Skip to content
Meira en þúsund orð. Ljósmyndun og rómantísk vinátta við upphaf tuttugustu aldar
Íris Ellenberger, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir
Meira en þúsund orð. Ljósmyndun og rómantísk vinátta við upphaf tuttugustu aldar
Úr Sögu LVI:I (2019)
Ljósmyndir eru afar athyglisverðar heimildir fyrir sagnfræðirannsóknir á sviði tilfinninga, vinskapar og kynverundar. Þær veita okkur meðal annars innsýn í tíma þegar líkamleg nánd hafði aðra merkingu og línurnar milli vinskapar og rómantíkur eða kynferðissambands voru dregnar annars staðar en nú tíðkast. Sú mynd sem prýðir forsíðu Sögu að þessu sinni er gott dæmi um slíkt. Á henni má sjá látbragð sem margir myndu í dag túlka sem vitnisburð um hrifningu en þegar haft er í huga að myndin var tekin við upphaf tuttugustu aldar, þegar nánd milli tveggja kvenna var litin öðrum augum en nú, verður ljóst að slík túlkun er ekki sjálfsögð. Ljósmyndin býður því upp á áhugaverðar vangaveltur um eðli vinskaparins sem sést á henni, mörk milli vináttu og rómantíkur og náin sambönd kvenna á sviði ljósmyndunar við upphaf tuttugustu aldar.1

En hvað sýnir myndin? Konurnar heita Steinunn Thorsteinsson, sem stendur til vinstri, og Sigþrúður Brynjólfsdóttir.2 Þær voru báðar ráðnar sem nemar á Ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar, bróður Sigþrúðar, árið 1906 ásamt Pétri Leifssyni, Sigríði Zoëga og Jóhönnu Sigþrúði Pétursdóttur, konunni sem tók myndina sem hér um ræðir. Að öllum líkindum var myndin tekin á þessum vinnustað þeirra vinkvenna á árunum 1906–1915 enda hæg heimatökin. Myndir  í eigu Þjóðminjasafns Íslands og Ljósmyndasafns Reykjavíkur benda til þess að starfsfólkið þar hafi gjarnan látið mynda sig saman, í stærri eða smærri hópum, jafnt við formleg sem óformleg tækifæri. Því eru varðveittar allmargar myndir af Steinunni, Sigþrúði, Sigríði og Jóhönnu sem oft virðast teknar í þeim tilgangi að fanga vinskapinn á milli þeirra. Augnablikið sem við sjáum á myndinni af Steinunni og Sigþrúði er þó að mörgu leyti einstakt, sérstaklega ef það er skoðað í ljósi lífshlaups kvennanna og við hvaða aðstæður myndin var tekin.

Við vitum ekki margt um Sigþrúði Brynjólfsdóttur. Hún fæddist árið 1889 á Ólafsvöllum í Árnessýslu og lærði ljósmyndun á stofu bróður síns á fyrsta áratug tuttugustu aldar en gera má ráð fyrir að hún hafi líkt og hinar konurnar á stofunni aðallega sinnt frágangi og framköllun.3 Árið 1920 stofnaði hún síðan ljósmyndastofu að Lauga- vegi 11 ásamt Jóhönnu Pétursdóttur og Önnu Jónsdóttur. Í fram- haldinu er lítið vitað um lífshlaup Sigþrúðar en hún lést árið 1928, 39 ára að aldri.

Steinunn Thorsteinsson fæddist í Reykjavík 15. nóvember 1886, dóttir Birgittu Eiríksdóttur og Steingríms Bjarnasonar Thorsteins- son, skálds og rektors við Lærða skólann í Reykjavík. Hún stundaði nám við Kvennaskólann veturinn 1902–1903 og hóf síðan nám í ljós- myndun hjá Pétri Brynjólfssyni árið 1906 ásamt Sigþrúði, Jóhönnu og æskuvinkonunni Sigríði. Að námi loknu árið 1910 hélt Steinunn áfram störfum á ljósmyndastofu Péturs allt fram til 1915. Árið 1914 lauk Sigríður Zoëga ljósmyndanámi í Köln í Þýskalandi og setti á fót eigin stofu í Reykjavík sem eyðilagðist í bruna ári síðar. Þá tóku Steinunn og Sigríður höndum saman, keyptu Ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar sem þá var að hætta störfum og héldu rekstrinum áfram undir nafninu Sigríður Zoëga og Co.4 Þar starfaði Steinunn fram til 1964.5

