Skip to content
Þúsundþjalasmiðurinn Gunnar Karlsson og áhrif hans á íslenska sagnfræði
Sverrir Jakobsson
Þúsundþjalasmiðurinn Gunnar Karlsson og áhrif hans á íslenska sagnfræði

Gunnar Karlsson var einn áhrifamesti og afkastamesti íslenski sagnfræðingurinn um sína daga. Ferill hans spannaði mörg ólík svið. Hann samdi kennslubækur í Íslandssögu fyrir börn, lét að sér kveða í umræðu um sögukennslu og aðferðafræði sagnfræðinnar, var mjög virkur í rannsóknum á íslenskri miðaldasögu og sögu Íslands á landshöfðingja- og heimastjórnartímanum og hann var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands í 29 ár. Við fyrstu sýn virðist það óvinnandi vegur að gera ferli hans skil í stuttu máli en á hinn bóginn hefur Gunnar sjálfur kennt mér að hægt er að semja yfirlitsrit af hvaða lengd sem er, fyrir mismunandi tilefni og mismunandi markhópa, og það er vissulega ástæða til að gera ferli Gunnars skil í knöppu yfirliti þó að viðameiri umfjöllun bíði betri tíma. Helstu heimildirnar eru orð Gunnars sjálfs um starfsferil sinn og það sem ráða má af útgefnum verkum hans en lokaorðin munu einkum snúast um persónulega reynslu mína af Gunnari.

Nemendur og almennir lesendur Gunnars Karlssonar gengu þess ekki duldir að hann var sveitamaður að ætt og uppruna. Um það fjallar hann víða í ritum sínum og rifjaði það iðulega upp í kennslu. Hann hóf formlegt nám seint, gekk í sveitaskóla og svo héraðsskóla og Menntaskólann á Laugarvatni. Hann lauk stúdentsprófi 22 ára gamall árið 1961 með hæstu einkunn á landsvísu („stóra styrk“) og hélt eftir það til Vínar að nema sálfræði í heimabæ Sigmunds Freud, að eigin sögn „til þess að freista þess að bæta úr andlegri kröm samborgara minna“.[1] Dvölin í Vínarborg varð þó ekki löng og Gunnar sneri aftur til Íslands til að stunda nám í íslenskum fræðum. Þar stóðu margar leiðir opnar og Gunnar nam íslenskar bókmenntir og málfræði en endaði að lokum í Íslandssögunni og skrifaði kandídatsritgerð um það efni. Hann útskrifaðist með ágætiseinkunn árið 1970. Að þessu hafði Gunnar aldrei stefnt en heillaðist af sagnfræði við að skrifa ritgerð um kornyrkjutilraunir á Íslandi á sautjándu og átjándu öld: „Ég komst að því að svo leiðinlegt sem það væri oftast að lesa sagnfræðirit, þá væri fátt skemmtilegra en að búa þau til.“[2] Miðað við námsferil hans fram að þessu benti margt til að Gunnar væri efni í fræðimann en að sumu leyti virðist það hafa verið tilviljunum háð að hann varð sagnfræðingur.

Þegar hér var komið sögu var hann hins vegar orðinn mjög einbeittur í sínum fræðilega metnaði og stefndi að því að semja doktorsritgerð í Íslandssögu. Á þeim tíma þurfti að sinna því verkefni á styrkjum úr ýmsum áttum samfara annarri vinnu en Gunnar gekk rösklega til verks og varði doktorsritgerð átta árum eftir lok kandídatsprófs. Jafnframt kenndi hann við Háskóla Íslands, stundaði fræðastörf og kennslu í Kaupmannahöfn og London og var skipaður lektor í sagnfræði árið 1976, rúmu ári áður en doktorsrit hans kom út á prenti. Gunnar sótti svo um prófessorsstöðu og fékk árið 1980. Stóð lítill styr um þá niðurstöðu. Gunnar var prófessor í sagnfræði fram til þess að hann fór á eftirlaun árið 2009 en stundaði eftir það rannsóknir sem prófessor emeritus. Um það leyti sem Gunnar fór á eftirlaun var gefið út afmælisrit honum til heiðurs er nefnist Heimtur og er þar að finna yfirlit yfir rit Gunnars fram að þeirri stundu.[3] Ekkert lát varð hins vegar á birtingum eftir það og eru greinar og ritverk eftir Gunnar enn að koma út þegar þetta er ritað. Þar á meðal voru rannsóknarrit, yfirlitsrit, kennslubækur, fræðigreinar og deilurit af ýmsu tagi því að iðulega var sótt að Gunnari af öðrum fræðimönnum, umfram flesta aðra sagnfræðinga. Það skiptir ekki máli hvaða mælikvarði er notaður, Gunnar var afkastamikill og markaði spor á óvenjufjölbreyttu sviði. Hér verður gerð tilraun til að fjalla um fjögur meginsvið sem hann sinnti umfram önnur en hafa verður í huga að efnið er hvergi nærri tæmt í þessari grein.

Uppruni nútímans

„Ritgerð um það sem átti að vera inngangur“ er stutt lýsing Gunnars Karlssonar á kandídatsritgerð sinni í kverinu Baráttan við heimildirnar (1982). Þar bendir hann sagnfræðinemum á að „sökkva sér ekki niður í rannsóknir á því sem fer á undan viðfangsefninu“ (bls. 41) og nefnir forvitnilegt dæmi af sjálfum sér. Fyrsta birta sagnfræðigrein Gunnars hét „Hugleiðingar um upphaf Heimastjórnarflokks“ og birtist í Mími, blaði Félags stúdenta í íslenzkum fræðum (1965) en þar fjallar hann um átök Valtýinga og Heimastjórnarmanna 1897‒1901 og hvernig ósamstæðir hópar runnu saman í flokki sem hafði fyrst og fremst þá stefnu að berjast gegn frumvarpi Valtýs Guðmundssonar.[4]

