Skip to content
Persónulegar heimildir á skjalasöfnum. Söfnun aðgengi útgáfa
Bragi Þorgrímur Ólafsson

Aðgengi og útgáfa á persónulegum heimildum í sögulegu ljósi

Aðgengi að heimildum í handrita- og skjalasöfnum og málefni persónuverndar hafa lengi verið til umræðu hér á landi. Í reglugerð um Þjóðskjalasafn frá 1916 (5/1916) segir að ekki sé leyfilegt að nota skjöl sem eru yngri en 35 ára í heild sinni en skjalavörður geti þó heimilað notkun þeirra „að honum þyki það óhætt, en jafnan getur hann krafist skýlausrar yfirlýsingar þess, er nota vill, að eigi ætli sá að beita skjölum þeim til vanvirðu eða skapraunar neinum manni, er þá sje enn á lífi, nje nánustu vandamönnum hans“ (5. gr.).1 Í handritasafni Landsbókasafns voru yngri bréfasöfn ekki aðgengileg

„fyrst um sinn“ eins og segir í prentuðum skrám safnsins og þar var þeirri meginreglu fylgt að birta ekki nöfn bréfritara í skránum ef skjalamyndarinn lifði fram yfir aldamótin 1900.2 Þá settu gefendur stundum fram ákvæði um hvenær mætti gera söfn þeirra aðgengileg.3 Þessar ráðstafanir áttu að sporna gegn því að viðkvæm persónumálefni yrðu gerð aðgengileg og ef til vill birt í skrifum blaða- eða fræðimanna.

Slík birting á persónulegum málefnum hefur einnig verið nokkuð til umræðu í áranna rás. Árið 1907 gaf Jón Helgason biskup út bréf afa síns, Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns. Í inngangi ræddi Jón um útgáfuna og skrifaði:

Ég geng að því alveg vísu, að afa mínum sáluga hafi aldrei til hugar komið, er hann reit bréf þessi, að þau mundu nokkurn tíma prentuð verða, og allra sízt búist við, að dóttursonur sinn mundi gera sér þann„grikk“ að leggja fram fyrir allra augu það, sem einum var ætlað, og ef til vill var ráð fyrir gert að „brenndi bréfið“, er hann hefði kynnt sér innihald þess. Allar líkur eru til, að hann hefði lagt blátt bann við slíku.4

Engu að síður ákvað Jón að gefa bréfin út enda taldi hann að þau væru fengur fyrir þjóðina sem Tómas „elskaði svo heitt og bar svo einlæglega fyrir brjósti“ eins og hann komst að orði.5 Heimildagildi bréfa kom líka til tals í fyrirlestri sem Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi hélt hjá Stúdentafélagi Reykjavíkur í febrúar 1918.6 Þar benti hann á að sendibréf væru ekki aðeins mikilvægar heimildir fyrir sögu einstakra bréfritara heldur væri það líka „viðburðasagan, málssagan, bókmenntasagan og öll menningarsagan, í einu orði sagt“ sem nyti góðs af sendibréfum sem heimildum.7 Jón bætti við:

Við þurfum að eiga sem fyllsta frásögn ekki eingöngu um alla mikilsverða viðburði og einstaka menn, sem við þá viðburði koma, heldur og um einstaklinga í hópum og heild, daglegt líf og heimilishætti manna á öllum tímum og allt, sem að því lýtur, skapferli og hugsunarhátt sem flestra einstaklinga í þeirri heild.8