Konan á bak við myndavélina er Jóhanna Sigþrúður Pétursdóttir sem fæddist að Hálsi í Fnjóskadal árið 1888. Hún var skólasystir Steinunnar í Kvennaskólanum í Reykjavík á árunum 1902–1903 og  í hópi þeirra sem hófu nám hjá Pétri Brynjólfssyni frænda hennar árið 1906, en Jóhanna og systkinin Pétur og Sigþrúður voru bræðrabörn. Þar vann hún allt til ársins 1915 þegar hún var ráðin til Ólafs Magnússonar ljósmyndara í eitt ár og fór síðan utan í framhaldsnám til Danmerkur og Englands. Þegar heim kom setti hún á fót áðurnefnda ljósmyndastofu að Laugavegi 11 ásamt Sigþrúði og Önnu Jónsdóttur. Hana starfræktu þær í fjögur ár en seldu síðan Jóni Kaldal ásamt plötusafni. Jón gaf Þjóðminjasafni Íslands plötusafnið árið 1954 en í því eru 4.816 skráð númer.6

Myndin af Steinunni og Sigþrúði er í einkasafni Jóhönnu sem varðveitt er á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Pétur Jónsson, bróðursonur Jóhönnu, afhenti safnið árið 2017 en það hafði þá legið í geymslu í um 50 ár.7 Það inniheldur ýmiss konar myndir sem virð- ast flestar frá fyrsta og öðrum áratug tuttugustu aldar. Þar á meðal eru ýmsar portrett- og hópmyndir af Jóhönnu, vinum hennar og fjölskyldu. Eiginmaður hennar, Helgi Hermann Eiríksson, verkfræðingur og skólastjóri, kemur fyrir á allmörgum myndanna en einnig vinkonurnar og samstarfskonurnar Sigríður, Sigþrúður og Steinunn.8

Við vitum ekki við hvaða aðstæður myndin var tekin en aldur fyrirsætanna, hár- og fatatískan gefur til kynna að hún sé tekin ein- hvern tímann á árunum 1906–1915 þegar Steinunn, Sigþrúður og Jóhanna unnu á Ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar.9 Við getum einnig ráðið ýmislegt af umgjörð myndarinnar. Af lýsingunni að dæma er hún tekin á ljósmyndastofu, líklega hjá Pétri, en bakgrunnurinn, dyratjöldin, er þó ekki hefðbundinn fyrir ljósmyndastofur.1 Það eru engin dæmi um viðlíka bakgrunn á varðveittum ljósmyndum frá Ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar eða Sigríði Zoëga og Co. Dyratjöldin voru yfirleitt notuð sem skilrúm milli borðstofu og stássstofu á heldri heimilum og sú skírskotun til einkarýmis undirstrikar þá nánd sem ríkir milli kvennanna. Myndin stingur einnig að mörgu leyti í stúf við hefðbundnar mannamyndir sem teknar voru á ljósmyndastofu Péturs en í því safni eru fá, ef nokkur, dæmi um fólk í viðlíka faðmlögum. Sú staðreynd að myndin er varðveitt  í einkasafni Jóhönnu bendir til þess að nándin sem kemur fram á myndinni hafi ekki átt að vera fyrir allra augum. Það að hún skuli yfirleitt hafa verið tekin og varðveitt ber þó einnig vott um að náinn vinskapur og tilfinningasambönd kvenna af heldri stigum hafi þrifist í Reykjavík við upphaf tuttugustu aldar.

