Skip to content
Gísli Gunnarsson. Sagnfræðingur með allt samfélagið undir
Guðmundur Jónsson
Gísli Gunnarsson. Sagnfræðingur með allt samfélagið undir

Úr Sögu LVIII:II (2020).

Fáir sagnfræðingar hafa átt jafn stóran þátt í að grafa undan söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar og Gísli Gunnarsson prófessor í sagnfræði. Á níunda áratug síðustu aldar skrifaði Gísli nokkur rit sem opnuðu mönnum nýja sýn á Íslandssöguna: Að fátækt og vanþróun Íslands ætti rætur að rekja til íhaldssemi innlendrar yfirstéttar sem með liðsinni danska konungsvaldsins hélt aftur af umbótum í efnahagslífi og tækni. Hér sneri Gísli viðteknum skoðunum á haus og staðhæfði að það hafi ekki verið slæm stjórn Dana á Íslandi eða erfið náttúruskilyrði sem hefðu verið stærsta hindrunin fyrir framförum í landinu heldur hagsmunir innlendrar valdastéttar. Gísli var langt  í frá eini sagnfræðingurinn á þessum tíma til að taka söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar til rækilegs endurmats en enginn setti fram eins heildstæða sögusýn og hann.

Gísli Gunnarson lést fyrr á þessu ári, 82 ára að aldri. Eftir hann liggur fjöldi verka um fjölbreytileg sagnfræðileg efni og fjalla þau flest um hagsögu og fólksfjöldasögu sautjándu, átjándu og nítjándu aldar. Gísli var fyrstur íslenskra sagnfræðinga til að hljóta doktorsgráðu við hagsögudeild en það var í Lundi í Svíþjóð árið 1983. Hann var þá nýbyrjaður sem stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands, árið 1987 var hann ráðinn lektor og síðan prófessor 1997. Menntun Gísla í erlendum háskólum, fyrst í Edinborg og síðar í Lundi, setti mark á fræðistörf hans og kom meðal annars fram í sterkri tengingu við alþjóðlega fræðiumræðu. Þegar Gísli stundaði nám í Svíþjóð á áttunda áratugnum var nýja hagsagan í mikill sókn í Evrópu og Ameríku. Þessi tegund hagsögu, sem á ensku kallaðist econometric history eða cliometrics og mætti kalla hagmælingasögu á íslensku, átti upphaf sitt að rekja til bandarískra hagfræðinga snemma á sjöunda áratugnum. Hagmælingasagan hvíldi á kenningum og aðferðum nýklassískrar hagfræði sem gekk út frá þeim forsendum að frjálst markaðshagkerfi sé hagkvæmasta skipulag efnahagslífs og að maðurinn sé á öllum tímum fyrst og fremst rökvís skynsemisvera sem leitast við að hámarka hag sinn. Hagmælingasagan dró í efa ýmsar viðurkenndar hugmyndir í sagnfræði en ekki vildu allir hagsögufræðingar feta þessa leið og héldu áfram nánum tengslum við sagnfræðina og hefðbundnar aðferðir hennar.

Gísli Gunnarsson gekk ekki nýju hagsögunni á hönd, „hann vildi ekki taka þátt í þessum leik“ eins og hann orðaði það síðar.1 Honum fannst „gamaldags hedonismi“ og aðrar grunnforsendur nýklassískra hagfræðikenninga ekki gagnlegar og allra síst um gamla samfélagið fyrir daga kapítalismans — sem varð aðalviðfangsefnið í rannsóknum hans. Gísli var þó alls ekki fráhverfur notkun kenninga í sagnfræði, þvert á móti lagði hann sig meira fram en almennt tíðkaðist meðal sagnfræðinga um að nýta sér kenningar úr ýmsum greinum félags- og hugvísinda, ekki síst hagfræði og mannfræði. Eins og hagsögufræðingum er tamt studdist hann mjög við tölfræðilegar heimildir og notaði þær oft af hugkvæmni — þótt eitt og annað mætti setja út á túlkun og framsetningu hans á þeim.

Einn af helstu kostum Gísla sem sagnfræðings finnst mér tilhneiging hans til að skrifa túlkandi heildarsögu, að skoða „allt samfélagið fyrr og síðar sem eina heild“ eins og hann orðaði það sjálfur.2 Hann var gjarn á að rannsaka söguleg viðfangsefni í pólitísku eða samfélagslegu samhengi, ekki síst út frá stéttarhagsmunum. Söguleg efnishyggja marxismans hafði mikil áhrif á sagnfræðilega hugsun Gísla eins og fram kemur í áhuga hans á að kanna hlutskipti ólíkra stétta og áhrif stéttaskiptingar á félagslega og efnahagslega stöðu manna. En hann hafnaði lögmálahyggjunni í kenningu Marx og Engels um grunn og yfirbyggingu, að framleiðsluhættir væru undirstaða samfélagsins sem mótaði hugmyndir, hugarfar, trúarbrögð og stjórnmál. yfirbyggingin væri ekki einföld endurspeglun  á grunninum heldur væru gagnvirk áhrifatengsl þar á milli, til dæmis hefði hugarfar og hugmyndafræði mikil áhrif á framvindu sögunnar. Frá þessum fræðilega sjónarhóli varpaði Gísli Gunnarsson nýju ljósi á samfélag fyrri tíma og gangverk þess.

