Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Ritdómur
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Ég á ekki von á að það séu margir Íslendingar í dag sem líta Dani hornauga fyrir að hafa „kúgað“ Ísland í tæp sex hundruð ár. Strax árið 1935 var Kristján Albertsson rithöfundur þakklátur fyrir það að Íslendingum hafði tekist að komast hjá því „að Danahatrið yrði að illkynjuðum sjúkdómi á Íslandi“ og bætti við að „óvild okkar til Dana … má nú heita úr sögunni“.1 Hvers eðlis stjórn Dana á Íslandi hafi verið er þó enn spurning sem vekur sagnfræðinga til umhugsunar. Gunnar Karlsson prófessor emeritus skrifaði áhugaverða grein í Sögu árið 2008 þar sem hann velti fyrir sér hvort dönsk stjórn á Íslandi hafi verið böl eða blessun. Ályktun hans var að Íslendingar hefðu farið „nokkuð vel út úr skiptunum við Dani“ þótt tæplega hefðu dönsk stjórnvöld verið „einhvers konar góðgerðarstofnun“. Hann telur, að mínu mati réttilega, að það sé algengari skoðun í dag að Íslendingar hafi „notið góðs“ af ríkjasambandinu.2 Það er nú viðtekin skoðun að embættismennirnir, sem voru langflestir íslenskir, réðu mestu um stjórnun landsins. Og Axel Kristinsson sagnfræðingur er ekki aldeilis á því í nýútkominni bók sinni, Hnignun, hvaða hnignun?, að kenna dönskum yfirvöldum um „hnignun“ Íslands sem hann reyndar efast mjög um að hafi yfir höfuð átt sér stað. Íslendingar hafi ekki haft það svo slæmt miðað við aðra Evrópubúa á tímabilinu 1400‒1800 og það sem var óvenjulegt á Íslandi hafi einkum stafað af fámenni þjóðarinnar.3 Engar fámennar eyjar voru sjálfstæðar á þessum öldum — og sennilega betra að vera undir stjórn Dana en til dæmis Englendinga sem renndu stundum hýru auga til landsins. Hefðu Englendingar sölsað Ísland undir sig er afar líklegt að enska væri móðurmál okkar í dag (samanber Ástralíu og mestalla Norður-Ameríku). Danir ömuðust aldrei við íslenskunni. Þvert á móti báru þeir virðingu fyrir hinni norrænu arfleifð sem var einnig þeirra.
Hvað vita Danir og Íslendingar um sögu hvorir annarra?
Saga Íslands og Danmerkur var samtvinnuð í tæp sex hundruð ár, 1380‒1944. Saga Íslands verður því aldrei sögð nema í samhengi við sögu Danmerkur á þessu langa tímabili. Hins vegar er hægt að segja sögu Danmerkur án þess að fara ítarlega í sögu hjálendunnar.
Það hefur verið fullyrt að Danir viti lítið um sögu Íslands. Í nýju sagnfræðiriti, Hinir útvöldu, skrifar Gunnar Þór Bjarnason að á meðan Íslendingar stóðu enn í sjálfstæðisbaráttunni hafi fáir Danir vitað „eitthvað að ráði um Ísland og íslensk stjórnmál“.4 Jens Christian Christensen þingmaður, fyrrverandi forsætisráðherra og einn dönsku fulltrúanna í sambandslaganefndinni harmaði það árið 1918 hversu lítið Danir vissu um Ísland og íslenska menningu. Margir Danir þekktu að hans sögn helst til Heklu og íslenska hestsins.5 Lýðveldisstofnunin fór átakalaust fram en þegar handritamálið kom upp stuttu seinna fór fljótlega að hitna í kolunum og vakti málið talsverða ólgu í Danmörku á sínum tíma. Þetta deilumál var útkljáð með heimkomu handritanna 1971 en sagnfræðingurinn Henrik S. Nissen skrifaði 20 árum seinna að í Danmörku væru það eingöngu fáeinir sem viti af tilvist handritanna.6 Það kemur því ekki á óvart að í nýrri bók fullyrðir danski sagnfræðingurinn Søren Mentz að Danir viti lítið um sameiginlega sögu landanna tveggja. Þeir hafi „gleymt henni að mestu“.7 „Minningin er týnd“, skrifar hann í öðru riti.8
Á hinn bóginn er varla hægt að efast um að Íslendingar hljóti almennt að vita talsvert um samband Íslands og Danmerkur. Saga Íslands er enn kennd í grunn- og framhaldsskólum landsins, þó hlutdeild hennar hafi farið minnkandi í námsskránni. Söguskoðunin hefur breyst, dönskum stjórnvöldum í hag. Eins og Kristján Albertsson ritaði að ofan bera Íslendingar engan kala til Danmerkur. Þvert á móti. 12 þúsund Íslendingar hafa valið að setjast þar að og Kaupmannahöfn er einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga erlendis eins og kom fram á baksíðu Morgunblaðsins nú fyrir stuttu.9
