Skip to content
Stafrænir gagnagrunnar og sagnfræðirannsóknir
Vilhelm Vilhelmsson
Stafrænir gagnagrunnar og sagnfræðirannsóknir

Úr Sögu LVIII:I (2020).

(Sjá svar Óðins Melsted)

(Sjá svar Guðmundar Hálfdanarsonar)

(Sjá svar Írisar Ellenberger)

Samkvæmt leit á vefnum Tímarit.is birtist orðmyndin „gagnamagn“ fyrst á prenti árið 1973 í umfjöllun um notagildi tölva fyrir störf verkfræðinga í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands.[1] Næsta leitarniðurstaða er frá árinu 1988 í blaðinu Verktækni.[2] Orðið birtist fjórum sinnum á öllum níunda áratugnum, þar af þrisvar í sérhæfðum fagtímaritum verkfræðinga og tölvunarfræðinga. Tíðnin eykst á tíunda áratugnum með 14 niðurstöðum en stekkur upp í 246 og 610 niðurstöður fyrstu tvo áratugi nýrrar aldar.[3] Hugtakið er nú orðið svo hversdagslegt að lagið sem sigraði í Söngvakeppni Sjónvarpsins nú í ár er í höndum flytjenda sem kalla sig Daði og Gagnamagnið.[4] Svipaðar niðurstöður koma fram ef leitað er að orðinu „gagnagrunnur“. Fjórar vísanir finnast frá áttunda áratugnum og sú elsta aftur úr Tímariti Verkfræðingafélags Íslands.[5] Orðið kemst þó fyrr í almenna notkun og birtist nokkur þúsund sinnum í ritum af ýmsu tagi, ekki aðeins fagtímaritum, þegar á tíunda áratugnum.[6]

Ofangreind umfjöllun afhjúpar ekki aðeins hvernig tæknileg hugtök hins stafræna nútíma hafa á skömmum tíma náð almennri útbreiðslu í íslensku máli og samfélagi heldur einnig hvaða áhrif stafræna vendingin (e. the digital turn) hefur haft á störf sagnfræðinga.[7] Ekki aðeins leitaði ég í stafrænan gagnagrunn eftir heimildum til að undirbyggja rök mín um þá byltingu sem orðið hefur á sagnfræðirannsóknum á síðastliðnum 20 árum heldur beitti ég (ósjálfrátt) þeirri aðferð að nýta þessa stafrænu tækni til þess að greina uppruna, útbreiðslu og tíðni og þar með notkun hugtaks á grundvelli þess gríðarlega magns heimildaefnis sem gert hefur verið aðgengilegt og leitarbært. Sú aðferð er ekki sjálfgefin. Hún er tilkomin af þeim tækifærum sem tæknin býður upp á en er jafnframt mótuð af takmörkunum hennar.[8]

Notagildi og hagkvæmni stafrænnar tækni og notkunar stórra gagnagrunna dylst engum og hefur gert sagnfræðingum kleift að vinna með meira magn heimilda á skemmri tíma en áður. Á grundvelli breyttrar tækni eru þeir jafnframt farnir að spyrja annars konar spurninga og beita nýjum aðferðum og vinnubrögðum við greiningu og rannsóknir. Textanám (e. text mining) og söguleg netgreining (e. historical network analysis) eru dæmi um ný tól í verkfærakistu sagnfræðinga sem Óðinn Melsted nefnir í pistli sínum. Þá hefur orðið mikil fjölgun á forritum sem sniðin eru að stafrænum hugvísindum.[9] Gríðarleg framþróun hefur til að mynda orðið í stafrænum lestri handritaðra skjala sem stefnir í að umbylta vinnu sagnfræðinga með óprentaðar heimildir á næstu árum.[10]

Enginn skortur hefur verið á umræðum meðal sagnfræðinga um mögulega annmarka á stafrænum aðferðum en jafnframt um þær aðferðafræðilegu áskoranir sem fylgja nýrri tækni þó enn séu skiptar skoðanir um það hvort stafræn sagnfræði sé sérstök grein innan fagsins eða fyrst og fremst tæknileg viðbót við gamalreynda aðferðafræði sagnfræðinnar.[11] Starfandi fagfólk í vísindum er einnig í auknum mæli farið að beina gagnrýnum augum að samverkandi áhrifum stafrænu vendingarinnar og markaðsvæðingar akademíunnar, með áherslu hennar á framleiðni og staðlaða matskvarða á gæði og áhrif „afurða“ (e. output) rannsókna, á starfsumhverfi fræðimanna og framtíðarhorfur.[12] Álitamál þessa heftis eru tileinkuð þessari umræðu sem hefur hingað til ekki farið mjög hátt meðal sagnfræðinga hér á landi. Með því vonumst við til að opna á frekari skoðanaskipti um áhrif stafrænu vendingarinnar á störf íslenskra sagnfræðinga.