Þegar litið er yfir ritferil Gísla Gunnarssonar er af mörgu að taka en á þessum síðum mun ég aðeins fjalla um nokkur af helstu rannsóknarefnum hans og fræðilegt samhengi þeirra.

Sérkenni íslenskrar fólksfjöldasögu

Framan af starfsferli sínum var Gísli Gunnarsson mjög upptekinn af fólksfjöldasögu (sögulegri lýðfræði) og alveg sérstaklega tengslum lýðfræðilegra þátta og samfélagshátta. Fólksfjöldasaga var í mikilli sókn á alþjóðavettvangi á sjöunda og áttunda áratugnum en hér á landi var hún lítt plægður akur. Gísli hreifst með straumnum og fór að láta til sín taka á þessu sviði laust fyrir 1980. Hann þekkti vel til verka lýðfræðinganna Johns Hajnal, Peters Laslett og Hans-Olufs Hansen en sá síðastnefndi hafði rannsakað íslenska og norræna fólksfjöldasögu. Næsta áratuginn vann Gísli kappsamlega að því að veita kenningum og aðferðum fólksfjöldasögunnar inn í íslenska sagnfræði og setja fram hugmyndir sem vörpuðu nýju ljósi á lífshætti landsmanna á árnýöld. Í ritlingnum Fertility and Nuptiality in Iceland‘s Demographic History frá 1980 kannar Gísli eitt af sérkennum íslenskrar fólksfjöldasögu.3 Hann færir sannfærandi rök fyrir því að í íslensku samfélagi hafi verið við lýði fyrirbyggjandi fólksfjöldatakmarkanir sem komu fram í afar lágri giftingartíðni, til dæmis voru aðeins tæp 28% kvenna á aldrinum 15–49 ára gift árið 1703. Af þessum sökum var frjósemi lítil. Athugun Gísla féll vel að kenningu Johns Hajnal um að í Norðvestur-Evrópu hafi sérstakt hjúskaparmynstur verið ráðandi fyrir iðnbyltingu sem einkenndist af háum giftingaraldri, háu hlutfalli ógiftra kvenna og háu hlutfalli ungs fólks í vinnuhjúastöðu. Ísland væri raunar erkidæmi um þetta hjúskaparmynstur. Gísli skýrði lága giftingartíðni með takmörkuðum aðgangi fólks að jarðnæði en jarðaryfirráð voru forsenda þess að geta gengið í hjónaband og eignast börn á lögmætan hátt. Fjölmörgu fólki tókst ekki að komast yfir jörð fyrir fátæktar sakir og var þar með dæmt til vinnumennsku. Gísli taldi að lág giftingartíðni væri ekki aðeins afleiðing fátæktar heldur meðvitaðrar stefnu landeigenda og hreppstjóra til að halda aftur af giftingum fátækra.

Ritgerð Gísla var öðrum þræði sett til höfuðs kenningu Richards F. Tomasson um að Norðurlandabúar hafi verið óvenjufrjálslyndir í kynferðismálum allt frá miðöldum til samtímans.4 Tomasson notaði hátt hlutfall óskilgetinna barna á Norðurlöndum á síðari hluta nítjándu aldar og þó sérstaklega á tuttugustu öld sem aðalröksemd fyrir kenningu sinni. Ísland trónaði þar á toppnum með langhæsta tíðni óskilgetinna barna. Tomasson tók einnig dæmi úr fornsögunum til að sýna fram á að þessir lifnaðarhættir væru ævaforn þáttur  í íslenskri bændamenningu. Gísli Gunnarsson hafnaði kenningu Tomassons, taldi hann vera á villigötum og gefa ranga mynd af opinberum reglum og viðhorfum til kynlífs, hjónabands og barneigna. Til dæmis mistúlki Tomasson manntalið 1703 með því að álykta að lágt giftingarhlutfall kvenna megi skýra með frjálslyndi í kynferðismálum. Gísli andmælti þeirri túlkun að mikil óskilgetni stafaði af frjálslyndi í ástamálum heldur væri hún þvert á móti vísbending um kúgun fátæks fólks, sérstaklega fátækra kvenna. Máli sínu til stuðnings benti hann á að hertar takmarkanir á giftingum fátækra á nítjándu öld hefðu leitt til aukinnar óskilgetni. Ísland hefði ekki verið ósvipað mörgum Evrópulöndum á nítjándu öld og það hafi ekki verið fyrr en eftir 1930 að Íslendingar fóru að skera sig úr öðrum Norðurlandabúum með afar tíða óskilgetni. Ástæður hennar hefðu hins vegar ekkert með gamla Ísland að gera.

