Skip to content
Send í sveit - þetta var í þjóðarsálinni [ritdómur]
Dalrún J. Eygerðardóttir
Send í sveit – þetta var í þjóðarsálinni [ritdómur]

Úr Sögu LVIII:I (2020).

Ritstj. Jónína Einarsdóttir og Geir Gunnlaugsson. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 2019. 435 bls. Ljósmyndir, gröf, töflur, mynda- og töfluskrá, atriðaorðaskrá. Jónína Einarsdóttir, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir og Geir Gunnlaugsson, SEND Í SVEIT. SÚRT, SALTAÐ OG HEIMABAKAÐ. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 2019. 154 bls. Ljósmyndir, gröf, ljósmyndaskrá, atriðaorðaskrá.

Bækurnar tvær sem bera yfirskriftina Send í sveit fjalla báðar um þá íslensku hefð að senda börn til sumardvalar í sveit. Bækurnar byggja á rannsóknarverkefninu Óháður flutningur íslenskra barna á 20. öldinni en að því kom fjöldi fræðimanna af ólíkum fræðasviðum. Fyrri bókin, Send í sveit — þetta var í þjóðarsálinni, er fræðilegri og ítarlegri umfjöllun um sumardvöl barna í sveit. Seinni bókin, Send í sveit. Súrt, saltað og heimabakað, er almennari og styttri umfjöllun um efnið þar sem meiri áhersla er lögð á myndræna framsetningu efnisins meðal annars með birtingu 86 ljósmynda. Í síðari bókinni er meira um beinar tilvitnanir í heimildir, sem settar eru fram á afmörkuðum litagrunni til aðgreiningar frá megintexta bókarinnar. Mest ber á tilvitnunum úr viðtölum sem tekin voru við einstaklinga sem voru sendir í sveit sem börn en einnig má nefna tilvísanir úr sendibréfum, skáldverkum, endurminningum og greinaskrifum sem gefa lesendum innsýn í þennan sið.

Hér verður sjónum fyrst og fremst beint að fyrri bókinni, Send í sveit — þetta var í þjóðarsálinni, sem eins og áður segir fjallar á ítarlegri og fræðilegri máta um siðinn að senda börn í sveit. Í bókinni eru settar fram niðurstöður fyrrnefnds rannsóknarverkefnis auk þess sem gerð er grein fyrir fræðilegum bakgrunni og aðferðafræði rannsóknarinnar. Uppbygging bókarinnar grundvallast á 12 köflum sem skrifaðir eru af mismunandi höfundum auk viðauka. Í ljósi þess að höfundar bókarinnar hafa margs konar fræðilegan bakgrunn þá er eðlilegt að margs konar sjónarhorn og efnistök komi fram í köflunum 12 og eykur það gildi hennar. Enda þótt sérfræðingar sem standa að baki rannsókninni séu af fjölbreyttum toga þá er hlutur mannfræðinga þar drýgstur og því eðlilegt að áherslur mannfræðinnar sjáist glögglega í framsetningu bókarinnar.

Heildarmarkmið bókarinnar er að kortleggja siðinn að senda börn í sveit á tuttugustu öldinni. Hver kafli nálgast það markmið bókarinnar út frá ólíkum viðfangsefnum og gögnum og með því að svara eftirfarandi spurningum sem kynntar eru í inngangskaflanum: „Hvaðan kemur þessi siður? Hver er reynslan af honum? Hver var aðkoma stjórnvalda og áhrif þeirra á umfang og framkvæmd siðarins? Mætti skilgreina siðinn sem mansal barna í samræmi við alþjóðleg viðmið, eða er nærtækara að líta á hann sem menningararf þjóðarinnar?“ (bls. 2).

Sem dæmi um efni sem sérstaklega er tekið til umfjöllunar í bókinni má nefna ríkjandi hugmyndir um uppeldishlutverk sveitanna. Í þeirri umfjöllun reyna höfundar að varpa ljósi á hvað lá til grundvallar þeim sið að senda þéttbýlisbörn í sveit og setja siðinn í sögulegt og menningarlegt samhengi en sú framsetning er leyst vel af hendi. Rannsóknin sýndi fram á að það væri ríkjandi viðhorf meðal landsmanna að sveitadvöl þéttbýlisbarna hefði almennt skilað þeim auknum þroska og væri dæmi um mikilvægan sið sem markað hefði sitt spor í þjóðarsálina. Einnig má nefna umfjöllun bókarinnar um sveitadvalir sem félagslegt úrræði fyrir börn úr þéttbýli sem bjuggu við erfiðar félagslegar aðstæður. Meðal annars er fjallað um þær stofnanir er sinntu þeim málum að útvega börnum sem þannig var ástatt um vist í sveit. Í bókinni er jafnframt fjallað um störfin sem börnin leystu af hendi á meðan á sumardvöl þeirra stóð og kynbundna verkaskiptingu. Í ljós kom að stúlkur þurftu að mestu leyti að sinna inniverkunum en drengir sinntu oftar útiverkunum — óháð því að stúlkunum leiddist oftast inniverkin. Fjallað er um umfang starfanna, hve erfið þau voru börnunum og hvernig þau fengu greitt. Enn annað viðfangsefni bókarinnar er upplifun barna sem voru í sveit af því að dvelja langtímum saman fjarri heimahögum sínum. Í því sambandi er meðal annars fjallað um hvernig börn upplifðu mótlæti sem þau gátu orðið fyrir á bæjunum á meðan dvölinni stóð, svo sem í formi stríðni eða jafnvel ofbeldis. Í þeirri frásögn kemur í ljós að dvöl barnanna í sveitum landsins var ekki alltaf sæludvöl. Í þessum ritdómi gefst ekki tækifæri til að reifa allt efni bókarinnar en til viðbótar áðurnefndu er rétt að nefna þann samanburð sem er að finna út í gegnum bókina á menningarlegu og félagslegu umhverfi, annars vegar þéttbýlisins og hins vegar sveitarinnar. Ein skýrasta birtingarmyndin er í frásögnum einstaklinga sem sendir voru til sumardvalar í sveit og upplifðu þar nýtt umhverfi til dæmis í tengslum við þætti á borð við mataræði.

