Skip to content
Frá kommóðu til Kvennasögusafns. Skjöl Elínar Briem
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Frá kommóðu til Kvennasögusafns. Skjöl Elínar Briem

Úr Sögu LVIII:II (2020).

Haustið 2018 barst Kvennasögusafni Íslands mikið magn af skjölum úr fórum Elínar Briem (1856–1937). Fram að því höfðu gögnin verið geymd í heimahúsi, í hárri kommóðu sem upphaflega stóð á heimili Elínar á Bókhlöðustíg 7 í Reykjavík. Skjölin voru í mikilli óreiðu en í einstaka tilfellum var bréfum frá sama sendanda haldið saman með bréfsnifsi. Að auki höfðu flest bréfin frá afkastamesta sendandanum verið sett saman í plastpoka. Önnur ummerki um flokkun á skjölunum voru þrír litlir bunkar sem teknir voru saman með bláu snæri. Við hvern bunka var festur lítill miði. Það er ómögulegt að segja hvort þar hafi verið að verki sami aðili og sá með bréfsnifsin og plastpokann en miðarnir voru greinilega skrifaðir eftir andlát Elínar. Miðarnir eru ekki nema þrír en þeir gefa ágæta yfirsýn yfir það hve fjölbreytt skjalasafnið er og þá miklu mildi að sá eða sú sem hélt á pennanum gafst svona fljótt upp á tiltektinni:

Safn eftir Sæm Eyjólfsson um skógrækt ofl. Þórsmörk osfrv. Afskrift Elínar af ýmsum kvæðum ofl. þarf athuga aftur.

Bréf frá Sæm. Helgasyni, Margréti Sigurðardóttur ofl. 1914–1915 ekki fjölskyldunni.

Reikningar resept ofl. Mun mega fleygja.

Og fleira, og svo framvegis. Þarf að athuga aftur, mun mega fleygja. Í skilaboðunum örlar á óvissu gagnvart þessum mikla pappírshaug. Sú óvissa átti líklega drjúgan þátt í því að skjölin fengu að snúa aftur í skúffur kommóðunnar og dvelja þar nokkra áratugi í viðbót. Sem betur fer. Gamlir reikningar og lyfseðlar eru dæmi um heimildir sem verða töluvert áhugaverðari þegar heil öld hefur liðið frá tilurð þeirra. Í bunkanum sem átti að fleygja mátti líka finna ýmislegt annað en reikninga, allt frá mannshári í apótekaraumslagi til minnisblaða um starfsemi Kvennaskólans á Blönduósi.

Þegar flytja þurfti kommóðuna af Bókhlöðustíg virðist sem skjölin hafi fengið að liggja að mestu óhreyfð. Fjölskylda Elínar afhenti Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni hluta af skjölum hennar árið 2003 auk þess sem skjöl eru geymd undir hennar nafni á Þjóðskjalasafni Íslands og í Héraðsskjalasafni Árnesinga. Þessi söfn eru þó ekki nema örlítið brot af því magni sem afhent var á Kvennasögusafn Íslands haustið 2018. Þau skjöl urðu út undan í fyrri afhendingum og erfitt er að átta sig á hvers vegna. Líklega eru ástæðurnar margar og tilviljanakenndar. Sú stærsta er þó kannski sú að það er gjá á milli hugsunarháttar starfsfólks á skjalasöfnum og allra þeirra Íslendinga sem á hverju ári þurfa að gera upp dánarbú eða tæma gamlar geymslur.

Það getur verið snúið fyrir almenning að átta sig á hvers konar skjöl séu sögulega mikilvæg. Helsti hvati gefenda að baki þessari tilteknu afhendingu var fyrst og fremst að koma til varðveislu kommóðunni sjálfri, veggplatta sem Elín fékk í tilefni af sjötugsafmæli sínu og svo ýmsum kvennablöðum og -tímaritum sem hún hafði safnað. Þetta væru hlutir sem ættu bersýnilega heima á safni sem væri helgað sögu kvenna. Það var ekki fyrr en við eftirgrennslan starfsmanns Kvennasögusafns sem í ljós kom að kommóðan geymdi mikinn fjölda sendibréfa, teikninga, minnisblaða og reikninga. Þau skjöl fylla nú 17 öskjur og þrjár möppur þar sem yngsta skjalið er frá 1948 og það elsta frá 1838. Tímaritin sem allt snerist upphaflega um fengu hins vegar flest að fjúka enda eru þau öll þegar varðveitt á Landsbókasafni og aðgengileg á Tímarit.is.