Annað lýðfræðilegt sérkenni Íslendinga sem hafði lengi valdið fræðimönnum heilabrotum vakti áhuga Gísla Gunnarssonar. Í ritinu The Sex Ratio, the Infant Mortality and the Adjoining Societal Response veltir hann fyrir sér spurningunni: Hvernig stendur á því að konur voru svo miklu fleiri en karlar á síðari öldum og sérstaklega á átjándu öldinni?5 Árið 1703 voru til dæmis aðeins 832 karlar á móti hverjum 1000 konum og fór þessi munur ekki að minnka fyrr en komið var fram á tuttugustu öld. Þetta óvenjulága kynjahlutfall markaði Íslandi sérstöðu í alþjóðlegum samanburði. Algeng skýring fræðimanna var að drukknun sjómanna við Íslandsstrendur hafi höggvið stórt skarð í tölu karlmanna. Gísli var vissulega sammála því að mannskaðar á sjó hafi átt þátt í lágu kynjahlutfalli en taldi þá skýringu ekki einhlíta. Það væri þekkt lýðfræðileg staðreynd að dánartíðni karla væri almennt hærri en kvenna í öllum aldurshópum í Evrópu og hefði því lágt kynjahlutfall í rauninni verið afleiðing hárrar dánartíðni. En það sem gerði kynjahlutfallið á Íslandi einstaklega lágt var einkum tvennt. Með samanburði við Svíþjóð yfir langt tímabil sýndi Gísli fram á að ójafnt hlutfall kynja kæmi fram strax í yngstu aldurshópunum á Íslandi. Skýringarinnar væri að leita í miklum ungbarnadauða, dánartíðni sveinbarna væri talsvert hærri en meybarna. Í öðru lagi færði Gísli rök fyrir því að dánartíðni sveinbarna væri hærri en meybarna í harðindum, sem oft gengu yfir á átjándu öldinni, og þess vegna hefði kynjahlutfallið verið lægst eftir fólksfjöldakreppur eins og móðuharðindin.6 Á það hefði reyndar Hannes Finnsson biskup bent í riti sínu Mannfækkun af hallærum að miklu fleiri karlar en konur dæju í harðindum. Undir lok ritgerðar fjallar Gísli um orsakir hins mikla ungbarnadauða sem hann rekur helst til þess að konur ólu ekki börn á brjósti og telur að sterk forlagatrú hafi hjálpað fólki við að sætta sig við þennan óskaplega barnadauða.

Lífskjör og fólksfjöldastýring

Mér sýnist þessi fyrstu verk Gísla Gunnarssonar í fólksfjöldasögu hafa í aðalatriðum staðist tímans tönn. Þau virðast þó ekki vera mörgum sagnfræðingum handgengin, ef til vill vegna þess að þau voru birt í frekar óaðgengilegu formi sem fjölrituð kver á sérfræðimáli og aukinheldur á ensku. En að sjálfsögðu kom Gísli að þessum viðfangsefnum aftur og aftur í síðari ritum sínum. Það á sérstaklega við um tengsl lýðfræði og lífskjara en segja má að flestar rannsóknir hans hafi beint eða óbeint snúist um ríkidæmi og fátækt. Hann fékkst þó lítið við að kanna hagvöxt í sjálfu sér, búrekstur á tímum fjölskyldubúskapar eða kaupmátt launa hjá landbúnaðarverkafólki. Fræðilegur áhugi hans lá miklu frekar í samspili lýðfræði og samfélagshátta, hvernig formgerð samfélagsins orkaði á lífskjör og hvernig breytingar á lýðfræðilegum þáttum, svo sem hlutfalli ógiftra og fjölda vinnuhjúa, höfðu áhrif á afkomu landsmanna.7

Fólksfjöldastýring gegndi lykilhlutverki í skýringum Gísla. Hömlur á giftingum og fjölskyldustofnun gerðu það að verkum að stór hluti efnaminna fólks „hafði engar löglegar leiðir til að æxlast“ og því var hlutfall ógiftra óvenjulega hátt á Íslandi.8 Fjöldi ógiftra barna var í foreldrahúsum fram eftir aldri og enn sérstæðara var að vinnuhjúastéttin var að tiltölu fjölmennari en annars staðar í Evrópu eða um fjórðungur þjóðarinnar. Þessi fjölmenna stétt var „félagslega ófrjó“ því að samfélagið setti skorður við því að vinnufólk eignaðist börn á lögmætan hátt. Giftingarhömlur sem hreppar, prestar og landeigendur héldu á lofti dugðu þó ekki alltaf til að halda fólksfjöldanum í skefjum og þar kom að fólksfjöldinn náði efri mörkum — og var þá mannfellir vís.

Neðst í virðingarstiga samfélagsins stóð fátækasta fólkið, þurfalingarnir, sem ekki gátu framfleytt sér án aðstoðar hreppsins. Gísli skiptir þurfalingum í þrennt. Í fyrsta lagi voru niðursetningar en fjöldi þeirra sveiflaðist mikið eftir árferði, hámarki náði hann í manntalinu 1703 og nam þá 14,3% af mannfjölda. Annar hópurinn voru þurfabændur sem héldu heimili en nutu styrks frá hreppnum. Þriðji hópurinn voru einkaómagar og fósturbörn en minna er vitað um fjölda þeirra. Gísli telur að þegar litið er yfir átjándu og nítjándu öldina megi ætla að Íslendingar hafi verið fátækastir árin 1703 og 1880 en þá náði fjöldi fátækustu félagshópanna, vinnufólks og þurfalinga, hámarki og nam um þriðjungi mannfjöldans. Gísli staðnæmdist ekki við fátæklingana heldur athugaði einnig efni og afkomu „meiri háttar fólks“.9 Hann setti fram þá snjöllu hugmynd að á Íslandi hafi í raun verið tvö efnahagssvæði, hið danska og hið íslenska. Danska efnahagssvæðið náði yfir fiskiumdæmin á Suðvesturlandi og utanverðu Snæfellsnesi, þar sem mest af umframframleiðslu íbúanna rann til einokunarkaupmanna og krúnunnar í formi verslunararðs og verslunarleigu, auk leiguafgjalda af konungsjörðum en konungur var stærsti landeigandinn á þessu svæði. Aðrir hlutar Íslands tilheyrðu íslenska efnahagssvæðinu þar sem umframframleiðslan í formi landskulda og leigna rann að mestu leyti til íslenskra landeigenda. Fámenn landeigendastétt átti stærsta hlutann af jarðeignum í einkaeigu og á þeim og opinberum embættum byggðist auður hennar og völd. Gísli taldi að valda- og auðstéttin hafi verið tiltölulega samstæður hópur sem tengdist ættar- og venslaböndum.10

