Skip to content
Óralangt frá fagurri kyrrð liðinna alda. Af andúð minni á sögulegum tímum
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Það var með blendnum huga síðastliðið vor sem ég samþykkti að leggja mitt af mörkum til næsta álitamáls Sögu og reyna að svara því hvað teldust sögulegir tímar. Í hreinskilni sagt var eina ástæða þess að ég lét til leiðast sú að skilafresturinn var ekki fyrr en í september. Líklega gerði ég mér í hugarlund að undir lok sumarsins væri ég orðin önnur og betri manneskja, manneskja af því tagi sem hefði ekki bara náð að mála gluggakistuna í svefnherberginu heldur einnig að mynda sér upplýsta og innblásna skoðun á því hvað teldist til sögulegra tíma og af hverju.

Þessar vonir hafa að sjálfsögðu ekki ræst. Gluggakistan er enn hin mesta hryggðarmynd og þegar ég velti fyrir mér frasanum „sögulegir tímar“ blasir við mér algjör auðn í mínu andans landslagi. Í vandræðum mínum hefur mér dottið í hug að kannski geti ég svindlað á spurningunni og reynt í staðinn að komast til botns í því af hverju ég hafi svo fátt að segja um aðra eins grundvallarspurningu.

Eftir íhugula ígrundun og djúpa sjálfsskoðun er niðurstaðan sú að ég tilheyri þeim sagnfræðingum sem er meinilla við sögulega tíma og finnst þeir langt fyrir neðan sína virðingu. Sögulegir tímar, það er eitthvað til að læra um í grunn- og menntaskóla. Um þá hafa verið gerðar endalaust margar bandarískar hasarmyndir og um þá eru skrifaðar langar Wikipedia-greinar þar sem sérlundaðir menn með grunsamlegt magn frítíma hafa fyllt inn nöfn, stærð og gerð seglskipa / skriðdreka / rómverskra þjóðvega og svo framvegis. Ég er sagnfræðingur sem hefur nákvæmlega engan áhuga á sögulegum tímum og mig grunar að ég sé ekki ein um það.

Sagnfræðingar vilja fyrst og fremst fjalla (og fræðast) um það sem enginn vissi áður. Eitthvert tímabil, samfélagssvið eða persónu sem ekki hefur áður fengið sitt verðskuldaða pláss í sviðsljósi sögunnar. Ef við þurfum að leggjast svo lágt að fjalla um sögulega tíma þá þarf það að minnsta kosti að vera út frá einhverju áður óþekktu og sérkennilegu sjónarhorni. Helst þurfum við að geta klykkt út svo sannarlega sjaldnast við um sögulega tíma. Að vísu búa íslenskir sagnfræðingar við þann munað að oft er nægilegt að bæta við vinklinum „á Íslandi“ til að fá nýtt sjónarhorn á sögulega tíma. Það eru kannski fá málefni í íslenskri sögu sem hafa verið rannsökuð í þaula, hvað þá að þau státi af mörgum bandarískum hasarmyndum eða of nákvæmum Wikipedia-greinum.

Önnur ástæða, en ekki ótengd, fyrir því að tilhugsunin um að svara þessari ágætu spurningu um eðli sögulegra tíma fyllti mig ósegjanlegum leiða í allt sumar er hin augljósa tenging álitamálsins við samtíma okkar sem ber jú öll merki þess að vera afar sögulegur tími. Mér finnst nútíminn að mörgu leyti óþolandi og aftur get ég ekki trúað því að ég sé eini sagnfræðingurinn á þeirri skoðun. Til nútímans hef ég fátt að sækja. Að mínu mati er það hámark sagnfræðilegrar ánægju að komast í samband við fortíð sem ég vissi ekki að hefði verið til eða áleit í það minnsta glataða og handan seilingar. Það að takast með krókaleiðum að raða saman takmörkuðum heimildum og skoða þær í ljósi flókinna fræðikenninga til að fá brotakennda mynd af einhverju afmörkuðu sviði tiltekins staðar og tíma, það er eitthvað sem vert er að sinna.

