Skip to content
Einokunarverslun í öllu Danaveldi?
Einokunarverslun í öllu Danaveldi?

Úr Sögu LVII:I (2020).

Í prýðilegum ritdómi fjallar Sveinn Agnarsson1 um bókina Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010, en ég er einn höfunda þess verks. Þar fjallar hann meðal annars um efnishluta minn, „Undarlegt er Ísland, örvasa og lasið. Einokunarverslunin“, fyrra bindi, bls. 207–283. Ég er í meginatriðum ánægður með ritdóminn um framlag mitt í bókinni, en tiltekinn hluti í gagnrýni hans felur samt óbeint í sér kröfu um athugasemd frá mér. Hann skrifar:

„… gagnlegt hefði verið að bera saman það [þ.e. fyrirkomulag einokunarverslunarinnar] við verslunarhætti í öðrum hlutum Danaveldis.“2

Hvar var einokun

Almenna svarið við þessari spurningu er einfalt: Lögskipuð einokunarverslun var á sautjándu og átjándu öld aðeins til í nýlendum og hjálendum Danaveldis. Í sveitum og borgum þáverandi Danmerkur og Noregi og í þýskum furstadæmum Danakonungs var að vísu ætlast til að almenningur verslaði í helsta löggilta kaupstað þess héraðs sem var í héraði hans, þar voru venjulega margir kaupmenn eða gildi þeirra, sem gátu keppt sín á milli, en engin lög eða tilskipanir um þessi efni voru til.

Víkjum fyrst að nýlendum. Ef Evrópuríki náðu á vald sitt landi sem nýlendu hafði ríkið einkarétt á bæði stjórn og efnahag hennar. Þetta gilti um öll Evrópulönd. Nýlendur (d. kolonier, e. colonies) voru skýlaus eign viðkomandi Evrópulands og voru viðurkenndar sem slíkar. Var frjálst að einoka þar allt sem eignarlöndin töldu vera sér til hagnaðar.

Danaveldi átti um tíma eina hafnarborg í Indlandi og eitt virki í því landi sem nú er Gana í Afríku. Nýlendur Dana í Indlandi og Gana komust undir efnahagsvald Breta þegar á átjándu öld og Bretland fékk þær formlega í hendur 1845 og 1849. Vestur-indísku eyjar Danmerkur voru seldar Bandaríkjunum 1917 án þess að íbúar eyjanna væru spurðir álits á gjörningnum. En Grænland var hins vegar óumdeilanleg dönsk eign áfram. Einokunarverslun var afnumin þar 1948.

Hjálendur

Hér er um að ræða lönd sem höfðu að einhverju leyti lagalegt sjálfstæði og þar sem danska stjórnin viðurkenndi ákveðna sérstöðu íbúanna. Skilin milli hjálendu og nýlendu eru ekki alltaf greinileg en voru þó skýrust í sambandi Danmerkur og Íslands.

Á einokunartímanum voru 20–25 hafnir á Íslandi sem aðallega dönsk skip sigldu til. Ísland var tvímælalaust mikilvægasta hjálenda Danakonungs, sú sem bar skýrust einkenni slíks lands. Í Færeyjum var aðeins ein kauphöfn, í Þórshöfn. En hér á landi voru t.d. í gildi samtímis dönsk-norsk lög og íslensk lög. Hér var yfirstétt sem alla tíð hafði ákveðin völd, það voru mjög oft stórjarðeigendur, einnig í tíð einveldisins (1660–1848). Þorri embættismanna var íslenskur og allir prestar og biskupar voru það einnig. Þessu var ekki þannig farið í hinum hjálendunum, Færeyjum og Finnmörk.