Móðuharðindi af mannavöldum

Lengst af tuttugustu öldinni var það útbreitt viðhorf hjá fræðimönnum bæði í náttúruvísindum og hugvísindum að hallæri og hungursneyðir ættu sér fyrst og fremst orsakir utan samfélagsins, í skertu fæðuframboði af völdum náttúruáfalla svo sem öfgafulls veðurfars, hafísa, flóða og eldgosa. Á áttunda áratug aldarinnar fóru nýjar hugmyndir um eðli og orsakir hungursneyða að njóta vinsælda þar sem menn leituðu skýringa innan samfélagsins, í litlu viðnámi almennings og stjórnvalda, viðhorfum, siðvenjum eða veikburða samfélagsstofnunum. Því var haldið fram að jafnvel þótt rekja mætti nánustu orsakir hungursneyða til náttúruáfalla þá réð viðnámsþróttur samfélagsins mestu um hvort áföllin yllu stórskaða. Það væri ekki aðeins fæðuframboðið sem skipti máli heldur einnig aðgangur manna að fæðu.

Gísli  Gunnarsson  gerði  þessi  viðhorf  að  sínum  og  var einna fyrstur íslenskra fræðimanna til að kynna þau á prenti. Í ritlingi frá árinu 1980, A Study of Causal Relations in Climate and History, varar Gísli við „einstefnulegri smættarhyggju“ (e. monocausal reductionism) í kenningum sem einblína á veðurfar sem höfuðskýringuna á hungursneyðum.11 Sagnfræðingar sem horfi fram hjá samfélagsskýringum „eru ekki að vinna vinnuna sína“ segir Gísli. Varnarleysi samfélags er komið undir bæði stærðargráðu náttúruáfalla og getu samfélagsins til að mæta áföllum. Það er þessi síðari þáttur sem Gísli gerir að sérstöku athugunarefni. Hann fjallar um viðbrögð íslenska samfélagsins við hungursneyðum fyrr á tímum og af hverju það spyrnti á móti breytingum sem svo augljóslega hefðu getað bætt tækni og styrkt efnahagslíf landsmanna.

Gísli bendir á að í hallærum hafi valdamenn haft meiri áhyggjur af þjófum, flökkurum, lækkandi afgjöldum og skorti á vinnufólki en sveltandi alþýðu. Þeir skeyttu engu um neyð almúgafólks og álitu hungursneyðir heppilegar takmarkanir á fólksfjölda. Þegar líður á átjándu öldina hafi þó viðhorf ráðandi stétta tekið að mildast. Gísli gerir skýran greinarmun á langtímabreytingum á loftslagi og skammtímabreytingum á veðurfari. Hinar fyrri kalli á „endurskipulagningu hagkerfisins í heild“ en hinar síðari á ráðstafanir sem auka afkomuöryggi manna án þess þó að hrófla þurfi við undirstöðum hagkerfisins. Heyhlöður og línuveiðar tekur hann sem dæmi um tæknilegar umbætur sem hefðu getað aukið fæðuöryggi en bæði efnaleysi almennings og andstaða landeigendastéttarinnar kom í veg fyrir það.

Að áliti Gísla mátti rekja andstöðuna við grundvallarbreytingar á samfélaginu fyrst og fremst til tilhneigingar samfélagsins til að viðhalda óbreyttu ástandi — hindra að jafnvægi milli stétta og atvinnugreina raskaðist. Gísli gerir mikið úr áhættuhræðslu sem skýringu á fátækt og vanþróun og taldi hana meginorsök þess að Íslendingar héldu sig við sauðfjárrækt í stað þess að byggja upp arðmeiri sjávarútveg. Landeigendur óttuðust að vöxtur sjávarútvegs leiddi til vinnuaflsskorts og vanrækslu landbúnaðar sem hefði í för með sér röskun á jafnvægi atvinnuveganna. Samfélagsleg stjórntæki eins og vistarband væru notuð til að tryggja að sjávarútvegur væri stundaður af bændum en ekki sjálfstæðri sjómannastétt. Þessi sögutúlkun Gísla opnaði honum nýjar leiðir við að rannsaka fátækt og fæðukreppur á Íslandi þar sem áhættufælni, ekki aðeins meðal almúgans heldur einnig valdamanna, var lykilskýring á vanþróun landsins.