Þar var Gunnar búinn að móta forvitnilegt rannsóknarefni en fannst hann þurfa að skýra fyrst afdrif stjórnarskrármálsins á Alþingi 1895 sem var aðdragandi þess að Valtýr Guðmundsson kom fram með sínar tillögur. Þar reyndist margt ókannað og niðurstaða Gunnars var raunar sú að jarðvegurinn fyrir valtýskuna hefði verið plægður í umræðum um endurskoðunarstefnuna tveimur árum fyrr. Ástæða þess að könnunin á þessum aðdraganda vatt upp á sig var að hluta til sú að Gunnar fór til Óslóar veturinn 1966‒1967 og hreifst af áherslum Jens Arups Seip á félagsfræðilega stjórnmálasögu og pólitíska menningu. Þetta hafði töluverð áhrif á ritgerðina sem varð að hluta til athugun á viðhorfum kjósenda sem reyndust iðulega fastheldnari á endurskoðunarstefnuna en alþingismenn. Seinna taldi Gunnar það hafa vera mistök „að láta Seip ekki snúa allri ritgerðinni upp á slíka könnun; þá hefði ég skrifað nýstárlega ritgerð“.[5] Enda þótt Gunnari hefði síðar fundist að nálgun sín hefði mátt vera róttækari þá voru viðtökur ritgerðarinnar á þann hátt að hér væri á ferð merkilegt brautryðjendaverk og hún var valin til útgáfu sem fyrsta verk í nýrri ritröð sem Sagnfræðistofnun hrinti af stað um þessar mundir og nefndist Sagnfræðirannsóknir – Studia historica. Leiðbeinandi Gunnars, Þórhallur Vilmundarson, var ritstjóri hennar.

Eftir vel heppnaða kandídatsritgerð sem hlaut góðar viðtökur stefndi Gunnar að því að vinna doktorsverkefni í íslenskri sögu en ekki var til formlegt doktorsnám á Íslandi og engir styrkir til slíkra verkefna. Á hinn bóginn voru afkomendur Jóns Sigurðssonar alþingismanns á Gautlöndum í leit að sagnfræðingi til að vinna að ævisögu hans og vildu styrkja hann til verksins. Gunnar gerði þeim gagntilboð, vildi halda áfram rannsóknum sínum á pólitískri menningu á nítjándu öld og taldi félagshreyfingar og stjórnmálastarf Suður-Þingeyinga á dögum Jóns áhugavert rannsóknarefni. Hann bauðst því til að rannsaka þetta efni en bæta við sérkafla um Jón í lok ritsins. Þannig varð til ritið Frelsisbarátta suður-þingeyinga og Jón á Gautlöndum en Gunnar lagði þá bók fram til doktorsvarnar við Háskóla Íslands og var hún varin í mars 1978.

Báðar prófritgerðir Gunnars voru á sviði stjórnmálamenningar á nítjándu öld og hann var því að ýmsu leyti eðlilegur kostur þegar kom að því að semja yfirlit um sögu þessa tímabils í Sögu Íslands, hinu mikla ritverki sem koma átti út í tilefni af 1100 ára afmæli Íslands árið 1974. Gunnar gekk í það verk af röggsemi og samdi 245 blaðsíðna handrit um landshöfðingjatímann í rannsóknardvöl í Kaupmannahöfn 1971‒1972. En nú var Gunnar ekki sjálfur við stjórnvölinn og útgáfa þessa verks tafðist áratugum saman. Það var ekki fyrr en 2008 og 2009 sem þessi hluti Íslandssögunnar kom út í Sögu Íslands IX og Sögu Íslands X en miðað við eigin vitnisburð virðist Gunnar síðar hafa verið fenginn til að bæta efni um sögu áranna 1830‒1874 og 1904‒1918 við það sem hann hafði áður ritað um landshöfðingjatímann. Í fyrirlestri sem hann flutti á málþingi um ritun kristnisögu á Íslandi 1990 víkur Gunnar að þessum hægagangi og segir þar: „Ég ætla ekki að segja að það verk sé farið út um þúfur. Fjarri því. En mér er óhætt að segja að það er þegar orðið dálítið gallað af því að ekki tókst að drífa það út á skömmum tíma og halda því innan fyrirhugaðra marka.“[6] Þegar þessi kafli Gunnars kom út á endanum þótti hann eigi að síður nýstárlegur um margt. Gunnar náði að koma aftur að gömlu efni með nýjar hugmyndir í farteskinu, ekki síst um miðlun og framsetningu efnis.

