Skip to content
Spekileki í matskerfi opinberra háskóla
Íris Ellenberger

Hugvísindafólk lifir á áhugaverðum tímum. Nýfrjálshyggjuvæðing háskóla á alþjóðavísu er í þann mund að grafa undan tilverugrundvelli hugvísinda með því að leggja sífellt aukna áherslu á að virði þekkingar verði aðeins mælt í því hversu hagnýt hún sé fyrir atvinnulífið. Nýsköpun er mál málanna en þó ekki hvernig nýsköpun sem er heldur fyrst og fremst sú sem býr til nýja vöru eða aðrar „hagnýtar“ afurðir. Sænski vísindasagnfræðingurinn Sven Widmalm hefur rannsakað nýsköpunarorðræðuna í sænskum háskólum og leitt í ljós hvernig hún bitnar á tilteknum sviðum, meðal annars hugvísindum sem eðli málsins samkvæmt eru ekki staðsett í kastljósi orðræðunnar. Afleiðingarnar fyrir hug- og félagsvísindi eru samkvæmt honum ekki fyllilega komnar fram en ástandinu lýsir hann þannig að „vafalaust geta áhugaverðir hlutir vaxið í myrkrinu“.1

Nýfrjálshyggjuvæðing háskóla sést ef til vill hvað skýrast á því að farið er að reka þá eins og fyrirtæki með aðstoð rekstrarlíkans sem kallast nýskipan í ríkisrekstri (e. new public management). Hún birtist meðal annars í vöruvæðingu (e. commodification) allrar þekkingarsköpunar. Þannig er farið að líta á alla texta sem við skrifum sem framleiðslueiningu sem hægt er að telja. Það þurfa einmitt akademískir starfsmenn að gera ár hvert, að telja fram störf sín á grundvelli hins svokallaða matskerfis opinberra háskóla.

Matskerfið eins og við þekkjum það á sér ekki langa sögu. Það var fyrst tekið upp á Íslandi árið 2010 en byggir að miklu leyti á eldri matskerfum sem höfðu verið við lýði við skólann frá því á níunda áratug síðustu aldar sem og sambærilegum erlendum matskerfum.2 Árið 2001 voru laun háskólakennara fyrst árangurstengd og greiddir út bónusar á ársgrundvelli fyrir mikla rannsóknarvirkni.3 Samkvæmt Arnari Pálssyni voru þessar greiðslur leið til að leysa kjaradeilu ríkisins og háskólakennara. Í stað almennrar launahækkunar fengu akademískir starfsmenn ritlaun eftir sérstöku kerfi sem sagði til um hversu háar fjárhæðir fræðimaður fengi fyrir að gefa út fræðigreinar eða bækur, halda fyrirlestra og flestallt rannsóknartengt sem akademískir starfsmenn gera í vinnunni.4

Kerfið hefur tekið talsverðum breytingum síðan 2001 en í dag er birting greina í fræðitímaritum ein árangursríkasta leiðin til að verða sér úti um aukagreiðslur. En þá skiptir máli að birta í „réttum“ tímaritum, þ.e. þeim sem hafa hvað hæstan „áhrifastuðul“ (e. impact factor) samkvæmt alþjóðlegum tímaritagrunnum á borð við Scopus og ISI — Web of Science. Þessi staðall var kynntur til sögunnar árið 1975 og hafði upprunalega þann tilgang að aðstoða bókasafnsstarfsfólk við að ákveða hvaða tímaritum væri vænlegast fyrir safnið að gerast áskrifandi að.5 Í dag er hann einn af mikilvægustu stjórntækjunum í háskólastarfi um heim allan.

