um þetta efni á Söguþingi sumarið 2002.13 Á þessum tímapunkti ákvað ég að segja skilið við rannsóknarefnið.

Ný skjalasöfn koma fram í dagsljósið

Þegar svonefnd vistheimilanefnd var sett á laggirnar samkvæmt lögum nr. 26/2007, í þeim tilgangi að rannsaka starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn á síðustu öld, gerði ég mér von um að starfsemi vistheimilisins að Kleppjárnsreykjum yrði könnuð af nefndinni.14 Því miður var það vistheimili undanskilið. Hins vegar leikur enginn vafi á því að störf nefndarinnar hafa haft geysileg áhrif á sögulegt uppgjör og réttlæti á Íslandi í ljósi sanngirnisbóta sem greiddar hafa verið til fyrrum vistmanna vegna illrar meðferðar á vistheimilum ríkisins sem og afsökunarbeiðni af hálfu stjórnvalda. Jafnframt varð öll umræða um sambærileg mál opnari í samfélaginu í kjölfarið.

Árið 2011, sama ár og Vistheimilanefndin lauk störfum sínum, var leyndarhjúp loksins svipt af einkaskjalasafni í vörslu Þjóðskjalasafns sem legið hafði innsiglað í skjalageymslu safnsins í hálfa öld og beðið síns vitjunartíma. Þann 30. september 1961 afhentu erfingjar Jóhönnu Knudsen, lögreglukonu og forstöðukonu ungmennaeftirlits lögreglunnar í Reykjavík, safninu skjöl úr fórum hennar til varðveislu. Í fylgibréfi með afhendingunni var tiltekið að það væri „ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir afhendingu þessara gagna að þau verði innsigluð og eigi opnuð til nokkurra afnota fyrr en eftir 50 ár — fimmtíu ár — frá deginum í dag að telja“.15

Árið 2012, 67 árum eftir að styrjöldinni lauk, var fræðimönnum fyrst veittur aðgangur að skjalasafni þessu af hálfu Þjóðskjalasafns og var ég á meðal þeirra sem fengu skilyrtan aðgang að safninu til þess að vinna sagnfræðilega rannsókn og gefa hana út í bókarformi.16 Í sama mánuði og innsigli skjalabögglanna var rofið sótti ég um aðgang að skjalasafni ungmennaeftirlits lögreglunnar sem og skjalasafni vinnuhælisins að Kleppjárnsreykjum sem hafði þá nýverið ratað á Þjóðskjalasafn. Það síðarnefnda kom úr vörslu Stefáns Benediktssonar fyrrum alþingismanns en skjölin tilheyrðu dánarbúi föður hans, Benedikts Stefánssonar, fyrrum forstöðumanns hælisins. Þjóðskjalasafn svaraði aðgangsbeiðni minni á þann veg að safnið gæti heimilað mér aðgang að skjalasöfnunum samkvæmt upplýsingalögum þegar skráningu þeirra væri lokið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem leyfi frá Persónuvernd og undirritun trúnaðaryfirlýsingar. Einnig setti safnið það skilyrði að engin afrit mætti „taka af skjölum með persónuviðkvæmum upplýsingum, hvorki með mynd né upplestri inn á hljóðmiðil“.17 Persónuvernd gaf síðan út leyfi til aðgangs að skjalasöfnunum eftir að þau höfðu verið skráð í mars 2012.18

Þegar innsigli skjalabögglanna var rofið kom í ljós að því fór aldeilis fjarri að um væri að ræða einkaskjöl Jóhönnu Knudsen heldur voru þetta opinber gögn sem urðu til vegna embættisgjörða hennar. Þór Whitehead sagnfræðingur var á meðal þeirra fyrstu sem rannsakaði gögnin og birti síðan grein í tímaritinu Sögu árið 2013 þar sem hann fjallaði um starfsemi ungmennaeftirlitsins og varpaði þar fram eftirfarandi spurningu: „Er hugsanlegt að á styrjaldarárunum hafi hér farið fram víðtækustu njósnir sem stundaðar hafa verið um einkalíf fólks á Íslandi?“19 Það má til sanns vegar færa ef litið er til þess að í skjalasafni ungmennaeftirlits lögreglunnar má meðal annars finna upplýsingar um kynni mörg hundruð íslenskra kvenna af hermönnum sem skráðar eru af mikilli nákvæmni í minnisbækur — alls tíu talsins. Meðfylgjandi var lítil vasabók með nafnalista kvennanna sem færður var í stafrófsröð og innihélt rúmlega 800 nöfn kvenna á öllum aldri. Skjalasafn ungmennaeftirlits lögreglunnar greinir því frá fordæmalausri upplýsingasöfnun og skráningu af hálfu íslenskra stjórnvalda um kvenkyns borgara og samskipti þeirra við útlendinga, án nokkurra lagastoða.

