Skip to content
Nándarmörk Söguloka. Hugsað um sögulega tíma
Björn Þorsteinsson

Þegar heimspekingur fær það verkefni að velta vöngum yfir sögunni og framvindu hennar er nærtækt að leita stuðnings og fanga hjá þýska kerfishugsuðinum G. W. F. Hegel (1770–1831). Sem kunnugt er var hann einna fyrstur heimspekinga til að hugsa sögulega eða nánar sagt til að gera það að sérstöku viðfangsefni hvernig heimspekin eða hugsunin1 kemur fram og tekur á sig mynd í sögunni. Þessi samþætting sögu og hugsunar var að mati Hegels rökrétt og óumflýjanleg afleiðing þeirrar klípu sem undanfari hans, Immanuel Kant (1724–1804), hafði komið heimspekinni í. Kant gerði það nefnilega að verkefni sínu í Gagnrýni hreinnar skynsemi (1781/ 1787) að leggja traustan grunn að hugsuninni og kveða í leiðinni niður, í eitt skipti fyrir öll, hvers kyns efahyggju og loftkastalasmíð sem honum þótti hafa einkennt kenningar heimspekinganna fram að því.2 Skemmst er frá því að segja að þessi tilraun Kants mistókst. Í hnotskurn má segja að honum hafi yfirsést hvernig sjálf viðleitnin til að leggja grunn að hugsun og skynsemi komst ekki hjá því að gefa sér að einhverju mikilsverðu leyti það sem sanna átti, það er tiltekna skipulega og skynsamlega beitingu hugsunarinnar.3 Við þessa þröng, þessa andstæðu hugsunar og veruleika sem Kant skildi eftir sig þvert á fyrirætlun sína, máttu arftakar hans kljást og fyrir þeim hlaut að liggja að losa sig á einhvern hátt úr henni. Sú leið sem arftakarnir fundu fólst í greinargerð fyrir því hvernig hugsunin gæti sannarlega fótað sig í veruleikanum því það hefði hún raunar gert frá alda öðli. Fyrsta atlaga Hegels að lausn á vandanum var stórvirki hans Fyrirbærafræði andans (1807). Því verki var ætlað að lýsa sögulegri framvindu hugsunarinnar allt frá því hún kemur fram í heiminum í hinni einföldustu og óbrotnustu mynd og þangað til hún nær að lokum tökum á þeirri óumflýjanlegu staðreynd að hún stendur í mótsögn við heiminn og skilur að í þessu mótsagnakennda eða díalektíska sambandi, og ræktun þess, er sannleikur hennar fólginn. Jafnframt skilur hún hvernig þessi sami sannleikur reynist, þegar að er gáð og til kastanna kemur, vera sannleikur um heiminn sjálfan úr því að hugsunin er jú einmitt skoðuð sem hluti af þessum sama heimi en stendur ekki utan hans. Í þessu felst þá einnig að það er marklaust að spyrja hvernig hugsunin væri án heimsins, hvað hugsun án heims væri fyrir nokkuð: slík hugsun er ekki til, hugsunin þarfnast heimsins til að geta starfað, hún getur ekki án hans verið. Hvort snúa megi þessu við og fullyrða að heimurinn geti heldur ekki verið án hugsunarinnar er svo sér í lagi áhugaverð spurning sem varðar sjálfa stöðu mannverunnar í heiminum — er hún hin eina og sanna hugsandi vera eða er hugsunin óbundin birtingu sinni í mannverunni og hefði getað látið ógert að binda sig í henni? Í þessu sambandi er rétt að benda á að Kant lét svo um mælt að allar spurningar heimspekinnar mætti taka saman í þessari einu spurningu hér: Hvað er maðurinn? Og víst er að sú spurning leikur líka lykilhlutverk í kerfishugsun Hegels (og auðvitað í flestallri heimspeki).