Saman hafa þessi fyrirbæri, matskerfi háskóla og áhrifastuðull tímarita, mikil áhrif á dreifingu fjármuna, valda og virðingar innan háskóla. Fræðimenn safna rannsóknarstigum, að miklu leyti með birtingum í tímaritum, sem stjórna því hverjir eru ráðnir, fá framgang, hljóta styrki eða komast í rannsóknarleyfi. Margir akademískir starfsmenn hafa því gengið nokkuð möglunarlaust inn á skilyrði kerfisins en það hefur þó frá upphafi sætt töluverðri gagnrýni. Þess varð til dæmis snemma vart að helstu útgefendur fræðilegra tímarita væru að sameinast á hendur örfárra risasamsteypa sem hefðu töglin og hagldirnar í fræðilegri útgáfu og þar með einnig gríðarleg áhrif á alla þekkingarframleiðslu. Árið 2015 var stærstur hluti allra helstu fræðitímarita heimsins gefinn út af forlögum í eigu fimm fyrirtækjasamsteypa: Reed Elsevier, Sage, Springer, Wiley- Blackwell og Taylor and Francis. Saman gáfu þær út um 49% af öllum fræðigreinum og 55% af öllum fræðitímaritum í hugvísindum árið 2013, samanborið við 5–12% allan níunda og tíunda áratug tuttugustu aldar.6 Hagnaðarprósenta þessara fyrirtækja á ársgrundvelli hljóðaði upp á allt að 40% sem var að miklu leyti tilkomin vegna opinbers fjár sem stóð nær alfarið straum af vinnu rannsakenda, ritstjóra og ritrýna við útgáfuna. Sú vinna var síðan seld aftur til háskólanna í gegnum háskólabókasöfn í formi tímarita en verðið á þeim hækkaði að meðaltali um 167% á árunum 1996–2005, þegar vefvæðing tímarita stóð sem hæst.7

Ég ætla þó ekki að dvelja við kapítalíska tækifærismennsku á fræðilegum útgáfumarkaði heldur að gera annars konar gagnrýni að meginviðfangsefni mínu. Sú lýtur að þeirri íhaldssemi sem felst í samtvinnun matskerfanna tveggja, háskóla annars vegar og tímarita hins vegar, og hvernig þau eiga stóran þátt í jaðarsetningu fólks, landa og þekkingar innan alþjóðavæddrar akademíu sem hefur þar með áhrif á stöðu íslensks fræðafólks, ekki síst í hugvísindum.

Það eru margvísleg dæmi um hvernig þessi kerfi standa vörð um ríkjandi ástand og koma í veg fyrir breytingar sem miða að jafnari skiptingu fjármagns og virðingar innan fræðasamfélaga. Hér ætla ég aðallega að fjalla um þrennt. Í fyrsta lagi hvernig uppröðun tímarita á grundvelli meintra áhrifa (e. impact) hampar íhaldssömum tímaritum á kostnað jaðartímarita sem þó hafa gegnt mikilvægu hlutverki í sköpun nýrrar þekkingar. Í öðru lagi hvernig kerfin styrkja í sessi hefðbundinn valdastiga kynja, húðlitar og uppruna innan akademíunnar. Í þriðja lagi hvernig þau viðhalda eins konar síðnýlendustefnu sem jaðarsetur fræðimenn og þekkingu sem á uppruna að rekja til samfélaga utan Vesturlanda.