Öll umfjöllun um aðferðafræði, heimildavinnu og fræðilega nálgun rannsóknarinnar er til fyrirmyndar í bókinni. Framsetning á heimildum vitnar um það að vel hefur verið staðið að vinnslu og meðferð þeirra. Rannsóknargögnin sem stuðst er við eru af ýmsum toga svo sem munnleg, rituð og sjónræn gögn er gefa sýn á siðinn að senda börn í sveit. Af þeim gögnum sem safnað var sérstaklega vegna bókarinnar má geta opinna einstaklingsviðtala við um það bil 100 einstaklinga sem tengdust á einn eða annan máta siðnum að senda börn til dvalar í sveit. Þessu til viðbótar má benda á spurningakönnun sem send var á 2.000 manna hóp sem valinn hafði verið sem slembiúrtak úr þjóðskrá Íslands. Því grundvallast rannsóknin að stóru leyti á minningum einstaklinga af þessum sið og birtast lesendum bæði í rituðu formi og í formi tölulegra gagna. Af fyrirliggjandi gögnum sem rannsakendur byggðu á voru meðal annars heimildir úr ranni bókmennta sem endurspegla með ýmsum hætti þennan sið og tímaritsgreinar sem varpa ljósi á afstöðu fólks til hans. Því til viðbótar var notast við hinar ýmsu rannsóknir sem tengdust beint eða óbeint efni bókarinnar, til dæmis rannsóknir á félagsgerð landbúnaðarsamfélagsins og viðhorfum barna auk rannsókna þar sem barnaverndarmál og ofbeldi gegn börnum var meginefnið.

Umfjöllunarefni bókarinnar hefur fram til þessa lítið verið rannsakað. Það er því fengur að þessu riti og það gefur möguleika á frekari rannsóknum. Rannsóknin sem bókin byggir á fellur undir svið barnafræða og á að hluta til rætur að rekja til rannsóknar Jóhönnu Einarsdóttur á meintu mansali á börnum í Vestur-Afríku: Þá „leitaði hugurinn til siðarins að senda börn í sveit á Íslandi og áhugi vaknaði á að rannsaka hann“ (bls. 1). Líkt og kemur fram í bókinni eru til rannsóknir á búferlaflutningi barna án samfylgdar foreldris sem túlka viðfangsefnið í samhengi mansals en tilgangur þessarar rannsóknar var að rannsaka það þegar börn hérlendis voru send úr þéttbýli í sveit að sumri til ættingja eða vandalausra. Þessi ráðstöfun á börnum til vinnudvalar í sveit hefur vissulega ákveðna samsvörun við þær skilgreiningar sem lagðar eru til grundvallar á mansali. Því er fróðlegt að þau tengsl skuli hafa verið nefnd til sögunnar enda þótt tilgangur sveitadvala barna rími eðlilega ekki við þá skilgreiningu sem flestir leggja í orðið mansal. Hins vegar eru vissulega til dæmi um vinnudvöl barna í sveit sem hafa mikla samsvörun við eiginlegt mansal svo sem þegar að dvölin var í óþökk foreldra og barna.

Ef vísa ætti á eitthvað í bókinni sem betur hefði mátt fara er ekki um auðugan garð að gresja. Hins vegar má í því tilliti benda á að vegna þess hve fjölbreyttur hópur fólks stóð að baki efninu koma tvítekningar endrum og sinnum fyrir sem er þó alveg að meinalausu. Því til viðbótar má nefna að gera hefði mátt stöðu þekkingar betri skil í inngangi bókarinnar.

Vegna þess hve lítið sá siður að senda börn í sveit hefur verið rannsakaður er bókin hvalreki varðandi þennan þátt Íslandssögunnar. Meginkostur beggja bókanna er fjölbreytileg framsetning höfunda á efninu. Í því sambandi ber fyrst að geta þess hversu lipur megintexti bókarinnar er aflestrar. Birting á ýmsum aðgengilegum tölfræðilegum gögnum eykur enn frekar á skilning lesandans. Þá ber að geta ríkulegs safns ljósmynda sem bækurnar prýðir. Með því að styðjast við augnablik í formi ljósmynda fær lesandinn myndræna innsýn í umhverfi barna sem send voru í sveit, jafnvel í formi ljósmynda sem börnin tóku sjálf á meðan sumardvöl þeirra stóð. Að lokum er mikilvægt að víkja að því sem telja verður meginkosti bókanna, það er að segja notkun höfunda á frásögnum einstaklinga sem upplifað hafa sumardvöl í sveit. Höfundar gefa röddum viðmælanda víða rými, ekki síst í formi beinna tilvitnana, og miðla þannig reynslu þeirra og upplifun af sveitadvölinni. Þannig eru kallaðar fram mikilvægar sögur frá tímabundinni dvöl barna úr þéttbýli í sveitum Íslands á fyrri tíð.

Dalrún J. Eygerðardóttir

Deila:

Annað efni