Skip to content
Lífgrös og leyndir dómar. Ritdómur
Viðar Hreinsson
Lífgrös og leyndir dómar. Ritdómur

Úr Sögu LVIII:2 (2020).

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, LÍFGRÖS OG LEYNDIR DÓMAR. LÆKNINGAR, TÖFRAR OG TRÚ Í SÖGULEGU LJÓSI. Vaka-Helgafell. Reykjavík 2019. 341 bls. Myndir, viðaukar, heimildaskrá, tilvísanir, myndaskrá, nafna- og atriðisorðaskrá.

Lífgrös og leyndir dómar er smekkleg bók, í snotrum harðspjöldum með blómum prýdda hálfkápu. Hún er fróðleg, birtir hrafl úr sögu læknislista á Íslandi og erlendis, vitnisburði um lækningar í fornum ritum, sýnishorn af ýmsum læknisráðum fortíðar, sjúkdóma í samfélagslegu ljósi og allmikla skrá yfir lækningajurtir sem notaðar hafa verið í gegnum tíðina. Hún skiptist í átta kafla auk inngangs og viðauka. Inngangurinn gagnrýnir vísindahyggju hefðbundinnar læknisfræði, sem er réttmætt, en þó fer lítið fyrir greiningu á grunnhugmyndum læknislista sem ætti þó að vera forsenda slíkrar gagnrýni.

Fyrsti kaflinn (17–34) er um árdaga vestrænnar læknislistar hjá Grikkjum og Rómverjum og þróun hennar fram til elstu læknisfræði í háskólum, klaustrum og á spítölum fram undir nútíma. Fyrst er fjallað um þríkvíslaða þróun lækninga í Evrópu, töfralækningar, handlækningar og lyflækningar, og byggt á greinargóðum inngangi Bens Waggoner að þýðingu sinni á íslenskri lækningabók. Þeirri þrískiptingu er þó ekki fylgt vel eftir í bókinni né rakið með ljósum hætti hvernig þessar þrjár greinar þróuðust. Annars byggist kaflinn á inngangi Vilmundar Jónssonar landlæknis að Lækningum – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sem var fyrsti skólagengni íslenski læknirinn sem sögur fara af á árnýöld. Sú bók kom út 1949, réttum 70 árum áður en Lífgrös og leyndir dómar birtist. Margvísleg þekking á þróun vestrænna lækninga hefur ratað á bækur á þeim tíma þó að höfundur virðist ekki hafa notað þær. Þetta er bagalegt og kaldhæðnislegt því inngangur Vilmundar einkennist af lítilsvirðingu fyrir þekkingu fyrri tíma. Hann aðhyllist þá vísindahyggju eða vísindatrú sem höfundur gagnrýnir í inngangi en virðist þó að verulegu leyti hafa mótað sjónarmið eða efnistök bókarinnar sem eru þversagnakennd og stefnulaus.

Bergmálið frá Vilmundi sést í snubbóttri afgreiðslu í undirkafla um áhrif Araba á læknisfræðina: „Arabíski læknirinn Avicenna (980–1037), sem lengi var titlaður konungur læknanna, var kreddufastur lærisveinn Galenosar. Hann áleit handlækningar óæðri lyflækningum, þó að sjálfur kynni hann og beitti hvoru tveggja“ (23). Vilmundur er heimildin og orðar þetta svo: „Avicenna, „konungur lækna“, eins og hann var titlaður, var þó einkum kreddufastur lærisveinn Galenosar. … Avicenna kenndi beinlínis, að handlækningar væru lyflækningum óæðri og lærðum læknum ósamboðnar …“ (77). Hér eru gamlir fordómar á kreiki og orðalag tekið upp án auðkenningar. Ónákvæm tilvísun er þremur efnisgreinum aftar og vísað til rangrar blaðsíðu.

Í raun var Ibn Sīnā (eins og Avicenna hét í raun) stórmerkur heimspekingur og læknir sem hafði djúpstæð áhrif á þróun læknisfræðinnar í Evrópu. Hann samþætti teoretíska þekkingu af bókum og klíníska reynslu og í dag sýna menn verkum hans áhuga vegna heildarhyggjunnar sem þau byggjast á og andæfir þeirri smættandi vísindahyggju sem gagnrýnd er í inngangi. Höfundur hefði getað tileinkað sér nýrri fræði um Avicenna til að undirbyggja gagnrýni sína á vísindahyggju nútímans.