Akademísk íhaldssemi og jaðarsetning undirskipaðs fræðafólks

Gæði (e. quality) er orð sem gjarnan er notað til að lýsa ólíkum þáttum akademískrar starfsemi. Orðið er ekki aðeins notað um eiginleika rannsókna, hvort þær eru vel eða illa framkvæmdar, heldur einnig um stjórnun háskóla og flæði fjármagns til rannsakenda og rannsóknarstofnana. Gæði eru því einnig gjarnan samfléttuð við árangur og skilvirkni.8 Í útgáfu tímarita skarast hugtakið sömuleiðis við annars konar mælikvarða. Tímaritagrunnar eiga að upplýsa okkur um gæði ólíkra tímarita en Thomas Reuter hefur vakið athygli á því að þessi gæði eru mæld í áhrifum tímaritsins á rannsóknarsvið þess. Áhrifin eru síðan reiknuð út frá fjölda lesenda tímaritsins og hversu oft vísað er í greinarnar sem það gefur út síðustu tvö árin á undan. Reuter bendir á að þarna sé í raun verið að reikna vinsældir, sem segir vissulega eitthvað um áhrif en talsvert minna um gæði þeirra rannsókna sem birtast í tímaritunum. Vinsældir endurspegli fyrst og fremst forræðisstöðu viðkomandi tímarita og fylgispekt þeirra við ríkjandi ástand og viðteknar hugmyndir. Enda eru leiðandi tímarit á hverju fræðasviði oftar en ekki íhaldssöm sem gerir það að verkum að frumlegir og gagnrýnir fræðimenn hafa gjarna reitt sig á birtingar í tímaritum sem standa fyrir utan meginstrauminn. Í matskerfum háskóla setja slíkir fræðimenn rannsóknarferil sinn í hættu sökum þeirra fáu stiga sem fást fyrir slíkar birtingar.9 Þær hafa því slæm áhrif á framgang, rannsóknarfé og áframhaldandi ráðningar fræðimanna og þagga þannig niður í þeim sem vilja skapa nýja og óhefðbundna þekkingu. Það geri það meðal annars að verkum að matskerfi sem þessi komi sérstaklega illa niður á hugvísindum og öðrum gagnrýnum fræðum.10

Mustafa Özbilgin er sammála þessari gagnrýni og tekur raunar dýpra í árinni þegar hann staðhæfir að uppröðun tímarita eftir meintum gæðum sé ein tegund af mismunun í æðri menntun. Sviðið einkennist af forræði hvítra karla sem séu áberandi í virðingarstöðum innan akademíunnar, í æðstu stjórn háskóla og „hörðum“ vísindum. Hann staðhæfir að þessi yfirráð hvítrar karlmennsku (e. white masculine domination) geri það að verkum að rannsóknir sem varpa ljósi á valdaformgerðir og mismunun feli í sér ógn við ríkjandi kerfi. Það komi því ekki á óvart að slíkar rannsóknir séu jaðarsettar og birtist sjaldnast í tímaritunum sem hafa hæstan áhrifastuðul samkvæmt tímaritagrunnunum.11 Þegar litið er til þeirra sagnfræðirita sem eru á lista yfir tímarit með hæsta áhrifastuðulinn á sínu sviði (efstu 20%) kemur í ljós að þar er nokkur fjöldi tímarita sem eru helguð hefðbundnum sagnfræðilegum viðfangsefnum, til dæmis sögu ákveðinna heimsálfa, tímabila, vísindagreina, stjórnmálasögu, viðskiptasögu, umhverfissögu og félagssögu. Hagsaga á fjögur tímarit á þessum lista. Þótt ekki sé loku fyrir það skotið að greinar í slíkum tímaritum geti verið gagnrýnar þá hafa þessi svið (mögulega að umhverfissögunni undanskilinni) ekki þann innbyggða gagnrýna vinkil sem greinar á borð við kynjasögu, hinsegin sögu og eftirlendusögu hafa. Leiðandi rit á gagnrýnari sviðum sagnfræðinnar eru aftur á móti víðs fjarri á þessum lista yfir tímarit með hæsta áhrifastuðulinn.12 Það rennir stoðum undir þá staðhæfingu Özbilgins að það sé ekki hægt að líta á uppröðun tímarita eftir áhrifastuðli sem hlutlaust kerfi sem lúti ekki sömu valdalögmálum og ríkja á hinu akademíska sviði. Það sé hreinlega ekki hægt að ætlast til þess að hvítir karlar styðji breytingar á núverandi kerfi því að þær myndu hleypa öðrum að borðinu og um leið grafa undan forræði þeirra sjálfra.13