„Elsku brenndu brjefið“

Skjöl Elínar Briem hefðu allt eins getað endað á haugunum. Þó var hún með þekktari Íslendingum á sinni tíð. Fullt nafn hennar var Elín Rannveig Eggertsdóttir Briem og hún var fædd að Espihóli í Eyjafirði þann 19. október 1856, dóttir Ingibjargar Eiríksdóttur Sverresen og Eggerts Gunnlaugssonar Briem. Elín hóf kennslu við Kvennaskóla Skagfirðinga árið 1877 og varð forstöðukona Kvennaskóla Húnvetninga 1880–1881. Hún stundaði nám við Zahle-skólann í Kaupmannahöfn 1881–1883 og tók við heimkomu til Íslands við starfi forstöðukonu sameinaðs kvennaskóla Norðurlands á Ytri-Ey á Skagaströnd. Hún gegndi starfinu til ársins 1895. Árin 1901–1903 sneri hún aftur til starfa eftir að skólinn hafði flutt á Blönduós og enn var hún forstöðukona skólans 1912–1915. Að auki stofnaði hún Hússtjórnarskólann í Reykjavík árið 1897 og samdi heimilishandbókina Kvennafræðarann sem kom fyrst út árið 1888 en í fjórða og síðasta sinn árið 1911.1 Pappírshaugurinn hennar sem lá gleymdur  í kommóðu áratugum saman er óþægileg áminning um öll þau gögn kvenna og þá ekki síst alþýðukvenna sem hafa ekki skilað sér á skjalasöfn og munu líklegast aldrei gera það.

Einkaskjalasöfn geyma oftast nær margar raddir og þetta á svo sannarlega við gögn Elínar. Þar er rödd einstaklingsins sem myndaði safnið minnst áberandi. Um það bil helmingurinn af skjölum Elínar eru einkabréf. Af þeim eru ekki nema 15 rituð af Elínu og flest þeirra eru einungis nokkurra orða löng uppköst. Megnið af safninu samanstendur af bréfum frá 195 ólíkum bréfriturum. Þrátt fyrir þetta er heildstæður svipur á skjalasafni Elínar. Það ber skýr merki um áhuga hennar á skólamálum, kvennabaráttunni og bættu heimilishaldi í landinu. Það er líka augljós kynjahalli á bréfunum í safninu, Elín skrifaðist á við mun fleiri konur en karla.2 Þegar karlar skrifa henni bréf er það oftast tengt skólahaldi eða þá að þeir skrifa fyrir hönd eiginkvenna sinna sem af ýmsum orsökum sjá sér ekki fært að skrifa sjálfar. Jafnvel mágkonur Elínar skrifa henni fleiri bréf en bræður hennar og eiginmenn Elínar skrifuðu henni alls ekki ef marka má þau bréf sem varðveitt eru á Kvennasögusafni.

Það er ekki alltaf ljóst hvernig þessar konur í bréfasafninu tengjast Elínu en þarna eru vinkonur, frændkonur og mágkonur, samkennarar og nemendur. Þó Elín hafi tilheyrt hópi „merkra Íslendinga“ þá endurspegla bréfin breiðan þjóðfélagshóp. Í sumum bréfanna er lýst fátækt, basli og vandræðum. Veikindi, dauðsföll og almennar afsakanir eru algeng stef. Hin kvenlega hógværð svífur yfir vötnum, eftirfarandi dæmi eru valin af handahófi fremst úr stafrófsröð bréfritara:

„Nú mun vera komið nó af þessu rugli og bið jeg þig firir gefa.“3

„Nú hætti ég þessu flítis rissi og bið yður að fyrir gefa mjer alla þá galla sem á því eru þeir eru fleiri en jeg veit af.“4

„Nú er kominn háttatími og jeg orðin grútsyfjuð og ætla því að slá botninn í þetta ómerkilega bréf sem jeg bið yður í alla staði að fyrirgefa.“5