Annar kafli heitir „Lækningar að fornu“ (35–70). Mikið er þar rætt af forvitnilegum lækningum í fornritum og ber Hrafn Sveinbjarnarson hæst, sem líklegt er talið að hafi menntast í frægasta lækningaskóla álfunnar í Salerno á Ítalíu. Þessi kafli er í belg og biðu og án greinandi samfellu. Til að mynda heitir næsti undirkafli „Lækningar og ljóð“ og fjallar um upprunalega merkingu orðsins læknir og fleiri orða auk þess að taka dæmi úr eddukvæðum. Þetta efni hefði átt heima í fyrsta kafla og hefði mátt nota til að tengja norrænar lækningar við rætur lækninga við Miðjarðarhaf og í Austurlöndum.

Þá er fjallað um þær fáu lækningabækur miðalda sem varðveist hafa. Höfundur telur sig hafa gert þá uppgötvun að eina þeirra megi rekja til Hrafns Sveinbjarnarsonar og kallar hana því „Hrafnsbók“. Fyrir því er þó varla hálfur flugufótur. Þetta er handritið AM 194 8vo, ritað á Geirröðareyri (Narfeyri) árið 1387, tæpum 200 árum eftir tíð Hrafns. Kristian Kålund gaf það út í Alfræði I árið 1908. Tengipunktar við Hrafn eru þeir að árið 1224 gaf Guðrún systir hans kirkjunni á Eyri „hundruð fríðs fjár“ og segir höfundur að árið 1298 (89 árum áður en handritið var skrifað) hafi kirkjan átt samkvæmt eignaskrá fjórar bækur: „Má vel gera því skóna að ein umræddra bóka hafi verið lækningabók sem tæpri öld síðar var afrituð í stofunni á Geirröðareyri, þá orðin velkt og lúin. Af minna tilefni hafa verið settar fram tilgátur um höfunda og skrásetjara ritheimilda, svo hér verður að minnsta kosti gælt við þá hugmynd að lækningabókin sé frá Hrafni komin“ (60). Annars staðar talar höfundur um þetta sem uppgötvun. Þetta eru hreinar getgátur. Vel má einhver þráður hafa verið frá Hrafni til þessarar bókar en ólíklegt að hann finnist héðan af. Það neyðarlegasta við þessa „uppgötvun“ er þó að rangt er farið með ártal eignaskrárinnar sem er í Vilkinsmáldaga. Hann er ekki frá árinu 1298 heldur 1397, áratug eftir að lækningabókin var skrifuð upp. Reyndar eru líka fjórar bækur í máldaga Gyrðis biskups Ívarssonar frá 1355 (Íslenzkt fornbréfasafn III, 105) en engra bóka getið í máldaga Magnúsar biskups Gissurarsonar sem talinn er frá 1224 (Íslenzkt fornbréfasafn I, 465).

Höfundur segir að mikið hafi verið ritað um „rittengsl“ varðveittra lækningabóka en tíundar ekkert af því. Rittengsl í hefðbundnum þröngum skilningi, þegar sameiginlegt orðfæri eða efnisatriði eru skýrð alfarið með tilgátu um að eitt rit hafi æxlast af öðru, eru úrelt hugmynd en fengur hefði altént verið að tilraun til að kanna samband og víðara samhengi þessara handrita og nálgast svo þróunarsögu íslenskra lækninga frekar en að tína einungis til sýnishorn úr bókunum og nefna dæmi um sameiginleg efnisatriði. Það sem rakið er í þessum kafla um AM 194 8vo („Hrafnsbók“), „Dyflinnarbókina“ (MS 23 D 43 8vo) svokölluðu og „Íslensku lækningabókina“ (AM 434 a 12mo) er stuttaralegt og úrvinnslan sáralítil. Þörf er á miklu dýpri greiningu á samhengi og tengslum við þróun læknislista erlendis. Reyndar fjallar Sverrir Tómasson um það í riti um matargerð á miðöldum (Pipraðir páfuglar, 2017) á ítarlegan hátt. Mataruppskriftir eru í lækningabókunum í samræmi við hugmyndir um virkni fæðutegunda. Sverrir tekur líka upp þekktan kafla úr Hauksbók, „Af náttúru mannsins og blóði“, til að skýra hugmyndabaksvið lækningabókanna í vessakenningunni um helstu vökva mannslíkamans. Vel hefði farið á því í þessari bók.