Forræði hvítra karla birtist á ýmsan hátt í íslensku akademísku samhengi. Háskóli Íslands hefur um áraskeið lagt áherslu á að byggja upp orðspor sem framúrskarandi háskóli meðal annars með því að ná hátt á alþjóðlega lista sem eiga að meta gæði háskóla. Einn helsti mælikvarðinn sem ákvarðar staðsetningu háskóla á þessum listum er enska hugtakið excellence sem hefur verið þýtt sem öndvegis- á íslensku, samanber öndvegissetur (e. centre of excellence). Þó hafa orð eins og árangur og gæði einnig verið notuð í svipaðri merkingu.14 Þessi mælikvarði byggir á ýmsum þáttum, meðal annars fjölda birtinga, áhrifastuðli tímaritanna sem birt er í og tilvísunum í tímaritagreinar birtar af fræðimönnum í viðkomandi háskóla. Gert er ráð fyrir því að mælikvarðinn sé hlutlaus en þó hefur verið leitt í ljós að hann styður við ríkjandi valdahlutföll, til að mynda hvað varðar kyn.15 Það þarf ekki að koma á óvart því eins og Jonathan Murphy og Jingqi Zhu benda á endurspeglar útgáfa fræðitímarita dreifingu valds í heiminum þar sem hvítir, vestrænir, enskumælandi karlar tróna á toppi valdastigans.16 Hugmyndir okkar um framúrskarandi háskóla eru því óumflýjanlega einnig kynjaðar þar sem þær byggja að stórum hluta á ríkjandi kerfum sem ráða uppröðun tímarita eftir áhrifastuðli og mati háskóla á virði þekkingarframleiðslu.

Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, Thamar Heijstra og Þorgerður Einarsdóttir hafa skoðað hvernig hugmyndir um hvað sé framúrskarandi eða öndvegis (e. excellent) birtast við Háskóla Íslands og hvernig þær stjórna flæði fjármagns innan skólans. Þær vekja athygli á því að ein af afleiðingum þess að háskólar keppist um að vera „mest öndvegis“ sé framangreind tilhneiging til að stjórna háskólum eins og fyrirtækjum. Þess konar stjórnun krefur fræðimenn um að umbreyta vinnu sinni í afurðir sem hægt sé að „telja fram“ líkt og allir akademískir starfsmenn á Íslandi eru nú skyldugir til að gera svo hægt sé að meta störf þeirra á mælikvarða matskerfis opinberra háskóla.17 Finnborg, Thamar og Þorgerður leiða í ljós að matskerfið byggist á hefðum og mælitækjum sem eigi uppruna sinn að rekja til raunvísinda og tæknigreina (svokallaðra STEM-greina) til dæmis hvað varðar þau stig sem fást fyrir styrki úr sam keppnissjóðum, birtingar í „öndvegistímaritum“ og greinar með fleiri en einn höfund. Matskerfið eigi þannig beinan þátt í þeim ójöfnuði sem einkenni dreifingu fjármagns milli ólíkra deilda háskólans og hygli hinum karllægu raunvísindum og tæknigreinum á kostnað hinna kvenlægari greina í hug-, félags- og menntavísindum.18

Landfræðilegur ójöfnuður og spekileki

Ójöfnuðurinn á sér einnig landfræðilegar hliðar sem varða Ísland, sér í lagi vegna þess tungumáls sem hér er talað. Íhaldssemin, sem Reuter og Özbilgin segja innbyggða í tímaritagrunna sem halda utan um uppröðun tímarita, orsakast að hluta af viðleitni ritstjóra leiðandi tímarita til að viðhalda títtnefndum áhrifastuðli og þar með einnig staðsetningu ritsins í virðingarröð fræðitímarita. Fyrst gæði og áhrif ritsins eru mæld með tilvísunum í greinarnar sem það birtir á undangengnum tveimur árum gefur augaleið að ákveðin þekking er verðmætari en önnur. Greinar sem hafa almenna skírskotun, þ.e. fjalla á almennum nótum um tiltekið viðfangsefni, eru líklegri til að fá fleiri tilvísanir en greinar sem fjalla um sértækari efni en geta þó varpað áhugaverðu ljósi á tiltekin svið. Það sama gildir um greinar sem fjalla um lönd og samfélög sem eru stór eða staðsett í hinni menningarlegu miðju Vesturlanda, til dæmis Bandaríkin, Bretland og Þýskaland, sem eru ráðandi í hinu alþjóðlega rannsóknarsamfélagi.

