Jón Steingrímsson og Skaftáreldar. Ritdómur
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Úr Sögu LVIII:2 (2020)
Svar Ragnhildar Hólmgeirsdóttur
Það er óhætt að segja að veturinn 2019–2020 hafi verið viðburðaríkur á Íslandi. Óveður gengu yfir landið með tilheyrandi skemmdum og truflunum á samgöngum og fjarskiptum. Jarðhræringar hófust á Reykjanesskaga. Langvinn verkföll settu daglegt líf barna og fullorðinna úr skorðum. Og í febrúar 2020 urðu Íslendingar smám saman meðvitaðir um farsótt sem átti upptök sín í Kína en breiddist hratt út um heimsbyggðina. 28. febrúar greindist fyrsta tilfelli COVID-19 hér á landi. Í mars voru settar reglur um sóttkví ferðalanga og samkomubann sem ekki sér fyrir endann á, þótt fjöldatakmarkanir taki mið af útbreiðslu veirunnar hverju sinni.
Margir voru meðvitaðir um möguleikann á útbreiðslu slíkrar veiru. Um það var til dæmis rætt árið 2018 þegar hundrað ár voru liðin frá því spænska veikin breiddist út um veröldina og lagði milljónir manna að velli. Árið 2019 gaf Ari Jóhannesson, rithöfundur og læknir, út skáldsöguna Urðarmáni sem gerist á tímum spænsku veikinnar og brá jafnframt upp mynd af sambærilegri veiki í samtímanum. En það er eitt að ímynda sér og annað að upplifa. Hefðum við á síðasta ári fengið innsýn í líf okkar eins og það hefur verið árið 2020 hefði það líklega komið okkur fyrir sjónir eins og dystópískur vísindaskáldskapur. Um allan heim hefur farsóttin haft í för með sér veikindi og dauða, samfélagslegan óróa, efnahagsleg áföll og atvinnuleysi, samgöngur hafa lamast, vinnustaðir, skólar og verslanir lokað. Brúðkaupum, afmælum og ráðstefnum hefur verið frestað, jarðarfarir eru sendar út á netinu. Flugvellir standa auðir. Alls staðar gengur fólk með sprittbrúsa og skurðstofugrímur. Við sýnum ekki lengur vinsemd með snertingu heldur fjarlægð. Og þrátt fyrir allt venst þetta óvenjulega ástand.
Farsóttin hefur haft áhrif á líf og störf fræðimanna eins og annarra. Kennsla hefur færst að meira eða minna leyti á netið, einnig fundir og ráðstefnur sem ekki var frestað eða aflýst. Bókasöfn og skjalasöfn hafa lokað. Samruni heimilis og vinnustaðar hefur haft margar áskoranir í för með sér, ekki síst fyrir foreldra sem þurfa að sinna og kenna börnunum samhliða vinnunni. Erlendir rannsakendur hafa bent á að ástandið hafi neikvæðari áhrif á konur í fræðaheiminum en karla þar sem þær beri frekar ábyrgð á heimilisstörfum og barnauppeldi. Þær hafi minna rými en karlar til að vinna heima og sendi frá sér færri greinar sem hefur aftur áhrif á laun þeirra og atvinnutækifæri.1
En það eru ekki aðeins fræðimenn á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda sem hafa tjáð sig um faraldurinn og áhrif hans. Á Ítalíu spruttu til dæmis fljótlega upp deilur í kjölfar greinaskrifa heimspekingsins Giorgios Agamben um kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð stjórnvalda við honum. Agamben hefur áður skrifað um lífvald og lífpólitík og það sem hann kallar „undantekningarástand“ sem stjórnvöld noti til að réttlæta aukin inngrip í líf borgaranna. Agamben vísaði til farsóttarinnar sem slíks undantekningarástands og varaði við hinum umfangsmiklu takmörkunum á og eftirliti með ferðum fólks sem framkvæmt væri í nafni sóttvarna og öryggis en leiddi til lögleysis, félagslegrar einangrunar og skerðingar á frelsi fólks og réttindum sem væri mögulega komin til að vera. Margir tóku undir áhyggjur Agambens en aðrir gagnrýndu skrif hans, töldu hann vanmeta alvarleika ástandsins og ekki hafa forsendur til að fella þá dóma sem hann gerði.2
Íslenskir hlustendur fengu nasasjón af þessari umræðu í útvarpsþættinum Lestinni á RÚV.3 Um margra vikna skeið meðan samkomubannið var strangast vorið 2020 voru tveir þættir Lestarinnar á viku helgaðir viðtölum og umfjöllun um COVID-19. Rætt var við fólk víðs vegar að úr samfélaginu um líf og dauða á tímum farsóttar, um atvinnu og atvinnuleysi, skólagöngu, samskipti og tilfinninga- tengsl, afþreyingu og upplýsingamiðlun, handþvott og andlega heilsu. Óhætt er að mæla með þáttunum, sem aðgengilegir eru á hlaðvarpi RÚV, sem fjölbreyttri skrásetningu í rauntíma á upplifun fólks á Íslandi af heimsfaraldrinum.