Þá taldi Jón mikilvægt að varðveita hvers kyns sendibréf enda væru þau „oft eina eigin frásögn, sem til er, jafnvel heilla stétta“.9 Jón lagði þannig mikla áherslu á varðveislu bréfasafna og benti á möguleikann á því að „eftirkomendur okkar finni einhverjar nýjar hliðar á bréfunum, sem við höfum ekki fundið eða okkur hugsast“.10 Jón var því talsmaður þeirra sjónarmiða að safna og varðveita bréfasöfn frá sem flestum þjóðfélagshópum og dró úr mikilvægi þeirra trúnaðarmála sem þar gætu komið fram: „þessi svokölluðu leyndarmál eru venjulegast einhver atvik, sem oftast varða sendanda eða viðtakanda, og eiga að fara dult í þann og þann svipinn, en eftir 1 eða 2 ár eða lengri tíma eru þetta engin leyndarmál framar.“11 Þó væri hægt að takmarka aðgengi að slíkum bréfum ef fólki hugnaðist svo. Helst vildi Jón að sett yrði á fót sérstakt „Sendibréfasafn“ við hlið Landsbókasafns sem myndi gefa árlega út úrval bréfa þekktra og óþekktra einstaklinga.12 Fimmtán árum síðar ræddi Páll Eggert Ólason stuttlega um gildi sendibréfa sem heimilda í eftirmála að lokabindi ævisögu sinnar um Jón Sigurðsson þar sem hann taldi að sá háttur væri farinn að ryðja sér til rúms á Íslandi að „tína fram ýmsar svívirðingar úr sendibréfum liðinna daga eða einkamál manna, sem þeir hafa birt í trúnaði til að kitla lesendur“.13 Páll virðist enn fremur hafa verið þeirrar skoðunar að ekki bæri að safna heimildum frá hinum ýmsu þjóðfélagshópum, því í ævisögunni taldi hann það miður að Jón Sigurðsson hefði ekki haldið dagbók sem hefði auðveldað fræðimönnum rannsóknir á ævi hans en bætti við: „þó að menn eftir á verði fegnir því að sjá hann ekki í þvögu þeirra manna, sem fylla bókhlöður með dagbókum og minnisbókum eða endurminningum sinnar oftast fánýtu ævi.“14

Fram eftir tuttugustu öld voru fjölmörg bréfasöfn gefin út, sérstaklega í ritröðinni Íslensk sendibréf sem Finnur Sigmundsson landsbókavörður gaf út í sjö bindum á árunum 1957–1966. Ritröðin var afar vinsæl og hefur reynst fræðimönnum mikilvægur heimildaforði um hin fjölbreyttustu viðfangsefni Íslandssögunnar. Finnur leitaði einkum fanga í handritasafni Landsbókasafns og gaf út bréf frá síðari hluta átjándu aldar og fram á fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu en lagði áherslu á að ekki ætti að gefa út bréfasöfn einstaklinga sem væru of nærri samtímanum nema með leyfi aðstandenda.15 Einn greinarhöfundur, Jóhann Briem listmálari, taldi þó að bréfin í ritröðinni væru að mestu „þýðingarlaust rabb um einskinsverða hluti“ og áleit að nokkur bréf í bókinni Konur skrifa bréf (1961) væru fullung og hefðu að geyma óstaðfestar sögusagnir um nafngreinda menn og ritaði: „Það ófremdarástand þekkist hvergi nema hér á landi, að Pétri og Páli sé leyft að gramsa og snuðra í bréfasöfnum og skjalasöfnum, og það síðan látið eiga sig, hvort þeir misnoti þær heimildir eða ekki.“16 Finnur svaraði þessum aðfinnslum. Hann taldi að umrædd bréf væru í léttum dúr og að efni þeirra bæri að skoða í því samhengi. Hann benti jafnframt á að öllum væri heimill aðgangur að bréfasöfnum sem hefðu verið afhent safninu án kvaða og sömuleiðis að útgáfa væri heimil ef 50 ár væru liðin frá andláti bréfritara.17 Sjá má að Finnur og Jóhann litu á heimildirnar með ólíkum hætti en engir eftirmálar virðast hafa verið af þessum blaðaskrifum.

Nokkrum árum áður hafði Finnur gefið út dagbók Ólafs Davíðssonar náttúrufræðings og þjóðsagnasafnara en sleppti þar nokkrum köflum, meðal annars þar sem Ólafur fjallaði um tilfinningar sínar gagnvart öðrum skólapilti.18 Dagbókin kom út í heild sinni árið 2018 í útgáfu Þorsteins Vilhjálmssonar fornfræðings sem telur að þeir kaflar dagbókarinnar felli hana „í flokk sjaldgæfra heimilda á alþjóðlegan mælikvarða“ enda sé þar að finna sjálfstjáningu gagnvart elskhuga af sama kyni frá því um 1881–1882.19 Þá hefur Þorvaldur Kristinsson bókmennta- og kynjafræðingur sett dagbók Ólafs í samhengi við réttindabaráttu samkynhneigðra og sýnileika þeirra — og annarra þjóðfélagshópa — í sögunni.20 Persónulegar heimildir geyma þannig oft mikilvæga vitnisburði frá þjóðfélagshópum sem lítið eða ekkert hefur varðveist frá að öðru leyti.21