Ákall um sögulegt réttlæti

Ljóst þykir að langstærstur hluti þeirra kvenna sem tilgreindar eru með nafni í gögnunum hafa ekki haft grun um að fylgst væri með athöfnum þeirra af forstöðukonu, lögreglumönnum né öðrum útsendurum ungmennaeftirlitsins, hvað þá að viðkvæmar persónuupplýsingar um einkalíf þeirra væru skráðar og varðveittar á opinberu skjalasafni. Einungis stúlkur undir 18 ára aldri sem voru yfirheyrðar og úrskurðaðar samkvæmt lögum af ungmennadómi til vistunar á sveitaheimilum eða á Kleppjárnsreykjum voru líklegar til þess að vera meðvitaðar um skráningu og varðveislu heimilda þar að lútandi. Þegar skjöl Jóhönnu Knudsen voru opnuð árið 2012 mátti gera ráð fyrir að allflestar kvennanna væru látnar því yngsti aldurshópurinn var þá á níræðisaldri.

Lagalegar aðgangstakmarkanir og persónuverndarsjónarmið hafa því háð fræðimönnum í viðleitni þeirra til þess að fá að hlýða á raddir þeirra kvenna sem áttu hlut að máli. Eftir stendur einhliða frásögn ríkisvaldsins af samskiptum við borgara sem voru grunaðir eða dæmdir fyrir refsiverða háttsemi. Því er það álitamál hvort löggjöf sem ætlað er að vernda rétt borgaranna geti í þessu tilfelli hafa hindrað að sögulegu réttlæti hafi verið fullnægt. Hins vegar má geta þess að rannsóknir fræðimanna á þessu umdeilda máli hafa vakið athygli löggjafans á nauðsyn þess að það verði rannsakað opinberlega. Þingsályktunartillaga „um rannsókn á vinnuhælinu að Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn“ var lögð fram af fimmtán þingmönnum stjórnarandstöðunnar á Alþingi þann 3. nóvember 2015. Tillagan gekk út á að forsætisráðherra hlutaðist til um að fela vistheimilisnefnd rannsókn á starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum með áherslu „á að kanna hvort mannréttindabrot hafi verið framin af hálfu íslenskra yfirvalda“. Þar segir enn fremur:

Brýna nauðsyn ber til þess að upplýst verði með opinberri rannsókn hvað raunverulega átti sér stað á Kleppjárnsreykjum og við lögreglurannsóknir á ungum konum í kjölfar komu erlendra herliða til landsins. Enn eimir af fordómum í garð þeirra kvenna sem voru viðfangsefni þessara rannsókna og sættu jafnvel frelsissviptingu í kjölfarið. Sumar þessara kvenna eru enn á lífi og ekki of seint að þeim verði veitt opinber afsökunarbeiðni. Nauðsynlegt er að uppræta fordómana og skömmina sem þessar konur máttu þola alla sína tíð, og þola jafnvel enn. Þeim og aðstandendum þeirra ber að veita uppreist æru sinnar eins fljótt og auðið er.20

Fram kemur í greinargerð tillögunnar að tilefni hennar byggist á rannsóknum fræðimanna sem hafi fengið aðgang að gögnum varðandi málið á Þjóðskjalasafni með þeim takmörkunum sem lög kveða á um.21 Sagnfræðingar og aðrir fræðimenn hafa því gegnt stóru hlutverki í að greina það sögulega óréttlæti sem hér um ræðir. Hins vegar komst þingsályktunartillagan ekki á dagskrá þingsins og óvíst er hvort málið verði tekið upp að nýju.

Eins og fram kemur í upphafsorðum greinarinnar hafa kröfur um sögulegt réttlæti orðið háværari undanfarin ár. Afsökunarbeiðnir á vegum stjórnvalda koma þar sífellt oftar við sögu. Í þessu sam+hengi má nefna að á síðasta ári baðst Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, opinberlega afsökunar á þeirri „skammarlegu meðferð“ sem norskar konur urðu fyrir í hefndarskyni vegna sambanda þeirra við þýska hermenn í Noregi í síðari heimsstyrjöld.22 Það leiðir hugann að því hvort íslensk stjórnvöld sjái ástæðu til þess að feta í fótspor Solberg og veita íslenskum konum sem voru beittar órétti vegna samskipta sinna við hermenn opinbera afsökunarbeiðni.