Ekki skiptir minna máli að þjóðfélagsskipan var áður fyrr gjörólík í Færeyjum og Íslandi. Í Færeyjum var nær engin yfirstétt sem byggði vald sitt á jarðeignum. Heildarfólksfjöldi þar sveiflaðist um töluna 5.000 en á Íslandi um 50.000, alla vega frá sautjándu öld. Við siðaskiptin lagði Danakonungur undir sig allar kirkjujarðir í Færeyjum en á Íslandi urðu aðeins klausturjarðir eign konungs. Í Færeyjum var kirkjujörðum ekki skipt og ábúendur þeirra voru helstu bændur og leiðtogar Færeyinga, nefndir kóngsbændur. Jörðum sem voru upphaflega í einkaeign var hins vegar skipt í ótal parta, breyttust í raun í fjölda smáþorpa, þar sem meginhluti íbúanna bjó.

En aldrei virðist þó hafa verið litið á Færeyjar sem sérstaka tekjulind fyrir krúnuna andstætt Íslandi. Í mati á eignum konungs í Norður-Atlantshafi með tilliti til verslunar 1781 voru Færeyjar metnar á 2,8% af öllum konungstekjum Danaveldis í þessum heimshluta meðan sambærileg verðmæti Íslands voru metin á rúm 37%.3 Kóngsbændur í Færeyjum sendu Danakonungi beiðni um það 1787 að ekki yrði hætt við að hafa í eyjunum einokunarverslun, var sú beiðni samþykkt og var sú verslun þar við lýði til 1854/1855.

Um Finnmörk4: Finnmerkurverslun hafði heyrt undir Bergen til 1745, en Bergenskaupmenn þóttu að flestra mati, ekki síst konungs og embættismanna hans, vanrækja þessa verslun. Því var ákveðið að láta íslenska verslunarfélagið, sem oft var kennt við Hörmangara, yfirtaka verslunina það ár. Farið var að sigla til Finnmerkur frá Kaupmannahöfn 1746 og fyrstu arðsemisútreikningar vegna verslunar þessarar eru frá árinu 1747.5 Nauðsynlegt er að víkja nokkuð að samfélagsháttum í Finnmörk á þessum tíma. Frumbyggjarnir voru Samar en þeir voru sjálfum sér nógir um flest, voru varla í ríkum mæli viðskiptavinir framandi kaupmanna.

En slíkt voru sannarlega þeir norsku landnemar sem settust að í verstöðvum við strendur Finnmerkur á sautjándu og átjándu öld. Ekki var þetta mikill fjöldi, 2.000–3.000 manns alls, að öllum meðtöldum, fullorðnum körlum og konum svo og börnum. Stóra vandamálið var að hindra á einhvern hátt að Norðmenn þessir flyttu burt og ef þeir gerðu það, að koma nýbyggjum á svæðið.

Innflutningsskýrslur Finnmerkur sýna að mestallan mat, sem norsku íbúarnir þar neyttu, höfðu kaupmenn flutt til þeirra. Meginatvinna þessara Norðmanna voru fiskveiðar. Nokkuð jafnt framboð virðist hafa verið af fiski frá Finnmörk, hungursneyð var þar fátíð og sveiflur í arði verslunarinnar þar voru litlar. Þetta var mjög ólíkt því sem gerðist í Íslandsversluninni þar sem sum árin var mikill gróði en önnur mikið tap.

Finnmerkurverslunin var einokun í þeim skilningi að norsku verstöðvarmennirnir máttu aðeins versla við tiltekið verslunarfélag. En í raun og veru líktist fyrirkomulagið meir því sem á nútímamáli ber heitið verktakaskipulag. Norsku íbúarnir fluttu til Finnmerkur, oft aðeins tímabundið, veiddu þar fisk og fengu fyrir hann flestar lífsnauðsynjar. Þeir voru frjálsir til þess að yfirgefa svæðið þegar þeim þóknaðist eða höfðu aðstöðu til þess að setjast að annars staðar. Niðurstaðan er þessi: Að bera saman einokunarverslunina í Finnmörk, Færeyjum og Íslandi segir mjög lítið um eðli einokunarverslunar. Skoða verður einokunarverslunina í þessum löndum með hliðsjón af samfélagsháttum sem voru innbyrðis gjörólíkir.