Skjalasafn Elínar geymir fleira en þær hátt í tvö hundruð raddir sem hingað til hafa verið nefndar til sögunnar. Inn á milli bréfanna til Elínar leyndist lítill bunki þar sem skyndilega kvað við annan tón, þar sem bréfritarar hófu mál sitt með fullyrðingum á borð við þessa: „Þér gerðuð vel í því að leita til mín um upplýsingar um Þórsmörk. Þar eru ekki færari en ég af þeim sem nú lifa.“6 Í bunkanum kom í ljós hver skýrslan eftir aðra um skóga og sandauðnir, undirrituð af hverju karlmannsnafninu á fætur öðru. Hér blasir við annar þjóðfélagshópur, önnur áhugamál, annar talsmáti. Innan skjalasafns Elínar má finna þrjú sjálfstæð skjalasöfn upprunnin frá föður hennar, Eggerti Briem sýslumanni (1811–1894), og eiginmönnum hennar, Sæmundi Eyjólfssyni búfræðingi (1861–1896) og Stefáni Jónssyni kaupmanni (1856– 1910). Það reyndist tiltölulega auðvelt að skilja á milli þessara einstaklinga í safninu, jafnvel þegar skjöl þeirra lágu ekki saman eða voru ekki merkt með nafni því í hverju þeirra mátti sjá nokkuð afgerandi athafna- og áhugasvið. Helsta undantekningin á þessu voru handskrifuð kvæði og sönglög en kveðskapur var áhugamál sem Elín virðist hafa deilt með báðum eiginmönnum sínum.

Eggert og Sæmundur létust báðir undir lok nítjándu aldarinnar en síðasti áratugur hennar markaði þáttaskil í skjalamyndun Elínar. Ekkert bréfanna til hennar sjálfrar er eldra en það, nema ef vera skyldi eitt bréf frá bróður hennar, Páli Briem, sem er með mjög óskýrri dagsetningu. Langflest bréfanna eru frá því eftir aldamótin 1900. Árið 1890 var Elín 34 ára gömul. Ekki verður betur séð en að bréf sem henni voru send á fyrsta hluta ævinnar hafi glatast, hvort sem það var af vangá, slysni eða yfirlögðu ráði.7

Þessi tímabilaskipting kemur glögglega í ljós þegar litið er á afkastamesta bréfritarann í safninu, Margréti Sigurðardóttur frá Höskuldsstöðum. Margrét var fædd á Sæunnarstöðum á Skagaströnd árið 1867. Hún var nemandi í Kvennaskólanum á Ytri-Ey og sótti skólann þrisvar sinnum, á árunum 1884, 1885 og 1887. Elín réð gjarnan samkennara sína úr hópi framúrskarandi nemenda og Margrét var ein af þeim, hún kenndi við skólann í fimm ár, frá 1889–1894. Hún hætti kennslu þegar hún giftist eiginmanni sínum, séra Jóni Pálssyni á Höskuldsstöðum.8

Elsta varðveitta og dagsetta bréfið frá Margréti til Elínar er frá 1896 en það næstelsta frá 1900. Sjö bréf í viðbót eru varðveitt frá fyrsta áratugi tuttugustu aldarinnar en holskeflan hefst þann 15. ágúst 1914.9 Varðveitt bréf Margrétar í safninu eru alls 159 eða um það bil fjórðungur bréfasafnsins í heild sinni. Saman mynda þau ríkulegan heimildaforða um líf vel settrar bændafjölskyldu frá aldamótunum 1900 fram að fyrri heimsstyrjöld. Sem slík hafa þau víða almenna skírskotun auk þess að vera áhugaverðar heimildir um einstaklingana sem í þeim birtast. Hver hefðu orðið viðbrögð Margrétar hefði hún séð fyrir þessi örlög bréfa sinna? Um það er óþarfi að hafa mörg orð önnur en hennar eigin:

„Fyrirgefðu flaustrið og brenndu blaðið strax.“10

„Elsku brenndu brjefið strax.“11

„Vona að þú látir aldrei neinn sjá brjefin mín, brenndu strax allt.“12

„… væri gaman að þú teiknaðir hús eins og þú álitir þægilegt“

Margrét Sigurðardóttir á Höskuldsstöðum var lipur og skemmtilegur bréfritari þrátt fyrir að hún sjálf hafi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar séð ástæðu til þess að afsaka bréf sín, rithöndina, umfjöllunarefnið og framsetninguna. Hún skrifaði líka löng bréf sem oftar en ekki ná yfir fleiri en eina pappírsörk. Nokkur bréfanna höfðu tvístrast í skjalasafninu svo nauðsynlegt var að lesa þau í heild sinni og raða saman brotunum. Jafnvel þegar bréfshelmingarnir lágu saman þurfti að renna yfir þá til að ganga úr skugga um að þeir tilheyrðu í raun og veru sama bréfinu. Við þessa handahófskenndu yfirferð raðaðist saman heldur brotakennd mynd af þessari konu og lífi hennar, mynd sem bíður þess að einhver annar en skjalastarfsmaður í tímaþröng fari yfir hana á handahlaupum.

Bréf Margrétar einkennast af tóni sem kalla má mæðulegt jafnaðargeð. Við lestur og flokkun fyrstu bréfanna sem komu upp úr skjalaöskjunum (þá að sjálfsögðu ekki í neinni tímaröð) leitaði sú hugsun á að þetta væri nú meira kvabbið. Eins og fyrr segir afsakar Margrét sig í sífellu á hátt sem var henni sjálfri líklega hulinn en verður afar áberandi þegar bréf hennar frá 41 árs tímabili eru lesin  í einum rykk. Ofan á það bætist að hún er stöðugt að biðja Elínu um að útvega sér hluti sem hún sjálf getur ekki nálgast, hvort sem það eru stígvél, fataefni eða aukahlutir í skilvinduna. Elín útvegaði henni að auki kaupakonur yfir sumarið, kaupakonur sem Margréti þóttu allar meira eða minna ómögulegar og allt of kaupháar. Glas Margrétar er alltaf hálftómt en aldrei hálffullt og hún upplifði líf sitt sem hið mesta basl. Þó var hún gift kona sem stóð fyrir stóru búi og hafði fólk í vinnu á tímum þegar margir Íslendingar urðu að láta börn sín frá sér vegna fátæktar.

Engu að síður er Margrét viðkunnanlegur bréfritari. Hún gerir miklar kröfur til sjálfrar sín og annarra en það kemur henni ekki að óvörum þegar þær eru ekki uppfylltar. Þrátt fyrir margvíslegar áhyggjur heldur hún sínu striki og lætur til dæmis ekki ótta sinn um afdrif Elínar í spænsku veikinni stöðva sig í því að senda henni rjúpur fyrir jólin.13 Eftir því sem lestri bréfanna vindur áfram er heldur ekki hægt að verjast þeirri tilhugsun að Margrét hafi þrátt fyrir allt verið fremur seinheppin. Hún getur ekki einu sinni pantað sér nýja saumavél án þess að sitja uppi með eitthvað skrapatól sem enginn annar í sveitinni kannast við að hafa pantað. Vélin er þó svo sannarlega ekki sú gerð sem Margrét sjálf bað um og Elín hafði sagst ætla að kaupa. „Jeg verð nú samt sjálfsagt að gjöra mjer þessa vjel að góðu.“14 Hið mæðulega jafnaðargeð, sem getur komið lesanda þreytandi fyrir sjónir, stökkbreytist í sannkallaðan hetjuskap í desembermánuði 1925 þegar heimili Margrétar brennur til kaldra kola. Enginn fórst í eldinum en hjónin misstu svo að segja alla sína búslóð. Margrét lagði sig alla fram um að bjarga því sem bjargað varð en allt kom fyrir ekki, vinnukonurnar lögðu það sem þeim var rétt einhvers staðar frá sér í óðagotinu, sumu feykti vindurinn á bak og burt þegar út var komið, annað grófst í fönn og eyðilagðist.15 Margrét segir fyrst frá brunanum í bréfi til Elínar þann 11. desember 1925. Helsta geðshræringarmerkið er að finna í bréfshausnum þar sem Margrét byrjaði ósjálfrátt að skrifa sinn vanalega ritunarstað, Höskuldsstaði, áður en hún krotaði yfir og leiðrétti: Syðri-Ey.16