 1. Klaus Neumann, „Historians and the yearning for historical justice“, Rethinking History 18:2 (2014), bls. 145164, sjá bls. 145.
 2. Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 280281.
 3. Alþingistíðindi 1942 A. Þingskjöl með málaskrá, bls. 317318.
 4. „Ráðið til „að bæta siðferði unglinga“ eru lögreglunjósnir og þvingunarvist!“, Nýtt dagblað 26. febrúar 1942, bls. 3.
 5. Könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979. Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Lögð fram af forsætisráðherra, febrúar 2008, bls. 33.
 6. Bára Baldursdóttir, „„Þær myndu fegnar skifta um þjóðerni“. Ríkisafskipti af samböndum unglingsstúlkna og setuliðsmanna“, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl. (Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands 2001), bls. 301317, sjá bls. 310.
 7. Fram kemur í kvikmynd Ölmu Ómarsdóttur, Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum frá 2015, að ungmennadómurinn virðist hafa farið á skjön við 2. gr. laganna, sem kvað á um að reyndar skyldu aðgerðir til betrunar á borð við ábendingar til foreldra og kennara barna, í málum þeirra stúlkna sem hann úrskurðaði til vistunar á Kleppjárnsreykjum. Dómurinn hafi þess í stað úrskurðað strax á grundvelli 3. gr. þar sem sagði: „Ef úrræði þau, sem í 2. gr. getur, koma ekki að haldi …, má beita hæfilegum uppeldis- og öryggisráðstöfunum, til dæmis vistun ungmennis á góðu heimili, hæli eða skóla.“
 8. Heimilið tók til starfa 19. apríl 1942 og var starfrækt til ársloka 1943. Sjá: Gunnar M. Magnúss, Virkið í norðri II. Þríbýlisárin (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1947), bls. 656; Eggert Þór Bernharðsson. „Blórabögglar og olnbogabörn“, Sagnir. Tímarit um söguleg efni 19 (1996), bls. 12–23, sjá bls. 19.
 9. ÞÍ. (Þjóðskjalasafn Íslands) Málasafn Þjóðskjalasafns Íslands. Bréf frá Þjóðskjala- safni Íslands til Héraðsdóms Reykjavíkur, undirritað af Björk Ingimundardóttur deildarstjóra 12. október 1999.
 10. ÞÍ. Málasafn Þjóðskjalasafns Íslands. Bréf frá Héraðsdómi Reykjavíkur til Þjóðskjalasafns Íslands, undirritað af Friðgeiri Björnssyni dómstjóra 21. október 1999.
 11. Bára Baldursdóttir, „„Þær myndu fegnar skifta um þjóðerni“, bls. 314315.
 12. ÞÍ. Skjalasafn sakadómara í Reykjavík. Mál nr. 1188/1942. Afrit af bréfi frá stúlku sem dæmd var til hælisvistar vorið 1942. Bréfið var ritað á Kleppjárns- reykjum og dagsett 17. febrúar 1943; Bára Baldursdóttir, „„Þær myndu fegnar skifta um þjóðerni““, bls. 317.
 13. Bára Baldursdóttir, „„Þær myndu fegnar skifta um þjóðerni ““, bls. 301317; sami höf., „Kynlegt stríð: Íslenskar konur í orðræðu síðari heimsstyrjaldar,“ 2. íslenska söguþingið 30. maí til 1. júní 2002. Ráðstefnurit I. Ritstj. Erla Hulda Hall- dórsdóttir (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands o.fl. 2002), bls. 64–74.
 14. Vef. Alþingi. Lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og með- ferðarheimila fyrir börn nr. 26/2007, https://www.althingi.is/lagas/nuna/ 2007026.html, 13. september 2019.
 15. Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin. Stríðið um konurnar 1940–1941“. Saga LI:2 (2013), bls. 92–142, sjá bls. 92.
 16. Stefnt er að útgáfu bókarinnar síðla ársins 2020.
 17. Hdr. (Í vörslu höfundar) Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands til Báru Baldursdóttur, undirritað af Eiríki Guðmundssyni þjóðskjalaverði 21. október 2011, bls. 1–2.
 18. Hdr. Afrit af bréfi Persónuverndar til Þjóðskjalasafns Íslands, undirritað af Þórði Sveinssyni 13. mars 2012, bls. 1–3.
 19. Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin“, bls. 92.
 20. Vef. Alþingi. Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárns- reykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar, https://www.althingi.is/ altext/145/s/0367.html, 27. ágúst 2019.
 21. Þar er sérstaklega getið rannsóknar Þórs Whitehead sagnfræðings og heimilda- myndar Ölmu Ómarsdóttur fréttakonu, Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, sem frumsýnd var 8. október 2015.
 22. Vef. „„Þýsku stúlkurnar“ beðnar afsökunar“, Morgunblaðið 17. október 2018, https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/10/17/thysku_stulkurnar_bednar_af sokunar/, 13. september 2019.

Deila:

Annað efni