Skip to content
Saga: Tímarit Sögufélags 2024 LXII:I
Útgáfuár
2024
Tölublað
62:1
Ritstjórar
Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson
Blaðsíðufjöldi
224
ISSN
0256-8411

Saga: Tímarit Sögufélags 2024 LXII:I

Myndin á forsíðu sem prýðir Sögu nú er af ímynduðum flutningum Íslendinga til Jótlandsheiða undir lok átjándu aldar. Bragi Þorgrímur Ólafsson, sagnfræðingur, hefur vakið athygli undanfarið fyrir myndir af ýmsum viðburðum úr Íslandssögunni, bæði ímynduðum og raunverulegum sem hann vinnur með aðstoð gervigreindar. Hann skrifar stutta forsíðumyndargrein um gervigreind sem tæki til að búa til sögulegar myndir.

Álitamálaþáttur Sögu snýst að þessu sinni um söguritun fyrir almenning og þá fræðilegu umræðu sem skapast hefur um gildi – og takmarkanir – slíkra rita fyrir sköpun söguvitundar meðal þjóðarinnar. Eins og gefur að skilja á slík umræða sér margar hliðar. Það eru þau Erla Hulda Halldórsdóttir, Guðjón Friðriksson, Þórunn Valdimarsdóttir og Orri Vésteinsson sem fjalla um um nokkur þeirra helstu málefna sem borið hafa á góma um söguritun og sagnfræði fyrir almenning.

Þrjár ritrýndar greinar prýða Sögu. Páll Björnsson skrifar um skírnarnafnasiðinn íslenska þar sem fólk er skráð í opinberar skrár eftir skírnarnafni fremur en eftirnafni líkt og tíðkast víðast annars staðar. Siður sem hefur margsinnis orðið tilefni til umræðan og deilna. Brynja Björnsdóttir skrifar um sérreglu sem gilti um ríkisfang giftra kvenna á Íslandi frá 1898 til 1952 um að gift kona fylgdi eiginmanni sínum að ríkisfangi sem gat endað með því að konur misstu íslenskt ríkisfang sitt og ýmis borgaraleg réttindi. Gunnar Tómas Kirstófersson skrifar um feril Vigfúsar Sigurgeirssonar sem kvikmyndagerðarmanns og setur í samhengi við það sem hann kallar stofnanavæðingu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Í þættinum Úr skjalaskápnum skrifar Halldóra Kristinsdóttir um fjögur merkileg erlend handrit sem fundust nýlega í öryggishvelfingu Landsbókasafnsins, rituð á latínu bæði á skinn og pappír.

Doktorsvörn Margrétar Gunnarsdóttur í sagnfræði fór fram síðsumars 2023 og andmæli við vörn hennar birtast í þessu hefti.

Í heftinu eru 11 ritdómar um nýlegar bækur um sögulegt efni.

Í lokin er ársskýrsla Sögufélags frá aðalfundi í mars 2024.