Fræðimenn á sviði sögu kynverundar hafa fyrir margt löngu komist að því að mörk rómantíkur og vináttu eru samfélagslega mótuð af samspili ólíkra þátta, til dæmis hugmynda um eðli hjónabands og æskileg kynhlutverk. Það þýðir að hegðun sem á einum tímapunkti flokkast undir eðlilegt vinarþel getur seinna meir verið túlkuð sem dónaskapur eða merki um óheilbrigð og óeðlileg samskipti.11 Hugtakið rómantísk vinátta hefur gjarnan verið notað af fræðimönnum í umfjöllun um óræð mörk milli vináttu og ástarsambanda við upphaf tuttugustu aldar. Undir formerkjum náinnar vináttu gátu einstaklingar af sama kyni þróað og ræktað með sér innileg tengsl sem báru ýmis merki ástarsambands, til dæmis heitstrengingar, ástarjátningar og óskir um faðmlög og kossa, án þess að vera álitin ósiðleg eða litin hornauga. Rómantísk vinátta hefur sérstaklega verið rannsökuð með tilliti til sambanda kvenna og í ljósi íhaldssamra hugmynda nítjándu aldar um eðli kvenna sem voru ekki taldar búa yfir kynferðislegu sjálfsvaldi (e. agency). Erótík milli kvenna var talin lítilvæg og féll til dæmis utan við umræðu kynfræðinga um kynhverfu (e. sexual inversion) eða samkynhneigð. Þær hugmyndir voru að auki bundnar við læknisfræðilega orðræðu um geðraskanir og því átti fólk sem áleit sig hvorki veikt né óeðlilegt erfitt með að máta sig við þær. Rómantísk vinátta þreifst enda fyrst og fremst meðal kvenna af efri stéttum sem að flestu leyti samsvöruðu sig ágætlega við ríkjandi viðmið um æskilega kvenlega hegðun og framkomu.12 Þær stofnuðu til tilfinningaríkra sambanda, unnu saman og bjuggu saman jafnvel um ára eða áratuga skeið en virðast ekki hafa litið á sig sem samkynhneigðar. Sumir þeirra fræðimanna sem fjallað hafa um efnið, líkt og Lillian Faderman, ganga svo langt að lýsa rómantísku vináttunni sem stofnun sem líkt og hjónaband þjónaði ákveðnum tilgangi. Sem slík hafi þessi stofnun átt sitt blómaskeið á átjándu og nítjándu öld en fjarað hafi undan henni þegar líða tók á þá tuttugustu eftir því sem vitneskja um samkynhneigð varð almennari og samfélög hinsegin fólks tóku að myndast.13

Við vitum ekkert um samband Steinunnar og Sigþrúðar umfram það að þær voru báðar ljósmyndarar og lifðu og hrærðust í heimi ljósmyndunar. Þó má lesa myndina af þeim sem eins konar tákn- mynd hinnar rómantísku vináttu þar sem engin skýr mörk eru dreg- in milli vinatengsla og rómantískra sambanda. Þvert á móti skarast þessi fyrirbæri á gráu svæði þar sem erfitt er að greina annað frá hinu. Í því sambandi skipta aðstæður kvennanna máli. Jóhanna, Sigþrúður og Steinunn tilheyrðu allar efri stéttalögum Reykjavíkur við upphaf tuttugustu aldar sem tengdust borgarastéttum erlendis sterkum böndum, sérstaklega í Kaupmannahöfn. Líklegt verður því að telja að þær hafi þekkt til rómantískrar vináttu.

Stéttarstaða þeirra hafði einnig áhrif á það lífsviðurværi sem þær gátu kosið sér en valkostirnir voru ekki ýkja margir. Það leiddi til þess að efri stéttar konur völdu tiltekin störf, til dæmis kennslu, umfram önnur sem ýtti undir myndun kvennarýma innan þessara starfsgreina. Ein þeirra var ljósmyndun sem þótti ásættanlegt starf fyrir heldri konur á Íslandi og víða í Norður-Evrópu. Fyrstu ís- lensku konurnar sem lærðu ljósmyndun voru Nicoline Weywadt, Anna Schiöth og Gunhild Thorsteinsson en þær voru allar af efna- fólki komnar og af dönskum uppruna.14

Jóhanna, Steinunn og Sigþrúður tilheyrðu næstu kynslóð kvenkyns ljósmyndara sem nutu þess að forverar þeirra höfðu undirbúið jarðveginn fyrir frekari þátt- töku kvenna í faginu. Það var mikil gróska í ljósmyndun á Íslandi á tímabilinu 1895–1915, meðal annars vegna umtalsverðrar fjölgunar í borgarastétt í kjölfar hraðrar þéttbýlismyndunar en sá hópur sótti ákaft í að eignast portrettmyndir, ýmist af sér eða ástvinum.15 Vinsældir ljósmyndanna ollu því að nokkur skortur var á ljósmyndurum á Íslandi á fyrsta áratug tuttugustu aldar og fagið reiddi sig verulega á starfskrafta ófaglærðs fólks, ekki síst kvenna.16 Ljósmyndun varð ekki lögboðin iðngrein á Íslandi fyrr en árið 1927. Fram að því voru nemar á fullum launum sem gerði fagið ákjósan- legt fyrir konur því þær gátu þannig unnið fyrir sér og samtímis hlotið menntun í faginu líkt og Steinunn, Jóhanna og Sigþrúður gerðu á Ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar.17 Sumum konum, til dæmis Jóhönnu og Sigríði Zoëga, auðnaðist einnig að fara til frekara náms erlendis og leggja þannig grunninn að sjálfstæðum atvinnu- rekstri í félagi við aðra kvenkyns ljósmyndara að námstímanum loknum.