Þessi hlið málsins varðar íslenskar rannsóknir í hug-, félags- og menntavísindum með beinum hætti því þær fjalla gjarnan um Ísland eins og eðlilegt er. Vegna staðsetningar landsins eru allar rannsóknir gerðar á íslensku samfélagi að vissu leyti jaðarrannsóknir, að minnsta kosti í hugum fræðimanna á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku. Þeir eru því ólíklegri til að líta á þá þekkingu sem íslenskar rannsóknir bera á borð sem viðeigandi og mikilvægar fyrir sínar eigin. Rannsóknir á jaðarsvæðum og öðrum jaðarviðfangsefnum eru því ólíklegri til þess að framleiða þær tilvísanir sem ráða röðun tímarita og því er óumflýjanlega áhættusamt fyrir ritstjóra að samþykkja greinar um Ísland til birtingar. Einnig munu íslensk tímarit sem birta greinar á íslensku aldrei geta laðað að sér nægar tilvísanir til að hafa háan áhrifastuðul, tungumálsins vegna.

Íslenskt fræðasamfélag er þó langt í frá eitt í þessari stöðu heldur eru fjölmörg dæmi um stór og blómleg rannsóknarsamfélög í löndum eins og Kína og Indlandi sem eru jaðarsett í alþjóðlegri tímaritaútgáfu (og þar með hinu alþjóðlega fræðasamfélagi) vegna þess að tungumálið sem talað er og þekkingin sem framleidd er fellur ekki ýkja vel að hefðum þeirra vestrænu tímarita sem hæsta áhrifastuðulinn hafa. Thomas Reuter vekur einmitt athygli á því að matskerfi, líkt og þau sem eru við lýði við Háskóla Íslands, ýta undir ójöfnuð milli landa, heimsálfa og tungumálasvæða og festa í sessi yfirráð hins enskumælandi meginstraums yfir þekkingarsköpun í heiminum.19

Murphy og Zhu vekja enn fremur athygli á því að yfirráð ensku innan fræðaheimsins hefur grundvallaráhrif á líf fólks utan Vesturlanda. Þau nefna sem dæmi að kínverskir fræðimenn freistist til að laga rannsóknarefni sín að vestrænum áherslum og áhugaefnum í þeim eina tilgangi að verða gjaldgengir hjá áhrifamestu tímaritunum á sínum sviðum. Jafnvel þótt þeir rannsaki kínversk viðfangsefni þá noti þeir vestræn hugtök og fræðilega ramma til að ganga í augun á vestrænum ritstjórum í stað þess að skoða þau út frá kínverskum sjónarhóli.20 Þannig býr kerfið til mjög einsleitar hugmyndir um hvað teljist til „raunverulegrar“ þekkingar sem byggjast á vestrænu gildismati.

Stella M. Nkomo hefur einnig veitt því athygli að tímaritauppröðun og matskerfi háskóla ýtir undir að fræðimenn utan Vesturlanda (í Suður-Afríku í hennar tilfelli) forgangsraði alþjóðlegum tímaritum sem gefa flest stig fyrir birtingar á sama hátt og vestrænir kollegar þeirra gera. Nkomo vekur þannig máls á því hvernig kerfið dregur úr vilja fræðimanna utan menningarlegrar miðju Vesturlanda til að rannsaka viðfangsefni sem eru staðbundin en mikilvæg fyrir þeirra eigin samfélög og birta niðurstöðurnar í miðlum og á tungumálum sem almenningur í landinu bæði skilur og hefur aðgang að.21 Það er því athyglisvert að við síðustu endurskoðun á matskerfi opinberra háskóla á Íslandi árið 2019 var lagt til að fækka ætti þeim stigum sem akademískir starfsmenn fengju fyrir birtingar í sumum af vönduðustu íslensku hugvísindatímaritunum.