Samtímafólk og samtímasaga

Aðgengi að persónulegum heimildum í handrita- og skjalasöfnum, útgáfa þeirra og málefni persónuverndar hefur því lengi verið til umræðu og hér hafa aðeins nokkur dæmi verið nefnd. Persónulegar heimildir er einkum að finna í einkaskjalasöfnum sem varðveitt eru á mörgum söfnum víða um land, aðallega í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafni og á héraðs- skjalasöfnum.22 Þar eru þúsundir einkaskjalasafna varðveitt og eru þau af ýmsum stærðum og gerðum. Sum hafa aðeins að geyma örfá bréf, dagbækur eða önnur gögn á meðan önnur fylla tugi hillumetra og eru frá fólki úr mörgum þjóðfélagshópum.

Einkaskjalasöfn eru ólík opinberum skjalasöfnum að því leyti að þau eru afhent án lagaskyldu, þ.e. þau eru yfirleitt afhent af skjalamyndara eða afkomendum hans beinlínis í því skyni að vera varðveitt og notuð og eru talin vera heimildir um samtíma sinn, mannlíf og persónusögu með einum eða öðrum hætti. Við afhendingu eru stundum sett fram ákvæði um að gögnunum skuli haldið lokuðum um ákveðið árabil en yfirleitt er það ósk afhendingaraðila að þau skulu vera opin og nýtt til rannsókna frá fyrsta degi. Fyrir vikið hafa mörg einkaskjalasöfn nýst við hvers kyns sagnfræðirannsóknir, ævisagnaritun og héraðssögu og má segja að yngri einkaskjalasöfn varpi oft skýrara ljósi á samtímasöguna en ýmsar aðrar heimildir. En í nálægð yngri einkaskjalasafna við samtímann er fólginn bæði kostur og galli því í þeim gæti verið að finna persónulegar upplýsingar núlifandi eða nýlátins fólks. Þá þarf að taka mið af lögum um opinber skjalasöfn (77/2014) þar sem segir að gögn sem hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar skuli vera lokuð í 80 ár frá því að þau urðu til nema sá eða sú samþykki aðgengi sem í hlut á (26. gr.), en í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (90/2018) eru viðkvæmar persónuupplýsingar skilgreindar (3. gr, 3. tl.). Þó er hægt að sækja um aðgangsleyfi fyrir rannsóknir á þeim söfnum skv. 32. gr. grein laga um opinber skjalasöfn. Jafnframt má benda á að notendur slíkra safna eru bundnir af ákvæðum um friðhelgi einkalífs í stjórnarskránni (33/1944, 71. grein) og almennum hegningarlögum (19/1940, 25. kafla). Þá hefur Sagnfræðingafélag Íslands sett sér siðareglur þar sem eru ákvæði um notkun persónulegra heimilda (3. kafli).23

Ólík sjónarhorn

Umræðan um aðgengi að persónulegum heimildum á handrita- og skjalasöfnum er hluti af stærri heild sem lýtur að sameiginlegu minni, þ.e. hvers konar efni samfélagið vill safna til að draga upp trúverðuga mynd af viðburðum, mannlífi og tíðaranda fortíðarinnar, og hversu aðgengilegt það eigi að vera, notað og nýtt til útgáfu. Sjá má að þar hafa togast á ýmis sjónarmið.

Í fyrsta lagi má nefna ólík sjónarhorn á hvers konar efni beri að safna og varðveita til framtíðar. Hér að framan kom fram að sumir hafa einkum viljað safna gögnum frá frammámönnum og merkisfólki á meðan aðrir hafa talið æskilegt að safna sem fjölbreyttustu efni frá sem flestum þjóðfélagshópum til að gefa þeim rými og rödd í sögunni.