Í þriðja kafla sem heitir „Skjótt og skjöldótt efni“ (71–96) er áfram greint frá efni lækninga- og galdrabóka fram yfir siðaskipti með krassandi dæmum en röklega framvindu skortir sem upplýst gæti lesandann um þróun fræðanna. Á bls. 71 segir: „Í þeim heimildum sem nú eru taldar — lækningabókum, gömlum lagagreinum og frásögnum gamalla handrita — birtast hér og hvar brot úr fræðum Salernóskólans, til dæmis lyfjaforskriftir.“ Þetta er dæmi um ómarkvissa úrvinnslu. Málsgreinin (nærri beint úr formála Waggoners, bls. xxv, en án tilvísunar) segir ekkert og lesandinn fær ekki meira að vita um þessar rætur í Salernó, heldur er stokkið beint í háðskar lýsingar Þorvaldar Thoroddsens á lækningabókum frá því eftir siðaskipti, stiklað á lýsingu hans á efni þeirra en síðan nefnd nokkur handrit sem hann vísar í neðanmáls. Aðeins er vísað í handritin en ekki Þorvald í aftanmálsgrein. Þá er drepið á lækningaskrif Brynjólfs biskups Sveinssonar (73) með setningu sem tekin er nánast beint frá Þorvaldi (II. bindi Landfræðissögu Íslands, 57) án tilvísunar en samt vísað aftanmáls í tvö handrit af þremur sem hann nefnir. Þó er ekki að sjá að höfundur hafi skoðað nein þessara handrita sem er miður því þar kann að leynast stórmerkilegt efni órannsakað. Að tengja vel þekkt rit Brynjólfs um meðgöngutíma kvenna við einkalíf hans (73–74) er út í hött því hann skrifaði það um það leyti sem Ragnheiður var tíu ára.

Nokkrum blaðsíðum er varið til umræðu um líkindagaldur og samsemdarhugmyndir. Fyrst er vikið að nýaldarhugmyndum en samhengislítið og án mikilla útskýringa. Mikið er gert úr trú Thomasar Bartholin (1616– 1680), prófessors í læknisfræði við Hafnarháskóla, á samsemdarhugmyndir en aðeins ein setning um mikilvægt framlag hans til læknisfræði en hann lýsti sogæðakerfi líkamans fyrstur manna árið 1652 (sjá t.d. Thomas Bartholin, Anatomihuset i København, 2007). Skoðanir Vilmundar Jónssonar á fyrri tímum bergmála sterklega enda ögn tekið orðrétt frá honum án tilvitnunarmerkja og tilvísana og svo tilgreindar heilar þrjár línur á latínu án þess að þýða þær. Þá er klykkt út með þessum vísdómsorðum: „Já, það gekk á ýmsu við Hafnarháskóla í þann tíð“ (77). Nær hefði verið að kafa rækilega í dönsku læknisfræðiprófessorana Simon Paulli, Bartholin og Ole Worm, með tilstyrk nútímalegri fræða en Vilmundar Jónssonar, til að sýna hvernig þversagnakenndar lækningaaðferðir þeirra og þekking spegla þá deiglu sem læknavísindin voru í um þetta leyti þegar samsemdarhugmyndum og reynsluvísindum laust saman. Samsemdarhugmyndir byggjast einmitt á heildarhyggju sem er kjarninn í þeirri gagnrýni á nútímalæknavísindi sem höfundur viðraði í inngangi.

Síðan er vikið að göldrum, einkum svartagaldri og fáeinum galdrabókum, með krassandi dæmum en takmarkaðri greiningu. Mikið er vitnað í ríflega hundrað ára rit Antons Christians Bang um galdrafár og svartagaldur og er þar á sömu bókina lært, upptalning og dæmi frekar en röklegt samhengi. Skrif Matthíasar Viðars Sæmundssonar um svartagaldur hefðu til að mynda getað orðið hollur innblástur.