Svar mitt varðandi spurningu ritstjóra um sagnritun Dana og Íslendinga um ríkjasamband þjóðanna er að meira hefur verið skrifað en flestir virðast telja. Vissulega er ekki hægt að segja að Íslendingar hafi verið iðnir við að sinna sögu Danmerkur per se — því ekki finnst eitt einasta fræðirit á íslensku um sögu Danmerkur. Það sem kemst næst því er stórvirki Guðjóns Friðrikssonar og Jóns Þ. Þór um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands.10 En þótt Íslendingar hafi ekki skrifað sögu Danmerkur í heild sinni hafa þeir skrifað bækur og ótal greinar sem fjalla um einhvern vinkil á samtvinnaðri sögu þjóðanna tveggja frá fjórtándu öld fram á þá tuttugustu. Danmerkursagan er oftast í bakgrunninum enda reyna flestir sagnfræðingar að setja viðfangsefni sín í alþjóðlegt samhengi. Hér er ekki rúm til að telja þá alla upp. Hins vegar má nefna að fræðimenn í öðrum greinum hafa rannsakað áhugaverða fleti á samskiptum þjóðanna og er rétt að nefna nokkur dæmi þar að lútandi. Jón yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur skrifaði athyglisverða grein sem segir frá „reiðum Íslendingum“ og deilum varðandi nýlendusýninguna 1905 í Tívolí í Kaupmannahöfn þar sem Íslendingum var stillt upp við hlið Grænlendinga og íbúa frá Vestur-Indíum, þeim fyrstnefndu til sárrar gremju. Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku, spurði nýlega þeirrar áleitnu spurningar hvort Danir hefðu í raun bjargað íslenskunni. Og vissulega má þakka Rasmusi Christian Rask viðleitnina í þá átt.11
Það verður jafnframt að segjast að Danir hafi sinnt sögu Íslands meira en Íslendingar hafa sinnt sögu Danmerkur. Árið 1985 reið bókaforlag dagblaðsins Politiken á vaðið með útgáfu Island, glæsilegrar bókar sem Björn Þorsteinsson prófessor var fenginn til að skrifa. Bókin var gefin út í ritröðinni Politikens Danmarkshistorie.12 Þarna var að finna sögu Íslands frá ferð Pyþeasar frá Massilíu til Thule á fjórðu öld fyrir Krist til kjörs Vigdísar Finnbogadóttur til forseta árið 1980, skrifuð á dönsku af einum helsta sagnfræðingi Íslands þess tíma. Þessi útgáfa reyndist verða hvatning til Sögufélags sem brást skjótt við og gaf Íslendingum loksins fræðilega en aðgengilega Íslandssögu í einu bindi eftir sama höfund ásamt Bergsteini Jónssyni. Bókin, Íslandssaga til okkar daga, varð metsölubók þegar hún kom út árið 1991.
Danir hafa sjálfir skrifað bækur um stjórnmálasamband þjóðanna tveggja, aðallega sjálfstæðisbaráttuna. Í Íslandssafni Þjóðarbókhlöðu er sérprentuð bók, sem ber einfaldlega titilinn Danmark og Island, eftir Jørgen Steining aðjúnkt.13 Höfundur notaði bæði frumskjöl og íslensk dagblöð og fjallaði ítarlega um samskiptin frá því um 1830 og fram yfir hernám. Eins má nefna rit Pers Sundbøl sem skrifaði kandídatsritgerð um stefnu Dana í sambandsmálinu 1913‒ 1918.14 Fleiri rit eru til eins og kemur fram í heimildaskrá Sundbøls.
Danska sagnfræðingnum Søren Mentz fannst hins vegar vanta rit á sviði menningarsögu þjóðanna tveggja og bætti úr því nýlega með því að ritstýra Rejse gennem Islands historie — den danske forbindelse sem inniheldur 11 greinar. Nokkrar eru eftir Íslendinga en þar er að finna alla vega átta Dani sem eru að skrifa um efni sem snertir bæði löndin. Meðal þeirra verður að nefna Christinu Folke Ax sem hefur skrifað doktorsritgerð og fjölmargar greinar um íslensk-dönsk efni. Þar má finna stutt en greinagott yfirlit yfir sambandssögu þjóðanna, um danska kaupmenn og stiftamtmenn, konungsheimsóknirnar, byltinguna 1809 og handritamálið að ógleymdri Tívolí-uppákomunni 1905.