Í öðru lagi má sjá ákveðna togstreitu á milli þess að varðveita persónulegt efni annars vegar og gera það aðgengilegt hins vegar. Í því samhengi má benda á að í siðareglum Alþjóðaskjalaráðsins (International Council on Archives) er kveðið á um að skjalaverðir skuli í senn stuðla að góðu aðgengi að skjölum en á sama tíma virða einkalíf þeirra sem eiga í hlut.24 Ávallt hefur verið lögð áhersla á að notkun persónulegra heimilda megi ekki vera neinum til vansa — samanber fyrrnefnda reglugerð um Þjóðskjalasafn frá 1916 — en tíðarandi breytist og mat manna og túlkun á persónulegum heimildum getur verið ólík eins og Anna Agnarsdóttir benti á árið 1999 í inngangsorðum sínum að heimildaritröð Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands: „Frumheimildir breytast ekki en túlkun og úrvinnsla fræðimanna á þeim breytist frá einni kynslóð til annarrar, frá einum manni til annars.“25

Í þriðja lagi má greina ólík sjónarhorn á útgáfu persónulegra heimilda. Sumir telja að útgáfa á efni þar sem finna má lýsingar á persónulegum högum og hversdagslífi sé áhugavert innlegg um liðna tíð á meðan aðrir álíta það hinn mesta óþarfa, jafnvel óviðeigandi.26 Þar virðist þó sú afstaða vera nokkuð ríkjandi að eftir því sem frá líður verði hvers kyns persónulegar lýsingar minna viðkvæmar og gefi áhugaverða innsýn inn í liðna tíð. Böðvar Guðmundsson rithöfundur ræddi það sjónarmið nokkuð í útgáfu sinni á bréfum Vesturfara árið 2001 þar sem hann taldi að útgefendur reyndu ávallt að fara eftir almennu siðferði í útgáfu á persónulegum heimildum og bætti við: „en við vorum einnig útbúin með sterka löngun til að vita hvernig heimurinn er, var og verður. Hvers vegna flutti fólk t.d. frá Evrópu til Ameríku? Hvers konar fólk var þetta? Hvernig var tungutak þess? Hvernig hugsaði það?“27 Þarna togast því á sjónarmið um annars vegar vernd persónulegra upplýsinga sem finna má í heimildum á borð við bréf og dagbækur og hins vegar fróðleiksleit um fólk, viðburði og hugarfar fyrri tíma.

Söfnun, aðgengi og útgáfa á persónulegum heimildum á skjala- og handritasöfnum eru því nátengd og hluti af því hvernig samfélagið vill varðveita, skýra og segja sögu sína en þar hafa persónu legar heimildir verið nýttar í auknum mæli bæði hér og erlendis.28 Þar þarf í senn að taka tillit til rétt fólks til einkalífs en jafnframt að tryggja að kleift sé að stunda rannsóknir á samtímasögu og að hægt sé að draga sögu ýmissa þjóðfélagshópa fram í dagsljósið sem ekki hafa hlotið þann sess áður.29