Að lokinni doktorsritgerðinni beindist fræðilegur áhugi Gunnars að ýmsum öðrum rannsóknarefnum en stjórnmálamenningu nítjándu aldar. Eigi að síður lagði hann áfram ýmislegt af mörkum til rannsókna á því sviði. Má þar helst nefna rannsóknir á þjóðernisstefnu nítjándu aldar. Að mörgu leyti voru þær eðlilegt framhald á hans fyrri skrifum að því leyti að Gunnar hafði þá komist að þeirri niðurstöðu að almenningur hefði jafnan stutt róttækari lausnir í þjóðfrelsisbaráttunni en forystumenn í stjórnmálum og var það ein skýring hans á velgengni endurskoðunarhugmynda Benedikts Sveinssonar sem héldu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga í sjálfheldu 1885‒1895. Í bókinni Frá endurskoðun til valtýsku bendir Gunnar á að „yfirgnæfandi meirihluti áhugasamra kjósenda“ hafi enn fylgt endurskoðunarstefnunni þegar hún beið skipbrot á Alþingi 1895.[7] Könnun á þjóðernisviðhorfum almennings var því rökrétt næsta skref. Þar má hins vegar sjá nokkra breytingu á viðhorfum Gunnars eftir því sem hann kannaði efnið lengur. Árið 1985 vísar hann í hugmyndir Ernests Gellners um nítjándu aldar þjóðernisstefnu sem nýtt fyrirbæri og hafnar viðhorfum sagnfræðinga sem töldu rætur hennar liggja aftur á miðaldir: „Ég held að svona rótagröftur, sem sagnfræðingum er svo tamur, geti verið svolítið varasamur. Það er oft allt of auðvelt að finna aðdraganda og mjóa vísa að stórum fyrirbærum. Vandasamara og forvitnilegra er einatt að skýra hvers vegna fyrirbærin urðu stór. Stundum er sagnfræðingum legið á hálsi fyrir að þeir sjái ekki skóginn fyrir trjám. Enn verra er þó ef þeir sjá hann ekki fyrir rótum.“[8] Síðar meir hélt Gunnar því fram að skrif Gellners um upphaf þjóðríkja hefðu verið sér „hrein opinberun“ á þessum tíma.[9] Fljótlega fór þó að bera á því viðhorfi hjá honum að ræturnar mættu ekki týnast og árið 1988 birtist í safnritinu Saga og kirkja grein sem nefndist „Upphaf þjóðar á Íslandi“. Þar fjallar Gunnar um rætur íslensks þjóðernis á miðöldum og rakti þann þráð áfram í grein í Skírni árið 1999 þar sem hann benti á ýmis dæmi um sjálfstæðisviðleitni Íslendinga á fjórtándu, fimmtándu og sextándu öld. Að hluta til tengist þessi áherslubreyting Gunnars gagnvart rótum þjóðernisstefnunnar því að nítjánda öldin og nýjungar sem rekja má til hennar voru ekki helsta fræðilega áhugamál hans þegar hér var komið sögu. Upp úr 1980 gegndi miðaldasagan æ meira hlutverki í ritum hans. Gunnar afneitaði ekki hugmyndum Gellners en fór smám saman að komast á þá skoðun að módernismi Gellners hefði fengið of mikið vægi: „Eins og títt mun vera um snjallar kenningar um menningu og samfélagsefni hefur hann gerst óþarflega frekur í háskólum heimsins.“[10] Á tíunda áratugnum fór það æ oftar að verða hlutskipti Gunnars að andmæla tískubylgjum í ritun nítjándu aldar sögu. Sjálfur hafði hann á sínum tíma bent á „að endurskoðunarmenn [hefðu] yfirleitt verið að berjast fremur fyrir íslenzku sjálfstæði en lýðræði innanlands“.[11] Hann taldi hins vegar að sú hugmynd að íslenskir bændur hefðu beinlínis gengið til liðs við sjálfstæðisbaráttuna til að hindra að frjálslynd áhrif frá Danmörku röskuðu gamla bændasamfélaginu væri byggð á veikum sögulegum heimildum, að minnsta kosti í þeirri mynd sem hún kæmi fram í Íslenskum söguatlas (1989‒1993). Sjálfur taldi Gunnar að þessi hugmynd væri sprottin úr jarðvegi íslenskrar samtímaumræðu og taldi sig geta slegið því föstu „að hin nýja söguskoðun okkar Íslendinga eigi fremur öðru uppruna sinn í stofnun Dagblaðsins“.[12]

Gunnar var því ekki ginnkeyptur fyrir tískustraumum í sögu nítjándu aldar og hafði það líklega áhrif á að rannsóknir hans á þessu tímabili viku fyrir öðrum áhugamálum. Endurskoðun og viðbætur við Sögu Íslands voru stærsta verkefni hans á því sviði en hann leitaði þó alltaf öðru hvoru til upphafsins. Ein af síðustu greinum Gunnars fjallaði til dæmis um miðlunarmanninn Pál Briem og birtist í safnriti um Pál sem er 24. bindi Sagnfræðirannsókna. Þannig ritaði Gunnar um stjórnmálasögu Landshöfðingjatímans allt frá upphafi ferils síns 1965 og fram á hinsta dag.

Samband við miðaldir

Ekki er hægt að sjá að Gunnar Karlsson hafi lagt sérstaka áherslu á miðaldasögu í háskólanámi. Eins og hann sagði síðar sjálfur frá var það „algeng skoðun þegar ég valdi mér kjörsvið til lokaprófs, árið 1965 líklega, að Íslendinga saga Jóns Jóhannessonar hefði leyst öll helstu vandamál íslensku miðaldasögunnar, að minnsta kosti fram um lok þjóðveldis“.[13] Gunnar leitaði sér því að nærtækari rannsóknarefnum. Að loknu kandídatsprófi fékk hann vinnu á Háskólabókasafni og var jafnframt fenginn til að kenna námskeið í íslenskri miðaldasögu á BA-stigi. Þá las hann Sturlunga sögu í fyrsta skipti frá upphafi til enda og fann þar gnótt rannsóknarefna. Úr því varð til greinin „Goðar og bændur“ sem birtist í Sögu 1972. Veturinn 1971‒1972 dvaldi Gunnar við rannsóknir í Kaupmannahöfn eins og áður sagði og þá samdi hann kafla um stjórnmála- og hagsögu Íslands frá því um 1100 og til loka þjóðveldisaldar í annað bindi Sögu Íslands. Sá kafli komst á prent þegar árið 1975 en Gunnar taldi sjálfur að sá kafli væri ekki jafn nýstárlegur og það sem hann samdi um Landshöfðingjatímabilið, „ég var enn átakanlega háður Íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar“.[14] Næstu árin einbeitti Gunnar sér að rannsóknum á sögu nítjándu aldar.

Lengi vel var miðaldasagan eins konar aukagrein hjá Gunnari eins og hann segir sjálfur frá: „Ég hef lengi reynt að venja mig af því að stunda miðaldasögu, því að mér finnst eins og á námsárunum að brýnni verkefni bíði okkar í sögu síðari alda.“[15] Þegar þessi orð voru rituð, líklega skömmu fyrir árið 2000, taldi Gunnar að bókin Goðamenning (2004) yrði hans lokaframlag til íslenskrar miðaldasögu, „þessa 30 ára langa útúrdúrs“.[16] Gunnari tókst þó aldrei að venja sig af miðaldafíkninni og hélt áfram samningu verka um miðaldasögu allt til dauðadags. Jafnvel mætti halda því fram að eftir að hann varð prófessor við Háskóla Íslands árið 1980 hafi hann fremur sinnt rannsóknum á miðaldasögu en fyrra sérsviði sínu, sögu nítjándu aldar.