Í formálanum að Fyrirbærafræði andans, sem kom út í íslenskri þýðingu Skúla Pálssonar 2019, skrifar Hegel:

Hið sanna er heildin. Heildin er aftur á móti ekkert annað en eðli sem fullkomnar sig með framvindu sinni. Um hið algjöra er það að segja að í eðli sínu er það útkoma, það er ekki það sem það er í sannleika fyrr en í lokin; og í þessu felst náttúra þess, að vera veruleiki, gerandi eða sjálfsverðandi.4

Þessi orð Hegels eru til marks um það hvernig hin sögulega vídd, framvindan, gengur í gegnum hugsun hans og þar með, í stíl við forsendur hans sjálfs, um það hvernig hugsunin gengur í gegnum söguna og finnur sér þar farveg. Jafnframt blasir hér við hvernig Hegel leit á sannleikann sem sögulega skilyrtan eða taldi með öðrum orðum að sannleikurinn sé sú heild „sem fullkomnar sig í framvindu sinni“, tekur á sig mynd í rás sögunnar og verður ekki fyllilega að því sem hann er „fyrr en í lokin“. Sannleikurinn er til, á hverjum tíma tekur hann á sig tilteknar myndir, en allur sannleikurinn, „hið algjöra“ sem slíkt án allra takmarkana, kemur ekki í ljós fyrr en allt er um garð gengið.

Að þessu sögðu og svo horfið sé aftur að viðfangsefni þessa greinarstúfs er eðlilegt að spyrja: Hvað með spurninguna um sögulega tíma? Hvernig á að skilja hana í ljósi hugmyndar Hegels um framvindu sannleikans, heildarinnar eða hins algjöra? Sé málum í reynd þannig háttað að sannleikurinn sé stöðugt að birtast, eru þá allar birtingar hans jafngildar og öll framvinda jafngóð? Hvernig er þá hægt að fóta sig í sögunni yfirhöfuð, greina eitt frá öðru, hið góða frá hinu slæma, hið sögulega frá hinu yfirborðskennda? Er það allt jafngilt og jafnrétthátt — jafnsögulegt og þar af leiðandi jafnfjarri því að vera sögulegt? Til að gera langa sögu stutta er ljóst að Hegel sjálfur vildi forðast að ályktanir í þeim anda sem hér er brugðið upp væru dregnar. Í formála Fyrirbærafræðinnar kemur sá vilji hans til dæmis fram í því þegar hann tekur fornvin sinn Schelling til bæna fyrir að hafa sett fram heimspeki þar sem ómögulegt er að greina eitt frá öðru — heimspeki sem gerir þegar upp er staðið „nóttina þar sem allar kýr eru svartar … að sínum algjöra veruleika“.5 En hver er þá leið Hegels til að rata í þessari nótt, hvaða haldreipi hefur hann, hverjar eru hans hvítu (og þá kannski heilögu) kýr? Þegar leitað er svara við þeirri spurningu má benda á hvernig hann tekur af öll tvímæli um að ætlun hans sé að draga upp þá mynd af veruleikanum og framvindu hans að hann sé ekki stöðugur og óbreytilegur, eða eins og hann orðar það af býsna athyglisverðu lítillæti:

Samkvæmt mínum skilningi, sem getur ekki réttlætt sig með öðru en því að setja fram kerfi sitt, skiptir öllu máli að meðtaka og tjá hið sanna ekki sem verund [Substanz] heldur líka og ekki síður sem geranda [Subjekt].6