Yfirskrift þessarar sérútgáfu Lestarinnar var sótt í orðasamband sem iðulega hefur verið gripið til í þeim tilgangi að lýsa ástandinu: Fordæmalausir tímar. Þetta orðalag hlýtur að vekja sagnfræðingum sérstaka forvitni og umhugsun. Lifum við á fordæmalausum tímum, lifum við á sögulegum tímum — og hvað eru sögulegir tímar? Ritstjórum Sögu þótti einboðið að varpa fram þeirri spurningu í álitamálum haustheftisins 2020.
Fyrir svörum sitja þrír fræðimenn: Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, miðaldasagnfræðingur og rithöfundur, og Björn Þorsteinsson heimspekingur. Gunnar Þór, sem sendir um þessar mundir frá sér bók um spænsku veikina á Íslandi, skrifar um meðvitundina um að lifa sögulega tíma í samhengi ýmissa stóratburða síðustu rúmu hundrað ára. Ragnhildur veltir fyrir sér „fagurri kyrrð liðinna alda“, sögulegri dramatík og ofgnótt upplýsinga. Björn leitar fanga hjá þýska heimspekingnum Hegel í pistli um framvindu sögunnar og möguleikana í stöðunni. Spurningin um sögulega tíma snýst nefnilega ekki bara um fortíðina heldur líka um ógnir og opnar leiðir framtíðarinnar eins og fram kom í spjalli Björns við Kristján Guðjónsson umsjónarmann Lestarinnar í einum af þáttunum sem kenndir voru við fordæmalausa tíma. yfirleitt þegar lífið gengur sinn vanagang, sagði Kristján, býst fólk við að morgundagurinn verði frekar svipaður deginum í dag og grundvallarbreytingar á tilverunni virka óraunhæfar eða jafnvel ómögulegar. Svo verður einhver stóratburður, eitthvert rof, og skyndilega virðast allir möguleikar blasa við, bæði góðir og slæmir. Björn tók undir að kórónuveirufaraldurinn væri slíkur atburður. Það yrði ekki horfið aftur til þess sem áður var venjulegt ástand. Það væri hins vegar ekki bara veiran sem varpaði skugga á morgundaginn — eins og bæði Björn og Gunnar Þór benda á í pistlum sínum í Sögu — heldur líka aðrar kreppur og þá sérstaklega umhverfiskreppan. Erlendir umhverfishugsuðir hafa líkt ástandinu nú við generalprufu fyrir það sem verður þegar afleiðingar loftslagsbreytinga skella á af fullum þunga, sagði Björn í viðtali við Lestina. Með farsóttinni hefur aftur á móti komið í ljós að margt sem talið var ómögulegt er í raun mögulegt, það er hægt að stoppa flugumferð og breyta neyslu og lífsháttum fólks á ýmsa vegu sem vinna gegn loftlagsbreytingum. Kannski verður undantekningarástand síðustu missera viðvarandi — en þá skiptir máli hver ákveður hvað sé eðlilegt ástand, í hverra þágu undantekningunni verður beitt.4
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum. Auk hefta sem sagnfræðikennarar
Miðvikudaginn 8. desember 2021 lagði Bergsveinn Birgisson fram opinberar ásakanir á hendur mér um ritstuld
Framhald af þessari grein má finna á vefsíðu höfundar. Snemma í desember síðasta árs las
Úr Sögu LIX: 2 (2021) Sumarliði R. Ísleifsson hefur lengi fengist við þau viðfangsefni sem