Samtími okkar árið 2020 býður hins vegar upp á offlæði upplýsinga. Það þarf til dæmis ekki lengur að skrifa grein og fá birta í dagblaði til að láta skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar í ljós. Það er nóg að velja úr sjö ólíkum andlitssvipum á Facebook-síðu fréttaveitunnar sem deilir tilteknum tíðindum. Vekur þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hjá þér hlátur, grátur, undrun, reiði, kærleiksríka umhyggju eða löngun til að rétta upp þumalinn til samþykkis? Allir hafa stöðug tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á hverju sem er. Fólk ræðir ekki aðeins atburði, menn og málefni við þá vini, fjölskyldumeðlimi og vinnufélaga sem það umgengst dagsdaglega heldur alla sem hafa fallið í þennan hóp um lífsleiðina. Í félagslegu mengi einnar fullorðinnar manneskju á samfélagsmiðli eru allt frá gömlum grunnskólafélögum upp í fólk sem tók þátt í helgarráðstefnu á Hótel Sögu árið 2012, líklega nokkur hundruð manns að minnsta kosti. Auðvitað er allt þetta fólk ekki í stöðugum samræðum um málefni á borð við nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar eða útbreiðslu heimilisofbeldis í samfélaginu en glymjandinn getur engu að síður orðið ansi mikill. Eins og kliður í stórri flugstöð þar sem ómögulegt er að heyra orðaskil, óralangt frá fagurri kyrrð liðinna alda.

Að sjálfsögðu er þessi munur á samtíð og fortíð að einhverju leyti ímyndaður, hugarburður miðaldafræðings í afneitun, skynvilla á borð við það að halda að nítjánda öldin hafi verið svarthvít því þannig lítur hún út á ljósmyndum. Fortíðin hefur aldrei verið kyrrlát og átakalaus. Það er til dæmis ekki svo að á fimmtándu öld hafi ekki orðið neinar sviptingar í íslenskum stjórnmálum, farsóttir hafi ekki gengið yfir, vopnuð átök ekki átt sér stað og fólk almennt ekki fundið til sterkra tilfinninga eða verið hjartanlega ósammála. Árin 1402–1404 gekk til að mynda plágan mikla yfir landið og gæti hafa banað allt að þriðjungi íbúa landsins sem fær óneitanlega ýmsa atburði samtímans til að blikna í samanburði. Það var á sömu öld, árið 1433, sem Íslendingar drekktu Skálholtsbiskupi í Brúará. Ef eitthvað viðlíka frásagnarvert hefur átt sér stað í íslenskri pólitík á mínum líftíma hefur það farið fram hjá mér. Þó árið sé að vísu enn ekki liðið finnst mér í hæsta máta ólíklegt að 2020 muni koma til með að státa af einhverju svo dramatísku. Að vísu játa ég að ég sperrti eyrun í sumar þegar öll ríkisstjórnin eins og hún lagði sig þurfti að fara í sóttkví eftir að hafa snætt kvöldverð á sunnlensku hóteli. En ekki tókst íslenskum stjórnvöldum að skrá sig á spjöld sögunnar í það sinn. Það veiktist ekki einn einasti ráðherra, hvað þá öll ríkisstjórnin í einu.

Ef gengið er út frá þessum tveimur aðskildu dæmum, plágunni miklu og morðinu á Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi, má auðveldlega komast að þeirri niðurstöðu að okkar nánasti samtími sé ekki svo ýkja sögulegur samanborið við þá gullnámu sem Ísland á fimmtándu öld var. Þó að atburðir fimmtándu aldar á Íslandi státi kannski ekki af mörgum kvikmyndaaðlögunum og Wikipedia- greinum mætti ætla að það væri til nóg af bókum, fræðigreinum og lokaritgerðum um pláguna miklu og morðið á Jóni Gerrekssyni. Svo er þó ekki því íslenskt samfélag á fimmtándu öld gat af sér fáar og fáorðar heimildir sem gerir það að verkum að þetta tímabil fær sjaldan mikið vægi í Íslandssögunni. Plágan mikla rétt svo slagar upp í sjö blaðsíður í yfirlitsritunum um Sögu Íslands og það með myndskreytingum og töluverðum endurtekningum á beinum tilvitnunum.1 Enda er svo sem ekki margt að segja um atburði sem einungis er getið í þremur stuttorðum annálum og tveimur bænarbréfum. Enn verra er með morðið á Skálholtsbiskupi en einu heimildirnar um það eru þrír annálar sem ritaðir voru um 150–200 árum síðar.2 Þar af leiðandi eru ástæðurnar að baki þeim átökum getgátur einar.

Því hlýtur fyrirbærið „sögulegir tímar“ að einhverju leyti að vera blekkjandi. Í því felst ekki endilega að svo margt og merkilegt hafi gerst heldur að til séu margar frásagnir af því sem gerðist. Það má alveg velta því fyrir sér hvort árið 2020 hafi burði til að verða sögulegur tími þegar fram líða stundir. Flæði upplýsinga er mikið og okkur gefst auðveldlega kostur á að gefa álit okkar á þeim upplýsingum en varðveisla þessa mikla upplýsingaflóðs gæti vel farið forgörðum. Þar fyrir utan er umhverfið sem við búum við í dag ekki af þeim toga að það hvetji okkur til að setja niður hugsanir okkar, skoðanir og upplifanir á heildstæðan hátt. Ég verð oft undrandi þegar ég geri mér grein fyrir því hversu mörgum ég hef sent skrifleg skilaboð á einum degi en það eru sjaldnast meira en stakar setningar sem erfitt er að skilja án þess að þekkja til þess samhengis sem þær eru sprottnar úr. Þegar ég hugsa til þeirra heimilda sem ég læt eftir mig um upplifun mína á kórónuveirufaraldrinum hugsa ég að um fjórðungur þeirra samanstandi af setningunum „haha já“ og „úff nei“ eða tilbrigðum við þær.