Fjórði kafli (97–116) er að mörgu leyti fróðlegasti hluti bókarinnar, samtíningur um hlut kvenna í lækningum sem löngum hefur verið vanræktur. Fyrst er lauslega drepið á kvenlækna í fornsögum en meginefni kaflans er fæðingarhjálp, nokkuð sundurlaust og jafnvel stokkið fram og aftur í tíma. Til dæmis er vikið að fyrstu ritum á íslensku um fæðingarhjálp á tveimur blaðsíðum (101 og 102) og hefði það mátt vera miklu ítarlegra. Hins vegar er ekki fjallað um fyrrnefnda lækningabók eignaða Brynjólfi biskupi um fæðingar, kvilla kvenna og meðferð ungbarna sem væri eldri en þessi fyrstu rit sé hún rétt feðruð.

Fimmti kaflinn, „Aðferðir við lækningar fyrr á tíð“ (117–145), hefst með aðgreiningu á milli töfralækninga og reynslulækninga en síðan er meginumfjöllunin um grasalækningar og handlækningar! Fyrst samtíningur um grasalækningar (mest frá Ben Waggoner, bls. x–xxiv, með litlum tilvísunum), upphaf þeirra og ástundun allt frá Neanderdalsmönnum til Björns í Sauðlauksdal á síðari tímum þar sem hlaupið er nokkuð stefnulítið út og suður. Síðan er ýmiss ágætur fróðleikur héðan og þaðan um handlækningar til forna og loks kafli um lækningar Þorkels Arngrímssonar.

Sjötti kafli (147–184) heitir „Þróun lækninga á Íslandi“. Þar er enn og aftur rætt um aðgreiningu á tegundum lækninga og fjallað um lærðar lækningar og alþýðulækningar. Andmælt er hugmynd um að taka upp heitið þjóðlækningar um alþýðulækningar, sem Elsa Ósk Alfreðsdóttir setur fram í MA-ritgerð um sögu grasalækninga, vegna þess að ekki ein- ungis almúgafólk stundaði slíkar lækningar. Það eru einu orðin sem vikið er að þeirri ágætu ritgerð sem í er vönduð umfjöllun um grasalækningar  og sögu þeirra.

Fyrsti undirkaflinn er um læknismenntun á Norðurlöndum (sem nánast var fordæmd nokkru framar eins og drepið er á hér að ofan) en þar er, án mikilla tilvitnunarmerkja eða tilvísana, étið hrátt úr kafla í ritgerð Vilmundar Jónssonar. Óvíða er heimildafæðin jafn sláandi. Á bls. 148–152 er saga læknisfræði við Hafnarháskóla rakin. Textinn er að töluverðu leyti orðréttur úr títtnefndum formála Vilmundar. Höfundur skrifar: „Ein besta heimildin um það hvernig ráðlegast þótti að haga læknisnámi á 17. öld er rit læknaprófessors við Kaupmannahafnarháskóla, Caspars Bartholins (eldri), frá 1628, De studio medico incohando, continuando et observando“ (150). Samsvarandi texti Vilmundar: „Ein bezta heimild, sem fyrir hendi er um það, hvernig æskilegt þótti að haga læknanámi á 17. öld, er lítið rit frá hendi Caspars Bartholíns, De studio medico incohando, continuando et observando, samið 1626, en gefið út á prenti 1628“ (133). Síðan er upptalning í 25 liðum beint úr Vilmundi án tilvísunar en nánari útlistunum hans sleppt. Engin tilraun er gerð til að skilja og greina í víðara samhengi. Höfundur drepur næst niður fæti í fjölvisku Vilmundar þegar kemur að eftirmanni Bartholins í embætti. Þar segir (tilvísanalaust):j

Eftirmaður Caspars Bartholins sem læknaprófessor var svili hans Ole Worm (1588-1654), einkakennari Þorkels Arngrímssonar eins og fyrr segir. Worm var gott dæmi um þá fjölvitrunga sem lögðu stund á háskólanám þess tíma — víðförull og víða lærður, heimspekingur, guðfræðingur, fornfræðingur og rúnameistari, náttúrufræðingur og læknir sem hafði manna mest á þeim tíma kynnt sér lækningar, þar á meðal handlækningar, með því að fylgjast með lærðustu læknum síns tíma við sóttarsæng sjúklinga. Hann var í fyrstu með lægstu prófessorsgráðu (paedagogicus) 1613, því næst prófessor í grísku 1615, þá í eðlisfræði 1621, og loks í læknisfræði 1624 til dauðadags 1654 (150).