Eins og þessi orð bera með sér hvílir þunginn í hugsun Hegels, þegar hann reynir á þennan hátt að greina sig frá Schelling og því sögulega sinnuleysi sem hugsun hans fylgir, á hugtakinu um gerandann. Ef við leiðum aftur hugann að fyrri tilvitnun okkar í formála Hegels þá rekumst við á þetta hugtak þar líka: Náttúra hins algjöra, segir Hegel þar, er að vera „veruleiki, gerandi eða sjálfsverðandi“. Hið algjöra er annað orð yfir sannleikann eða hið sanna hjá Hegel. Og þetta algjöra, segir Hegel okkur á báðum þessum stöðum í textanum, er þess eðlis að okkur ber ekki einvörðungu að líta á það sem verund heldur líka og ekki síður sem geranda. Þetta, segir Hegel, er að minnsta kosti eins og hann skilur hlutina („[s]amkvæmt mínum skilningi“, segir hann) en réttlætingin á þessu, á þessum skilningi, getur ekki orðið öðruvísi en með framsetningu kerfisins sjálfs. Meðal þess sem lesa má út úr því er hvernig hugmynd Hegels um heimspekina sem kerfisbundna heild sem hverfist um hið sögulega bítur í skottið á sér, svo að segja, og tekur að beinast að heimspeki Hegels sjálfs. Hver er sannleikur þessarar heimspeki, kerfisins sem hann reyndi að setja fram eða, svo gengið sé lengra, hvaða skilningur á heimspeki Hegels og/eða viðfangsefni hennar, heiminum sjálfum, mun reynast sá rétti þegar upp er staðið úr því að ekki virðist útséð um að skilningur Hegels sjálfs sé sá skilningur sem reynast muni réttur? Í fyrsta lagi hljótum við að draga þá ályktun að þessi sannleikur birtist hvergi annars staðar en í sögunni sjálfri, að sannleikurinn um Hegel verði ekki aðgreindur frá viðtökusögu Hegels, túlkun verka hans og beitingu þeirra. Í öðru lagi skiljum við að allur sannleikurinn um heimspeki Hegels kemur ekki fram „fyrr en í lokin“, þegar síðasta orðið hefur verið sagt (um heimspeki Hegels) og síðasta dáðin verið drýgð (í anda heimspeki Hegels). Í þriðja lagi sjáum við hvernig þessi áhorfsmál um heimspeki Hegels má skilja þannig að þau hafi víðari skírskotun og vísi að endingu til spurningarinnar um söguna sem slíka og möguleikann á því að framvinda hennar verði annað og meira en vélræn endurtekning þess sem á undan fór — saga án sögulegra tíma. Af öllu þessu flýtur þá að örlög heimspeki Hegels og þar með einnig viðfangs hennar, heimsins og sögunnar, eru enn óráðin — og að þessi örlög eru í senn spurningin um túlkun og viðtökur heimspeki Hegels. Enn getur komið í ljós að hún hafi verið innantóm vitleysa en hún gæti líka verið sannleikurinn sjálfur. Þannig er sjálf spurningin um sögulega framvindu innrituð í heimspeki Hegels og með fylgir spurningin um það hvort og þá hvernig hið sögulega eigi sér viðreisnar von — hvort tímarnir geti (ennþá, úr þessu) orðið sögulegir.

Í greinum sínum um söguspeki veltir Walter Benjamin fyrir sér spurningunni um gerandann í sögunni og þar með um möguleikann á sögulegum tímum. Að hætti sögulegrar efnishyggju í anda Marx, þekktasta arftaka Hegels, lítur Benjamin á söguna sem nokkurn veginn samfelldar hörmungar allrar alþýðu manna þar sem æ fleiri falla hungruð og snauð í valinn og eru fótum troðin. Jafnframt setur hann fram máttuga gagnrýni á framfarahyggju sem telur að allt sé í rauninni alltaf, og eiginlega samkvæmt skilgreiningu, á réttri leið. Hér verður aftur fyrir okkur túlkunarvandinn sem Hegel skildi eftir sig og í anda þeirrar túlkunar sem hér hefur verið haldið fram leitast Benjamin við að móta hugmynd um geranda sem nær þegar vel tekst til að rísa upp á móti hinu innihaldslausa framfarahugtaki og koma einhverju til leiðar „í baráttunni fyrir hina kúguðu fortíð“.7 Markmiðið er umbylting og uppreisn æru hinna kúguðu en slík viðleitni býr við þröngan kost með því að byltingin getur hvergi átt sér stað nema „á leikvangi þar sem ráðastéttin stjórnar og skipar fyrir“.8 Við slíkar aðstæður getur sagan, ef ekkert er að gert, ekki orðið annað en innantóm endurtekning, meira af því sem fyrir er, og hvers kyns gagnrýni er hjáróma og máttlítil. En það er einmitt í þessum litla eða veika mætti sem Benjamin virðist finna bjargráð sitt, sér í lagi ef hinum sögulega geranda tekst að tengjast sögunni þannig að honum lánist, þegar tækifærið gefst, að bregða á loft minningunni um horfna atburði og afreksverk hinna undirokuðu. Þannig getur orðið rof á hinni sléttu og felldu framvindu og vonin lifnar aftur — vonin um endurlausn. Benjamin skrifar:

Að klæða hið liðna í orð að hætti sagnfræðinnar felst ekki í því að bera kennsl á „hvernig það var í raun og veru“. Það felst í því að ná valdi á minningunni um það hvernig hið liðna birtist sem leiftur á stund hættunnar. Það sem sögulegri efnishyggju gengur til er að halda í mynd af fortíðinni eins og hún birtist sögulegum geranda alls óvænt á stund hættunnar. Hættan steðjar jafnt að inntaki hefðarinnar sem viðtakendum hennar. Hvorum tveggju er hún ein og sama hættan: að verða verkfæri ráðastéttarinnar. Á hverjum tíma verður að gera tilraun til þess að vinna arfleifðina á ný úr höndum fylgistefnunnar sem er í þann veginn að bera hana ofurliði.9

Á því skeiði sögunnar sem nú stendur yfir, þar sem mannkynið virðist hafa náð svo langt í viðleitni sinni til að raska vistkerfi jarðarinnar að vandséð er hvernig þetta sama mannkyn ætlar að lifa af þær hamfarir sem virðast þegar hafnar, á hugsun í anda þessara orða Benjamins brýnt erindi við mannverurnar sem nú byggja þessa jörð. Stund hættunnar er óneitanlega runnin upp en hvar er hinn sögulegi gerandi? Margt bendir til að hann sé að verða til og að hann eigi sér ýmis andlit á sviði umhverfismála, jafnréttisbaráttu og lýðræðiskrafna svo fáein dæmi séu nefnd og að hann muni ekki láta hugfallast í baráttu sinni fyrir framtíð þar sem mannveran, í krafti hugsunar sinnar, verður þess umkomin að hegða sér í sátt við þá skynsemi sem ekki býr einvörðungu í henni sjálfri heldur einnig í því sem hún kallar náttúru. Þarna er mikið í húfi og sögulegri verða tímarnir varla. Enn er spurt: Hvað er maðurinn? Svarið blasir ekki við enda þótt það megi vissulega heita álitamál hvort nándarmörk við endalok sögunnar séu að fullu virt.

  1. Þessi tvö hugtök eru hér — í anda Hegels — lögð að jöfnu. Í því felst að ekki er litið á heimspekina sem afmarkaða fræðigrein heldur er hún talin samheiti við þá hugsun sem býr í allri starfsemi mannlegra vitsmuna (vísindum, listum, trúarbrögðum o.s.frv.).
  2. Hér er eilítið textabrot sem hafa má til marks um þetta og um stílsnilld Kants sem margir hafa gert að íþrótt sinni að loka augunum fyrir: „Nú hefur komið í ljós að úr því að heimspekingar létu undir höfuð leggjast að þróa með sér svo mikið sem hugmyndina um vísindi sín var þeim ókleift að finna sér tiltekið takmark eða örugga leiðsögn í ástundun sinni á þeim, og eftir því hafa þeir, í fáfræði sinni um hvaða leið ætti að fara í þessari geðþóttakenndu viðleitni, ætíð verið á öndverðum meiði um uppgötvanir þær sem hver um sig hefur talið sig gera á sinni leið, með þeim afleiðingum að vísindi þeirra hafa vakið fyrirlitningu, fyrst hjá öðrum, en að lokum einnig meðal þeirra sjálfra.“ Sjá Immanuel Kant, Kritik der reinen Vernunft (Hamburg: Felix Meiner Verlag, 1993), 758 (B 872); þýðing greinarhöfundar.
  3. Þessi gagnrýni á Kant kom fram á sjónarsviðið um leið og hann birti kenningar sínar, og tók á sig ýmsar myndir. Samtímamenn hans á borð við Hamann og Jacobi gagnrýndu hann t.d. fyrir að kalla guðleysi yfir alþýðu manna og litu á hann sem stórhættulegan tómhyggjumann. Sjá ágæta greinargerð hjá Simon Critchley, Continental Philosophy: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2001), 2. kafla.
  4. G. W. F. Hegel, Formáli að Fyrirbærafræði andans, Skúli Pálsson þýddi (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2019), 57.
  5. Sama heimild, 56.
  6. Sama heimild, 56.
  7. Walter Benjamin, „Um söguhugtakið (Greinar um söguspeki)“, Guðsteinn Bjarnason þýddi, Hugur 17 (2005): 27–36, hér 35 (XVII. grein).
  8. Sama heimild, 33 (XIV. grein).
  9. Sama heimild, 29 (VI. grein).

Deila:

Annað efni