Þær heimildir sem við framleiðum um daglegt líf okkar og viðbrögð við atburðum, stórum sem smáum, eru þess eðlis að oftar en ekki þarf að þekkja vel til samhengis til að skilja þær. Samhengi er iðulega það fyrsta sem hverfur þegar heimildir fara í gegnum hakkavél tímans. Hvernig mun átta manna hópspjallið mitt á Messenger, sem hefur líklega gengið í ein níu ár þegar þetta er skrifað, líta út eftir 100 ár eða 500 að því gefnu að það varðveitist einhvers staðar? Uppfullt af hlekkjum yfir á síður sem hljóta að hverfa, gif sem munu hverfa, myndbönd sem ekki verður hægt að spila, örstuttum vísunum í eitthvað sem átti sér stað í raunheimum, í einum hrærigraut við öll okkar „hehe já“? Sem betur fer hafa ýmsir aðilar stundað markvissa heimildasöfnun á þeim aðstæðum sem sköpuðust í faraldrinum, til að mynda dagskrárgerðarfólk Ríkisútvarpsins með viðtölum sínum við fólk úr ólíkum áttum samfélagsins og handritadeild Landsbókasafns með hvatningu sinni til fólks að halda heimildum um þessa tíma til haga og afhenda til varðveislu, og vonandi munu þessar heimildir varðveitast. En þessar persónulegu heimildir munu líklega heyra til undantekninga því þær verða ekki til nema með sérstöku átaki.

En miðað við fyrri yfirlýsingar mínar í þessum pistli, um að ég kjósi heldur fáar heimildir og brotakenndar yfir hamslaust flæði upplýsinga, þá ætti ég kannski að gleðjast yfir þeirri tilhugsun að fáar persónulegar heimildir um mína eigin upplifun af þessum heimsfaraldri muni koma til með að varðveitast. Mánuðina og jafnvel árin þegar ég hitti sem fæsta, hafði áhyggjur af sameiginlegum snertiflötum og því hvort ég væri nokkuð óvart að anda á einhvern í strætó. Tíminn þegar allt var á fleygiferð í umheiminum en hin daglega tilvera virtist standa í stað og hver dagur var öðrum líkur. Þessir sögulegu tímar sem við höfum upplifað eru svo skelfilega leiðinlegir að ég get ekki annað en vonað fyrir hönd framtíðarsagnfræðinga að þeir hverfi undir dularfulla hulu algers heimildaleysis sem gæti þá ljáð þeim einhvern sjarma.

Kannski er er ég líka eftir allt saman of fljótfær á mér að gera ráð fyrir að heimsfaraldur kórónuveirunnar geri það að verkum að samtími okkar teljist til sögulegra tíma umfram önnur tímabil. Ef til vill felur sá hugsanagangur í sér óhóflega bjartsýni um að þetta ástand sé tímabundið, afmarkað og óvenjulegt. Ef til vill munu sagnfræðingar næstu alda ekki líta aftur til ársins 2020 af áhuga vegna þess að fólk hafi óttast um líf sitt og heilsu og ríki sligast undan efnahagslegri óvissu og átökum í stjórnmálum. Ef til vill munu sagnfræðingar framtíðar ekki taka andköf yfir þeim viðbrigðum sem urðu árið sem fólk gat ekki farið í frí til útlanda. Þegar allt kemur til alls á allt þetta við um mannkynssöguna eins og hún leggur sig. Bráðsmitandi og mannskæðar farsóttir, sér í lagi, hafa verið hluti af mennskri tilveru allt frá því mannskepnan tók að mynda þéttbýl samfélög. Fyrir utan eitt örstutt tímabil, frá lokum spænsku veikinnar til upphafs kórónuveirunnar. Kannski var það hinn sögulegi tími, nema hvað við vissum það ekki þá.

Tilvísanir:

  1. Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir, „Enska öldin,“ í Saga Íslands V, ritstj. Sigurður Líndal (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélag, 1990)m 5–12.
  2. Sama heimild, 58–59.

Deila:

Annað efni