Óðinn Melsted ræðir vangaveltur sagnfræðinga um möguleg skekkjuáhrif stafrænna gagnagrunna á söguritun og sagnfræðirannsóknir. Pistill hans er innblásinn af umræðu sem átti sér stað á ráðstefnu um stafrænar sagnfræðirannsóknir í Hollandi sumarið 2019. Þar kenndi einn fyrirlesara það við „íslandíseringu“ þegar sagnfræðingar einblíndu á lönd þar sem gott aðgengi væri að stafrænum gögnum, sem leiddi af sér einsleitari rannsóknir en ella. Óðinn telur áhersluna á Ísland í þessu samhengi á misskilningi byggða en veltir upp ýmsum spurningum um möguleika og takmarkanir stafrænna rannsókna á íslenskri sögu, meðal annars með tilliti til stöðu íslenskunnar í heimi stafrænnar sagnfræði.

Íris Ellenberger beinir sjónum einnig að jaðarsetningu lítilla málsvæða í alþjóðlegu umhverfi risavaxinna stafrænna gagnagrunna um gæðamat og flokkun fagtímarita á grundvelli áhrifastuðuls (e. impact factor) þeirra. Þessi jaðarsetning telur hún að stuðli jöfnum höndum að landfræðilegum ójöfnuði innan fræðanna á heimsvísu, þar sem enska og enskumælandi fólk frá Vesturlöndum viðheldur yfirburðastöðu gagnvart öðrum, og kerfislægum spekileka þar sem rannsóknir fræðimanna miði í vaxandi mæli að birtingu í erlendum tímaritum sem hafi oft lítinn áhuga á staðbundnu þekkingarfræðilegu samhengi jaðarsvæða á borð við Ísland. Í ljósi þess að störf fræðimanna innan háskólastofnana eru með tilkomu matskerfis opinberra háskóla einkum metin á grundvelli mælanlegrar framleiðni, þar sem útgáfa hjá fagtímaritum sem hafa háan áhrifastuðul í alþjóðlegum gagnagrunnum er grundvallarviðmið, er hætt við að afleiðingin verði einmitt sú að íslenskir sagnfræðingar hverfi frá því að birta rannsóknir sínar í fagtímaritum á íslensku.[13] Ef marka má Narve Fulsås, fyrrum ritstjóra Historisk Tidsskrift, virðist sú breyting þegar hafa átt sér stað í Noregi. Sagnfræðingar við Óslóarháskóla voru áður fyrr meginuppistaða höfundalista tímaritsins en með breyttum áherslum í kjölfar stefnumörkunar háskólans, tilkomu stigakerfis sem hampar alþjóðlegum birtingum á kostnað innlendra og endurröðunar tímaritsins í lægra þrep norska matskerfisins hafa þeir svo til alveg horfið af höfundaskrá tímaritsins. Um það bil fjórðungur allra sagnfræðirannsókna í Noregi eru stundaðar við Óslóarháskóla og því er þetta ansi stór biti af kökunni.[14] Staða Sögu í þessum efnum er öllu betri en sambærileg þróun er yfirvofandi. Líkt og Íris bendir á í grein sinni var við endurskoðun matskerfis opinberra háskóla á síðasta ári lagt til að lækka stigagjöf nokkurra íslenskra tímarita á sviði hug- og félagsvísinda, þar á meðal Sögu. Þeirri tillögu var harðlega mótmælt, meðal annars af ritstjórum Sögu, með þeim rökum að ekki væri tekið nægilegt tillit til mikilvægis hennar á sínu sérsviði og fyrir íslenskt fræðasamfélag og var breytingunni frestað um sinn.

Guðmundur Hálfdanarson setur stafrænu byltinguna í samhengi við gamla draumsýn um hið lýðræðislega alheimsbókasafn og veltir fyrir sér hvað hafi áunnist og hvað hafi glatast, til dæmis með skírskotun til hins efnislega veruleika handrita, bóka og skjala og líkamlegra tengsla fræðimannsins við fortíðina en einnig einsleitninnar sem geti fylgt því að einblína á stafrænar heimildir. Guðmundur vekur enn fremur máls á aðgengismálum þegar hann bendir á að stórir hlutar hins rafræna veraldarbókasafns séu varðir höfundarrétti og að enn þurfi að borga himinhá áskriftargjöld til þess að hljóta aðgang að þeim gæðum. Þar með beinir Guðmundur sjónum að umræðunni um opið aðgengi (e. open access) en vaxandi kröfur eru uppi innan fræðasamfélagsins og hjá fjármögnunaraðilum rannsókna á borð við Rannís um opið aðgengi að hvoru tveggja afurðum og vinnugögnum fræðimanna.[15]