Um var að ræða ritrýnd tímarit sem hafa hingað til gefið höfundum 15 stig fyrir hverja grein en samkvæmt fyrirhuguðu endurmati átti að fækka stigunum niður í tíu. Eitt það athyglisverðasta við endurskoðunina er að matskerfið veitir fimm stig fyrir greinar í svonefndum rányrkjutímaritum (e. predatory journals) en það eru tímarit sem villa á sér heimildir í því skyni að græða á eftirsókn fræðimanna eftir þeim stigum sem fást fyrir fræðilegar birtingar. Rányrkjutímarit eru ekki ritrýnd og krefjast jafnvel borgunar fyrir birtinguna. Þess konar tímarit eru í raun ein tegund af svindli. Ef breytingarnar á matskerfi opinberra háskóla hefðu gengið í gegn hefði aðeins fengist fimm stigum meira fyrir ritrýnda grein í íslensku tímariti í hæsta gæðaflokki en fyrir þátttöku í svikastarfsemi. Það segir því sitt um hversu mikils (eða lítils) virði íslensk þekkingarsköpun og miðlun hennar á íslensku er samkvæmt þeim innlendu og alþjóðlegu matskerfum sem ráða verðmætamati innan fræðilegrar útgáfu.

Ástæða áformaðrar stigalækkunar var sú að tímaritin eru ekki í

alþjóðlegum gagnagrunnum á borð við Scopus og ISI — Web of Science. Lækkunin kom ekki til framkvæmda við síðustu endurskoðun á matskerfi opinberra háskóla haustið 2019 en þó má teljast líklegt að hún muni fyrr eða síðar eiga sér stað nema það takist að koma umræddum tímaritum inn í tímaritagrunnana eða nógu hátt á norræna tímaritalista til að halda sínum 15 stigum. Sem stendur eru þau skráð í neðri flokkum í matskerfum Danmerkur, Noregs og Finnlands en ætlunin var að þau þyrftu að vera í efstu flokkum þeirra til að hljóta 15 stig, líkt og öll önnur tímarit sem ekki eru skráð í Scopus eða ISI. Það virðist því vera vilji innan Matskerfisnefndar, sem ákvarðar breytingar á matskerfinu, til að meta íslensk tímarit á mælikvarða sem stórlega mismunar tímaritum sem gefin eru út á jaðarsvæðum og/eða á jaðartungumálum sem og þeim fræðimönnum sem birta greinar á þessum málum og um þessi svæði. Þar eru Ísland og íslenska að sjálfsögðu meðtalin.

Líkt og flestir sem hafa starfað við fræðimennsku um hríð veit ég um nokkur dæmi þess að greinar sem innihalda afar verðmætar upplýsingar fyrir íslenskt samfélag hafi ekki fengist birtar í erlendum tímaritum, mestmegnis sökum þess að þær fjalla um þætti sem hafa verið mikið rannsakaðir í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Sambærileg þekking um samfélagið á Íslandi þykir einfaldlega ekki nógu verðmæt á alþjóðlegum vettvangi, væntanlega fyrst og fremst vegna þess að hún mun ekki framleiða æskilegan fjölda tilvísana sem ákvarða virðingarröð tímarita og þann fjölda stiga sem þau gefa. Vafalaust eru slík dæmi allmörg í núverandi útgáfuumhverfi og mun þeim án efa fjölga ef íslenskum fræðimönnum er ýtt enn frekar í þá átt að birta nær einvörðungu í erlendum tímaritum, meðal annars með því að fækka þeim stigum sem fást fyrir íslensk ritrýnd tímarit.

Það mætti því álykta sem svo að matskerfi íslenskra háskóla, sem byggt er á fordæmum frá nágrannaríkjum okkar, feli í sér kerfislægan spekileka (e. brain drain) því það beinir fræðimönnum kerfisbundið frá rannsóknum sem snúast um íslenskan veruleika og eiga þar af leiðandi ekki uppi á pallborðið hjá þeim tímaritum sem gefa flest rannsóknarstig. Það hljómar óneitanlega nokkuð kaldhæðnislega að bæði Háskóli Íslands og íslensk stjórnvöld hamri á þýðingu háskólamenntunar og rannsókna fyrir íslenskt samfélag þrátt fyrir að þessir sömu aðilar hafi fyrir skemmstu innleitt kerfi utan um rannsóknir sem beinir rannsakendum í auknum mæli frá íslenskum viðfangsefnum.