Ekki lét Mentz þar við sitja heldur gaf árið 2018 út heildarsögu Íslands hjá háskólaforlaginu í Árósum undir titlinum Den islandske
revolution.15 Ritið er ekki stórt að vöxtum, 99 blaðsíður, en spannar Íslandssöguna frá landnámi til samtímans. Hann notar byltingu hins danska Jörgens Jörgensen árið 1809 sem rauðan þráð í gegnum bókina á snjallan hátt. Bókin er myndskreytt með myndum af Jörundi, Jóni Sigurðssyni og Björk. Aftan á bókinni stendur:
Heimsveldisskúrkur! Er það þannig sem Íslendingar hugsa til sambands þeirra við Danmörku? — saga valdníðslu, fordóma og yfirgangs? Danska útgáfan af sameiginlegri sögu landanna í tæp 600 ár er ekki jafn æsileg. Kannski vegna þess að Danir hafa gleymt henni að mestu. Eða þagað samband landanna í hel.16
Hér er Íslandssagan sögð frá öðrum sjónarhóli, hressandi lestur fyrir íslenska sagnfræðinga. Mentz ræðir stöðu hjálendanna í Norður- Atlantshafi, sem hann telur hafa haft sérstöðu eða verið „mitt á milli þess að vera nýlenda og hvert annað amt“.17 Hann leitar orsakanna að upplausn ríkjasambandsins. Danir höfðu borið virðingu fyrir réttindum Íslendinga og hann bendir á að stjórnin í Kaupmannahöfn hafi lítið getað aðhafst í ljósi þess að það var „den islandske elite“ sem réði mestu varðandi stjórnun landsins. Margt sem hann skrifar vekur mann til umhugsunar en líklegt er að flestir verði sáttir við túlkun Mentz.
Loks má nefna hin fjölmörgu yfirlitsrit um sögu Danmerkur, sem hljóta að prýða mörg dönsk heimili. Hvað er skrifað um sögu Íslands í þeim? Hvað er að mati Dana það merkilegt í sambandssögu þjóðanna tveggja að það verðskuldi sess í Danmerkursögunni? Mörg þeirra finnast á Þjóðarbókhlöðunni. Í því nýjasta eru snertifletirnir eftirfarandi: Kalmarsambandið, einokunarverslunin, Hróarskeldufriðurinn 1658,18 Kílarfriðurinn, fullveldið 1918, hernámið,
lýðveldisstofnunin og loks norræn samvinna.19 Í eldri yfirlitsritum kemur Ísland oftar við sögu og fær ítarlegri umfjöllun. Sérkaflar fjalla til dæmis um landnámið og því er lýst hvernig Ísland komst undir vald Noregskonungs. Jón Arason birtist sem píslarvottur og frelsishetja og fjallað er um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna. Er þar tekið fram að Íslendingar hafi ekki viljað losna undan Dönum sökum andúðar (d. uvilje) heldur hafi þeir haft djúpa þörf til að verða sínir eigin herrar.20 Í nýrra yfirlitsriti er aðallega fjallað um handritamálið og talið nokkuð sjálfsagt að Íslendingar fái óskir sínar uppfylltar21 en Jón Arason og Jón Sigurðsson komast ekki á blað. Í sérhæfðari yfirlitsritum eins og utanríkissögu Danmerkur er hins vegar heilmikið skrifað um sögu Íslands á tímabilinu 1914‒1945 svo að dæmi sé tekið.22
Reglan virðist vera sú að því eldri sem yfirlitsritin eru því meira er skrifað um Ísland. Ekki kemur þetta á óvart. Því lengra sem líður frá atburðum því meira minnkar vægi þeirra. Og sumt kemst aldrei á blað. Hvergi er til að mynda minnst á einveldishyllinguna í Kópavogi 1662, sem er stóratburður í Íslandssögunni en skiptir litlu máli fyrir Dani, auk þess er einveldið álitið framfaraspor nú á dögum.
„Völdu Danir að gleyma Íslandi í kjölfar sjálfstæðis þeirra árið 1944?“ spyr Mentz.23 „Mögulega“ er svar hans og hann bendir á að Íslendingar fóru að líta meira vestur um haf en til Danmerkur.24 Það er talsvert til í þessu en í kjölfar sjálfstæðis Íslands breyttist samband
ríkjanna algjörlega og eftir 1944 er eðlilegt að þáttur Íslands í sögu Danmerkur hverfi.
Ekki sýnist mér það. Ljóst er að allir sagnfræðikennarar í hinum ýmsu deildum Háskóla Íslands hafa verið þátttakendur í norrænum verkefnum.25 Vitað er um marga aðra íslenska sagnfræðinga sem taka einnig þátt í slíkri samvinnu. Ekki er úr vegi að nefna að Íslendingar halda vel í tengslin við norræna kollega sína. Á norrænu sagnfræðiþingunum mætir jafnan myndarlegur hópur íslenskra sagnfræðinga, flestir með framlag.
