Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2012 L: I
Útgáfuár
2012
Tölublað
50:1
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
244
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2012 L: I

Atli Seelow segir okkur frá forsíðumynd Sögu í þetta skiptið, stórhýsi Guðjóns Samúelssonar á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis, Ólafur Rastrick spjallar við sagnfræðingana David Cannadine og Lindu Colley, og ber þar ýmislegt á góma: breska heimsveldið, þjóðernisvitund, sögukennslu, ævisögur og sögu stjórnskipunar svo eitthvað sé nefnt. Auður Styrkársdóttir segir okkur því næst stórfróðlega sögu af alþjóðlegu samstarfi íslenskrar kvennabaráttu frá lokum 19. aldar fram að upphafi þeirrar tuttugustu. Már Jónsson hefur farið yfir ógrynni af dánarbússkjölum varðveittum á Þjóðskjalasafni, og í grein sinni rekur hann tilurð þessara heimilda, veltir fyrir sér notkunarmöguleikum þeirra og greinir frá innihaldi: flónelspilsi, koparmillum, þráðardúkssvuntu, smásokkum, leistaræflum, sápumolum, Passíusálmum, dallræfli og þess háttar.

Brynja Björnsdóttir fer með lesendur aftur til miðalda í grein sem fjallar um útburð barna og túlkanir fræðimanna á fornum lagaákvæðum þar um. Og frá íslenskum miðöldum er haldið beinustu leið inn í banka á 21. öld, í hugleiðingum Helga Skúla Kjartanssonar um sagnfræði, en þær eru sprottnar af grein Björns Jóns Bragasonar um sölu Búnaðarbankans árið 2002, sem birtist í síðasta hefti Sögu. Þaðan liggur leiðin til ársins 1944 með Svani Kristjánssyni, sem skrifar um kröfuna um þjóðaratkvæði um Keflavíkursamninginn árið 1946, og þar næst austur á bóginn til Íraks með Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni, sem útskýrir fyrir lesendum tímaritsins hvernig atburðir í sögu landsins áttu þátt í að móta viðbrögð og afstöðu Íraka til innrásar Bandaríkjamanna í landið 2003.

Páll Björnsson og Ólöf Garðarsdóttir andmæla Nútímans konum, doktorsritgerð Erlu Huldu Halldórsdóttur og Viðar Pálsson fjallar um fjórar nýjar bækur á sviði miðaldasögu og ellefu höfundar fjalla um nýleg verk á sviði sagnfræði og skyldra fræðigreina.