Gísli skýrði hugmyndir sínar um tengsl náttúruáfalla og hungursneyða betur í stuttri ritgerð, „Voru Móðuharðindin af mannavöldum?“, í bókinni Skaftáreldar 1783–1784.12 Ritgerðin er hressileg ádrepa á einföld skýringarlíkön sagnfræðinga og náttúrufræðinga á flóknum samfélagsfyrirbærum. Gísli hafnaði ekki tengslum náttúruáfalla og hallæra en taldi orsakasamhengið flóknara. Eins og þeir fræðimenn sem lögðu áherslu á samfélagslegar skýringar taldi Gísli að ekki væri nóg að skoða beinu orsakirnar heldur einnig undirliggjandi samfélagshætti sem orsökuðu fátækt og gerðu samfélagið berskjaldað fyrir hallærum.

Í ritgerðinni er stutt og greinagóð umræða um hvernig söguskoðanir um tengsl náttúruhamfara og hungursneyða hafa breyst í tímans rás. Upplýsingarmenn risu upp á móti þeim aldagamla hugsunarhætti að taka náttúruhamförum sem óumflýjanlegum örlögum, refsingu Guðs, og vildu að maðurinn notaði skynsemi sína til að efla samfélagslegan viðbúnað til að mæta náttúruöflunum. Gísli tekur dæmi af Skúla Magnússyni sem var ekki í nokkrum vafa um að móðuharðindin hafi fyrst og fremst verið af mannavöldum, vítahringur „framtaksleysis og fátæktar“. Það var ekki fyrr en með þjóðernisstefnunni á nítjándu öld að einokunarverslunin og viðbragðstregða manna voru gerðar að „dönskum syndum“. Á tuttugustu öldinni komu svo einfeldnislegar náttúrufræðiskýringar í stað þjóðernisstefnunnar, hafís og jarðeldar leystu Dani af hólmi sem helstu bölvalda Íslandssögunnar.

Upp er boðið Ísaland

Flestir þættirnir í söguskoðun Gísla voru komnir saman í A Study of Causal Relations in Climate and History en þar voru þeir aðeins lauslega útfærðir og hvíldu ekki á viðamikilli heimildarannsókn. Það verkefni beið Gísla í höfuðverki hans, doktorsritgerð um tengsl samfélagshátta og einokunarverslunar Dana á Íslandi. Bókin Upp er boðið Ísaland: Einokunarverslun og íslenskt samfélag kom út árið 1987 og var aukin og endurbætt útgáfa doktorsritgerðar hans frá 1983.13 Gísli kom ekki að óplægðum akri í verslunarsögunni þar sem Jón Jónsson Aðils hafði skrifað sitt mikla verk Einokunarverslun Dana á Íslandi. Munurinn á verkum þeirra Gísla var þó mikill. Bók Jóns er frásagnarsagnfræði, sneisafull af fróðleik um verslunarhagi, verðlag, inn- og útflutning en í hana vantaði bæði skipulega tölfræðiúrvinnslu á einokunarversluninni og greiningu á samfélagslegu baksviði hennar.

Þessa kosti hafði bók Gísla Gunnarssonar til að bera. Í 2. kafla bókar gerir hann grein fyrir nokkrum megineinkennum samfélagins á átjándu öld, lögbýlinu og heimilinu, mannfjöldaþróun, atvinnuvegum, stéttum og almennri umgjörð verslunarinnar. Meginefni bókarinnar er þó saga einokunarverslunarinnar þar sem fjallað er um innflutning og útflutning vöru, verslunarhætti og verðlag. Gísli notar bókhaldsgögn kaupmanna til að kanna ítarlega verslunarfélögin, umsvif þeirra og afkomu og tekjur konungs af Íslandsversluninni. Úr rannsókninni má lesa nokkur helstu einkenni verslunarinnar: Einokunarskipulagið sem olli því að arðurinn af versluninni rann út úr landinu; fasta verðlagið með lágu fiskverði sem hindraði tækniframfarir í fiskveiðum; hagnaðurinn af fiskverslun sunnan- lands og vestan sem notaður var til að greiða niður innflutning. Upp er boðið Ísaland vakti talsverða athygli þegar hún kom út, ekki svo mjög fyrir verslunarsöguna sjálfa heldur miklu fremur þá ögrandi söguskoðun sem rannsóknin hvíldi á. Í örstuttum inngangi og niðurlagskafla birtist heildstæð söguskoðun um gamla samfélagið sem draga má saman á þessa leið: Landbúnaði fór hnignandi vegna ágangs manna og búfjár á beitarland og skóga. Framfaramöguleikar landsins lágu í fiskveiðum fyrir erlendan markað en „léleg“ utanrík- isverslun var stærsta hindrunin fyrir eflingu þeirra. Meinið lá aðal- lega í andstöðu íhaldssamra höfðingja við eflingu fiskveiða. Með föstum verslunartöxtum sem ívilnuðu landbúnaði á kostnað sjávar- útvegs og banni við þátttöku danskra kaupmanna í sjávarútvegi tók konungsvaldið höndum saman við landeigendur um að tryggja félagslegan stöðugleika og hindra efnahagsframfarir á Íslandi. Um- bótatillögur komu frá konungi og embættismönnum en ráðamönnum á Íslandi tókst að koma þeim flestum fyrir kattarnef. Ekki var hróflað við verslunarfyrirkomulaginu fyrr en undir lok átjándu aldar en aðeins öflug og frjáls utanlandsverslun gat skapað grund- völl fyrir nýtingu auðugra fiskimiða umhverfis landið og rofið „vítahring vanþróunar í framleiðslu- og samfélagsháttum“.14

