Skip to content
Ísland – Danmörk. Síkvik söguleg tengsl
Vilhelm Vilhelmsson
Ísland – Danmörk. Síkvik söguleg tengsl

Úr Sögu LVII:II (2019).

Á síðasta ári bárust fregnir af því að sökum krafna um niðurskurð og sparnað stæði til að leggja niður kennslu í íslensku, færeysku og forníslensku (d. oldislandsk) við Kaupmannahafnarháskóla.1 Ástæðan var aukin krafa stjórnvalda um hagræðingu í rekstri skólans, sem meðal annars fólst í nýjum reglum um lágmarksfjölda nemenda. Þar sem nemendur umræddra námsgreina (sem reyndar voru aðeins kenndar sem valgreinar) voru teljandi á fingrum annarrar handar var ekki talið raunhæft að halda úti kennslu í þessum greinum. Fyrirhugaður niðurskurður vakti töluvert umtal í Danmörku og á Íslandi. Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason velti því fyrir sér í bloggfærslu hvort rétt væri að Íslendingar svöruðu í sömu mynt og legðu niður dönskukennslu í skólum landsins.2 Umræða þess efnis átti sér raunar stað í fjölmiðlum um svipað leyti eftir að könnun MMR leiddi í ljós að 38% landsmanna væru hlynntir því að leggja alfarið niður dönskukennslu í grunnskólum, sami fjöldi og sagðist hlynntur áframhaldandi dönskukennslu.3 Áhyggjur af fyrirhuguðum niðurskurði við Kaupmannahafnarháskóla leiddu til íhlutunar Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, sem fundaði með dönskum kollega sínum til að leita lausna. Að lokum var fallið frá þessum áformum svo að enn má nema íslensku við Kaupmannahafnarháskóla, fyrrum höfuðvígi kennslu og rannsókna í íslenskum fræðum frá þeim tíma þegar Ísland var enn hluti hins danska konungsríkis.4

Á meðan á þessari umræðu stóð, um stöðu íslenskukennslu í Danmörku og dönskukennslu á Íslandi, var undirbúningur í fullum gangi fyrir 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Hvarvetna mátti sjá og heyra áminningar um fyrrum samband landanna tveggja, sem sameinuð voru undir einum konungi í um það bil hálft árþúsund, frá Kalmarsambandi síðmiðalda til heimastjórnartímans og loks skammvinns skeiðs konungsríkisins Íslands frá 1918 til 1944. Áhersla hátíðahaldanna á 100 ára fullveldi landsins undirstrikaði þó að formlegt samband Íslands og Danmerkur heyrði sögunni til, það var hluti af fortíðinni en ekki Íslandi nútímans, þó að vissulega væru löndin bundin nánum vináttuböndum fram á okkar dag. Þessi óvenju ríka áhersla á söguleg og menningarleg tengsl landanna tveggja, sem greina mátti í þjóðmálaumræðu síðasta árs, vakti upp spurningar hjá undirrituðum um afstöðu sagnfræðinga til viðfangsefnisins. Ég man ekki til þess að hafa heyrt á Ísland minnst í eitt einasta skipti í efnistökum eða námsefni á þeim þremur árum sem ég var við BA-nám í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla fyrir rúmum áratug. Ekki fer heldur mikið fyrir Danmerkursögu í sagnfræðikennslu við Háskóla Íslands, þó að óhjákvæmilega sé komið inn á efnið í umfjöllun um Íslandssögu. En hver er staða rannsókna á sambandi landanna tveggja? Eru sagnfræðingar óþarflega skeytingarlausir um áhrif sögu hvors lands á sögu hins? Ræður þjóðernismiðuð söguskoðun enn ríkjum, líkt og raunin var um miðbik tuttugustu aldar, svo að hún liti enn í dag efnistök og sjónarhorn sagnfræðinga í rannsóknum á sambandi landanna? Eða hefur tími sagnfræðirannsókna „án tilfinninga“ (svo vísað sé til orða Sørens Mentz í pistli um efnið hér að aftan) loks runnið upp? Hvernig er sögu sambands landanna haldið við á sýningum eða öðrum opinberum vettvangi?

Með þessar spurningar að leiðarljósi var leitað til fjögurra fræðimanna, sem allir hafa rannsakað sambandssögu landanna tveggja; tveggja Dana og tveggja Íslendinga. Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands, fjallar í pistli sínum um söguritun um samband landanna tveggja og kemst að raun um að töluvert hafi verið ritað um efnið og að rík samvinna hafi verið á milli fræðimanna í löndunum tveimur. Søren Mentz, forstöðumaður sögusafnsins á Amager og höfundur bókarinnar Den islandske revolution (2018), fjallar á hinn bóginn um það að sögulegt samband landanna sé að stórum hluta gleymt, að skálaræðum á tyllidögum undanskildum, en telur það hið besta mál. Þá fyrst sé hægt að rannsaka samband landanna sem sögulegt viðfangsefni án tilfinningahita þjóðernispólitíkur. Michael Bregnsbo, lektor við Syddansk Universitet og einn af höfundum fjölbindaverksins Danmark og kolonierne (2017), skrifar hugleiðingu um stöðu Íslands innan hins fjölþjóðlega heimsveldis sem Danmörk var á átjándu öld og fram á þá nítjándu og færir rök fyrir að Ísland hafi aldrei talist vera nýlenda (d. koloni) Dana þó að ákveðin líkindi megi finna. Loks skrifar Katla Kjartansdóttir, doktorsnemi í safnafræði við Háskóla Íslands, pistil um birtingarmynd sögulegra og þverþjóðlegra tengsla Íslands og Danmerkur á söfnum.

Vilhelm Vilhelmsson

  1. Nanna Balslev, „Det er slut med at læse islandsk på KU“, Uniavisen 24. maí 2018. https://uniavisen.dk/det-er-slut-med-at-laese-islandsk-paa-ku/, sótt 22. mars 2019.
  2. Egill Helgason, „Íslendingar geta svarað í sömu mynt og hætt að kenna dönsku“, Silfur Egils — Eyjan.is 30. maí 2018. https://eyjan.dv.is/eyjan/2018/ 05/30/islendingar-geta-svarad-somu-mynt-og-haett-ad-kenna-donsku/, sótt 22. mars 2019.
  3. Kristín Sigurðardóttir, „Danska í litlu uppáhaldi hjá Miðflokksfólki“, RÚV.is 4. júlí 2018. http://www.ruv.is/frett/danska-i-litlu-uppahaldi-hja-midflokksfolki, sótt 22. mars 2019.
  4. „Íslenska áfram kennd við Kaupmannahafnarháskóla“, Kjarninn 7. september 2018. https://kjarninn.is/frettir/2018-09-07-islenska-afram-kennd-vid-kaup- mannahafnarhaskola/, sótt 22. mars 2019.

Deila:

Annað efni