Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2002 XL: I
Útgáfuár
2002
Tölublað
40:1
Ritstjórar
Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur Jónsson og Hrefna Róbertsdóttir
Blaðsíðufjöldi
316
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2002 XL: I

Sögufélag átti aldarafmæli árið 2002. Forsíðumyndin sýnir Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands mæta til afmælisveislunnar í Fischersundi. Loftur Guttormsson forseti Sögufélags ritar ávarp og Einar Laxness ritar Sögufélagsannál 1902–2002.

Þá birtist ritgerð eftir Christina Folke Ax, „Menningarmunur á íslandi í lok 18. aldar“, þar sem aðferðir einsögunnar eru nýttar til þess að draga fram menningarlegan mun í íslensku samfélagi á áratugunum kringum aldamótin 1800. Greinin er að stofni til cand. mag. ritgerð höfundar í þjóðháttafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Næsta ritgerð er eftir Kristrúnu Höllu Helgadóttur og nefnist „í sókn gegn hjátrú og venjum. Lækkun ungbarnadauðans í Nesþingum á Snæfellsnesi 1881-1910″. Þetta er svæðisrannsókn á þeim miklu hvörfum í íslenskri fólksfjöldasögu þegar hinn geysihái ungbarnadauði á íslandi tók að lækka á síðustu áratugum 19. aldar. Í greininni eru þessar breytingar skoðaðar bæði út frá víðu sjónarhorni fólksfjöldasögu og sjónarhóli einstaklinganna, þeirra sem urðu fyrir barnamissi. Fróðlegt er að skoða niðurstöður Kristrúnar Höllu í samhengi við grein þriggja sagnfræðinga í Sögu 2001, þar sem birtar voru niðurstöður yfirgripsmikillar rannsóknar á ungbarnadauða frá 18. öld og fram á þá tuttugustu.

Kjartan Emil Sigurðsson skrifar um atburði sem liggja nálægt okkur í tíma, en það eru samningar milli verkalýðshreyfingar og ríkisvalds á sjöunda áratugnum um byggingu íbúðarhúsnæðis handa verkafólki í Breiðholti. Greinin nefnist „Upphaf „félagsmálapakka“. Húsnæðismál og kjarasamningar árin 1964 og 1965″, og er þar atburðarásin rakin allt frá hörðum átökum milli verka lýðs og ríkisstjórnar á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar og þar til byggingaráform komust í framkvæmd. Í nýstárlegri ritgerð, „Braudel í Breiðafirði? Breiðafjörðurinn og hinn breiðfirski heimur á öld Sturlunga“, beitir Sverrir Jakobsson skoðunarmáta franska sagnfræðingsins Fernand Braudels í frægu verki um Miðjarðarhafslönd á tímum Filippusar II, við athugun á samspili landslags, búskapar og stjórnmála á öld Sturlunga. Þótt niðurstöður séu ekki óyggjandi telur höfundur að „næg tilefni ættu að vera til umfangsmeiri rannsókna af þessum toga.“

Aldamótanna var minnst með ýmsum hætti meðal sagnfræðinga víða um heim og kom meðal annars út fjöldi yfirlitsrita um sögu 20. aldar. í greininni „Höfum við gengið til góðs? Nokkrar bækur um 20. öldina“ rýnir Guðni Th. Jóhannesson í fimm yfirlitsrit sem komið hafa út í Bretlandi um mannkynssögu 20. aldar á síðustu árum, og ber saman söguskoðanir og efnisáherslur í þeim. Gunnar Karlsson ritar minningargrein um Jón Guðnason prófessor sem lést í janúar síðastliðnum. Jón var ritstjóri Sögu 1979-83. Undir hattinum Viðhorf, sem framvegis er ætlað að geyma skoðanaskipti, eru tvær innsendar greinar. í þeirri fyrri, sem kallast „Skammhlaup“, eru hugleiðingar Einars Más Jónsssonar um bók Sveins Yngva Egilssonar, Arfur og umbylting. Einar Már fjallar um „skammhlaup tveggja tíma“, þ.e. hlutverk fornrar „hefðar“ í menningarsköpun síðari tíma, og víkur í því sambandi að möguleikum samtíðar til að nálgast og skilja fortíðina og hugtakinu „uppfinning hefða“, en hvorttveggja hefur verið ofarlega á baugi í sagnfræðilegri umræðu á undanförnum áratugum. Í stuttri grein er nefnist „Þjóðernishreyfingin á 19. öld: Hvað var hún og hvað vildi hún?“ gagnrýnir Guðmundur Jónsson nokkra þætti í nýrri bók Guðmundar Hálfdanarsonar, íslenska þjóðríkið. Að venju birtir Saga fjölda ritdóma og eru þeir 16 talsins um 20 bækur. Þá er stutt athugasemd frá Gunnari H. Ingimundarsyni um ritdóm sem birtist í Sögu 2001 um ritið Annálar 1400-1800. Lykilbók.