Smáviðbót

Ég hef ákveðið að misnota aðeins aðstöðu mína með hugleiðingu um ritsögu fyrri fræðirita. Þar sem bókhald Íslandsverslunar og Finnmerkurverslunar var að finna í sömu heimildum 1747–1788 var freistandi að gera samanburð á milli þeirra. Í frumriti doktorsritgerðar minnar 1983 var talsvert rætt um Finnmerkurverslun en fimm manna dómnefnd hagsögudeildarinnar í Lundi hafði það helst við þessa gerð að athuga að hér hefði ég látið heimildir stjórna mér um of og farið út fyrir rökréttar skilgreiningar í ritgerðinni og var ég beðinn um að fjarlægja umfjöllunina um Finnmerkurverslunina úr ritgerðinni. Ég fór eftir þessum tilmælum en ég tímdi ekki að taka burt vandlega útreikninga um Finnmerkurverslun Almenna verslunarfélagsins 1764–1774 og fékk ég leyfi til þess að halda þeim. Birtist tafla um það efni í doktorsritgerðinni sem að sænskum sið var sjálfstæð bók fyrir doktorsvörn.6

Árin 1984–1985 barst mér mjög harður andróður gegn bók minni frá Noregi, meðal annars var ég ásakaður um að hafa gleymt Finnmörk. Ég hafði í vörslu minni áður óbirta útreikninga fyrir tímabilin 1747–1759 og 1774–1787. Í svargrein minni í Sögu 1985 bætti ég þessum útreikningum við.7 Kom því allt efni um Finnmerkurverslun sem ég hafði skoðað og ritað um í íslenskri þýðingu endurbættrar útgáfu doktorsritgerðarinnar 1987.8

  1. [Ritdómur] Sveinn Agnarsson, „Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010“, Saga LVI: 2 (2018), bls. 147–155.
  2. Sama heimild, bls 151.
  3. Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602–1787 (Reykjavík: Örn og Örlygur 1987), bls 192. Þetta kom fram í áætlun um stofnun nýs verslunarfélags fyrir öll einokunarsvæði Danaveldis í Norður- Atlantshafi 1781. Í eignamatinu vó Grænland mikið enda voru öll hús þar í landi í eigu Danakonungs. Ísland var metið ásamt Finnmörk 49,7%, en venja var að Ísland var í þessu samhengi ¾ en Finnmörk ¼.
  4. Í umfjöllun um Finnmörk styðst ég mikið við verk Anders Bjarne Fossen, Bergen bys historie II. Borgerskabets by 1536–1800 (Oslo: Universitetsforlaget 1979). Einnig styðst ég mikið við skjöl í danska ríkisskjalasafninu þar sem samtímis er fjallað um Ísland: Dansk Rigsarkiv (DRA), Islandske Handelskompanier 140. fol. reg. En þetta rek ég frekar í grein minni „Þættir úr verslunarsögu Íslands og Norður- Noregs fyrir 1800“, Saga XXII (1985), bls. 195–224.
  5. Gísli Gunnarsson, „Þættir úr verslunarsögu Íslands og Norður-Noregs fyrir 1800“, bls 208–224.
  6. Gísli Gunnarsson, Monopoly Trade and Economic Stagnation. Studies in the Foreign Trade of Iceland 1602–1787 (Lund: Ekonomisk-historiska föreningen 1983), bls 124.
  7. Gísli Gunnarsson, „Þættir úr verslunarsögu Íslands og Norður-Noregs fyrir 1800“, töflur 1, 3 og 4 á bls. 220, 222 og 223 svo og línurit á bls. 210.
  8. Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland, tafla 7.4 bls 158, tafla 9.2 bls 197

Deila:

Annað efni