Söguskoðun  Gísla  var  ekki  beinlínis  leidd  af meginrannsókn bókarinnar á einokunarversluninni heldur túlkun hans á almennum samfélagsháttum og skýringum hans á íhaldssemi gamla samfélags

ins. Hann taldi að „ríkjandi samfélagsöfl landsins [hafi verið] andsnúin öllum meiriháttar breytingum á samfélagsháttunum“ og tekur dæmi af mönnum eins og Ólafi Stefánssyni.15 Íhaldssemina tengir Gísli öðrum þræði við hagsmuni höfðingja sem óttuðust um að missa forréttindastöðu sína ef veruleg röskun yrði á jafnvægi milli landbúnaðar og sjávarútvegs en líka andstöðu við framfarir í skipulagi og hugarfari þessa tíma. Þar urðu honum notadrjúgar kenningar um áhættufælni sem skýrðu tregðuna við að taka upp nýjungar. Fátækir bændur sem lifðu nálægt hungurmörkum væru tregir til að reyna eitthvað nýtt sem kynni að stofna lífsbjörg þeirra í voða.

Gísli hélt áfram að sinna verslunarsögu sautjándu og átjándu aldar, þótt ekki kenndi þar eins margra nýmæla og í Upp er boðið Ísaland. Kveður mest að rannsókn á verslun með íslensku skreiðina á erlendum mörkuðum í stuttri bók, Fiskurinn sem munkunum þótti bestur, og veglegum kafla um einokunarverslunina í Líftaug landsins, yfirlitsriti um utanlandsverslun Íslands.16

Átök um söguskoðanir

Upp er boðið Ísaland vakti mikið umtal og deilur jafnt hjá fræðimönnum sem í fjölmiðlum. Það er því nokkur innistæða fyrir ummælum Gísla sjálfs um bókina síðar að hún væri „sennilega bæði umdeildasta og áhrifaríkasta sagnfræðirit síðustu áratuga“.17 Gísli lét ekki sitt eftir liggja í þeim skoðanaskiptum sem í hönd fóru enda var hann málafylgjumaður mikill.

Athyglina sem Upp er boðið Ísaland fékk má einkum þakka því að sögutúlkun Gísla blandaðist tvenns konar hugmyndaátökum sem hátt bar á níunda áratugnum. Í fyrsta lagi fléttaðist hún inn í heita samtímaumræðu um bændastéttina og landbúnaðarpólitíkina þar sem hörð hríð var gerð að verndarstefnu og óhagkvæmum rekstri í landbúnaði. Þar gengu hart fram talsmenn neytendasjónarmiða en líka margir kyndilberar frjálshyggjunnar sem fundu óvæntan stuðning í bók Gísla fyrir boðskap sínum um frjálsan markaðsbúskap og eflingu utanríkisverslunar — bókin væri í rauninni öflug málsvörn fyrir kapítalismann sem hefði komið fátæktarsamfélagi fyrri tíma fyrir kattarnef. Umræða um bókina jókst um allan helming í kjölfar sjónvarpsþáttaraðar Baldurs Hermannssonar, Þjóð í hlekkjum hugarfarsins árið 1993, sem innblásin var af söguskoðun Gísla Gunnarssonar en ýkti hana og skrumskældi á ýmsa vegu. Baldur sýndi Gísla þann vafasama heiður að titla hann í einum þáttanna „jöfur íslenskrar sagnfræði“ og flaug sú nafngift víða. Gísli var ráðgjafi við þáttagerðina en sór af sér alla ábyrgð af þeim efnistökum sem viðhöfð voru.18

Í öðru lagi var Upp er boðið Ísaland mikilvægt framlag til endurmats á söguskoðun þjóðernisstefnunnar sem þá var í fullum gangi og má hiklaust telja bókina eina heildstæðustu gagnrýnina á hana.  Í stuttu máli setti Gísli fram róttæka sýn á sögu Íslendinga sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: a) Fátækt og vanþróun gamla samfélagsins má fremur rekja til íhaldssamrar landeigendastéttar en erfiðra náttúruskilyrða og slæmrar stjórnar Dana á Íslandi, b) Ísland var ekki einsleitt bændasamfélag heldur stéttskipt samfélag með mikilli misskiptingu auðs og valda, c) saga Íslands er ekki fyrst og fremst saga um átök milli dönsku stjórnarinnar og íslensku þjóðarinnar heldur um kúgun bændastéttar á lægri stéttum samfélagsins, vinnufólki, lausafólki og þurrabúðarmönnum, d) leiðin út úr fátæktarsamfélaginu var markaðsbúskapur og öflug utanríkisverslun.