Farsæl verkefni skila sér í útgáfu. Hér verður aðeins minnst á eitt þessara fjölmörgu verkefna: Á mótum danskrar og íslenskrar menningar: Danir á Íslandi 1900‒1970 sem Guðmundur Jónsson, Erik Skyum-Nielsen og Auður Hauksdóttir hafa verið í forsvari fyrir. Gáfu þau út ritið Gullfoss. Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet árið 2015. Bókin er fyrst og fremst ætluð dönskum lesendum en íslenskir höfundar eru fleiri. Hér er menningar- og félagssaga landanna í hávegum höfð.26
Loks má nefna samvinnu Ríkisskjalasafns Danmerkur (Rigsarkivet) og Þjóðskjalasafns Íslands. Á hundrað ára fullveldisafmælinu 1. desember 2018 afhenti forsætisráðherra Dana Þjóðskjalasafni stafræn afrit af um 22.000 skjölum úr Rigsarkivet frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Danir „skila“ skjölum. Árið 1928 kom „Danska sendingin“, skjöl frá fyrri öldum, meðal annars frá Rentukammerinu og Kansellíinu, grundvallarheimildir um sögu Íslands. Síðast en ekki síst má nefna að árið 2004 var frumrit íslensku stjórnarskrárinnar frá 1874 afhent íslensku þjóðinni.
Nú er verið að vinna hörðum höndum að útgáfu Landsnefndarskjalanna frá 1770‒1771 undir ritstjórn Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Þetta er samstarfsverkefni þjóðskjalasafnanna tveggja og Sögufélags. Flest skjölin eru auðvitað á dönsku en þau sem eru á íslensku eru þýdd á dönsku. Eins og fráfarandi þjóðskjalavörður, Eiríkur G. Guðmundsson, skrifar þá eru þessar
heimildir „einstæðar og mjög mikilvægar“, ekki bara vegna rannsókna á íslenskri sögu heldur einnig á danskri sögu.27 Fjórða bindið (af sex) er væntanlegt á þessu ári og er frekari samvinna skjalasafnanna í undirbúningi. Vonir standa til að hægt verði að rannsaka sambandssöguna í hvoru landi um sig, á Íslandi og í Danmörku. Betri aðstæður hljóta að hvetja til frekari rannsókna á sambandssögu þjóðanna tveggja í framtíðinni. Niðurstaðan er því að tengslin milli Íslendinga og Dana eru sterk og framtíð sagnritunar þjóðanna er björt. Minningin er að lifna við.
Íslandssagan hefur verið í mikilli endurskoðun síðan Jónas frá Hriflu skrifaði sína áhrifamiklu kennslubók. Við lítum ekki lengur á Danmörku sem „en imperialistisk skurk“. Það reyndist þrátt fyrir allt ekki svo slæmt að tilheyra danska heimsveldinu. Ísland var ekki nýlenda og hafði sína sérstöðu.28 Danir þröngvuðu ekki danskri tungu upp á Íslendinga og eins og Auður Hauksdóttir ritar eru „fjölmörg dæmi … um að þeir hafi hampað íslenskri tungu og bókmenntum og viljað auka veg þeirra“.29 Danir björguðu ekki eingöngu íslenskunni, þeir (eða kannski frekar Árni Magnússon) björguðu einnig handritunum en sáu sóma sinn í að skila þeim aftur. Kóngarnir voru dáðir og vongóðir Íslendingar skrifuðu bænarskrár til þeirra. Síðast en ekki síst, eins og Gunnar Karlsson hefur lagt mikla áherslu á, buðu þeir öllum íslenskum námsmönnum á leið til Kaupmannahafnarháskóla styrk (en aðeins fáum Dönum) og lengi vel fengu þeir einnig ókeypis far með kaupskipum til höfuðborgarinnar.30 Að undanskilinni einokunarversluninni — sem var þó ríkjandi verslunarskipan síns tíma — leyfðu þeir Íslendingum að stjórna sér mikið til sjálfum. Í dag má telja nær öruggt að Danir þekki meira til Íslands en þeir gerðu árið 1918. Sennilega er það þó ekki sagnfræðinni eingöngu að þakka heldur ferðamennsku, fræðslumyndum og íslensku sjónvarpsefni.
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Miðvikudaginn 8. desember 2021 lagði Bergsveinn Birgisson fram opinberar ásakanir á hendur mér um ritstuld
Framhald af þessari grein má finna á vefsíðu höfundar. Snemma í desember síðasta árs las
Úr Sögu LIX: 2 (2021) Sumarliði R. Ísleifsson hefur lengi fengist við þau viðfangsefni sem