  1. Stjórnartíðindi 1916 A, bls. 8–11.
  2. Handritasafn Landsbókasafnsins III. aukabindi. Samið hafa Grímur M. Helgason og Lárus H. Blöndal (Reykjavík: Landsbókasafn Íslands 1970), bls. 112. Sjá t.d. bréfasafn Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar (Lbs 4195–4217 4to). Í skrá yfir handritasafnið segir að það sé ekki til afnota „fyrst um sinn“ og því séu bréfritarar ekki tilgreindir í skránni.
  3. Eitt elsta dæmi um slíkt safn sem varðveitt er hérlendis er bréfasafn L. A. Kriegers stiftamtmanns (Lbs 165–166 4to) sem hafði mælt svo fyrir að ekki mætti opna það fyrr en 40 árum eftir andlát sitt, en hann lést árið 1838. Þekktasta dæmið er sennilega bréfasafn Erlendar Guðmundssonar í Unuhúsi sem var afhent Landsbókasafni árið 1967 og mátti ekki opna fyrr en árið 2000. Sjá: Ögmundur Helgason, „„Morgunverður með Erlendi í Unuhúsi“ 29. janúar 2000“, Ritmennt 5 (2000), bls. 148–153. Þá má nefna að á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er varðveittur pakki frá Davíð Stefánssyni skáldi þar sem á stendur: „Má opnast ef atómsprengjur falla á landið. Annars ekki fyrr en 2250.“ Sjá: Sigurður Bogi Sævarsson, „Leyndardómur þjóðskáldanna“, Dagur 26. febrúar 2000, bls. 22.
  4. Tómas Sæmundsson, Bréf Tómasar Sæmundssonar. Gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní 1907. Búið hefir til prentunar Jón Helgason (Reykjavík: Sigurður Kristjánsson 1907), bls. iii.
  5. Sama heimild, bls. iii.
  6. Jón Sigurðsson, „Um sendibréf“, Skírnir 92 (1918), bls. 325344.
  7. Sama heimild, bls. 331.
  8. Sama heimild, bls. 333.
  9. Sama heimild, bls. 333.
  10. Sama heimild, bls. 337.
  11. Sama heimild, bls. 339.
  12. Sama heimild, bls. 343.
  13. Páll Eggert Ólason, Jón Sigurðsson V. Síðasti áfangi (Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag 1933), bls. 424.
  14. Páll Eggert Ólason, Jón Sigurðsson I. Viðbúnaður (Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag 1929), bls. 363.
  15. „Í sendibréfunum kemur bréfritarinn til dyranna eins og hann er klæddur. Viðtal við Finn Sigmundsson fyrrv. landsbókav.“, Vísir 21. desember 1964, bls. 22.
  16. Jóhann Briem, „Varðveizla Landsbókavarðar á bréfasöfnum“, Vísir 3. mars 1962, bls. 6.
  17. Finnur Sigmundsson, „Jóhann Briem og sendibréfin“, Vísir 5. mars 1962, bls. 10.
  18. Ólafur Davíðsson, Ég læt allt fjúka. Sendibréf og dagbókarbrot frá skólaárunum. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1955). Dagbók Ólafs er varðveitt í Lbs 2686 8vo.
  19. Þorsteinn Vilhjálmsson, „Inngangur“, Ólafur Davíðsson, Hundakæti. Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881–1884. Þorsteinn Vilhjálmsson annaðist útgáfuna (Reykjavík: Mál og menning 2018), bls. 530, hér bls. 18. Sjá einnig: Þorsteinn Antonsson, „Sveinaást“, Lesbók Morgunblaðsins 22. október 1988, bls. 45.
  20. Vef. Þorvaldur Kristinsson, „„Loksins varð ég þó skotinn!“ Um leynda staði í dagbók Ólafs Davíðssonar“, https://samkynhneigd.is/pistlar/336-loksins- vard-eg-tho-skotinn, 23. ágúst 2019. Sjá einnig um hlut kvenna í skráningu handrita í handritasafni Landsbókasafns á fyrri hluta tuttugustu aldar: Guðný Hallgrímsdóttir, Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 16. Ritstj. Sigurður Gylfi Magnússon, Davíð Ólafsson og Már Jónsson (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2013), bls. 1531.
  21. Sjá t.d. verkefnið Hinsegin huldukonur. Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1960: Vef. https://www.huldukonur.is, 23. ágúst 2019.
  22. Sjá t.d. vefinn einkaskjalasafn.is: Vef. http://einkaskjalasafn.is, 23. ágúst 2019.
  23. Vef. Codex Ethicus — Sagnfræðingafélags Íslands, http://www.sagnfraedinga felag.net/sidareglur, 23. ágúst 2019.
  24. Vef. ICA Code of Ethics, https://www.ica.org/en/ica-code-ethics (liður 6 og 7).
  25. Anna Agnarsdóttir, [Inngangsorð], Magnús Stephensen, Ræður Hjálmars á Bjargi fyrir börnum sínum um fremd, kosti og annmarka allra stétta, og um þeirra almennustu gjöld og tekjur. Örn Hrafnkelsson bjó til prentunar. Heimildasafn Sagnfræðistofnunar. Ritstj. Anna Agnarsdóttir (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1999), bls. ii.
  26. Þetta má tengja við umræðuna um notkun persónulegra heimilda við ævisagnaritun. Sjá: Guðni Th. Jóhannesson, „Hefurðu heimild? Skráð og óskráð lög um ævisagnaritun“, Tímarit Máls og menningar 72:1 (2011), bls. 4050.
  27. Böðvar Guðmundsson, Bréf Vestur-Íslendinga I (Reykjavík: Mál og menning 2001), bls. xxiv.
  28. Sigurður Gylfi Magnússon og István Szijártó, What is Microhistory? Theory and Practice (London & New york: Routledge 2016), bls. 134.
  29. Sjá t.d.: Vef. Guðni Th. Jóhannesson, „Skjöl skapa þjóð. Landsbókasafnið og mótun minninga í aldir tvær“, Forseti Íslands 11. janúar 2018, https://www. forseti.is/media/3051/2018_01_11_landsbokasafn.pdf, 23. ágúst 2019.

Deila:

Annað efni