Viðtökur fræðimanna við bókinni voru blendnar. Björn S. Stefánsson hafði í frammi einna skörpustu gagnrýnina og dró í efa margar mikilvægar ályktanir Gísla, til dæmis um neikvæð áhrif vistarbandsins, túlkun hans á banni við markönglum og þá skoðun að útvegsbændur sunnan- og vestanlands hefðu tekið höndum saman við aðra auðmenn landsins og komið í veg fyrir hagkvæma nýtingu fiskimiðanna. Síðast en ekki síst taldi Björn að Gísli hefði ýkt andstöðu innlendra valdamanna við samfélagsbreytingar og benti máli sínu til stuðnings á ýmsa framfaraviðleitni Ólafs Stefánssonar.19 Síðar bættust fleiri gagnrýnendur í hópinn. Hrefna Róbertsdóttir taldi Gísla skoða sögu átjándu aldar úr baksýnisspegli nítjándu og tuttugustu aldar, út frá þeirri söguþróun sem síðar varð en ekki nægilega út frá forsendum samfélagsins á átjándu öld. Að áliti Hrefnu bæri að meta framgöngu ráðamanna á Íslandi og árangur af umbótaviðleitni þeirra út frá hagstjórnarhugmyndum átjándu aldar sem miðuðu að því að auka fjölbreytni, hagkvæmni og afrakstur framleiðslu innan marka sveitasamfélagsins en ekki út frá iðnvæðingu og þéttbýlismyndun nítjándu aldar.20

Þrátt fyrir ýmsa gagnrýni vann sögutúlkun Gísla á meðal sagnfræðinga. Hún var almenn og áhrifamikil söguskýring á stöðnun og fátækt gamla samfélagsins en fól jafnframt í sér vegvísi um hvernig hefði verið hægt að brjótast út úr þeim vítahring. Áhrifa þessarar söguskoðunar gætti fljótt í sagnfræðiverkum, ekki síst hjá fyrrverandi nemendum Gísla, til dæmis Íslenskum söguatlasi Árna Daníels Júlíussonar og Jóns Ólafs Ísberg og Iðnbyltingu hugarfarsins eftir Ólaf Ásgeirsson.21 Í anda nýju stofnanahagfræðinnar nýtti Þráinn Eggertsson hagfræðingur sér hugmyndir Gísla Gunnarssonar í rann sókn á því hvernig „ófullkomnar samfélagsstofnanir“ fyrri tíma stuðluðu að fátækt, vanþróun og hungursneyðum.22

Ástríðumaður

Gísli hafði brennandi áhuga á stjórnmálum og félagsmálum og tók af ástríðu þátt í kappræðum á opinberum vettvangi. Þær spönnuðu vítt málefnasvið, allt frá dægurflugum stjórnmálanna til sérstakra áhugamála hans eins og átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna, trúmála, siðræns húmanisma og borgaralegrar fermingar. Á vettvangi sagnfræðinnar lét Gísli heldur ekki sitt eftir liggja, hann var litríkur málafylgjumaður í umræðum um fjölbreytilegustu efni. Gísla var annt um orðspor sitt og lét fá tækifæri ónotuð til að halda uppi einbeittri málsvörn fyrir ritverk sín. Gat hann verið hvass við þá sem ekki voru sama sinnis en hann átti líka til sveigjanleika í skoðunum og brá stundum fyrir sig glettni og gamanyrðum. Í umræðu á Gammabrekku, tölvupóstlista Sagnfræðingafélags Íslands, um danska þjóðernisrómantík fyrir nokkrum árum sagði hann: „Ísland var gjarnan lofsungið fyrir að hafa varðveitt gamla norræna málið. Þetta tengdist oft andúð á öllu þýsku, einkum eftir 1848–1864. Þetta var enn þá til staðar meðal danskra fræðimanna á 8unda áratugnum, einkum á þriðja glasi.“ 23

Við Gísli áttum allmikið saman að sælda sem kennarar í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann var kominn um sextugt þegar ég varð fastur kennari 1998 og var hann enn í fullu fjöri. Við unnum saman að ýmsum verkefnum, til dæmis ritstýrði ég bók hans Fiskurinn sem munkunum þótti bestur og við áttum í löngu samstarfi með öðrum um útgáfu rits um sögu utanlandsverslunar, Líftaugar landsins, sem var síðasta umtalsverða sagnfræðiverk hans. Gísli var ekki alltaf þýður í samskiptum en samvinna okkar var alla jafna góð enda deildum við svipaðri sögusýn og áttum létt með að tala hreinskilnislega um ágreiningsefni þá sjaldan að snurða hljóp á þráðinn. Í verkum Gísla skín í gegn ástríða fyrir sagnfræðinni, fjölþætt þekking og góð útsýn til heimssögunnar. Rík samúð með lítilmagnanum mótar höfundarverk hans allt en hann var sjálfur af fátæku alþýðufólki kominn. Stéttakúgun og harkan í mannlegum samskiptum á fyrri tímum var Gísla mjög hugstæð án þess þó að hann móralíseraði um hana. Hann lagði sig frekar fram um að skilja kúgun og harðýðgi út frá hugsunarhætti fátæktarsamfélagsins.