Þar má segja að Helgi Þorláksson hafi verið áhrifavaldur á frekari stefnu Gunnars. Þeir Gunnar höfðu átt ágætt samstarf í tengslum við doktorsverkefni Gunnars þar sem Helgi var einn fulltrúa Gautlandaættar í ritnefnd verksins. Þegar það verkefni var á lokastigum var Helgi í Björgvin við nám og rannsóknir og var einnig lagstur í Sturlungu. Skoðanir þeirra Gunnars voru um margt ólíkar sem leiddi til þess að Helgi skrifaði greinina „Stórbændur gegn goðum“ í afmælisrit Ólafs Hanssonar 1979 þar sem niðurstöðum Gunnars í „Goðar og bændur“ er andmælt kröftuglega, einkum þeirri ályktun að stórbændur hafi getað jafnast á við goðorðsmenn hvað varðaði auðæfi. Gunnar brást snarlega við þeirri grein og árið 1980 birtist greinin „Stéttir, auður og völd á 13. öld“ í Sögu. Hófst nú kröftug ritdeila sem tók yfir Sögu 1982 og 1983. Var niðurstaðan sú að báðir stóðu ósárir eftir án þess þó að hafa náð því að verða sammála en rökin og mótrökin leiddu fram staðreyndir og óleyst vandamál varðandi auð og völd höfðingja og bænda um miðja þrettándu öld.

Í kringum þessi skoðanaskipti lagðist Gunnar rækilegar yfir Sturlungu en áður og nú varð ekki aftur snúið. Samfélag þrettándu aldar varð honum æ hugstæðara og hann sneri sér að fjölbreyttum rannsóknarefnum sem þar var að finna. Gunnar varð einna fyrstur íslenskra sagnfræðinga til að bregðast við skrifum Jesses Byock um fæðardeilur í Íslendingasögum og samdi meðal annars greinina „Dyggðir og lestir í samfélagi þjóðveldisaldar“ sem birtist í Tímariti Máls og menningar 1985 en var upphaflega flutt sem fyrirlestur í London í desember 1983, ári eftir útkomu fyrstu bókar Byocks. Viðbrögð við nýlegum bókum og skrifum um kvennasögu urðu til þess að Gunnar samdi greinina „Kenningin um fornt kvenfrelsi Íslendinga“ sem var stefnt gegn ofmati á jafnrétti kynjanna í þjóðveldisaldarsamfélaginu. Að einhverju leyti er Gunnar á svipuðum slóðum í þessum greinum og í „Goðar og bændur“ að því leyti að hann dregur upp mynd af íslensku miðaldasamfélagi þar sem bent er á inngróið misrétti sem tíðkaðist í því. Í seinni greinum hans er greiningin þó dýpkuð með tilliti til mannfræðilegra og kynjafræðilegra kenninga.

Heimildargildi Grágásar um íslenskt miðaldasamfélag var Gunnari hugstætt og hann vísaði mikið til hennar í röksemdafærslu sinni fyrir því að of bjartsýn mynd væri dregin upp af stöðu kvenna á þjóðveldisöld. Um svipað leyti vann Gunnar að því að búa til aðgengilega lestrarútgáfu af Grágás og veitti ekki af þar sem textaútgáfa Vilhjálms Finsens frá nítjándu öld var almennt talin mikið torf af öllum sem hana þurftu að nota. Þessi Grágásarútgáfa kom út árið 1992. Að einhverju leyti má líta á næsta stórvirki Gunnars sem rökrétt framhald hennar. Gunnar var á öndverðum meiði við Jón Viðar Sigurðsson um heimildargildi Grágásar þegar kom að stjórnmálasögu Íslands á þjóðveldisöld. Jón Viðar var efins um að Grágás endurspeglaði raunverulegt ástand mála og benti á mikinn fjölda goðorðsmanna í Íslendingasögum sem ekki virtist gert ráð fyrir í lagatextunum. Gunnar var hins vegar vantrúaðri á Íslendingasögurnar og vildi fremur treysta á að lögin væru í samræmi við raunverulega siðvenju. Í bókinni Goðamenning færði Gunnar rækileg rök fyrir skoðun sinni en jafnframt var bókin heildstæð úttekt á stöðu og hlutverki goðanna í stjórnkerfi Íslendinga fram á þrettándu öld, greinargerð um stjórnmálamenningu miðalda sem kallaðist á við fyrri rannsóknir hans á stjórnmálamenningu nítjándu aldar. Gunnar hugði fyrst og fremst að hlutverki goða á alþingi en utan þess höfðu þeir takmarkað lögbundið hlutverk. Þá dró hann fram viss valddreifingareinkenni samfélagsins, eins og honum varð sjálfum að orði: „Það sem ég hef talað um sem vernd goða yfir þingmönnum eða héraðsstjórn goða var í rauninni að mestu leyti sjálfsvernd og sjálfstjórn bændahópsins, skipulögð undir forystu goða.“[17] Í lok bókarinnar ræddi Gunnar sagnaritun Íslendinga á þrettándu öld og ályktaði að goðakerfið og þó einkum konungsleysið hefði ýtt undir að hún stóð í blóma á þeim tíma: „Þannig hafi orðið sérkennilegur samruni veraldlegrar menningar sem hafði áhuga á persónulegum heiðri, ástum og kvonbænum, skógarnytjum, dómum og þingum, og klerklegrar menningar sem kunni skil á ritmáli og bókagerð“.[18]

Eins og Gunnar nefnir í formála Goðamenningar hóf hann ritun fræðilegrar námsbókar í miðaldasögu þegar hann kenndi yfirlitsnámskeið í henni seint á níunda áratugum, eftir að framhaldsskólakennslubókin Samband við miðaldir var komin út. Hann nýtti sér efni sem varð til við þau skrif að einhverju leyti í Goðamenningu og fleiri rit hans um miðaldasögu á þessum tíma bera þess merki að Gunnar var að fylla í eyður miðaldasögunnar. Þar má sérstaklega nefna grein hans og Helga Skúla Kjartanssonar um plágurnar miklu á fimmtándu öld í Sögu 1994 þar sem Gunnar taldi frekari rannsókna á þeim þörf áður en hægt væri að fjalla um þær í kennslubók eða yfirlitsriti. Um þetta efni skapaðist heilmikil umræða á næstu árum þar sem Jón Ólafur Ísberg svaraði greininni óbeint í Sögu 1996 og Gunnar brást svo aftur við þeim skrifum. Sagnfræðinemar hrifust með og héldu málþing um efnið 1997 og gerðu því svo vegleg skil í 18. árgangi Sagna. Umfjöllun um plágurnar miðaði því allmikið fram á þessum árum. Sjálfur taldi Gunnar mikilvægustu uppgötvun sína að plágan hefði breiðst út á Íslandi án þess að rottur hefðu verið þar landlægar og fjallar hann um það í greininni „Plague without Rats“ í Journal of Medieval History 1996. Sætti sú grein nokkrum tíðindum að því leyti að á þessum tíma var enn sjaldgæft að sagnfræðingar sendu greinar um Íslandssögu í erlend fræðitímarit.