Í rannsóknum á rómantískri vináttu kvenna hafa hugmyndir um tengslanet og rými spilað stórt hlutverk. Þá er sérstaklega horft til þátta sem sköpuðu kvennarými eða breyttu þeim, til dæmis þéttbýlisvæðingar og breyttra atvinnuhátta.18 Guðrún Ólafsdóttir hefur bent á að Reykjavík um aldamótin 1900 var sannkölluð „kvennaborg“ en það átti reyndar einnig við um flesta þéttbýlisstaði í Norður- Evrópu á þessum tíma.19 Konur flykktust til bæja og borga í ríkari mæli en karlar því þar áttu þær auðveldara með að sjá fyrir sér en uppi til sveita. Á Íslandi var bæjarlífið sérstaklega aðlaðandi fyrir ekkjur og ógiftar konur því það veitti þeim fleiri tækifæri en sveitirnar til að sjá fyrir sér og sínum. Konur gátu selt fæði og húsnæði, til dæmis til þeirra fjölmörgu námsmanna sem bjuggu í bænum, og stundað ýmiss konar launavinnu eins og heimilisstörf, saumaskap og kennslu. Konur í þéttbýli um aldamótin 1900 áttu þannig kost á að lifa sjálfstæðara lífi en áður. Aukin ásókn kvenna til bæjanna hafði í för með sér að kvenkyns íbúar urðu talsvert fleiri en karlkyns íbúar. Árið 1910, um það leyti sem Jóhanna Pétursdóttir myndaði vinkonur sínar Steinunni Thorsteinsson og Sigþrúði Brynjólfsdóttur, voru 55% íbúa Reykjavíkur kvenkyns.20 Í bænum var því allmikill fjöldi ógiftra kvenna sem lifðu sjálfstæðu lífi eða í félagi við aðrar konur. Steinunn, Sigþrúður og Jóhanna voru allar í þeim hópi fram til ársins 1922 þegar Jóhanna gekk í hjónaband sem átti líklega þátt  í að hún hætti að starfa sem ljósmyndari árið 1924. Steinunn og Sigþrúður voru aftur á móti ógiftar alla sína ævi.21 Kynjamisræmið í íbúasamsetningu bæjarins gaf þeim möguleika á að lifa annars konar lífi en gagnkynhneigðu fjölskyldulífi og myndaði grundvöll fyrir tilfinningasambönd milli kvenna, þótt óljóst sé hvaða tilfinningar Steinunn og Sigþrúður báru til hvor annarrar.

Annað sem styður hinsegin lestur á ljósmyndinni er samband Steinunnar og Sigríðar Zoëga. Sem fyrr segir stofnuðu þær ljósmyndastofuna Sigríður Zoëga og Co. í Reykjavík árið 1915 og ráku hana saman allt til 1964. Þær voru einnig sannkallaðir lífsförunautar, æskuvinkonur sem fylgdust að í námi og starfi alla ævi. Þær virðast aðeins hafa verið aðskildar á árunum 1911–1914 þegar Sigríður var í námi hjá hinum virta ljósmyndara August Sander í Köln í Þýska- landi. Þá hvatti hún Steinunni ítrekað til að koma út til sín og hefja nám í ljósmyndun en Steinunn sagðist ekki hafa löngun til utanferða. Enn fremur má lesa úr bréfum Sigríðar frá námsárunum að hún hafi lengi gengið með þann draum að opna ljósmyndastofu með Steinunni.22 Þegar Sigríður kom heim hófu þær að starfa saman og deildu síðan heimili að því er virðist frá því einhvern tímann á fjórða áratugnum og þar til Sigríður lést árið 1968. Sigríður eignaðist eina dóttur, Bryndísi, með Jóni Stefánssyni listmálara en ekki virðist hafa staðið til að þau stofnuðu fjölskyldu. Aftur á móti rita Bryndís og eiginmaður hennar, Snæbjörn Jónasson, undir tilkynningu um andlát Steinunnar í Morgunblaðinu 16. júlí 1978.23 Það bendir til þess að þau hafi álitið sig tengd Steinunni fjölskylduböndum.