Hjá Vilmundi:

Eftirmaður Caspars Bartholíns sem læknaprófessor var svili hans og annar tengdasonur Fincke, Óli Worm (1588–1654), sem áður hefur lítillega verið minnzt á sem einkakennara séra Þorkels Arngrímssonar, annar fjölvitringurinn frá, víðförull og víða lærður, heimspekingur, guðfræðingur, fornfræðingur og rúnameistari, náttúrufræðingur og læknir, og hafði manna mest á þeim tíma kynnt sér lækningar í framkvæmd með því að fylgjast með lærðustu læknum síns tíma að sóttarsæng sjúklinga og þar á meðal einnig kynnt sér handlækningar. Kennsluferil sinn við háskólann hóf hann í lægsta prófessorsembætti (paedagogicus) 1613, varð því næst prófessor í grísku 1615, þá prófessor í eðlisfræði 1621 og loks prófessor í læknisfræði 1624. Gegndi hann því embætti til dauðdags 1654 (145).

Töluvert meira er tekið upp með þessum hætti um feril Worms og grasafræðinginn Simon Paulli sem var skipaður prófessor í læknisfræði á sama tíma og loks Thomas Bartholin en þar er vitnað beint í úthúðun Vilmundar á Bartholin. Eitt er að hálfstela heilu blaðsíðunum án tilvísana en það er næstum verra að bera á borð 70 ára gamla hleypidóma án þess að gera minnstu tilraun til að skilja og skýra svo áhugavert efni í ljósi þróunar nútímalæknisfræða.

Restin af ágripinu um sögu danskra lækninga er tekin upp úr stuttum kafla úr Dagligliv í Danmark frá 1969. Íslenska lækningasagan á næstu tíu síðum (155–164) er fróðleikshopp fram og aftur með svipuðum hætti og í öðrum köflum en síðan er tekið til við ýmsar greinar íslenskra lækninga frá alþýðulækningum til lærðra. Sums staðar er bergmál af fordómum Vilmundar eins og þegar Thomas Bartholin og Jón lærði eru nánast lagðir að jöfnu. Jón var vissulega merkilegur fyrir sjálfsaflamenntir sínar. Hann fékkst við lækningar og var á dögum um svipað leyti en Bartholin var formlega lærður prófessor sem hafði numið við helstu læknaskóla Evrópu, stundaði læknisfræði og fylgdist vel með nýjungum fræðanna, til dæmis suður í Hollandi þar sem hann var við nám og rökræddi við Worm í bréfum um blóðrásarkenningar Harveys. Hann rak líka líkskurðarleikhúsið sem Simon Paulli hafði stofnað. Að leggja Bartholin og Jón að jöfnu með svo samhengislausum hætti lýsir fáfræði.

Sjöundi kafli um sjúkdóma og samfélag (185–211) er bitastæður um margt. Samhengi húsakynna og sóttarfars er áhugavert og margt fróðlegt er um sjúkdóma. Nú hefur Jón Steffensen tekið við af Vilmundi við að skrifa í gegnum höfund og smávegis er tekið orðrétt úr bók Sigurjóns Jónssonar frá 1944 (Sóttarfar og sjúkdómar á Íslandi 1400–1800) á bls. 197. Á bls. 200 eru tæpar fjórar línur teknar orðrétt frá Jóni Steffensen en aðeins þrjú síðustu orðin innan tilvitnunarmerkja. Á næstu síðu er ein efnisgrein nær orðrétt úr grein Gísla Gunnarssonar á Vísindavefnum þar sem Íslendingar eru bornir saman við frumbyggja Ameríku. Á bls. 204 er einnig tekið nærri orðrétt upp úr Jóni án nokkurra tilvísana. Þá er lauslega drepið á að sagnfræðingar séu fjarri því að vera á einu máli um svartadauða. Til er töluvert af nýjum og merkum rannsóknum á pestinni hér heima og erlendis en höfundur lætur að mestu duga yfirlitsgrein Gunnars Karlssonar á Vísindavefnum.