Eitt af seinustu stórvirkjum Gunnars á sviði miðaldasögu var bókin Ástir Íslendinga að fornu sem kom út 2013. Var það vandað brautryðjendaverk um samskipti kynjanna á miðöldum þar sem víða var leitað fanga í íslenskum heimildum. Taldi Gunnar hana framlag til tilfinningasögu Íslendinga sem var nýtt rannsóknarsvið af hans hálfu. Hún er jafnframt til marks um að Gunnar vandi sig aldrei af miðaldafíkninni og var það rannsóknum í miðaldasögu mjög til framdráttar.

Markmið sögukennslu

Gunnar Karlsson var ráðinn lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976 en hafði sinnt þar stundakennslu árin 1970‒1971 og 1973‒1974. Eitt af verkefnum hins nýja lektors var að kenna námskeið sem nefndist Inngangsfræði en samkvæmt hans eigin skilgreiningu var innihald þess blanda af „gamalli þýsk-skandinavískri heimildafræði, grunnatriðum analýtískrar sagnfræðiheimspeki og hagnýtum vinnubrögðum eins og rannsóknartækni, ritgerðavinnu, handbókanotkun og skjalfræði“.[19] Eitt af markmiðum Gunnars var að auka kröfur til stúdenta svo að greinin hefði minna aðdráttarafl fyrir „fólk sem sóttist eftir fyrirhafnarlitlu námi“.[20] Það tókst eins og til stóð en jafnframt beindist hugur Gunnars að aðferðum sagnfræðinnar og hvernig miðla mætti þeim. Hann samdi tvær litlar handbækur, Hvarstæðu (1978) og Baráttuna við heimildirnar (1982) sem báðar voru notaðar um árabil í sagnfræðikennslu. Baráttan við heimildirnar var samin skömmu áður en tölvunotkun varð almenn meðal nemenda og sá Gunnar því aldrei ástæðu til að endurútgefa hana heldur var mat hans að bókin þyrfti rækilegri endurskoðun í ljósi nýrrar tækni. Hins vegar var haldið áfram að ljósrita hana og vísa í hana í kennslu langt fram yfir aldamótin 2000 og er raunar gert enn.

Jafnframt fór Gunnar að velta fyrir sér miðlun sögunnar og almennri sögukennslu enda ljóst að hluti nemenda hans yrðu sögukennarar fremur en rannsakendur. Hann skrifaði yfirlitsgrein um íslenskar sögukennslubækur og kenningar um sögukennslu sem nefndist „Markmið sögukennslu“ og birtist í Sögu árið 1982. Var sú ritgerð mikið lesin af nemendum í aðferðanámi við Háskóla Íslands og minnist ég þess sjálfur að hafa meira eða minna tekið undir niðurstöður hennar í áfangaritgerð á fyrsta misseri mínu í háskólanámi. Í þessari yfirlitsgrein var Gunnar gagnrýninn á margt í íslenskum sögukennslubókum en hann taldi einnig ástæðu til að bregðast við gagnrýni á sögukennslu í grunnskólum sem hann fjallar ítarlega um í greininni „Sögukennslu-skammdegið 1983‒1984“. Ekki er hægt að fullyrða hvort vó þyngra í hug hans þegar hann ákvað að ráðast sjálfur í ritun sögukennslubóka. Hann réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur og hóf ritun kennslubóka fyrir börn. Það eru þrjár bækur sem nefndust Sjálfstæði Íslendinga og komu út árin 1985‒1988 og svo oft eftir það fram að aldamótum. Í þessum bókum fer Gunnar að ýmsu leyti bil beggja miðað við þau sjónarmið sem voru upp í „sögukennslu-skammdeginu“. Áhersla var lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda og frásagnarhátturinn var persónulegur og teiknimyndasögur Þóru Sigurðardóttur notaðar til að sviðsetja atburði. Á hinn bóginn var einnig töluvert um staðreyndir í bókunum og yfirlit veitt yfir þróun Íslandssögunnar í heildarsniði. Er ljóst að staða Íslandssögu innan grunnskólanna styrktist heldur við útkomu þessara bóka en framtíð hennar hafði verið í nokkru uppnámi eins og skammdegisumræðan var til marks um. Upp úr 1999 var þessum bókum hins vegar rutt til hliðar þegar Námsgagnastofnun gekkst fyrir samningu nýrra bóka á grundvelli nýrrar aðalnámskrár.[21] Gunnar var ekki sáttur við þá ráðstöfun enda má um hana deila en það er hins vegar staðreynd að bækur Gunnars voru mun ítarlegri og veittu rækilegra yfirlit yfir þróun Íslandssögunnar en þær bækur sem síðar hafa verið notaðar í Íslandssögukennslu.

Gunnar hafði einnig hug á að koma að gerð kennslubóka fyrir framhaldsskóla og gerði fyrst tilraun með slíka ritun í námskeiði í Háskólanum veturinn 1981‒1982 en fékk svo Braga Guðmundsson sem þá var menntaskólakennari á Akureyri með sér í að semja kennslubókina Uppruni nútímans. Hún var gefin út hjá Máli og menningu árið 1988 og var þá þegar tekin í almenna notkun víða í framhaldsskólum. Bókin Samband við miðaldir kom út árið 1989 en hana samdi Gunnar ásamt hópi sagnfræðinema í tveimur mismunandi námskeiðum árin 1984 og 1986. Þriðja framhaldsskólakennslubókin í Íslandssögu, Kóngsins menn, kom svo út árið 1990. Á fáeinum árum varð því umbylting á kennslubókakosti í Íslandssögukennslu í framhaldsskólum sem rekja má til þessa framtaks. Með breytingum á námskrá áratug síðar var hins vegar þrengt að Íslandssögukennslu í framhaldsskólum, hún var felld saman við mannkynssögu og er mál flestra að Íslandssagan sé olnbogabarnið í þeirri sambúð. Gunnar Karlsson lagði hins vegar ekki hendur í skaut og samdi tvær kennslubækur í anda hinnar nýju námskrár, Fornir tímar og Nýir tímar, og komu þær út árin 2003 og 2006.