Út frá sjónarhorni sögu kynverundar fellur samband Sigríðar og Steinunnar vel að kenningum um rómantíska vináttu heldri kvenna á Vesturlöndum. Til eru nokkuð margar ritaðar heimildir sem segja frá þeim og vináttu þeirra og ber þá auðvitað hæst þær sem tengjast starfsvettvangi þeirra, ljósmynduninni. Sé rýnt í þær heimildir kemur glögglega í ljós að persónulegt samband þessara tveggja ljósmyndara var bæði náið og innilegt og náði út fyrir hin hefðbundnu mörk vináttu og faglegs samstarfs. Við vitum ekki hvaða þýðingu sambandið hafði í huga þeirra sjálfra og munum líklega aldrei komast að því. Þó er ljóst að þær reyndu ekki markvisst að fela það

Sigríður lýsir sambandi þeirra í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í tilefni 50 ára afmælis ljósmyndastofunnar árið 1964 með þessum orðum: „Við höfum alltaf haft mikla ánægju af þessu starfi og höfum enn … [o]g það hefur hjálpað okkur að við erum sem einn maður, stöndum jafnt að fyrirtækinu og búum saman.“24 Í minningargreinum um Sigríði draga höfundar ekki fjöður yfir þá staðreynd að Steinunn var lífsförunautur Sigríðar án þess þó að fjallað sé beinlínis um þær sem ástkonur. Geir Hallgrímsson, þáverandi borgarstjóri og systursonur Sigríðar, vottar Steinunni samúð sína með eftir- farandi orðum: „Þeim og einlægri vinkonu og félaga, Steinunni Thorsteinsson, eru nú fluttar samúðarkveðjur.“ Guðmundur Hannesson ljósmyndari er örlítið opinskárri í sínum minningarorðum: „Þær Sigríður og Steinunn ráku ekki aðeins stofu sína saman, þær urðu nánari lífsförunautar, því í meira en 30 ár hafa þær haldið hús saman og deilt kjörum sínum í blíðu og stríðu.“ Þriðja minningar- greinin er einna látlausust en hún er skrifuð af starfsstúlku ljósmyndastofunnar sem ekki vill láta nafns síns getið. Hún lýkur greininni á að votta hinni „einlægu vinkonu Steinunni“ samúð sína.25 Starfsstúlkan tekur fram að hún sem og hinar stúlkurnar sem unnu á stofunni hafi verið heimagangar á heimili Sigríðar og Steinunnar og að Sigríður hafi verið henni sem móðir. Velta má fyrir sér hvort þagmælska og tryggð við Sigríði hafi haft áhrif á varkárt orðalag stúlkunnar en þegar Sigríður lést árið 1968 var þekking og umræða um samkynhneigð orðin mun útbreiddari í íslensku samfélagi en á fyrri helmingi aldarinnar og rómantísk vinátta og náin sambönd kvenna eldfimara umræðuefni en áður.26