Tíu árum fyrr eða svo hafði Margrét látið sig dreyma um nýtt hús: „Ef til kæmi að einhvern tíma yrði nú byggt hjer áður mjög langt um líður, þá væri gaman að þú teiknaðir hús eins og þú álitir þægilegt.“17 Bréf Margrétar varpa ljósi á áhugaverðan þátt í skjalasafni Elínar Briem en þar var að finna mikinn fjölda húsateikninga þar sem Elín prófaði ýmsar útfærslur fyrir herbergjaskipan íbúðarhúsnæðis af ólíkum stærðum bæði í sveit og bæ. Elín hafði auðsjáanlega lítinn sem engan áhuga á útliti húsanna að utan en vildi að húsnæðið þjónaði þörfum íbúanna. Í bréfi sínu árið 1916 setur Margrét einmitt fram þá djörfu ósk að eldhúsið verði á sömu hæð og íbúðin: „Hitt er svo erfitt.“18

Meðal húsateikninga Elínar er ein merkt „Höskuldsstaðir steinhús“ og er það ein af fáum teikningum í safninu sem Elín merkti með nafni. Teikningin er gerð aftan á uppkast að bréfi frá 16. júní 1914. Því gæti skeð að Elín hafi uppfyllt ósk vinkonu sinnar um að teikna fyrir sig hús skömmu eftir að hún var sett fram í febrúar 1916. Hvort sú teikning sé sú sama eða svipuð þeirri teikningu sem hún gerði eftir brunann tíu árum síðar mun líklega aldrei koma í ljós. Húsið sem Margrét og eiginmaður hennar reistu við erfiðar kringumstæður árið 1926 stendur ekki lengur, það var rifið eftir að prestssetrið var fært til Skagastrandar árið 1963.19 Það hús var heldur ekki byggt eftir teikningu Elínar. Í bréfi Margrétar frá 25. janúar 1926 kemur fram að Elín sendi teikningu en hjónin máttu ekki nota hana. Bærinn var prestssetur, ríkið borgaði hluta byggingarkostnaðarins og stjórnarráðið hafnaði því að notuð yrði utanaðkomandi teikning. 2. febrúar 1927 lýsir Margrét lífinu í nýja húsinu og það fer ekki fram hjá neinum að hún er ekki alls kostar ánægð. Eldhúsið er til að mynda í kjallaranum og borðstofan á fyrstu hæð. „Í eldhúsinu er stórt borð og þar er alltaf borðað, nema þegar betri gestir eru“.20

Teikning Elínar Briem af steinhúsi á Höskuldsstöðum

Leynist plastpoki í norðlenskri kommóðu?

Bréf Margrétar Sigurðardóttur til Elínar Briem varpa ljósi á skoðanir og reynslu kvenna frá þeirri byltingu sem varð á híbýlum Íslendinga þegar þjóðin flutti úr torfbæjum í steinhús. Áhrif annarra tækninýjunga, svo sem símans og útvarpsins, birtast einnig í þessum bréfum. Er þá ekki minnst á þá innsýn í fjölskyldulífið á Höskuldsstöðum sem bréfin veita. Þó varðveitir skjalasafnið ekki nema helming þessara bréfaskipta sem héldu lífi í vináttu kvennanna áratugum saman þrátt fyrir að miklar fjarlægðir skildu þær að. Hvaða heildarmynd gæti komið í ljós ef við hefðum einnig svör Elínar?

Sú ósk mun varla nokkurn tíma rætast. Langflest bréf Elínar til Margrétar hafa glatast í brunanum í árslok 1925 ef hún þá á annað borð hélt upp á þau. En það er ekki útilokað að Margrét hafi geymt og varðveitt bréf vina sinna eftir eldsvoðann. Margrét lést árið 1947 og er jarðsett í kirkjugarðinum á Höskuldsstöðum. Síðan þá eru liðin meira en sjötíu ár. Hvað gæti hafa orðið um gömul bréf eftir dauða hennar, eftir að húsið sem þau bárust til var yfirgefið og síðar rifið? Er ef til vill einhvers staðar á Skagaströnd að finna kommóðu, skrifborðsskúffu eða gamlan plastpoka fullan af gulnuðum pappír sem enginn veit almennilega hvað á að gera við?