Óhætt er að segja að Gunnar hafi lyft grettistaki í ritun kennslubóka fyrir hin fyrri skólastig á níunda áratugnum. En hvað má þá segja um kennslubækur fyrir hans eigin skóla, Háskóla Íslands? Í kringum 1990 var orðið algengt að nota Sögu Íslands við kennslu í Íslandssögu og Gunnar átti þar kafla um sögu þjóðveldistímans og landshöfðingjatímans. Gunnar notaði þannig heftið um landshöfðingjatímann við kennslu í Íslandssögu 1830‒1940 (sem þá hét Íslandssaga III) þegar ég sótti tíma hans í því námskeiði vorið 1991. Jafnframt hóf hann tilraun með frekari samvinnu við nemendur og lét okkur semja yfirlitskafla um Íslandssögu tímans 1904‒1940 til að vinna áfram sem heildartexta í Sögu Íslands. Er afrakstur þeirrar vinnu í tíunda bindi Sögu Íslands sem kom út 2009 og öllum nemendum sem lögðu ritgerðir í púkkið skilmerkilega þakkað sitt framlag. Miðað við mína reynslu af þessum skrifum tel ég þó að nemendaritgerðirnar hafi ekki nýst Gunnari sérlega vel og textinn í Sögu Íslands X ber meiri keim af fyrri skrifum Gunnars um sama efni. Eftir sem áður var þetta áhugaverð tilraun og framhald af fyrri viðleitni Gunnars varðandi framhaldsskólakennslubækur.

Öllu metnaðarfyllra rit var Drög að fræðilegri kennslubók í íslenskri miðaldasögu sem var fyrst notuð í kennslu vorið 1991 í námskeiði um íslenska miðaldasögu sem Helgi Þorláksson kenndi þá. Gunnar hélt áfram samningu þess allan tíunda áratuginn og er seinasta fjölritið á Háskólabókasafni frá árinu 1999. Vorið 1999 vann ég sjálfur við yfirlestur á fjölritinu með það markmið að vinna það áfram sem háskólakennslubók. Þá var það um 700 blaðsíður og enn taldi Gunnar þurfa að bæta ýmsu við. Skömmu eftir það ákvað Gunnar hins vegar að breyta um stefnu. Hann tók út hluta efnisins og notaði í fræðiritið Goðamenning (2004) en jafnframt gaf hann út einstaka hluta fræðilegu námsbókarinnar sem staka hluta Handbókar í íslenskri miðaldasögu. Komu þrjú bindi hennar út árin 2007, 2009 og 2016 og var enn ýmsu ólokið í því verki þegar Gunnar féll frá. Handbókin hefur nýst vel sem ítarefni í háskólakennslu en er of efnismikil til að geta verið kennslubók í Íslandssögu miðalda á háskólastigi sem er afgreidd á sex vikum miðað við núverandi námsskipulag. Hún er hins vegar mikilvægt brautryðjendaverk og afar gagnlegt rit fyrir alla sem stunda rannsóknir á íslenskri miðaldasögu eða hafa almennan áhuga á því sviði.

Saga í þágu þjóðar

Eins og áður hefur verið nefnt var Gunnar fenginn til að semja yfirlitskafla um Íslandssögu í fjölbindaverkið Sögu Íslands árið 1971, annars vegar um stjórnmála- og hagsögu þjóðveldisaldar og hins vegar um sögu landshöfðingjatímans. Þessir kaflar voru mikilvægt framlag til yfirlitssagnaritunar sem var Gunnari mjög hugstæð. Hann harmaði hæga útgáfu Sögu Íslands og sagði meðal annars: „Skerfur minn í framþróun Íslandssöguritunar hefði … orðið heldur meiri ef þetta rit um landshöfðingjatímann hefði komið út á áttunda áratugnum eins og stóð til.“[22] Þó má benda á að Gunnar náði að einhverju leyti að bæta fyrir þetta með því að nota kafla sinn um landshöfðingjatímann í kennslu í sagnfræði við Háskóla Íslands og þannig kynntist ég til dæmis hugmyndum hans um efnið 17 árum áður en kaflinn kom út í endurskoðaðri gerð. Í grein í Sögu sem nefnist „Varnaðarorð um kristnisögu“ miðlaði Gunnar af þessari reynslu sinni og benti á mikilvægi þess að höfundar svona yfirlitsrits væru fáir og að þeir þyrftu að halda sig innan fyrir fram ákveðinna lengdarmarka. Eða eins og Gunnar orðaði það: „Ráðið ekki hóp af rannsóknarglöðum sagnvísindamönnum og leyfið þeim að grafa sig ofan í rannsóknir, hvern í sinni holu. Ef þið gerið það koma sennilega fáir þeirra upp aftur fyrr en á 21. öldinni, einhverjir koma aldrei upp, og þeir sem koma upp koma með eitthvað allt of stórt og ólögulegt til þess að það rúmist í yfirlitsriti um kristni þjóðarinnar í 1000 ár.“[23] Annað sem Gunnar benti á í þessari bráðskemmtilegu og gagnlegu grein er að höfundar ættu að skila drögum að handriti þegar vinnutíminn væri hálfnaður „því að hér gildir reglan að hálfnað er verk þá lokið er. Vinna við rit er sjaldnast nema hálfnuð þegar maður er kominn á leiðarlok með fyrstu gerð textans“.[24] Margoft hefur maður séð ástæðu til að vísa í þessi orð Gunnars við gerð bóka af ýmsu tagi en þetta viðhorf var líka ástæða þess að Gunnar náði að skila verkum bæði hratt og vel eins og margir samstarfsmenn hans hafa kynnst.