Ljósmyndin af Steinunni og Sigþrúði öðlast nýja og hinsegin merkingu þegar þessi saga Steinunnar er tekin með í reikninginn og sú staðreynd að hún átti eftir að deila lífi sínu með konu. Eftir sem áður sitjum við þó uppi með fleiri spurningar en svör og margar augljósar eyður í heimildum. Við kynnumst sambandi Sigríðar og Steinunnar eingöngu í gegnum ritaðar heimildir. Þær létu vissulega mynda sig saman við nokkur tækifæri en engin þeirra mynda sýnir jafnmikinn innileika og myndin af Steinunni og Sigþrúði. Um vináttu Steinunnar og Sigþrúðar er aftur á móti bara til þessi eina heimild — mynd sem sýnir að stundum segja ljósmyndir meira en þúsund orð.
  1. Grein þessi er afrakstur verkefnisins Hinsegin huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1960 sem unnið var af höfundum með styrk frá Jafnréttissjóði Íslands, Nýsköpunarsjóði námsmanna og Þróunarsjóði námsgagna.
  2. LR. (Ljósmyndasafn Reykjavíkur) Jóhanna Sigþrúður Pétursdóttir 2017 15 071.
  3. Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga ljósmyndari í Reykjavík“, Sigríður Zoëga ljósmyndari í Reykjavík. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands 2000), bls. 7–64, einkum bls. 14.
  4. Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands og JPV útgáfa 2001), bls. 330.
  5. Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 352.
  6. Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 232.
  7. Tölvupóstur frá Gísla Helgasyni til Írisar Ellenberger 6. mars 2019.
  8. LR. Jóhanna Sigþrúður Pétursdóttir 2017 15 001–208.
  9. Svipuð niðurstaða fæst þegar myndin af Steinunni og Sigþrúði er borin saman við myndir af starfsfólki á ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar frá 1908 og 1910. Sjá: Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga ljósmyndari í Reykjavík“, bls. 13; „Draumurinn er að gefa þetta út“, Morgunblaðið 26. júlí 1987, bls. 28.
  10. Tölvupóstur frá Ingu Láru Baldvinsdóttur til Írisar Ellenberger 22. febrúar 2019.
  11. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „„Forsenda fyrir betra lífi“? Tilraun til skilgrein- ingar á hinsegin sögu“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hins- egin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 2017), bls. 21–58, einkum bls. 42–44. Gott dæmi um slíka tilfærslu á mörkum hins ásættanlega og ósiðlega eru kossa- siðir íslenskra karla á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Sjá: Lbs.–Hbs. (Lands- bókasafn Íslands–Háskólabókasafn) Helgi Hrafn Guðmundsson, „Karlmenn faðmast og kyssast eins og unnustufólk.“ Líkamleg nánd íslenskra karlmanna á nítjándu öld. BA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 2015, http://hdl. handle.net/1946/22782.
  12. Sjá til dæmis: Lillian Faderman, Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship and Love between Women from the Renaissance to the Present (London: Junction Books 1981), bls. 15–20; Stacey J. Oliker, Best Friends and Marriage. Exchange Among Women (Berkeley: University of California Press 1989), bls. 26–30.
  13. Sjá til dæmis: Lillian Faderman, Odd Girls and Twilight Lovers. A History of Lesbian Life in Twentieth Century America (New york: Columbia University Press 1991), bls. 1–6.
  14. Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 106, 196, 296.
  15. Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga ljósmyndari í Reykjavík“, bls. 11.
  16. Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 49.
  17. Ekki er vitað við hvað Sigþrúður Brynjólfsdóttir starfaði eða hvort hún var starfandi þegar hún lést árið 1928.
  18. Sjá til dæmis: Lillian Faderman, Odd Girls and Twilight Lovers, bls. 13–18; Tone Hellesund, „Queering the Spinsters: Single Middle-Class Women in Norway, 1880–1920“, Journal of Homosexuality 54:1–2 (2008), bls. 21–48, 41–44.
  19. Guðrún Ólafsdóttir, „Reykvískar konur í ljósi manntalsins 1880“, Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur. Ritstj. Valborg Bentsdóttir, Guðrún Gísladóttir og Svanlaug Baldursdóttir (Reykjavík: Sögufélag 1980), bls. 79–95, einkum bls. 85; Tone Hellesund, „Queering the Spinsters“, bls. 23.
  20. Helgi Skúli Kjartansson, „Fólksflutningar til Reykjavíkur 1850–1930“, Reykjavík í 1100 ár. Ritstj. Helgi Þorláksson. Safn til sögu Reykjavíkur (Reykjavík: Sögufélag 1974), bls. 255–284, einkum bls. 271–272.
  21. Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 232, 352. Árið 1911 opin- beruðu Sigþrúður og Jens Sigurðsson „gasmeistari í Reykjavík“ trúlofun sína en svo virðist sem þau hafi slitið henni skömmu síðar og Jens horfið af landi brott og starfað síðan sem gasstöðvarstjóri í Noregi. Sjá: Gjallarhorn 5. ágúst 1911, bls. 105; Fálkinn 15. ágúst 1936, bls. 6; Morgunblaðið 17. desember 1966, bls. 22.
  22. Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga ljósmyndari í Reykjavík“, bls. 34, 36–37.
  23. Morgunblaðið 16. júlí 1978, bls. 38.
  24. Morgunblaðið 25. júní 1964, bls. 3.
  25. Morgunblaðið 29. september 1968, bls. 22.
  26. Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Sjoppa ein við Laugaveginn […] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga.“ Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar“, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi. Ritstj. Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir (Reykjavík: Sögufélag 2017), bls. 147– 183.

Deila:

Annað efni