Í siðareglum Háskóla Íslands segir meðal annars: „Við leggjum okkur fram um að virkja rannsóknir og hagnýtingu þekkingar í þágu farsæls samfélags, uppbyggilegrar umræðu og lífsskilyrða komandi kynslóða.“22 Enn fremur er kveðið á um í Stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2016–2021 að skólinn eigi að vera „leiðandi afl í framþróun samfélagsins“ og að sérfræðiþekking Háskólans skuli nýtast við ákvarðanir sem varða farsæld samfélagsins.23 Það kemur þó fram í MPA-ritgerð Rebekku Silvíu Ragnarsdóttur um árangursstjórnun í opinberum háskólum á Íslandi að stjórnendur við skólana telja að matskerfi þeirra hafi neikvæð áhrif á samfélagslega þátttöku akademískra starfsmanna því hún gefi svo fá stig í samanburði við annars konar virkni.24

Þannig má ljóst vera að það kerfi sem skapað hefur verið utan um þekkingarframleiðslu akademísks starfsfólks og tekið upp af Háskóla Íslands vinnur með beinum hætti gegn því að skólinn uppfylli þau markmið um samfélagslega mótun og þátttöku sem hann hefur sett sér. Auk þess stríðir matskerfið gegn nokkrum greinum jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands, meðal annars grein 2.6. sem kveður á um að „[h]lutfall kynjanna sé sem jafnast“.25 Því eins og áður segir er innbyggð kynjaskekkja í kerfinu sem gerir það að verkum að karllægari greinar njóta bæði meiri virðingar og fjármagns innan þess í samanburði við aðrar kvenlægari greinar. Þannig endurframleiðir matskerfið kerfislæg yfirráð hvítra karla sem jafnréttisáætlanir geta með takmörkuðu móti unnið gegn.

Ég gæti haldið lengi áfram á þessum nótum því sú gagnrýni sem matskerfi háskóla, tímaritagrunnar, áhrifastuðlar og forsendur þeirra hafa sætt á undanförnum tíu árum er umtalsverð og af nógu að taka. Hér hefur þó ekki enn verið reynt að svara þeim áleitnu spurningum sem óumflýjanlega koma upp þegar búa þarf til kerfi utan um þekkingarsköpun. Vonandi verða þær ávarpaðar í því samtali um verðmætamat í fræðastarfi á tímum nýfrjálshyggju, sem virðist í þann mund að fara af stað. Í ljósi þess sem hér hefur verið reifað ætla ég að leyfa mér að varpa fram einni af lykilspurningunum, að ég tel, sem snerta sagnfræði og hugvísindi almennt án þess að gera tillögu að svari. En hún er: Hvers vegna ættu fræðimenn í hugvísindum (einnig félags- og menntavísindum) að gangast inn á kerfi sem beinlínis mismunar þeirra eigin fagsviðum og grefur undan þeim gerðum rannsókna sem mynda tilverugrundvöll hugvísinda að miklu leyti? Rannsóknum sem gera okkur kleift að skilja okkar eigið samfélag, samband þess við önnur samfélög og stöðu þess í heiminum.

