Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2013 LI: II
Útgáfuár
2013
Tölublað
51:2
Ritstjórar
Sigrún Pálsdóttir
Blaðsíðufjöldi
218
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2013 LI: II

Í heftinu eru þrjár ritrýndar greinar. Eggert Þór Bernharðsson fjallar um heimildir þær sem liggja til grundvallar einu frægasta sakamáli Íslandssögunnar, morðinu á Natani ketilssyni lækningamanni á Illugastöðum á vatnsnesi árið 1828. Í greininni sýnir Eggert fram á hvernig þau rit sem lengst af hafa verið notuð sem heimildir um atburðinn samræmast illa réttargögnum í málinu. Erla Hulda Halldórsdóttir fjallar um bréfaskrif kvenna á Hallfreðarstöðum á fyrri hluta 19. aldar, og greinir í ljósi læsisrannsókna þá félagslegu og menningarlegu þætti sem höfðu áhrif á beitingu skriftarkunnáttu. Síðasta greinin er eftir Þór Whitehead. Þar er fjallað um lögreglurannsókn á ástandinu svokallaða árið 1941, en í greininni styðst Þór við gögn sem hafa verið í vörslu Þjóðskjalasafns í um 50 ár, og nýlega var veittur skilyrtur aðgangur að: skjöl ungmennaeftirlits Reykjavíkurlögreglunnar úr fórum Jóhönnu Knudsen, fyrstu lögreglukonunnar á Íslandi og fyrrum yfirhjúkrunarkonu, sem í umboði Hermanns Jónassonar, forsætis- og dómsmálaráðherra, framkvæmdi viðamikla rannsókn á högum og einkalífi um 500 íslenskra kvenna sem grunaðar voru um ósiðleg samskipti við breska hermenn.

Viðhorfsgreinar eru tvær. Helgi Skúli kjartansson rýnir í norskan lagatexta um barnaútburð á miðöldum, sumpart í framhaldi af grein Brynju Björnsdóttur um svipað efni sem birtist í hausthefti Sögu 2012. Á eftir Helga Skúla fjallar Sigurður Hjartarson um nokkur íslensk rit þar sem meint Íslandssigling Kristófers Kólumbusar kemur við sögu og sýnir að þær fullyrðingar eiga ekki við rök að styðjast.
Tveir fræðimenn svara áður birtu efni. Helgi Þorláksson svarar grein Steinunnar kristjánsdóttur um samband fornleifafræði og sagnfræði og Guðrún Sveinbjarnardóttir svarar gagnrýni Albínu Huldu Pálsdóttur um bók hennar um niðurstöður rannsókna á bæjarstæði Reykholts.
Aðeins fimm ritdómar birtast í þessu hefti, en bætt verður um betur næsta vor enda margt fræðilegt efni nýlega komið út þegar þetta hefti var í vinnslu.

Í skýrslu forseta sem birt er í lok heftisins fer Guðni Th. Jóhannesson yfir starfsemi Sögufélags árið 2013 og minnist þar í fáeinum orðum Heimis Þorleifssonar, fyrrverandi forseta félagsins, sem lést 17. júlí síðastliðinn.