Tilvísanir:

 1. Gísli Gunnarsson, „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið,“ í Íslenskir sagn- fræðingar 2. Viðhorf og rannsóknir, ritstj. Loftur Guttormsson o.fl. (Reykjavík: Mál og mynd, 2002), 205. Gísli ræðir einnig verk sín í greininni „Íslenskt samfélag 1550–1830 í sagnaritun 20. aldar,“ Saga 38 (2000): 83–108.
 2. Sjá nánar Gísla Gunnarsson, „Í draumi sérhvers manns,“ 206.
 3. Gísli Gunnarsson, Fertility and Nuptiality in Iceland’s Demographic History, Meddelande från Ekonomisk-historiska Institutionen 12 (Lundur: Lunds Uni- versitet, 1980).
 4. Richard F. Tomasson, „Premarital Sexual Permissiveness and Illegitimacy in the Nordic Countries,“ Comparative Studies in Society and History 18, nr. 2 (1976): 252– 270.
 5. Gísli Gunnarsson, The Sex Ratio, the Infant Mortality and the Adjoining Societal Response in Pre-Transitional Iceland, Meddelande från Ekonomisk-historiska Institutionen 32 (Lundur: Ekonomisk-historiska institutionen, 1983).
 6. Ég þakka Helga Skúla Kjartanssyni og Ólöfu Garðarsdóttur fyrir gagnleg skoð- anaskipti um þetta efni.
 7. Gísli Gunnarsson og Magnús S. Magnússon, „Levnadsstandarden på Island 1750‒1914,“ í Levestandarden i Norden 1750–1914, Ritsafn Sagnfræðistofnunar 20 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1987), 92–114; „Fátækt á Íslandi fyrr á tímum,“ Ný Saga 4 (1990), 72–81.
 8. Gísli Gunnarsson, „Fátækt á Íslandi fyrr á tímum.“
 9. Gísli Gunnarsson,  „Afkoma  og  afkomendur  meiri  háttar  fólks  1550‒1800,“ í Íslenska söguþingið 28.–31. maí 1997. Ráðstefnurit 2, ritstj. Guðmundur J. Guð- mundsson og Eiríkur K. Björnsson (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Ís- lands, 1998), 118–132. Sjá einnig Gísla Gunnarsson, „Bú Þórðar biskups og sam- bönd hans,“ í Frumkvöðull vísinda og mennta. Þórður Þorláksson biskup í Skálholti, ritstj. Jón Pálsson (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1998), 45–60; Gísli Gunnarsson, „Hverjir áttu Austurland um aldamótin 1700,“ Múlaþing 29 (2002): 135–145.
 10. Gísli Gunnarsson, „Afkoma og afkomendur,“ 129.
 11. Gísli Gunnarsson, A Study of Causal Relations in Climate and History. With an Emphasis on the Icelandic Experience, Meddelande från Ekonomisk-historiska Institutionen 17 (Lundur: Lunds Universitet, 1980).
 12. Gísli Gunnarsson, „Voru Móðuharðindin af mannavöldum?“ í Skaftáreldar 1783–1784. Ritgerðir og heimildir (Reykjavík: Mál og menning, 1984), 235–242.
 13. Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602–1787 (Reykjavík: Örn og Örlygur, 1987); Gísli Gunnarsson, Monopoly Trade and Economic Stagnation. Studies in the Foreign Trade of Iceland 1602–1787 (Lundur: Ekonomisk-historiska föreningen, 1983).
 14. Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland, 266.
 15. Sama heimild, 263–264. Þó skáru nokkrir valdamenn sig úr og var Skúli Magn- ússon fremstur í flokki.
 16. Gísli Gunnarsson, Fiskurinn sem munkunum þótti bestur. Íslandsskreiðin á fram- andi slóðum 1600–1800, Ritsafn Sagnfræðistofnunar 38 (Reykjavík: Sagnfræði- stofnun Háskóla Íslands, 2004); „Undarlegt er Ísland, örvasa og lasið,“ í Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010 1, ritstj. Sumarliði R. Ísleifsson (Reykjavík: Skrudda, 2017), 207–283.
 17. Gísli Gunnarsson. Tölvupóstur á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands (gammabrekka@hi.is) 6. apríl 2014.
 18. Umræðunni um sjónvarpsþættina sem í hönd fór eru gerð góð skil hjá Jóni Þór Péturssyni, „Tortímandinn. Þjóð í hlekkjum hugarfarsins og hugmyndir um sögu og sagnfræði á tíunda áratug tuttugustu aldar,“ í Frá endurskoðun til upp- lausnar, ritstj. Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon (Reykjavík: Miðstöð einsögurannsókna og ReykjavíkurAkademían, 2006), 151–208.
 19. Björn S. Stefánsson, „Forsendur og fyrirstaða nýsköpunar á 17. og 18. öld,“ Saga 26 (1988): 131–151.
 20. Hrefna Róbertsdóttir, Wool and Society. Manufacturing Policy, Economic Thought and Local Production in 18th-Century Iceland (Lundur: Lunds universitet, 2008), 365–369; Hrefna Róbertsdóttir, „Samfélag átjándu aldar. Hugarfar, handverk og arfur fyrri alda,“ Saga 49:1 (2011): 53–103.
 21. Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson, ritstj., Íslenskur söguatlas 2 (Reykjavík: Iðunn, 1992); Ólafur Ásgeirsson, Iðnbylting hug- arfarsins. Átök um atvinnuþróun á Íslandi 1900–1940, Sagnfræðirannsóknir 9 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1988).
 22. Sjá t.d. Þráin Eggertsson, Háskaleg hagkerfi. Tækifæri og takmarkanir umbóta (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2007).
 23. Gísli Gunnarsson. Tölvupóstur á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags Íslands (gammabrekka@hi.is) 9. desember 2015.

Deila:

Annað efni