Stöðu sinnar vegna var Gunnar iðulega beðinn um styttri yfirlitsgreinar um Íslandssögu, meðal annars á erlendum vettvangi. Hann skrifaði yfirlitsgrein um sögu Íslands í Britannicu 1990 og í sænskt rit um Ísland (Island: Mer än sagor) sem birtist sama ár. Hann fjallaði um upphaf íslenskrar þjóðernisstefnu á margvíslegum vettvangi og svo birtist eftir hann grein um Íslendingasögur í rússnesku riti um barnabókmenntir 1996. Allt þetta varð aðdragandi að stærra verki, Iceland´s 1100 years, sem kom út í London 2000 og var síðar endurútgefið meðal annars undir heitinu The History of Iceland. Hér var bætt úr frekar brýnni þörf fyrir yfirlitsrit um Íslandssögu á ensku en fá rit voru til um það efni og ekkert þeirra samið af sagnfræðingi sem var jafn virkur í rannsóknum og Gunnar. Rit Gunnars reyndist vel, ekki síst vegna þess að þar eru ýmis grunnhugtök Íslandssögunnar þýdd á ensku og fræðileg umræða um Íslandssögu kynnt á því tungumáli. Var þessari bók almennt frekar vel tekið fyrir víða yfirsýn og þægilegan framsetningarmáta og ný útgáfa hennar kom út í pappírskilju í mars 2020.

Á svipuðum tíma kom út stutt rit eftir Gunnar á vegum Máls og menningar sem nefndist Íslandssaga í stuttu máli og var einungis 72 blaðsíður. Það rit var fljótlega þýtt á ensku undir nafninu A Brief History of Iceland og hafa einnig birst útgáfur á frönsku, þýsku, spænsku, sænsku og japönsku. Hafa þær útgáfur verið í stöðugri sölu síðan þá, bæði fyrir ferðamenn á Íslandi og erlendis. Í svipuðum anda er The Settlement of Iceland (2019), endursögn á rækilegri rannsóknum Gunnars á landnámi Íslands sem höfðu áður birst í Handbók í íslenskri miðaldasögu. Að því leyti má segja að túlkun Gunnars Karlssonar á Íslandssögunni hafi breiðst út víða um heim í þessum styttri útgáfum. Gunnar náði því að sinna því markmiði sem hann taldi mikilvægast, „að opna farveg frá rannsóknum til þjóðarinnar“ og raunar til mun fleiri þjóða en Íslendinga einna.[25]

Hér hefur einungis verið getið um bækur en miðlun sögunnar er auðvitað með ýmsum hætti og þar hafði Gunnar töluverð áhrif sem helsti höfundar nýrrar grunnsýningar Þjóðminjasafnsins sem opnaði árið 2004 og nefnist Þjóð verður til. Er sú sýning enn í meginatriðum byggð á þeim áherslum sem mótaðar voru við enduropnun safnsins 2004.

Lokaorð: Gunnar og ég

Fyrstu kynni mín af Gunnari voru líklega þegar ég fékk í hendurnar glænýja sögukennslubók, Uppruna nútímans, í 3. bekk menntaskóla. Saga hafði lengi verið eitt af uppáhaldsfögum mínum í skóla en Íslandssagan hafði mér þótt dauflegri og mun síður spennandi fag en mannkynssagan. Uppruni nútímans var hins vegar vel samin og aðgengileg kennslubók og hafði á sér nútímalegt yfirbragð. Eflaust hafði hún sín áhrif á það að ég kaus að hefja nám í sagnfræði að loknum menntaskóla.

Gunnar Karlsson hitti ég fyrst í vísindaferð sagnfræðinema þá um haustið þar sem hann leiðsagði okkur um söguslóðir í Borgarfirði. Bauð hann nemendum heim til sín á Hrísateiginn að ferð lokinni. Á vormisseri hafði ég hann svo sem kennara í námskeiðinu Íslandssaga III og líkaði kennslan vel, allt var skýrt og markvisst og í samræmi við minn áhuga á efninu. Þá hóf hann tilraunir með samningu yfirlitskafla sem áður hefur verið greint frá og sem mér fannst þá forvitnileg og spennandi tilraun. Að öðru leyti hafði ég Gunnar ekki sem kennara í grunnnámi en við sátum stundum á sameiginlegum fundum námsbrautar í sagnfræði, sem þá nefndist skor, eftir að ég var kosinn þar fulltrúi nemenda. Gunnar settist stundum við borðið með okkur nemendum í kaffistofu Árnagarðs en hafði sig ekki mikið í frammi, vildi sennilega hlusta á nemendur frekar en að halda langar ræður yfir þeim. Þessi samskipti gerðu það að verkum að við Gunnar urðum málkunnugir án þess að ég hefði mikla reynslu af honum sem kennara á BA-stigi. Síðar vann ég um skeið sem aðstoðarmaður hans við yfirlestur á „Fræðilegu drögunum“ áður en þau umbreyttust í Handbók í íslenskri miðaldasögu eins og áður hefur verið rakið.

Gunnar var hávaxinn og heldur mikilúðlegur útlits, blátt áfram og hispurslaus í fasi. Skrifstofa hans í Árnagarði var látlaus og skrýdd með barnateikningum og ýmiss konar plöntum sem Gunnar lagði rækt við. Hann hafði skýra rökhugsun og var iðulega fljótur að sjá kjarnann í hverju máli. Hann var skoðanafastur en sá þó iðulega margar hliðar á einu máli. Gunnar og eiginkona hans, Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri og bókmenntafræðingur, lásu iðulega yfir verk hvort annars og voru samverkamenn bæði í vinnu og einkalífi. Hvort um sig og þá ekki síður sameiginlega voru þau áhrifamikil í íslensku menningarlífi í marga áratugi.