Viðauki er aftast í bókinni með lista yfir lækningajurtir og umfjöllun um þær, fræðilega séð stefnulaus og skortir úrvinnslu því þar segir fátt umfram Grasnytjar Björns Halldórssonar og bók Arnbjargar Lindu Jóhannsdóttur, Íslenskar lækningajurtir. Grasnytjum Björns er fylgt nokkurn veginn í vali á jurtum en bætt smávegis við frá öðrum, einkum Jóni lærða og Eggerti Ólafssyni. Í inngangi viðaukans segir: „Fróðleikurinn sem Björn í Sauðlauksdal, Eggert Ólafsson og Jón lærði tóku saman um dyggðir grasa ber þannig vitni um þekkingarsköpun á fjórum eða fimm öldum eftir að lækningabækur voru fyrst skráðar hér á landi“ (221). Þetta er eiginlega eina greiningin á þessu jurtatali og má kalla snautlegt. Það er neyðarlegt að þótt hliðsjón sé sögð höfð af Jóni lærða er ekkert minnst á það forvitnilegasta í grasa- og lækningabókum hans, til að mynda þegar hann blandaði tunglurt og blóðbergi við brennivín til að lækna sprengihósta sem þjáði hann. Ýmis „þekkingarsköpun“ er í riti hans um grasanáttúrur sem mátt hefði skoða nánar. Úrvinnslan eða greiningin er sem sagt engin heldur handahófskennt plokk, aðallega upp úr Birni og Arnbjörgu, oft óþægilega orðrétt. Það hefði verið ómaksins vert að gera tilraun til að greina þróunina frá fyrri öldum fram til grasalækninga nútímans, til að mynda skoða betur það sem rétt er drepið á, að mjög fáar jurtanna úr gömlu lækningabókunum koma fyrir hjá Birni.

Tveir viðaukar eru til viðbótar um erlendar lækningajurtir og steina úr gömlu lækningabókunum en lítið úr því unnið, enda segir höfundur um jurtatalið: „Vegna óvissu um rithátt og breytingar á latneskum fræðiheitum eru þau ekki færð til nútímahorfs hér, heldur er grasafróðum lesendum eftirlátið að ráða þær „rúnir“ sem torlæsastar eru“ (257). Steinafræðin er úr því handriti sem höfundur kallar „Hrafnsbók“, AM 194 8vo, en enginn frekari fróðleikur um steinafræði í samhengi lækninga.

Það er ljóst að rit þetta er meingallað um margt. Ótækt er að styðjast við löngu úreltar meginheimildir á borð við rit Vilmundar Jónssonar og Jóns Steffensens og láta þau stýra efnistökum. Þau eru vissulega hafsjór af fróðleik sem getur gagnast við frumkönnun á viðfangsefnum en þau þarf að nota með varúð. Megingalli bókarinnar er samhengisleysi og hroðvirkni. Hún er safn fróðleiksmola án eiginlegrar úrvinnslu. Fræðimenn viða að sér margvíslegu efni, móta eigin sýn og stefnu gagnvart viðfangsefninu og nýta til þess heimildir. Þeir umskrifa efnið út frá því, hið raunverulega framlag til fræðanna er að vinna úr efni, ekki afrita það. Ekki dugar að taka upp hráar heimildir sem stýra efninu eins og gert er í þessari bók. Því fer oft fjarri að textinn sé eiginlegur texti höfundar, svo náinn er hann heimildunum. Vísanir til þeirra eru ófullnægjandi og of strjálar og gagnlitlar fyrir fróðleiksfúsa lesendur sem gætu viljað fræðast frekar. Vegna óljósra tilvísana gefur textinn óbeint til kynna að meira sé en minna af eigin rannsóknum höfundar þegar yfirlætislega latínuskotnir póstar með sérstæðum fræðaheitum koma án tilvísana. Yfirleitt eru tilvísanir ónákvæmar og fara stundum blaðsíðuvillt. Dæmin tilgreind hér um vonda heimildanotkun eru sýnishorn því fleiri mætti tína til.

Höfundur virðist ekki nýta sér nýjar kenningar eða greiningaraðferðir hug- og félagsvísinda. Því er lítið um nútímalega fræðilega sýn sem gæti staðið undir vandaðri greiningu. Enginn stuðningur er af nútímalegri vísindasögu, hvað þá sögu læknisfræðinnar. Þekkingarfræði læknavísinda eins og annarra vísinda er í mikilli deiglu um þessar mundir, ekki síst í ljósi dýpri heildarhyggju en lengi hefur tíðkast en á þeim vettvangi hefur bók þessi ekkert að segja.

Viðar Hreinsson

Deila:

Annað efni