 1. Þýðing mín. Upprunalega: „Interesting things can doubtlessly grow in the dark.“ Sven Widmalm, „Innovation and Control. Performative Research Policy in Sweden“. Transformations in Research, Higher Education and the Academic Market. The Breakdown of Scientific Thought. Ritstj. Sharon Rider, ylva Hasselberg og Alexandra Waluszewski. Higher Education Dynamics 39. Ritstj. Peter Maassen og Johan Müller (Dordrecht: Springer 2013), bls. 39–52, einkum bls. 49.
 2. Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, Thamar Melanie Heijstra og Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir, „The making of the „excellent“ university: A drawback for gender equality“, Ephemera 17:3 (2017), bls. 557–582, einkum bls. 564.
 3. Lbs.–Hbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn) Rebekka Silvía Ragnarsdóttir, Árangursstjórnun í háskólum á Íslandi. Hvernig nýtist aðferðafræði árangursstjórnunar í opinberu háskólunum? MPA-ritgerð í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands 2019, https://skemman.is/handle/1946/34397, bls. 40–41.
 4. Vef. Arnar Pálsson, „The University of Iceland individual evaluation system“, The laboratory of A. Palsson and associates 2. nóv. 2016, https://uni.hi.is/apalsson/2016/ 11/09/the-university-of-iceland-individual-evaluation-system/, 10. feb. 2020.
 5. Stella M. Nkomo, „The Seductive Power of Academic Journal Rankings. Challenges of Searching for the Otherwise“, Academy of Management, Learning & Education 8:1 (2009), bls. 106–112, einkum bls. 107.
 6. Vincent Larivière, Stefanie Haustein og Philippe Mongeon, „The Ologopoly af Academic Publishers in the Digital Era“, Plos One 10:6 (2015), bls. 1–15, einkum bls. 4.
 7. Thomas Reuter, „New Hegemonic Tendencies in the Production of Knowledge: How Research Quality Evaluation Schemes and the Corporatization of Journals Impact on Academic Life“, Journal of Workplace Rights 16:3–4 (2011–2012), bls. 367–382, einkum bls. 377.
 8. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, „Excellence, Innovation and Academic Freedom in University Policy in Iceland“, Stjórnmál og stjórnsýsla 9:1 (2013), bls. 79–99, einkum bls. 91–92.
 9. Thomas Reuter, „New Hegemonic Tendencies in the Production of Knowledge“, bls. 373.
 10. Sama heimild, bls. 376.
 11. Mustafa F. Özbilgin, „From Journal Ranking to Making Sense of the World“, Academy of Management Learning & Education 8:1 (2009), bls. 113–121, einkum bls. 114.
 12. Vef. „Tímarit — efstu 20%“, Háskóli Íslands, Reykjavík, https://ugla.hi.is/kerfi/ view/page.php?sid=970&f=9564, 7. febrúar 2020. Félagssaga er upprunalega gagnrýnin sagnfræði sem miðaði að því að varpa ljósi á stéttaskiptingu og stéttamun. Í dag er þó varla hægt að segja að hún sé ávallt með innbyggt gagnrýnið sjónarhorn í líkingu við kynjasögu, hinsegin sögu og eftirlendusögu.
 13. Mustafa F. Özbilgin, „From Journal Ranking to Making Sense of the World“, bls. 114.
 14. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, „Excellence, Innovation and Academic Freedom“, bls. 88.
 15. Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, Thamar Melanie Heijstra og Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir, „The making of the „excellent“ university“, bls. 558, 567–576.
 16. Jonathan Murphy og Jingqi Zhu, „Neo-colonialism in the academy? Anglo- American domination in management journals“, Organization 19:6 (2012), bls. 915–927, einkum bls. 920.
 17. Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, Thamar Melanie Heijstra og Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir, „The making of the „excellent“ university“, bls. 560–561.
 18. Sama heimild, bls. 573–574.
 19. Thomas Reuter, „New Hegemonic Tendencies in the Production of Knowledge“, bls. 369.
 20. Jonathan Murphy og Jingqi Zhu, „Neo-colonialism in the academy?“, bls. 921.
 21. Stella M. Nkomo, „The Seductive Power of Academic Journal Rankings“, bls. 107.
 22. Vef. „Siðareglur“, Háskóli Íslands, Reykjavík, https://www.hi.is/haskolinn/ sidareglur, 6. feb. 2020.
 23. Vef. „HÍ21, Stefna Háskóla Íslands 2016–2021“, Háskóli Íslands, Reykjavík, https://www.hi.is/haskolinn/hi21_stefna_haskola_islands_2016_2021, 6. feb. 2020.
 24. Lbs.–Hbs. Rebekka Silvía Ragnarsdóttir, Árangursstjórnun í háskólum á Íslandi, bls. 55.
 25. Vef.„Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018–2020“, Háskóli Íslands, Reykjavík, https://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun, 6. feb. 2020.

Deila:

Annað efni