Tilvísanir:

  1. Björg Einarsdóttir, „Kvennafræðari. Elín Briem (1856–1937)“, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna III. Erindi flutt í Ríkisútvarpið 1985 (Reykjavík: Bókrún 1986), bls. 222–245.
  2. 154 konur og 41 karl.
  3. KSS. (Kvennasögusafn Íslands) 2018/18, askja 1. Anna Guðmundsdóttir til Elínar Briem 1. janúar 1914.
  4. KSS. 2018/18, askja 1. Anna Jónsdóttir til Elínar Briem 4. ágúst 1900.
  5. KSS. 2018/18, askja 1. Bergljót Lárusdóttir til Elínar Briem 5. nóvember 1902.
  6. KSS. 2018/18, askja 17. Jón söðlasmiður til Sæmundar Eyjólfssonar 12. nóvember 1894.
  7. Sums staðar í KSS 2018/18 má sjá að Elín endurnýtti bréf sem hún fékk send undir teikningar, minnislista og annað. Vísbendingar um glötuð bréf má einnig finna í öðrum skjalasöfnum. Í KSS 2018/18 eru til dæmis varðveitt 24 bréf frá Sigríði Jónsdóttur á Reynistað, það elsta frá 1896. Varðveitt bréf Elínar til Sigríðar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, HSk 857 4to, eru aftur á móti 45, það elsta frá 1878.
  8. Kvennaskóli Húnvetninga 1879–1939. Minningarrit (Reykjavík: Skólaráð Kvennaskóla Húnvetninga 1939), bls. 33–34, 107, 133.
  9. Engu að síður eru líka gloppur eru í varðveislu bréfanna eftir 1914.
  10. KSS. 2018/18, askja 4. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 15. september 1900.
  11. KSS. 2018/18, askja 5. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 2. desember 1920.
  12. KSS. 2018/18, askja 5. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 27. febrúar 1925.
  13. KSS. 2018/18, askja 4. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 13. desember 1918.
  14. KSS. 2018/18, askja 4. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 20. júní 1918. Margrét hafði látið sig dreyma um nýja saumavél í um það bil tvö ár áður en hún lagði í að kaupa hana. Hún var orðin langeygð eftir vélinni þegar póstskipið Sterling lagði í höfn þann 4. maí, án saumavélarinnar en með einn ómerktan kassa. Þegar hann var að lokum opnaður kom í ljós „einhjóluð maskína, eða hraðhjólslaus, en þú varst búin að skrifa mjer að þú hefðir keypt hraðhjólsvjel eins og jeg bað um. Nú hefur okkur dottið í hug að einhver annar hafi pantað þessa vjel. En það þarf Magnús að láta vita fyrst þetta er svona klaufalega útbúið hjá honum. Jeg hef dálítið reynt þessa saumavjel og fellur ekki nærri vel við hana, allt er óvandað til hennar sýnist mjer, og þræðingin svo ansi margbrotin. Svo eru þessar sjaldgæfu nálar, en látum það nú vera. Líka er hún vangæf með tvinna. Saumar best með fínum tvinna enda allar nálarnar heldur fínar. Jeg verð nú samt sjálfsagt að gjöra mjer þessa vjel að góðu, bara þegar veit þá með vissu að hún tilheyri mjer. Mjer fellur líka illa hvað lágt er undir pressufótinn, en verðið nú ekki hátt eptir því sem nú gjörist. Jeg held, elsku vinkona mín, að þjer leiðist að lesa alla þessa orðmælgi, og bið jeg þig fyrirgefa að jeg ónáða þig með þessu öllu“.
  15. KSS. 2018/18, askja 5. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 8. mars 1926.
  16. KSS. 2018/18, askja 5. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 11. desember 1925.
  17. KSS. 2018/18, askja 4. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 25. febrúar 1916.
  18. Sama heimild.
  19. Vef. „Mynd vikunnar“. Ljósmynd úr safni hjónanna séra Péturs Þ. Ingjaldssonar og Dómhildar Jónsdóttur. Sveitarfélagið Skagaströnd 23. mars 2016, https:// www.skagastrond.is/is/moya/news/mynd-vikunnar-2858, 30. desember 2019.
  20. KSS. 2018/18, askja 5. Margrét Sigurðardóttir til Elínar Briem 2. febrúar 1927.

Deila:

Annað efni