Líkt og Íris Ellenberger bendir á í pistli sínum hefur markaðsvæðing fræðaheimsins undanfarna tvo áratugi skapað himinháa aðgengismúra og um leið malað gull fyrir örfá risafyrirtæki sem sérhæfa sig í útgáfu fagtímarita og starfrækja sömuleiðis fyrrnefnda gagnagrunna um flokkun tímarita. Krafan um opið aðgengi er að mörgu leyti eðlilegt mótsvar við þessari þróun enda mikilvægt að standa vörð um aðgengi vísindafólks sem og almennings að niðurstöðum rannsókna sem að stórum hluta eru fjármagnaðar með almannafé.[16] Að sama skapi setja slíkar kröfur rekstrargrundvöll tímarita á borð við Sögu, sem fjármögnuð er með áskriftum og nýtur ekki fjárhagslegs stuðnings hins opinbera, í uppnám. Þótt takmörk séu fyrir því við slíkar aðstæður hversu langt er hægt að ganga vilja útgefendur og ritstjórar Sögu gjarnan bregðast við kröfum um opið aðgengi. Eldri árgangar tímaritsins hafa allir verið gerðir aðgengilegir á Tímarit.is og nýverið tók stjórn Sögufélags þá ákvörðun að stytta birtingartöf nýrra hefta úr fimm árum í þrjú. Ritstjórar vinna nú jafnframt að því í samvinnu við stjórn félagsins að finna leiðir til að gefa Sögu út í rafrænni áskrift samhliða áframhaldandi útgáfu á pappír. Rafræn útgáfa felur í sér margvísleg tækifæri til nýrra miðlunarleiða og þróunin hjá öðrum tímaritum hefur verið í þá átt.

Af álitamálapistlunum þremur er því ljóst að stafræna vendingin vekur margar mikilvægar spurningar, ekki aðeins varðandi form og framtíð íslenskra sagnfræðirannsókna heldur einnig Sögu sjálfrar.

Vilhelm Vilhelmsson


[1] Þorgeir Pálsson, „Um notkun samvinnslukerfa, smátölva og rafeindareikna“, Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 58:1–2 (1973), bls. 16

[2] Hörður Arnarson, „Tölvusjón í fiskiðnaði“, Verktækni 5:3 (1988), bls. 7

[3] Vef. www.timarit.is. Leitarorð: „gagnamagn“, 13. mars 2020.

[4] Vef. „Daði og Gagnamagnið sigruðu með yfirburðum“, Rúv.is, 2. mars 2020. https://www.ruv.is/frett/dadi-og-gagnamagnid-sigrudu-med-yfirburdum.

[5] Þorkell Helgason, „Um reiknifræðikennslu við Háskóla Íslands“, Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 59:6 (1974), bls. 90.

[6] Vef. www.timarit.is. Leitarorð: „gagnagrunnur“ og „gagnagrunn“, 15. mars 2020.

[7] Gerben Zaagsma, „On digital history“, BMGN — The Low Countries Historical Review 128:4 (2013), bls. 3–29.

[8] Sbr. Bob Nicholson, „The digital turn. Exploring the methodological possibilities of digital newspaper archives“, Media History 19:1 (2013), bls. 59‒73.

[9] Lista yfir slík forrit má víða finna á internetinu. Sjá til dæmis vefsíðu um stafræn hugvísindi hjá Duke University. Vef. „DH Tools“, Duke University Digital Humanities. https://digitalhumanities.duke.edu/tools, 15. mars 2020.

[10] Guenter Muehlberger o.fl., „Transforming scholarship in the archives through handwritten text recognition. Transkribus as a case study“, Journal of Documentation 75:5 (2019), bls. 954–976.

[11] Andreas Fickers, „Towards a new digital historicism? Doing history in the age of abundance“, Journal of European History and Culture 1:1 (2012), án blstals; Joshua Sternfeld, „Archival theory and digital historiography. Selection, search, and metadata as archival processes for assessing historical contextualization“, The American Archivist 74:2 (2011), bls. 544‒575.

[12] Sjá t.d. Uta Frith, „Fast lane to slow science“, Trends in Cognitve Sciences 24:1 (2020), bls. 1‒2; Jessie Daniels og Polly Thistlethwaite, Being a Scholar in the Digital Era. Transforming Scholarly Practice for the Public Good (Bristol: Policy Press 2016), bls. 111‒126. Hér má jafnframt benda á vaxandi hreyfingu þúsunda vísindamanna um allan heim sem skrifað hafa undir sameiginlega yfirlýsingu um þörf fyrir endurskoðun á matskerfi rannsókna. Sjá Vef. Declaration on Research Assessment. www.sfdora.org, 15. mars 2020.

[13] Sbr. Lbs.–Hbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn) Rebekka Silvía Ragnarsdóttir, Árangursstjórnun í háskólum á Íslandi. Hvernig nýtist aðferðafræði árangursstjórnunar í opinberu háskólunum? MPA-ritgerð í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands 2019, https://skemman.is/handle/1946/34397, bls. 53‒59.

[14] Narve Fulsås, „Framtida for Historisk Tidsskrift“, Historisk Tidsskrift 98:4 (2019), bls. 341‒342

[15] Lagasafn, Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003, viðb. 149/2012; Vef. Rannís, Opinn aðgangur, https://www.rannis.is/starfsemi/opinn-adgangur/ sótt 15. mars 2020; Háskóli Íslands, Stefna um opinn aðgang.

[16] Vef. Sara Stef. Hildardóttir, „Opinn aðgangur að rannsóknum er lykilatriði“, Stundin.is 21. október 2019. https://stundin.is/grein/9807/opinn-adgangurad-rannsoknum-er-lykilatridi, 15. mars 2020.

Deila:

Annað efni