Eftir að ég hóf doktorsnám og feril sem fræðimaður gerðist það nokkrum sinnum að Gunnar var fenginn til að skrifa eftirmála og leggja beint mat á rit sem ég stóð að sem eins konar fulltrúi reyndari fræðimanna. Það á til dæmis við um ritið Sæmdarmenn (2001) og einnig Þjóðerni í þúsund ár? (2003) þar sem okkur ungu fræðimönnunum sem ritstýrðum því fannst góð hugmynd að enda ritið á vinalegu spjalli þeirra Guðmundar Hálfdanarsonar um þjóðernisstefnu. Áðurnefnt tengslaleysi okkar Gunnars sem kennara og nemanda gerði það einnig að verkum að hann var andmælandi minn við doktorsvörn árið 2005 og þá hef ég iðulega verið fenginn til að ritdæma bækur hans. Þetta hafði þær afleiðingar að þrátt fyrir að hafa ekki verið undir beinni handleiðslu Gunnars nema að takmörkuðu leyti sem BA-nemi þá kynntist ég verkum hans allvel og einnig sýn hans sem sagnfræðings á ýmis mál.

Gunnar var afkastamikill ritstjóri, auk annarra starfa, og stýrði um langt árabil ritröðinni Sagnfræðirannsóknir á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands. Einnig var hann ritstjóri stórvirkisins Aldarsaga Háskóla Íslands (2011) og var það eitt af seinustu verkum hans sem prófessor við Háskóla Íslands. Á efri árum hans kynntist ég honum í hlutverki ritstjórans þar sem hann var fenginn til að ritstýra bók minni Auðnaróðal (2016). Var hann bæði hæfilega gagnrýninn og hvetjandi í því hlutverki og þakka ég honum að útgáfa þeirrar bókar gekk greitt fyrir sig. Ári fyrir andlát sitt ritstýrði hann grein minni í Nýju Helgakveri, afmælisriti Helga Skúla Kjartanssonar (2019) og á ég enn stuttan tölvupóst frá honum sem hljóðar svo: „Í viðhengi eiga að vera athugasemdir mínar við grein þína í afmælisrit HSK. Ég segi „eiga að vera“ því að ég á í stöðugum átökum við Outlook-kerfið. Hef aldrei verið mikill tæknimaður og fer ekki fram.“[26] Athugasemdirnar komust raunar til skila en þessi setning er til marks um spartverskan húmor Gunnars sem birtist í mörgum verkum hans. Um svipað leyti fékk ég það hlutverk að ritstýra honum í bókinni Hugmyndaheimur Páls Briem sem er 24. bindi ritraðarinnar Sagnfræðirannsóknir sem hófst með útgáfu bókar eftir Gunnar Karlsson og hann ritstýrði sjálfur um árabil. Þar gerðist ég svo ósvífinn að ég sendi honum tölvupóst og bað hann um að stytta greinina um tæplega 1.000 orð og senda mér nýja gerð innan mánaðar. Það tók raunar ekki nema þrjá daga. Þá sendi Gunnar mér nýja gerð og hafði breytt greininni nákvæmlega eins og ritstjóri hafði beðið um. Það segir sitt um væntingar mínar til Gunnars að þetta kom mér ekkert á óvart.


[1] Gunnar Karlsson, „Saga af sagnfræðingi sem vildi gera gagn“, Íslenskir sagnfræðingar. Seinna bindi: Viðhorf og rannsóknir. Ritstj. Loftur Guttormsson, Páll Björnsson, Sigrún Pálsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon (Reykjavík: Mál og mynd 2002), bls. 227‒237, hér bls. 227.

[2] Sama heimild, bls. 228.

[3] „Ritaskrá Gunnars. Mars 1959–júní 2009“. Heimtur. Afmælisrit til heiðurs Gunnari Karlssyni sjötugum. Ritstj. Guðmundur Jónsson, Helgi Skúli Kjartansson og Vésteinn Ólason (Reykjavík: Mál og menning 2009), bls. 403‒415.

[4] Gunnar Karlsson, „Hugleiðingar um upphaf Heimastjórnarflokks“, Mímir 4:2 (1965), bls. 11‒24.

[5] Gunnar Karlsson, „Saga af sagnfræðingi sem vildi gera gagn“, bls. 229.

[6] Gunnar Karlsson, „Varnaðarorð um kristnisögu. Flutt á málþingi um ritun sögu kristni á Íslandi í 1000 ár, 24. nóvember 1990“, Saga XXIX (1991), bls. 143‒151, hér bls. 147.

[7] Gunnar Karlsson, Frá endurskoðun til valtýsku (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1972), bls. 137.

[8] Gunnar Karlsson, „Spjall um rómantík og þjóðernisstefnu“, Tímarit Máls og menningar 46:4 (1985), bls. 449‒457, hér bls. 454‒455.

[9] Gunnar Karlsson, „Íslensk þjóðernisvitund á óþjóðlegum öldum“, Skírnir 173:1 (1999), bls. 141‒178, hér bls. 149.

[10] Sama heimild, bls. 149.

[11] Gunnar Karlsson, Frá endurskoðun til valtýsku, bls. 28.

[12] Gunnar Karlsson, „Hvernig verður ný söguskoðun til?“ Saga XXXIII (1995), bls. 77‒85, hér bls. 83.

[13] Gunnar Karlsson, „Saga af sagnfræðingi sem vildi gera gagn“, bls. 228.

[14] Sama heimild, bls. 231.

[15] Sama heimild, bls. 230.

[16] Sama heimild, sama stað.

[17] Gunnar Karlsson, Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga (Reykjavík: Heimskringla 2004), bls. 199.

[18] Sama heimild, bls. 457.

[19] Gunnar Karlsson, „Saga af sagnfræðingi sem vildi gera gagn“, bls. 232.

[20] Sama heimild, bls. 232.

[21] Sama heimild, bls. 235.

[22] Gunnar Karlsson, „Saga af sagnfræðingi sem vildi gera gagn“, bls. 231.

[23] Gunnar Karlsson, „Varnaðarorð um kristnisögu“, bls. 143.

[24] Sama heimild, sama stað.

[25] Gunnar Karlsson, „Saga af sagnfræðingi sem vildi gera gagn“, bls. 234.

[26] Gunnar Karlsson, tölvupóstur til Sverris Jakobssonar, 23. október 2018.

Deila:

Annað efni